<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, maí 31, 2003

Well ef við erum ekki bara að fara að leggja í hann. Nokkrir tímar þar til haldið verður af stað til Danmerkur. Krakkarnir orðnir verulega spenntir og allt í góðum gír. Alltaf held ég að það taki miklu lengri tíma að troða ofan í töskur en alltaf gengur þetta vel og snuðrulaust fyrir sig. Hér er grenjandi rigning og það lítur út fyrir að það sé skýjað í Köben, en það gerir ekkert til. 20 stiga hiti gerir meira en smá ský á himni. Verðum komin til Köben um níuleytið í kvöld að dönskum tíma og svo er bara að njóta þess að vera í fríi. Byrjum á því að hreiðra um okkur hjá Ragnhildi sem er dæmalaust góð við okkur og ætlar bara að láta okkur fá svefnherbergið sitt til umráða. Hef hálfgert samviskubit yfir því að láta hana ganga úr rúmi fyrir okkur en hún vill það endilega. Förum svo og kíkjum á Birnu systur og co. á morgun og svo bara ræðst það dag frá degi hvað við gerum. Hlakka til og þarft að drífa mig og börnin í sturtu og gera okkur klár til fararinnar. Og næst verður kveðja frá Köben....

föstudagur, maí 30, 2003

Mikið getur lífið verið skemmtilegt stundum. Bílinn minn er ekki tilbúinn ENNÞÁ en ég fæ hann vonandi seinna í dag. Þar af leiðandi verður ekkert úr því að hann verði hreinn og fínn á morgun þar sem greyið komst ekki í allsherjarhreinsunina í morgun. En að utan verður hann vonandi fínni en nokkru sinni fyrr. Undarlegt hvað ég pæli mikið í bílnum mínum þessa dagana, en þetta er bara svo óttalega góður bíll þó engum virðist finnast það nema mér. Og eftir að ég lét loksins verða af því að láta laga á honum bremsurnar sem allar voru orðnar úr sér gengnar og titrandi er þetta bara allt annað farartæki. Ekki lengur stórhættulegur í umferðinni. Þarf að minna John á að tala við kerlinguna hjá sýslumanninum út af ökuskírteininu. Henni var sko alveg sama þó að skírteinið væri ekki tilbúið þó hún vissi vel að það væri henni að kenna. Já, já þú færð þetta bara í næstu viku. Ekki alveg nógu gott þar sem við verðum ekki á landinu þá og sótt var um skírteinið til að nota í Danmörku. Svo það verður víst að tyggja það ofan í hana svoldið of að senda það til Birnu systur svo við getum tekið þennan blessaða bílaleigubíl og ég keyri ekki, það er nokkuð víst. Ég er áttavilltasta manneskja í heiminum, get ekki lesið af korti þó að ég kunni utanbókar af hverju kortið er. Sný því við hverja beygju svo hægt sé að keyra eins og landið liggur. Þetta er náttúrlega ákveðin fötlun en ég er aftur á móti kýrskýr á mörgum öðrum sviðum. Það er ekki hægt að ætlast til að maður geti allt.
Það er loksins að komast eitthvað lag á pökkunina, búin að fara allavega í gegnum garmana af börnunum og setja góða hrúgu af mínum á gólfið. Meira á eftir að bætast við en þetta er allt í áttina. Ætla alls ekki að stressa mig á því að þrífa hér áður en ég fer. Ég held að Hrund mín sé ekki of góð til að gera það hér ein í kotinu, því ef ég þekki hana rétt mun hún reka hótel hér á meðan ég er í burtu. Ég vona svo sannarlega að hún klári sig á því að bera út blaðið á morgnana og standi sig í stykkinu en geri ekki eins og Melany forðum að troða blaðapökkunum óopnuðum undir rúm og halda svo bara áfram að sofa. Er ekki alveg búin að átta mig á því hvað var að gera í kollinum á henni Melany. Trúlegast ekki neitt.
Það er gaman að fylgjast með öðrum hér á blogginu. Jóhanna segir voða skemmtilega frá og hvað hún er ótrúlega dugleg að ganga um fjöll og firnindi. En það má nú segja það að veðrið er gott til gangs þessa daga. Ég finn það á morgnana á blaðarúntinum hvað þetta er hollt og hressandi fyrir sál og líkama. Ég er nú að vísu alltaf að bíða eftir því að appelsínuhúiðin á lærunum fari að minnka á allri þessari göngu en...það virðist einhver bið á því. Skrokkurinn - enda kominn til ára sinna - lítur enn út eins og kerti sem er að leka niður eða kannski eins og ís sem er að bráðna. Æ, æ...mörg er mannsins mæða.
Þarf að taka síðustu flíkurnar úr þvottavélinni og svo þvæ ég ekki meira af fötum í bráð ekki á þessu landi allavega.
Og þessi fíni vefur fyrir Eyþór formann Fóstbræðra - Festival of Friends er nánast tilbúinn og allir voðalega ánægðir. Þetta comment fékk ég frá svia nokkrum sem einnig stendur að baki Festival of Friends "You have done an outrageously fine and nice job these last days! I think it is one of the very best homepages I've ever seen!". Alltaf gott að fá hrós.
Ég ætti nú eiginlega að fara aðeins á pallinn og sóla mig pínulítið - Veðrið er príma. Ekki hægt að hafa það betra.
Já, út á pall.....núna...

fimmtudagur, maí 29, 2003

Ég er ekki alveg að meika sjálfa mig svona seinni partinn í dag. Er hálfpirruð og verð enn pirraðri þegar ég finn hvað þarf lítið til að pirra mig. Kem engu í verk sem ég ætla og þarf að gera en stundum er leyfilegt að fresta því til morguns sem hægt er að gera þá. Nú ætti ég að koma mér í svefn og vakna úthvíld í fyrramálið í stað þess að hanga hér og fresta því að fara að sofa. Ég er svoldið gjörn á það að fresta svefni og get alveg eytt mörgum klukkutímum í einmitt það að fara ekki að sofa. Hlakka til að fara í frí og reyna að slappa af og koma mér hjá því að hanga yfir tölvuskjánum og eyðileggja í mér augun. Fæ bílinn minn í fyrramálið vonandi og fer með hann beint í djúphreinsun og reyndar allsherjarhreinsun. Ekki veitir af. John búin að vera að flytja timbur í kínamúrinn sinn og allt út í sagi og timburflísum. Ekki það að ég sé með þrifnaðaræði þegar að bílnum kemur. Er voðalega löt við það eins og þrifnað yfirleitt. Það einhvern veginn tekur því ekki að vera að þrífa það verður hvort sem er allt skítugt aftur og þetta algjör vítahringur sem maður kemur sér í þegar þrif eru annars vegar. Samt líður mér alltaf voðalega vel þegar allt er ekki í drasli, en það er bara svo sárasjaldan á mínu heimili. Börnin mín ganga um eins og þau haldi að hér gangi um vélmenni sem hengir upp úlpur, raðar skóm og þvíumlíkt því alltaf þegar þau koma heim úr skólanum dettur allt af þeim á gólfið í ganginum og þar liggja alltaf skólatöskur og úlpur sem enn eru í skólatöskunni og skór á víð og dreif. Engar hótanir duga til að fá þau til að ganga betur um og ég geri sjálfri mér ekkert gott með því að vera sífellt að tuða um þetta drasl allt saman. Kannski skána þau með aldrinum þó ég hafi enga trú á því í augnablikinu. Nú eru þau í fastasvefni, síðasti skóladagur á morgun og svo Danmörk hinn. Þau eru orðin svoldið spennt og ég reyndar líka. Ég vona bara að ég geti haldið utan um þennan hóp minn og tíni þeim ekki í Tivolí eða einhverju mollinu. Mig dreymir reyndar um algjöra afslöppun en það er engan veginn raunhæfur draumur þegar þrjú börn eru annars vegar. Held svo í þá von að Hrund mín rústi ekki húsinu á meðan við erum í burtu og að kötturinn dafni vel í óléttunni sinni. Fjölgunar von í lok júní. Well ó well. Best hætta þessu pikki og drífa sig í draumalandið...
Allt er þetta í áttina núna. Lúkkið orðið gott og nú geri ég ekki meira. Fór í dag og söng með Léttsveitinni við örmessu í Sóltúni. Ég vona að Den lysegrönne hafi glatt minn gamla dönskukennara úr Kvennó sem er íbúi í Sóltúni. Er alveg að verða búin með - allavega í bili - vefinn fyrir Festival of Friends. Hefur gengið ótrúlega vel enda geri ég ekki neitt annað. Verð nú að druslast til að pakka, förum til Danmerkur á laugardaginn svo það er bara kvöldið og dagurinn á morgun eftir í allt sem gera þarf fyrir ferðina. Veðrið í dag yndirlegt og synd og skömm að hanga yfir tölfunni í þessu fína veðri. Fer þó öðru hvoru út og viðra mig hér á pallinum. Og nú á að grilla dönsk svínarif svona til að hita upp fyrir Danmörku. Kannski skrifa ég eitthvað hér þegar þangað er komið. Annars allt í góðu....

miðvikudagur, maí 28, 2003

Jæja fröken Sigurlaug. Ef þú ert ekki tölvuóð þá er það enginn. Nenni ekki að taka til í kringum mig og þá er alltaf gott að eiga góða tölvu að. Þetta er í hundraðasta skipti í dag sem ég sest hér niður og tjái mig. Hef ekki tjáð mig svona síðan árin sem ég hélt dagbók. Hætti því snarlega þegar ég stóð þáverandi sambýlismann að því að lesa mín dýpstu leyndarmál. Losaði mig bæði við dagbókina og hann í einum grænum. Og nú er maður bara komin á netið með öll sín leyndarmál og undarlegar hugsanir. Ég segi nú bara eins og Tom Waits í laginu "...I´ll tell you all my secrets but I´ll lie about the past..."Þar sem ég vakti eins og asni til sex í morgun væri kannski ráð fyrir mig að koma mér snemma í rúmið og vakna svo endurnærð á morgun og gera allt sem ég hef ætlað að gera þessa vikuna. Allir í fríi á morgun og meira að segja þarf ég ekki að vakna til að bera út. Nenni nú eiginlega ekki að bera út þetta blessaða blað en ég hef svo ótrúlega gott af því að trítla þetta hús úr húsi. Annars svæfi ég bara til hádegis og ekkert yrði úr deginum. Þarf að muna eftir því á morgun að hringja í Sigrúnu frænku og segja henni að taka með sér rúmföt til Danmerkur. Hún er nefnilega líka að fara í ferminguna hjá Heimi og svo mun hún Jóhanna okkar Léttsveitarkona mæta í fermingarmessuna með barnakórinn sinn og syngja. Svo verður Hanna í Köben um þarnæstu helgi og María er þar núna. Þetta er orðinn einn allsherjar Léttsveitarstefnumótastaður Danmörkin. Höfum líka þangað sterkar taugar eftir að við slógum í gegn í Tivoli - meira en Stuðmenn áorkuðu. Er nú orðin hálf tóm í hausnum og ég held að ég skelli mér upp í rúmið mitt góða, kveiki á imbanum og sofni út frá honum. Katrín mín í gistingu hjá Sunnu vinkonu sinni, Tristan búin að vera sofandi síðan um sex og Petra orðin þreytt og pirruð aðallega þó af sjálfri sér. Bíllinn á að vera tilbúinn á morgun. Þarf svo að versla eitthvað matarkyns í kotið og drífa mig í að gera allskonar hluti fyrir Danmerkurferðina og reyna að muna eftir öllu. Hætt þangað til á morgun...
Nú er ég ánægð með mig. Búin að breyta litum og dúlleríi á þessum vef og bæta við linkum og alles. Var vakandi til sex í morgun og bar út blaðið áður en ég fór að sofa. Átti svo tíma í klippingu kl. 10 og ef John hefði ekki hringt í mig hefði ég sofið á mitt græna eyra fram eftir degi. Jóa klippti mig geðveikt smart eftir nýjustu tísku frá Danmark en þangað er ég líka að fara á laugardaginn þ.e. ef ég gleymi því ekki. Bíllinn minn er enn í sprautun en ég fæ hann á morgun vonandi. Ómögulegt að vera bara á einum bíl. Og úr því ég er búin að koma þessari síðu í sæmilegt horf svona aðeins í stíl við heimasíðuna mín er kannski kominn tími á að ég sinni einhverju öðru, klári að þvo þvott og reyna að laga aðeins til hér þar sem allt er í drasli. Það flýtur allt í dóti frá krökkunum þegar ég hef ekki sinnt þeim í tvo daga. Þarf að fara að druslast til að pakka fyrir Danmerkurreisuna allavega föt krakkanna. Nóg í bili og bæ þar til næst.....
Svei mér ef þetta gekk ekki. Setti þetta meira að segja inn á heimasíðuna mína og nú þarf ég að bæta þar við link svo fólk geti skoðað þessa vitleysu í friði og ró. Ég ætti að vera löngu sofnuð. Það verður allavega erfitt að vakna í fyrramálið og bera út en einhvern veginn druslast ég alltaf á fætur. Ég hef allavega skelfing gott af því að rölta svona á morgnana. Fór í kvöld í skósölu formannsins, þ.e. Margrétar og keypti mér þar mína fyrstu Blue Suite shoes eins og Elvis söng um forðum með undanlegum hæl og svo fantafínar göngutuðrur bláar líka. Ég er svoldið blá yfirleitt. Úpps, nú man ég allt í einu eftir því að ég er að fara í klippingu í fyrramálið kl. 10. Eins gott að muna eftir því þó AA hrelli mig sífellt meir og meir. Ætlaði í Léttsveitargöngu eftir skókaupin en Stína þurfti endilega að gera mig forvitna yfir einhverju sem hún var að gera og því bauð mér í kaffi þar sem ég get ekki beðið eftir að fá að heyra eitthvað leyndó. Hún var þá búin að kaupa sér þessa brjálæðislega fínu macintosh tölvu - svona geðveika hönnun og nú verður það næst á mínum óskalista. Og þar sem bíllinn minn er í sprautun kom Heiða formaður Gospelsystra og sótti mig. Myndin sem ég gerði fyrir Gospelinn er brjálæðislega flott hjá mér - fatta ekki stundum hvað ég er klár fyrr en eftir á og svo vildi hún endilega kíkja inn þó hún drekki ekki kaffi. Ég beið spennt í annað skiptið í kvöld eftir að heyra eitthvað skemmtilega og þá er bankað og mættar eru Bryndís og Hildur með þessa líka fínu ostakörfu. Spjölluðum um heima og geima fram yfir miðnætti. Þá settist ég niður við tölvuna og klára það sem um var beðið á nýjan vef sem ég er að gera fyrir Festival of Friends. Ég þarf að muna eftir því að setja á þessar síður metatög svo leitarvélar finni vefinn. Svo var María búin að segja mér að allir væri komnir á bloggið og ég bara varð að prófa og það tók smátíma og alles en hér sit og ég pikka og pikka og gæti skrifað heila bók þó ég fái stundum útrás á innansveitarkróniku Léttsveitarinnar. En þar lætur maður nú samt ekki móðan mása um allt og ekkert. Well, well, í svefn með þig kerling. Hundrað hlutir sem ég þarf að gera á morgun og má ekkert vera að þessu rugli núna um hánótt. Nighty, night.....
Allir greinilega komnir á bloggið og nú verður bara að sjá hversu klár ég er og hvort þetta rugl gengur.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter