<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 22, 2003

Fyrsti skóladagur í dag. Það verður gott þegar aftur kemst venjuleg rútína á þessi blessuð börn mín. Sumarið hefur liðið allt of hratt. Samt er ég orðin hálfþreytt á þessari eilífu veðurblíðu. Er tilbúin til að fá haust. Þarf að taka til í dag. Húsið er í rúst eftir börnin og þau taka aldrei til sjálf nema fá borgað fyrir það. Kubbar út um öll gólf og draslið inni hjá Katrínu er meira en nokkuð annað. Hún er ótrúlega dugleg við að rusla út en tekur aldrei til eftir sig. Hún föndrar og klippir endalaust og allt út um allt. Nenni ekki að skrifa, hef ekkert að segja og ætla að halda áfram að þrífa.

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

Alein sit ég og bíð eftir Fréttablaðinu. Bilun í prentsmiðju og blaðið kemur ekki fyrr en um níu. Er að hugsa um að klára einn stól í viðbót næsta klukkutímann. Er búin með tvo og í gær byrjaði ég á þeim þriðja. Þarf að taka áklæðið og svampinn af setunni og tveir af þessum stólum eru greinilega með upprunalegu áklæði og svampi og eftir rúmlega 40 ára tilveru er svampurinn farinn að molna auk þess sem hann er orðinn appelsínugulur af sígarettureyk. Ég þurfti að skafa hann af með gluggasköfu. Ógeð. Svo nú er bara að setja nýjan svamp og yfirdekkja setuna aftur. Fékk áklæði í Godda, alveg eins og er á borðstofustólunum. Þetta er voða sætir stólar þegar búið er að snurfusa þá svoldið. Bara svoldil vinna og tekur tíma, sérstaklega að pilla allt hefti úr setunum o.s.frv.
Er andlaus og hef ekkert að segja í bili...

þriðjudagur, ágúst 12, 2003

Úppsadeisí. Ég fékk fjóra tekkstóla hjá mömmu hennar Ragnhildar í gær, reyndar eiginlega Ásdísi systur hennar. Einn þeirra er nú heldur betur veðurbarinn þar sem hann er búinn að standa út á svölum í einhver ár í öllum veðrum. Er búin að dunda mér við það í gærkvöldi (eiginlega í nótt) og í morgun að pússa hann upp og bæsa og olíubera. Hann er farinn að líta betur út og getur gengið. Svo nú er ég kominn með glæsilegt tekkborð í eldhúsið og búin að fá stóla við það. Ég ætla nefnilega ekki að gera eins og allir og fleygja út fullkomlega ágætri eldhúsinnréttingu frá því að húsið var byggt og fá mér eitthvað voðalega snyrtilegt og nýtískulegt í staðinn. Ætlaði náttúrlega að gera það á sínum tíma en er fyrir löngu búin að skipta um skoðun. Svo nú fær eldhúsið bara vera með sínu sixtíes lúkki í friði að mestu leyti.
Fór til Maríu í gær og kenndi henni pínku ponsu meira í vefsíðugerð. Ætlaði nú bara að stoppa stutt en var hjá henni frá 4 til 12 eða eitthvað. Ég er ekki þolinmóður kennari en María er aftur á móti ótrúlega þolinmóður nemandi og fljót að læra. Hún er líka góð í því að taka fram fyrir hendurnar á mér þegar ég ætla að sýna henni eitthvað með því að gera það sjálf. Mikið lifandis, skelfingar ósköp á ég eftir að sakna hennar þegar hún flytur til Þýskalands. Ég vona bara að Þýskaland verði hundleiðinlegt og að hún komi fljótt til baka aftur.
Nú þarf að að skutlast og kaupa áklæði á nýju stólana mína og bronzfægilög til að fæga koparskrúfarnar sem eru á sýnilegir á stólunum. Þetta verður einhvern tímann voðalega fínir stólar...

mánudagur, ágúst 11, 2003

Ég er í miðaldrakrísu. Mér er heitt og kalt til skiptis, sef of mikið og heilinn ekki alveg í lagi. Á erfitt með að vakna á morgnana og finnst stundum ekkert gaman að vera til. Vonandi lagast það fljótlega...

föstudagur, ágúst 08, 2003

Það er alveg ótrúlegt hvað mér gengur illa að laga suma hluti, eins og t.d. núna langar mig að hafa svona title á blogginu en finn engan veginn úr hvar það er sett. Man eftir því að ég tók það út á sínum tíma en nú virðist ekki vera hægt að finna hvar það er sett inn aftur. Allt of flókið fyrir minn AA haus.
Fór í gærkvöldi og kenndi Maríu pínulítið í vefsíðugerð. Ég er nú ekki góður kennari en María er aftur á móti góður nemandi og auðvelt að skýra út fyrir henni það sem nauðsynlegt er. Hún vinnur svoldið eins og John, er með undarlegar shortcut leiðir og slíkt og það er bara fínt. Ég er aftur á móti stökk í QuarkXpress shortcuttum og panelum. Kenndi henni sem sagt að gera einfalda html síðu í Dreamweaver, setja linka og búa til photoalbum. Þarf svo að kenna henni pínulítið í Fireworks og meira í Dreamweaver.
Náði ekki að elda kjúllann í gær en geri það í kvöld í staðinn. Ætla að prófa nýja uppskrift af sítrónukjúlla sem er af grískum uppruna og svoldið líkur sítrónukjúllanum frá Hönnu og Stínu.

Grískur kjúlli og kartöflur
Kjúklingur í bitum
4-5 miðlungs kartöflur
Salt og pipar eftir smekk
1/4 bolli olívuolía
1/4 bolli brætt smjör
Safi úr einni sítrónu
2 msk þurrkað oregano (ég mæli nú samt með því fersku í miklu magni)

Hita ofninn í 350°F (trúlega um 180°C).
Þvo og þurrka kjúllann.
Skera kartöflur í 3 cm sneiðar
Setja kjúllann og kartöflurnar í ofnskúffu eða eldfast fat
Salta og pipra
Blanda saman olíu, smjöri og sítrónusafa
Smyrja á kjúllann og kartöflur.
Dreifa oregano yfir
Hella restinni af oliu/smjör/safa yfir
Setja álpappír yfir allt saman
Eldað í 1 1/2 tíma og ekki taka álpappírinn af í þann tíma
Hækka hitann í 400°F (rúmlega 200°C) og taka álpappírinn af
Elda í 15 mínútur til viðbótar eða þar til kjúllinn og kartöflurnar eru gullinbrúnar
(Fyrir fjóra)

Svo kemur hér uppskrift af alveg voðalega góðu grísku kartöflusalati

Grískt kartöflusalat
Slatti af kartöflum, skældar, soðnar og skornar í bita (4 miðlungsstórar er í uppskriftinni sem mér þykir voða lítið enda von því að elda í stórum porsjónum)
1/2 bolli steinselja, söxuð (má alveg vera meira)
1/2 bolli laukur, saxaður
1-2 hvítlauksrif
3 msk olívuolía
Safi úr 2 sítrónum
Salt eftir smekk

Salatblöð
Tómatar í sneiðum

Öllu blandað saman.
Kæla
Setja salatblöðin í skál, kartöflurnar ofan á þau og skreytt með tómatsneiðum.
(Fyrir 4-6)

Nóg komið af uppskriftum í bili.

Verð að gera eitthvað, t.d. að finna úr hvernig maður gerir drop down menu með css...
Og að ryksuga oggulítið, undirbúa kjúllann fyrir kvöldmatinn sem verður að vera um sex þar sem ég er að fara að syngja kl. sjö og eitthvað fram eftir kvöldi, fara út sturtu, ganga frá og þvo þvott sem virðist endalaus í að því er virðist botnlausri óhreinatauskörfu. Já það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera BHM...

miðvikudagur, ágúst 06, 2003

Það er eitthvað bölvað vesen hjá Streng þannig að ég get ekki verið með bloggið á mínu urli í bili í það minnsta.
Hér var mikil sorg og sút í morgun. Kisan gaut einum dauðum kettlingi og allir eru voðalega sorgmæddir yfir því. Virðuleg jarðarför fór fram síðdegis, kettlingurinn settur í skreyttan kassa og fékk kross á leiðið sitt. Petra, Katrín og Tristan sungu Þá nýfæddur Jesú og svo var farið með Faðirvorið. Kisan sjálf var heldur aum í morgun en virðist ótrúlega hress þrátt fyrir þetta. Hún gaut í rúminu hjá Petru og aumingja Petra grét af því að hún hélt að hún hefði drepið kettlinginn, en ég sannfærði hana um að svo var ekki. Hann hefði bara fæðst dauður greyið. Tristan vildi meina að hún hefði étið pokann of fljótt, en málið er að kettlingurinn fæddist trúlega dauður eða mjög líflaus. Ef ég hefði vitað að kisan var að gjóta hefði ég kannski eitthvað getað gert en það er endalaust hægt að segja kannski. Það verður bara að leyfa henni að reyna aftur.
Nú þarf ég að drífa mig á kóræfingu fyrir gigg á föstudaginn. Og ég þarf að borða eitthvað...

mánudagur, ágúst 04, 2003

Það virðist eitthvað vesen með að publisha blogginu og í Mozilla er þetta á einhverju óskiljanlegu táknmáli. Óþolandi...

sunnudagur, ágúst 03, 2003

Veðrið undanfarna daga er of gott. Það er ekki hægt að vera úti því það er allt of heitt. Óþolandi heitt. Eða þá að ég er á einhverju hitaskeiði. Mér finnst allavega vont að geta ekki opnað út til að kæla mig. Og svo verður núna að passa að vera ekki með allt opið því þá fyllist húsið af fressköttum sem fróðir segja að bendi til þess að Doppa fari að gjóta fljótlega. Ég hef lítinn áhuga á því að fá fressketti hér inn í nýgotna kettlinga. Ég hef komið að slíku og það var ófögur sjón og slæm lífsreynsla. Horfði á líf kettlings fjara út eftir að fressköttur beit hann hreinlega á háls. Ógeðslegt. Svo nú er fylgst vel með Doppu og reynd að róa undir henni og koma í veg fyrir að aðrir kettir komist hér inn.
Við skötuhjúin vorum með heljarinnar grillveislu á föstudagskvöldið að hætti Goddverja. Veislan var að grískum hætti, grísk jógurtsósa, grískt kartöflusalat og grískt salat með heilgrilluðu íslensku lambi. Mikið gott og mikið gaman. Drukknar margar flöskur af rauðvíni og öðru fljótandi og þrettán manns komust við hringborðið fræga. Myndir af herlegheitunum fara á vefinn fljótlega. Læt uppskriftirnar fljóta með við tækifæri.
Í gær komst ég að því að tölvan mín var illa sýkt af allskonar drasli sem börnin mín hafa einhvern veginn sett inn. Upp poppuðu allskonar ófélegar klámsíður þegar Explorerinn var opnaður og svo fraus einhver rammi fastur í tíma og ótíma. Óþolandi en John hreinsaði svo til og í ljós kom að hans tölva var ekki í betra ástandi.
Nú er ég að hugsa um að skella mér í sturtu og kannski drífa mig í berjamó eða eitthvað með krakkana. John er alveg að klára Hlégerðismúrinn sinn sem lokar okkur frá götulífinu fyrir utan hann. Garðurinn orðinn vin í eyðimörkinni og um leið krefst það þess að maður geri eitthvað í honum annað en ekkert.
Well í sturtu og svo út í þetta allt of góða veður...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter