<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 30, 2003

Það er alltaf nóg að gera. Er búin að vera með John upp í Gaukshólum hjá Ingi og Jóni að hjálpa þeim að taka upp úr kössum þar sem gámurinn með búslóðinni þeirra kom seinni parts föstudagsins. Græddi náttúrlega heilmikið á því, miljón glös, hnífapör, ýmislegt úr tekki, piparkvörnina hennar Ingu og margt fleira. Þegar ég var í Danmörku gerði ég mikla leit að tekkpakka eins og Ragnhildur vinkona á en fann ekki. En Inga átti einmitt svoleiðis og ég fékk hann auðvitað. Svo er píanóið komið hér í hús og það er alveg meiri háttar fallegt. Ekki bara svona venjulegt píanó heldur voða flott mumbla. Og nýr svefnsófi komin í kjallarann fyrir gesti og gangandi til að leggja sig á.
Eldaði í gær sítrónukjúllann frá Stínu og Hönnu og hann hefur aldrei verið eins góður. Dúndrandi kjúklingaréttur og lítið fyrir honum haft. Ég elska svoleiðis uppskriftið. Ekkert vesen bara inn í ofn og vella tilbúið eftir klukkutíma eða svo. Set hann á heimilissíðuna við tækifæri.
Það virðist ýmislegt geta farið í taugarnar á fólki. Því kynnist maður í útburðinum. Maður nokkur kom út á náttfötunum og pirraðist yfir því að blaðið væri ekki sett alla leið inn um lúguna. Málið er að ég geri það og John líka. Bölvað nöldur. En svo var líka kona sem þakkaði mér fyrir að setja blaðið alla leið inn um lúguna. Sitt sýnist hverjum. Einn vildi ekki láta labba yfir lóðina sína og það má kannski taka það til greina. Er nánast hætt að setja blaðið þar sem árans hundarnir gelta eins og vitlausir og tæta svo í sig blaðið. Lítilll tilgangur með því að setja blað í þá lúgu. En niðurstaðan er sú að ef fólk vill nöldra þá endilega láta það bitna á blaðburðarfólki. Aldrei friður til að láta hugann reika og gleyma sér. Ja, svei....
Nenni lítið að skrifa þessa dagana eða bara yfirleitt og skil ekki af hverju ég er að þessu bloggi. Þetta er bara fyrir unglinga...
Er samt að hugsa um að mála eitt stykki vegg í dag og færa til myndir. Að vísu virðist veðrið vera að breytast í garðveður og þá fer ég frekar í garðinn og nota næsta rigningardag í málningavinnu.
Nenni ekki meiru...

miðvikudagur, júní 25, 2003

Svei mér þá ef ég næ því ekki að klára þennan bækling fyrir Ítalíufara Gospelsystra og Vox Feminae fyrir morgundaginn. Hef nú oft gert eitthvað sem lítur betur út, en þetta gegnur alveg og er ekki svo slæmt eftir allt saman. Forsíðumyndin er mjög falleg og það bætir þetta upp. Þarf að koma þessu í prentsmiðju í fyrramálið. Tristan byrjaði á siglinganámskeiði í morgun og er voðalega ánægður með sig. Að vísu var víst lítið farið út að sigla í dag enda hálfgert haustveður, svalt og vindur. Í staðinn var farið í sund. Og hann var ánægður með það og það er fyrir öllu.
Er að hugsa um að mála bláa vegginn í holinu aftur áður en píanóið kemur sem ekkert bólar enn á. Það tekur greinilega tímann sinn að afgreiða þennan gám úr tolli. Gleymdi og gleymdi ekki að fara að ganga með Léttsveitinni í kvöld. Steinsofnaði upp úr fimm og svaf á mitt græna í sófanum til hálf átta. Svona er það þegar maður vaknar kl. sex á morgnana. Er þó ekkert að stressa mig yfir því. Húsið er ekki algjörlega í messi og þá læt ég mig hafa það að vera ekki að stressast eilíflega yfir því. Fór aðeins í garðinn í gær og reyni að gera eitthvað á morgun ef veðrið er skárra. Ekki að það sé neitt slæmt, bara svoldið svalt og hálfgert rok.
Við Hrund erum ekki enn mjög sáttar eftir slælega frammistöðu hennar í útburðinum þegar ég var í Danmörku. Ég vil að hún fari að sjá um sig sjálf, flytji að heiman og geri eitthvað í sínum málum annað en að hanga yfir einhverjum stelpum öll kvöld og helgar. Þessi kynslóð sem hún er af býr ekki yfir mikilli ábyrgð eða þetta er bara hún og hennar vinir. Ábyrgðarleysið er algjört, ekkert pælt í að gera eitt eða neitt af viti og búið á Hótel Mömmu fram eftir öllum aldri. Ekki ætla ég að daga með hana uppi hér á heimilinu eins og Afi hennar og Amma á Selfossi hafa gert. Vera með tvo syni sína enn í heimahúsum og annar þeirra aldrei farið að heiman nema í hálfan vetur. Þá gafst hann upp af því brauðið sem smurt var handa honum fyrir vikuna var orðið svo vont á föstudögum. ÆÆ.....Þvílíkt bjargarleysi.
Tjá þar til næst.....

mánudagur, júní 23, 2003

Það er eiginlega ekki hægt að segja að ég sé að fíla þetta bloggerí. Ég nenni voðalega lítið að skrifa og reyni að hafa þetta allt voðalega stutt og eiginlega hálfleiðinlegt. Kannski er þetta bara sumarið. Einhvern veginn er ekki hægt að setjast niður við tölvuna í glaðasólskini og sumaryl. Í dag átti nú að vera þetta líka ágætisveður en stundum held ég að veðurfræðingar mæni aðeins í einhver kort sem þeir virðast lítið botna í en horfa aldrei til himins og spá í veðrið þannig. Seinni part dagsins í gær varð himininn hvítur af skýjum og greinilegt að það mundi rigna, en engin kom slík spáin frá veðurfræðingunum. Ég er löngu komin á þá skoðun að maður eigi að spá í sitt eigið veður og láta veðurfregnirnar ekki vera að trufla það. Ég hef oftar rétt fyrir mér en þeir. Stundum mætti halda að þeir byggju erlendis greyin...
En hvað um það. Þarf að druslast til að blása á mér hárið. Er að fara að syngja með Léttsveitinni á kvennaráðstefnu núna kl. eitt og við eigum að vera í kjólum og voða sætar og fínar. Er að reyna að koma mér til að vinna líka pínulítið í dag. Þarf að brjóta um eitthvað af Frey og senda Matthíasi og svo er að reyna að koma saman þessum bæklingi fyrir gospelinn sem er á leið til Ítalíu. Gengur ekki vel en vonandi næst þetta í dag og á morgun. Allt á síðasta snúningi og þær að fara út 1. júlí.
Petra Kristín hin fúlast núna yfir því að hafa ekki verið vakin í morgun til að bera út. Ég vaknaði of seint en John hjálpaði mér og við náðum þessu fyrir sjö. Vek stúlkukornið í fyrramálið og læt hana bera út þá svo hún haldi ekki áfram að vera fúl...
Og svo er það þetta með köttinn. Enginn veit hvort hún er með kettlingum eður ei. Það verður bara að koma í ljós með tíð og tíma.
Þarf að ganga frá þvotti en nenni því ekki og píanóið er ekki komið enn. En þetta kemur allt með tímanum....

sunnudagur, júní 22, 2003

Úff þetta er búinn að vera langur dagur enda sumarsólstöður og lengstur sólargangur. Klukkan langt gengin í fjögur og enn bjart út. Vaknaði snemma til að bera út og svo lögðum við Gunnhildur snemma í hann til að vera við brúðkaup Daða Hrafns og Sillu. Þau giftu sig á Snæfellsjökli og síðan heljarinnar veisla á félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Við lögðum í hann kl. 1, byrjuðum í Blómavali til að láta pakka gjöfinni inn og vorum þar í næstum klukkutíma svo ekki var lagt af stað vestur fyrr en um tvö. Gunnhildur keyrði vestur og lá í 120 mestalla leiðina. Leiðin frá Borgarnesi að Jökli óvenjulöng og við fórum vitlausa leið og misstu af sjálfri athöfninni. En lán í óláni að brúðkaupið verður sýnt í brúðkaupsþættinum Já þann 15. júlí. Ekki þekktum við nú marga í veislunni eiginlega bara brúðgumann og foreldra hans en veislan var fín, maturinn fínn og ferðin í bæinn gekk greiðlega enda ekki ekið eins og vitleysingur. Og nú er eins og áður sagði klukkan að ganga fjögur og ég er þreytt og syfjuð en nenni ekki að fara að sofa. Get sofið frameftir á morgun, enginn útburður á sunnudögum. Algjör sæla þessir sunnudagar. Ekki að ég hafi ekki gott af hreyfingunni enda útburðurinn til þess ætlaður að hreyfa sig örlítið á hverjum degi. Ég er ekki alveg týpan í að fara í ræktina þó einhvern tímann í fyrndinni hafi ég verið dugleg við þá iðju. Held þó að heillavænlegast sé að drusla sér í svefn, kveiki kannski á imbanu og sofna yfir honum. Allir sofandi sem heima eru og ró og friður hér á bæ. Veit þó ekki hvar kötturinn er....hún var sofandi á pallinum. Veðrið í dag hefur verið yndislegt sól og hiti og þá er hvergi betra að vera en á Íslandi. En nú kallar mitt mjúka rúm....

fimmtudagur, júní 19, 2003

Alveg er það makalaust hvað maður er fljótur að gleyma. Ég var nýbyrjuð að blogga þegar ég skrapp til Danmerkur í rúman hálfan mánuð og nú veit ég ekkert hvað ég er að gera.
En allavega komin heim frá Danmörku eftir 17 daga útiveru. Frábær ferð, krakkarnir í skýjunum og líka glöð að koma heim eins og mammsan. Fermingin hjá Heimi gekk vel. Stúlknakórinn hennar Jóhönnu söng og líka stúlkur frá Dómkirkjunni og var Alla líka mætt á svæðið og lék undir. Skemmtileg tilviljun að þær skyldu vera þarna. Um sexleytið á fermingardaginn byrjaði að rigna með þvílíku þrumuveðri og börnin mín og strákarnir hennar Sigrúnar frænku fíluðu sig í botn í rigningunni og höfðu aldrei upplifað annað eins. Ljósagangurinn eins og á gamlárskvöld hér heima.
Við gistum allan tímann hjá Ragnhildi vinkonu og hún á hrós skilið fyrir að halda það út að fá inn á sig fimm manna fjölskyldu með öllu sínu hafurtaski og látum. Danmörk var skönnuð frá A-Ö. Tivolí, Bakken, Dýragarðurinn, Lególand, Lövenparken, Kolding, Oldense, Stórabeltisbrúin, Litlabeltisbrúin, Eyrarsundsbrúin, Amalíenborg, Hafnmeyjan, Kanaltúr, Runde Turn, Planitariet, Guinennes safnið, Believe it or not safnið, Strikið og aftur Strikið, Fisketovet, Ströndin, Bronshoj, Istedgade, Hóvedbaninn, Ullerupgade, Metrónn, lestarnar, strætó, flóamarkaðir, Bláa pakkhúsið og allt þar á milli. Standandi dagskrá allan tímann og allir hamingjusamir þegar heim var komið.
Og nú tekur hversdagurinn við með tiltekt, þvotti og vinnu.
Mætti á æfingingu í gær hjá Léttsveitinni fyrir gigg sem er á mánudaginn. Fer að syngja í kvennamessunni í kvöld og afmæli Össurar og Arnýjar á eftir henni. Ætla nú að druslast til að elda eitthvað ofan í mannskapinn og drífa mig svo í snurfus....
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter