<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Ég sofnaði aftur í morgun eftir að ég bar út og dreymdi þvílíka vitleysu að ég hefði getað skrifað kvikmyndahandrit út frá draumnum. Neyddi sjálfa mig meira að segja til að vakna þegar ég var búin að fá nóg af þessari dæmalausu vitleysu. Svo ég vaknaði ekki fyrr ein hálf eitt í seinna skiptið. Ætlaði til Stínu en í stað þess druslaðist ég einhvern veginn langt fram eftir degi við að þvo þvott, brjóta hann saman, hengja upp myndir, þrífa baðið og svefnherbergið sem mikil þörf var á. Var ekki búin að þessu fyrr en um fimm og þá hafði ég mig loksins í að fara út úr húsi. Þá var Stína ekki heima og við ákváðum að hittast á morgun í staðinn. Ákvað þá að kíkja á Maríu og þar var Védís í heimsókn nýkomin frá Krít sólbrún og sæt. María þurfti að ná í bílinn sinn úr þrifum og við fórum á Hard Rock og fengum okkur í svanganóruna sem mikil þörf var á. Fylltum nóruna og ákváðum að skreppa í bíó. Sáum What a girl wants - rómantísk mynd í anda Notting Hill, voða krúttleg og skemmtileg. Það var gaman að eyða kvöldinu með Maríu og skil ekki af hverju ég geri þetta ekki oftar. Kom heim, setti hreint á rúmið og leitaði svo að grískum uppskriftum á netinu. Ætla að vera með grillveislu hér á föstudaginn og hafa grillað lamb á gríska vísu. Fann fullt af uppskriftum og fer í gegnum þær á morgun. Og nú þarf ég að drífa mig í háttinn til að vakna bara einu sinni á morgun. Gleymdi Léttsveitarlabbinu eins og oft áður en kannski dríf ég mig næsta þriðjudag. Kominn tími til að rölta um urð og móa með skemmtilegum konum. So, vakna snemma í fyrramálið, bera út og gera svo eitthvað af viti fyrir hádegi í stað þess að sofa á mitt græna...

þriðjudagur, júlí 29, 2003

Jæja þá er fullt af myndum komið inn á Léttsveitarvefinn úr útilegunni um helgina. Fékk myndir frá Sigrúnu frænku og var að skutla þeim inn með mínum.
Eignaðist minn annan pels á tveimur mánuðum áðan. Keypti krullupels (trúlega af persnesku lambi þó ég haldi að það sé af buffaló) í Bláa pakkhúsinu í Køben á 350 kr. danskar. Lítill peningur fyrir ótrúlega krúttaralegan krullupels. Svo gaf Inga amma mér þennan fína minkajakka áðan svo nú er ég ótrúlega pelsvædd fyrir veturinn sem er því miður ekki langt undan.
Sniglarnir hafa komist í jarðaberin mín þó þau séu í dalli. Næst týni ég þau jafnóðum og þau verða rauð. Gerði heilmikið í garðinum í dag, þvoði milljón þvottavélar en kom að öðru leyti litlu í verk.
Skapið ágætt eins og veðrið. Þarf að fara að sofa en nenni því ekki. Öll mín orka brýst út eftir miðnætti. Þá gæti ég fært til heilu fjöllin án þess að finna fyrir því. Samt er ég farin að snúa sólarhringum í réttara horf ef það að gera eitthvað á morgnana annað en að sofa er eitthvað réttara en annað horf. Nóttin er minn tími eins og uglunnar.
Trilljón hugsanir flæða um hugann og þær eru of margar til að skrifa hér...

mánudagur, júlí 28, 2003

Skelfing var á þreytt í gær eftir þessa frábæru Léttsveitarútilegu. Ég held að ég hafi ofnæmi fyrir rauðvíni. Það gerir mig lata og leiðinlega. Útlegan var dúndrandi fín, sól og blíða í Galtalæk þegar rigndi og rigndi hér í Reykjavík. Er nú að hlaða myndum úr útilegunni inn í tölvuna og svo er bara að skutla þessu á Léttsveitarvefinn margfræga. Það verður fróðlegt að sjá þessar myndir sem Bjarni maðurinn hennar Guðrúnar Gunnars tók að mestu þegar aðeins var farið að síga í vinstri löppina á fólki. Aftur á móti skil ég ekki þegar allir eru farnir heim á sunnudegi fyrir hádegi. Ég og Sigrún frænka ásamt okkar slegti vorum síðastar af svæðinu um kl. fjögur. Það gerði einn skúr um þrjúleytið en tjöldin orðin þurr aftur þegar við tókum niður um fjögur.
Í morgun tók svo alvaran við, bera út og ganga frá draslinu sem tekið var með í útileguna. Fréttablaðið var ekki komið kl. hálf sjö í morgun svo ég lagði mig aftur og bar svo út seint og síðarmeir, en eins og máltækiið segir Betra seint en aldrei. Veðrið í morgun var allt of heitt, en ég er farin að fíla það í botn að labba svona í góða veðrinu á morgnana og ég er svona að gæla við þá hugmynd að þetta fjarlægi alla appelsínuhúð af lærunum á mér með tímanum og rassinn verði einhvern tímann aftur stinnur og stæltur - ef hann hefur einhvern tímann verið það. Ég gef þessu öllu tvö ár því góður árangur næst aðeins ef maður gefur því tíma.
Börnin mín eru ennþá sofandi en kannski kominn tími til að vekja þau. Er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fara í garðinn í dag eða draslast hér inni og laga til. Ég held að ég velji fyrri kostinn og geymi þetta innanhússvesen þar til veðrið er ekki útiveður.
Læt hér fylgja textann um geimveruna sem dætur mína sungu í útilegunni. Textinn er úr Grannmeti og átvextir eftir Þórarin Eldjárn:

Veran Vera
Ég hitti í morgun voða skrítna veru
með víraflækjuhár og græna peru
bláa tungu og tíu litlar hökur
og tær sem minna á rjómapönnukökur.

Hvaðan skyldi hún vera þessi vera?
Vandi sýndist mér úr því að skera:
Ef til vill frá Höfn í Hornafirði?
Hreinlegast var bara að ég spyrði.

En sem ég var að spá og spekúlera
hvort spurt ég gæti: Hvaðan ertu, vera?
Þá sagði veran: - Daginn, góðan daginn,
daginn kæri vinur, glaðan haginn.

Og undir eins þá heyrði ég á hreimnum
að hún var utan úr geimnum.


föstudagur, júlí 25, 2003

Well nú er kominn tími til að hætta þessu tölvuveseni og fara að taka saman fyrir útileguna. Það á eftir að versla og gera allt áður en haldið er af stað. Ég er búin að eyða öllum morgninum í það að laga þetta tjáningarform. Er búin að komast að því að ég er ömuleg í kóðamálum en einhvern veginn druslast ég í gegnum það að breyta því sem ég vil breyta. Það er verst þegar einhver css eru á bak við kóðann og ekki hægt að komast í að breyta því. Allavega veit ég ekki hvernig. En nóg um þetta vefmál og vitleysu.
Þarf að taka til föt fyrir krakkana og setja niður það sem þarf og svo er bara að drífa sig af stað í útilegu i rigningunni.

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Úllalla. Ekki hef ég verið í góðu skapi hérna um daginn. Eitthvað hefur það nú breyst til hins betra til allrar hamingju.
Gerði í dag ýmislegt sem ég hef látið dankast og dankast. Ég byrjaði á því að tæma frystiskápinn en í honum voru reiðinnar ósköp af beikoni og svínaslögum og allskyns mat síðan sautján hundruð og súrkál. Örugglega löngu orðið ónýtt þó í frystinum væri.
Og út úr frystinum ultu líka reiðinnar ósköp af rifsberjum frá því í fyrra sem pabbi týndi fyrir mig af miklum móð þegar ég var einhvers staðar annars staðar en hér og þessu hafði karlinn skutlað í frystinn í von um að dóttirin druslaðist til þess einhvern tímann að búa til úr þessu sultu sem honum þykir voða góð. Og viti menn, loksins kom að því að sultað var úr þessum berjum, enda ekki seinna vænna þegar ný uppskera er á næsta leyti. Svo ég gerði þetta fína rifsberjahlaup úr einhverjum 10 kg af berjum og fyllti allar krukkur sem til voru í húsinu.
Sonur minn hefur nú verið ansi duglegur að ganga á krukkuforðann því hann er alltaf að veiða eitthvað í krukkur. Ef það eru ekki flugur þá eru það köngulær eða ánamaðkar sem hann setur í þessar líka fínu sultukrukkur. Þar deyja þessi kvikindi drottni sínum þrátt fyrir að stungið hafi verið á lokin með nöglum eða skrúfjárni til að veita inn til þeirra súrefni í þessu glerbúri sem þeim er ætlað að lifa í.
Ég er sem sagt voðalega ánægð með framtakssemina í mér í dag. Fór meira að segja út í búð með krakkana að kaupa einhver gúmmíarmbönd sem allir krakkar þurfa að eiga mikið magn af og fór með allt gamla kétið úr frystinum í Sorpu ásamt fjallháum haugum af dagblöðum. Ég er reyndar fastagestur í sorpu og er voða dugleg að fara með fernur og dagblöð í gámana þar. Og nú verð ég að koma mér í svefn svo ég vakni í fyrramálið að bera út. Svo er hin árlega Léttsveitarútilega framundan um helgina og þó það rigni þá verður farið í þessa útilegu. Mér finnst reyndar rigningin góð...

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Ég er í verkfalli. Ég er þreytt á því að vera sú sem gerir allt hér á heimilinu og sú sem argar á börnin mín. Svo ég elda ekki, hugsa ekki um börnin mín, þríf ekki, þvæ ekki þvott. Ég geri ekkert og tala ekkert. Ég er sem sagt pirruð og ætla að halda því áfram næstu daga ef það er það sem þarf. Mig vantar rómantík í líf mitt, kósíheit og að einhver sé góður við mig og þá meina ég sérstaklega góður við mig. Ekki það að maðurinn minn sé eitthvað vondur við mig en hann er heldur ekkert voðalega næs. Ég þrái þögn og einveru. Langar til að fá að vera í friði frá öllu og öllum. Það hlýtur að vera lægðardrag yfir landinu...

sunnudagur, júlí 20, 2003

Nú er þetta eins og það á að vera nema teljarinn telur allt innlit á hverja síðu fyrir sig. Það er bara spurning um að sleppa þessum teljara alveg en við sjáum til. Gat breytt shout out í tjáðu þig og nú hringla ég ekki meira með þetta. Ætla í Blómaval að kaupa mold og stóran pott og færa svo hindberjarunnana í þá og sjá til hvað kemur út úr því. Veðrið of gott til að vera inni í tölvunni...
Alltaf er ég frjóust eftir miðnætti. Fann út úr þessu shout out dæmi sem margir eru með á blogginu. Vildi samt gjarnan geta breytt þessu shout out yfir á íslensku ásamt öllu hinu sem þar stendur í glugganum sem poppar upp en ekki ræð ég við allt. Þetta er javaskript og ég ætti að geta breytt þessu einhvern veginn án þess að ég viti hvernig. Kannski finn ég út úr því á öðrum degi eftir miðnætti.
Var í partýi í Vatnsendanum með fullt af dönum svo enn æfist ég í að tala og skilja dönsku. Ekki er það nú verra.
Ætti að vera löngu sofnuð en kannski ætti ég bara að vaka fram að útburði. Aðeins þrír tímar í það. Svo er bara hægt að sofa til hádegis í staðinn.
Íhuga það næstu mínúturnar.
Söng í brúðkaupi í dag með fleiri kerlum úr Léttsveitinni. Presturinn hálfhallærislegur en brúðguminn algjör dúlla. Brúðurin táraðist þegar hann söng til hennar texta sérstaklega saminn fyrir hana við lagið um brúna yfir brjálaða vatnið.
Sama veðurblíðan í dag og undanfarna daga og á morgun tekur við meiri garðvinna...

laugardagur, júlí 19, 2003

Kominn laugardagur og enn einn góður veðurdagur í uppsiglingu. Er að fara að syngja í brúðkaupi kl. fjögur með Léttsveitinni. Þarf að strauja buxur og skyrtu fyrir það. Það þykir mér ótrúlega leiðinlegt, eiginlega leiðinlegra en að skúra og ryksuga og þá er nú mikið sagt. John og fleiri úr hans familíu eru á leið í fjallgöngu yfir Esjuna. Hefði verið gaman að fara með en ég er ekki mikil göngumanneskja og sætti mig við að hafa gengið þarna yfir einu sinni. Síðan er fjölskyldusamkvunda í Vatnsenda í kvöld.
Fór og sótti Ragnhildi og Jørn út á flugvöll í gær og svo var grillað hér lambakét og drukkinn mikill bjór og rauðvín. Sofnaði snemma í gærkvöldi og vaknaði seint. John bar út fyrir mig. Hann er stundum voða góður við mig þessi elska. Börnin mín verða að mestu á sjá um sig sjálf seinni part dagsins en Petra er orðin svo stór að hún meikar alveg að líta eftir þeim. Það þýðir allavega lítið að treysta á Hrund þessa dagana. Hún er bara í sínum eigin heimi og hefur ósköp lítil samskipti við okkur hin. Ég held að það sé tími til komin að hún flytji að heiman og sjái um sig sjálf. Við eigum ekki alveg skap saman og ég þoli ekki driftarleysið sem er svo ríkjandi í hennar fari. Allt gert í hægagangi hjá henni og stundum er hún í afturábakgír, sem er ekki alveg að falla í kramið hjá mér. Hún tekur ekki einu sinni til í þessu herbergi sínu og það virðist ekkert blaga hana að búa í drasli og skít. En nóg um pirring minn á minni heittelskuðu elstu dóttur. Einhvern veginn druslast hún í gegnum lífið á eigin forsendum.
Allir virðast vera í fríi þessa daga frá blogginu og ekkert gaman að lesa bloggsíður. Aftur á móti er mér hulið ráðgáta hvernig fólk fer að því að finna þessar bloggsíður. Ekki finn ég þær eftir mínum leiðarleiðum.
Nenni ekki að rausa meira, best að drífa sig í að strauja því illu er best aflokið....

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Jís, það er kominn tími til að rífa sig upp á rassinum og fara að gera eitthvað af viti. Þarf að gera eitthvað í mínum málum og komast í réttan gír. Á morgun á að vera geðveikt veður og þá er lítil ástæða til að hanga innan dyra. Slíkt á að gera á rigningardögum. Er búin að vera að dúlla mér í því undanfarna tvo daga í geðillsku minni að setja inn myndir frá Vestmannaeyjum á Léttsveitarvefinnog myndir frá Danmerkurferð inn á heimilisvefinn. Svo bætti ég inn nokkrum uppskriftum þar líka. En nú er mál að linni í tölvuhangsi. Garðurinn er í óttalegri órækt og nú er John að verða búinn að girða okkur af frá umheiminum og því ærinn ástæða til að taka til hendinni líka. Þarf að setja niður nokkur sumarblóm sem Kristín Birna kom mér hér um daginn. Er búin að koma nokkrum þeirra á sinn stað en enn eru nokkur eftir sem bíða þess að fá einhvern stað til að eyða sumrinu á. Nú er mál að linni að sinni og draumlandið taki við. Þarf að vakna snemma í fyrramálið í útburðinn. Er nokkuð góð í fætinum undanfarna tvo daga. Kannski hefur þetta bara verið geðvonska sem hljóp í fótinn sem skánar með vaxandi hæð yfir Grænlandi. Verð að muna eftir því að mæta á smá létta æfingu á morgun og svo að sækja Ragnhildi á föstudaginn út á flugvöll. Það getur nú varla minna verið eftir að hafa búið hjá henni í rúman hálfan mánuð í Køben. En AA hrellir mig stöðugt meira og dagarnar líða án þess að ég muni eftir því hverju ég ætlaði að koma í verk þennan daginn. Er yfirleitt komin í eitthvað allt annað sem getur alls ekki beðið til morguns. Já, lífið er stundum erfitt þegar maður er miðaldra....!

laugardagur, júlí 12, 2003

Ég geri lítið annað þessa dagana en að sofa. Mér er alltaf illt í öðrum fætinum og veit ekkert út af hverju. Kannski bara þreyta. Fór að vísu í garðinn í gær og snyrti eitthvað aðeins til en í dag er rigning og þá nenni ég því ekki. Nenni ekki að taka til en þyrfti að gera það. Herbergi krakkana eru í því ástandi að ég þarf að taka þar almennilega til. Petra þreyf bílinn minn í gær en þurrkaði víst ekki af svo ég verð að drífa í því. En hún ryksugaði og tók ruslið svo það er nú heilmikið. Bar ein út í morgun í rigningunni og það var hressandi. Og á morgun kemur blaðið út á sunnudegi og svo nú er aldrei frí. Veit ekki hvað fjölskyldan endist í þessum útburði. Eitthvað fram á haustið trúlega. Ekkert að gerast og ég nenni engu, ekki einu sinni að blogga. Ekki að ég hafi nennt því hingað til. Hef bara áhuga á að breyta lúkkinu á síðunni en svo ekki meira. Katrín og Petra gistu hjá vinkonum svo Tristan er einn hér heima að draslast. Fæ hann með mér í tiltekt. Enn er ekki vitað hvort kötturinn er með kettlingum en það ætti að koma í ljós eftir tvær-þrjár vikur.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Mig langar til að hafa svona comment á blogginu. En það virðist ekki virka. Bölvað vesen. Skil ekki hvernig ég nenni að standa í þessu. Áðan gat ég ekki publishað síðunni og hef ekki hugmynd um hvort ég er búin að skemma eitthvað í kóðanum.

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Jæja þá er þetta komið í það horf sem ég vil. Ætla svo að breyta heimasíðunnu minni og hafa þessa liti á henni. Skil ekki af hverju ég gerði það ekki strax þar sem þessir litir eru búnir að vera í hausnum á mér lengi, lengi...
Var að klára það sem komið er í Frey og senda það. Er sem sagt búin að vera að síðan kl. rúmlega sex í morgun. Petra fór með mér að bera út, blaðið þunnt og lítiðfjörlegt.
Ætti kannski að mála einn vegg í dag ef ég nenni. Lítið að gerast og lífið rólegt. Kannski bara að ég leggi mig. Þarf að vísu að druslast aðeins út í búð og kaupa brauð og eitthvað í matinn en það tekur lítinn tíma. Skrepp í Sorpu í leiðinni með fernur og dagblöð.
Er enn að pirra mig á elstu dóttur minni. Get ekki talað við hana og hef ekki enn fyrirgefið henni almennilega fyrir að bera ekki út fyrir mig þegar við vorum í Danmörku. Hún var verri en Melany ef eitthvað var. Veit ekki hvað hægt er að gera fyrir hana blessaða. Líf hennar virðist bara reka á reiðanum, engin stefna, ekkert markmið. Hún ætlaði í skóla í haust en sótti svo ekki um. Hún vinnur eins lítið og hún kemst af með og er alltaf blönk. Skil ekki hvernig þessi ungdómur meikar daginn stundum. En ég verð að fara að ræða við hana. Þetta gengur ekki. Þetta liggur yfir mér eins og mara og ég nenni því ekki.
Best að gera eitthvað annað en að skrifa einhverja vitleysu...

mánudagur, júlí 07, 2003

Ég held að mér hafi tekist það sem ég ætlaði mér en betur má ef duga skal...
Einn daginn ruglast ég á veseninu i sjálfri mér. Verð að koma inn netfangi og heimasiðu á þetta bölv....blogg...

sunnudagur, júlí 06, 2003

Eitthvað rugl virðist vera í gangi hjá sumum á blogginu í sambandi við íslenska stafi. Ég lenti nú í þessu sjálf þegar ég byrjaði og vissi ekkert hvað var að gerast. Það má reyna að fara í settings - formatting og setja language á íslensku og encoding á Universal english eða eitthvað svoleiðis.
Ég á aftur á móti í vandræðum með að setja inn mynd í bloggið. Kann að setja inn link á vefsíður en myndir eru enn vandamál. Kann það einhver þarna úti.
Það hrjáir mig leti að blogga. Hélt að ég mundi fíla þetta miklu betur en ég geri. Eiginlega ferlega asnalegt að vera að tjá sig á netinu um innstu hugsanir og hvað maður er að gera hverju sinni. Og svo er þetta hálfleiðinleg lesning allavega hjá mér. En kannski fylgir skriflegt andleysi sumrinu. Maður á að nota tímann í eitthvað allt annað en að hanga í tölvunni og blogga. Annars tók ég fullt af backuppum í gær og hreinsaði út af tölvunni. Nú þyrfti ég að defragmenta til að þjappa diskinn og fá meira pláss. Ekki að ég eigi við plássleysi á diskinum að stríða, enda með tvö stykki diska. En það er ágætt að eiga backup þar sem diskar eiga það til að hrinja af minnsta tilefni.
Er að hugsa um að breyta vefsíðunni minni. Mér líka ekki litirnir á henni. Fjólublátt er nú ekki beint minn litur. Og svo ætla ég að setja portfólíuna mína öðru vísi upp. En það má dunda sér við þetta þegar ekkert annað er að gera. Þarf líka að setja inn myndir og fleiri uppskriftir á heimilissíðuna. Þar sem börnin mín voru voðalega dugleg í gær að taka til - þau eru að vinna sér inn peninga fyrir laugardagsnammi - þá er ég að hugsa um að skipta á rúmum og skúra. Þar sem það er rigning í dag nenni ég ekki í garðinn. Þarf svo að drífa mig í að mála meira í stofunni.
Bjó í gær til cd diska af þremur tónleikum Léttsveitarinnar. Það er voða gaman að rifja upp þessi lög og ótrúlegt hvað maður man ennþá texta og raddsetningu.
Well. Mál að linni að sinni...

laugardagur, júlí 05, 2003

Er búin að mála nokkra veggi og koma stofunni í stand. Ætla samt að halda áfram að mála stofuna og mála einn vegg í einu. Það er löngu kominn tími á að mála. Nenni ekki að skrifa. Ætla út í dag í garðinn og gera eitthvað af viti annað.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter