<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Úllalla. Ekki hef ég verið í góðu skapi hérna um daginn. Eitthvað hefur það nú breyst til hins betra til allrar hamingju.
Gerði í dag ýmislegt sem ég hef látið dankast og dankast. Ég byrjaði á því að tæma frystiskápinn en í honum voru reiðinnar ósköp af beikoni og svínaslögum og allskyns mat síðan sautján hundruð og súrkál. Örugglega löngu orðið ónýtt þó í frystinum væri.
Og út úr frystinum ultu líka reiðinnar ósköp af rifsberjum frá því í fyrra sem pabbi týndi fyrir mig af miklum móð þegar ég var einhvers staðar annars staðar en hér og þessu hafði karlinn skutlað í frystinn í von um að dóttirin druslaðist til þess einhvern tímann að búa til úr þessu sultu sem honum þykir voða góð. Og viti menn, loksins kom að því að sultað var úr þessum berjum, enda ekki seinna vænna þegar ný uppskera er á næsta leyti. Svo ég gerði þetta fína rifsberjahlaup úr einhverjum 10 kg af berjum og fyllti allar krukkur sem til voru í húsinu.
Sonur minn hefur nú verið ansi duglegur að ganga á krukkuforðann því hann er alltaf að veiða eitthvað í krukkur. Ef það eru ekki flugur þá eru það köngulær eða ánamaðkar sem hann setur í þessar líka fínu sultukrukkur. Þar deyja þessi kvikindi drottni sínum þrátt fyrir að stungið hafi verið á lokin með nöglum eða skrúfjárni til að veita inn til þeirra súrefni í þessu glerbúri sem þeim er ætlað að lifa í.
Ég er sem sagt voðalega ánægð með framtakssemina í mér í dag. Fór meira að segja út í búð með krakkana að kaupa einhver gúmmíarmbönd sem allir krakkar þurfa að eiga mikið magn af og fór með allt gamla kétið úr frystinum í Sorpu ásamt fjallháum haugum af dagblöðum. Ég er reyndar fastagestur í sorpu og er voða dugleg að fara með fernur og dagblöð í gámana þar. Og nú verð ég að koma mér í svefn svo ég vakni í fyrramálið að bera út. Svo er hin árlega Léttsveitarútilega framundan um helgina og þó það rigni þá verður farið í þessa útilegu. Mér finnst reyndar rigningin góð...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter