<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Ég lifi svo hversdagslegu lífið að ég hlýt að teljast hvunndagshetja. Svaf lengi enda vakti ég lengi í gærkvöldi. Ætlaði að gera voðalega mikið í dag, eins og t.d. að taka til og baka. Hef lítið tekið til en John ætlar að ryksuga aðeins á morgun. Kannski óþarfi að vera að taka til dag eftir dag. Það þarf alveg örugglega hvort eð er að þrífa eftir strákaafmælið á morgun. Er búin að búa til risecrispies kökur og baka jógurtmuffins og afmælisköku og nú er perukakan í ofninum. John eldaði þrumugott spagetti á meðan ég bjó til kökur og svo var horft á spaugstofumenn þó mér leiðist þeir nú orðið og svo popppunkt sem mér leiðist aftur á móti ekki.
Ætlaði að skella mér á ljósmyndasýninguna hennar Sillu á Kaffi Nauthól en var orðin allt of sein fyrir og engin pössun fyrir drenginn. Hefði kannski átt að taka hann með en engin gafst tíminn. Veit ekki hvort ég meika að mæta í Kramhúsið á morgun en það fer náttúrlega mikið eftir því hvenær ég vakna á morgun. Þarf að setja á þessi blessuðu kökuræksni og ég ætla að mæta og syngja með Léttum í Húsgagnahöllinni. Afmælið byrjar akkúrat kl. þrjú svo John verður að sjá um það fyrst um sinn og ég tek svo við.
Nú er kakan að verða bökuð og eftir það bara afslöppun með manni og afmælisdreng, stelpurnar gista hjá vinkonum sínum í nótt svo það er viðbúið að kattaranginn verði eitthvað órólegur nú þegar Petra er ekki heima...og nú var Katrín að hringja og hún nennir ekki að gista og er á leiðinni heimi í myrkrinu....

laugardagur, nóvember 29, 2003

Söngskrá Léttsveitar komin í prentun og verður tilbúin á réttum tíma. Á eftir að sjá hvernig Gospellinn gengur upp um helgina.
Ég sé að ég neyðist til að gera eitthvað af viti á morgun, þ.e. að baka eitthvað smáræði fyrir afmæli einkasonarins sem haldið verður upp á á sunnudaginn. Ætlaði mér að mæta í Kramhúsið í smádans á sunnudagsmorguninn og svo ætla ég mér líka að mæta í Húsgagnahöllinna kl. þrjú og syngja. John getur nú alveg séð um að sækja pizzurnar og gefa drengjunum að borða á meðan ég skrepp og syng pínulítið og svo get ég komið og gefið þeim afmælisbakkelsið.
Dagurinn í dag fór svoldið mikið í tölvuhangs, fór í að gera dagatal Hlégerðinga sem ömmur og afar og frænkur og frændur frá í jólagjöf frá krökkunum. Og svo skrapp ég að syngja með Léttunum fyrir Eygló Eyjólfs sem er sextug í dag. Er sammála Ingibjörgu að það kom manni í jólaskap að syngja þarna úti í snjónum, hálfpartinn með kökkinn í hálsinum yfir að sjá hvað Eygló var glöð að sjá okkur og einhvern veginn allt góða andrúmsloftið sem myndaðist fyrir utan húsið hennar í rökkrinu. Mér finnst við einhvern veginn svo góðar allar saman og þá meina ég ekki endilega í að syngja heldur bara í hjartanu. Mér þykir bara svo vænt um allar þessar konur í þessum dásamlega kór. Úff, hvað ég er væmin núna og ekki bætir úr væmninni að hafa fyrir framan mig okkar fallega jólakort sem mér finnst einmitt lýsa Léttsveitinni svo vel. Ég held að ég hljóti að vera orðin syfjuð eða eitthvað.
Verð að fara að skrifa henni Maríu minni þarna í Þýskalandi. Kannsi humma ég það fram af mér af því hún er ekki í stöðugu netsambandi en það er náttúrlega engin afsökun. Úr því ég druslast til að blogga næstum á hverjum degi ætti mér ekki að vera skotaskuld úr því að skrifa til hennar nokkrar línur á hverjum degi. Svo þarf að fara að sinna vinkonum mínum betur en ég hef gert undanfarið. Er ekki alveg að standa mig í stykkinu. En nú er það hátturinn og vakna sæmilega snemma til að gera það sem ég þarf að gera svo sunnudagurinn gangi upp...

föstudagur, nóvember 28, 2003

Það er að verða fastur liður hjá mér að enda daginn á smábloggi. Og yfirleitt er komið fram yfir miðnætti. Þá er ég líka frjóust og með kollinn nokkurn veginn í lagi. Tristan minn átti afmæli í dag og hann fór með Pabba sínum og valdi sér sjálfur afmælisgjöf. Keypti risastóran bolabít, átti annan lítinn fyrir og nú á hann feðga. Inga amma kíkti svo í heimsókn og gaf honum körfu fulla af nammi sem hún hafði unnið í bingói í Hveragerði og 4 þús. kr. sem fara beint í bankann. Nú er verið að safna fyrir Ameríkuferð sem fjölskyldan fær í jólagjöf frá Fröntzurum. Ekki slæmt að fá farmiða til Bandaríkjanna í jólagjöf. Stefnt er á að fara í kringum páskana og vera í allavega hálfan mánuð. Fyrst til Kristínar í Washington og svo til San Fransico til Maríu. Ég er nú búin að vera svoldið sveiflandi í sambandi við þessa ferð, langar ekkert sérstaklega til Bandaríkjanna í þessum síðustu og verstu tímum, en svo kemur í ljós að Hrund fær líka ferð til USA í jólagjöf og þá er einn fullorðinn á barn. Ekki veitir af að líta eftir þessum börnum svo maður hreinlega týni þeim ekki í þessu risastóra, truflaða landi.
Góð kóræfing í kvöld og ég held að hugljúf gleði sé að smella inn. Þarf bara að hlusta á spóluna einu sinni, tvisvar og þá er verður þetta fast. Eftir að ég fór að fatta hvenær nótur fara upp og hvenær þær fara niður eru ég miklu lengur að sleppa þessum nótum. Hér áður bara lærði ég lagið eins og páfagaukur og gekk bara vel að henda frá mér nótunum um leið ég var búin að læra textann, en núna hangir ég í nótunum fram á síðasta dag ef ég er ekki með þetta á hreinu. Veit ekki hvort er betra. Ekki það að ég sé orðin svo klár að ég geti sungið lag beint eftir nótum, en ég get svona nokkurn veginn fylgt þeim. Ég er allavega búin að læra það eftir 8 ára veru í kór. Næsta skref væri kannski að reyna að læra nöfnin nótunum og hvar þær sitja á línunum. En það er voðalega erfitt. Börnin mín fara létt með að læra þetta en ég...úff...ekki alveg að ganga.
Söngskrá Léttsveitarinnar fer í prentun á morgun. Bara smá spurning um stafsetningu á Santa Lucia og þá er þetta komið. Gospelsöngskráin vonandi að smella og verður að komast í prentun á mánudag í síðasta lagi. Hefði þurft samt að fara á morgun en það gengur ekki upp. Vantar enn fullt af efni í hana. Alltaf allt á síðustu stundu en gengur þó yfirleitt upp.
Verð með barnaafmæli hér á sunnudaginn og þá er síðasta afmæli ársins frá. Stefnt á að vera með skötupartý hér 12. des. áður en Inga og Jón fara til USA. Ferð þá líka að vera búin að kaupa jólagjafir sem eiga að fara þangað. Geri kannski eitthvað um helgina eða í næstu viku. Og svo þarf ég líka að fara að huga að jólagjöfum til Danmerkur. Svona er þetta þegar allt manns skyldfólk býr erlendis, þá þarf að hugsa um þetta löngu áður en ég er tilbúin til þess að setja mig í jólastellingar.
Og nú ætla ég snemma í bólið miðað við síðustu daga...

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Svaf lengi frameftir í morgun. Ætlaði hreinlega ekki að hafa mig upp úr rúminu, það var eitthvað svo gott að liggja bara og dorma. Og um leið og ég var sest fyrir framan tölvuna - það er ákveðin rútína á mér þegar ég vakna, kaffi og sígó og tölvan - mundi ég allt í einu eftir því að Gunnsa hafði boðið mér í fiskabollur í hádeginu. Hringdi í hana og lét vita að mér mundi seinka eitthvað. Borðaði hjá hennar þessar líka fínu fiskabollur og svo var kjaftað og kjaftað og hlustað á jóladiska og kjaftað meira. Ég var í allavega tvo tíma að koma mér heim. Var að hugsa um að skella mér aðeins á æfingu hjá Gospel og hlusta á prógrammið hjá þeim en nennti því svo ekki. Svo var ég líka að hugsa um að skella mér á tónleika hjá Strætókórnum en nennti því svo heldur ekki. Lagðist bara yfir ER og enn meiri leti. Tristan og Katrín útbjuggu boðskort í afmæli Tristans sem verður haldið á sunnudaginn þó hann eigi afmæli á morgun þessi elska. Hann vill frá þrímótorhjól svona fjarstýrt í afmælisgjöf hvað sem það nú er. Er nú samt frekar að hugsa um að gefa honum hjól eða þá að ég geymi það til jóla. Það er með ólíkindum hvað hún Katrín mín er klár í að búa til allskonar dót í tölvunni. Hún gerir heilu myndasýningarnar í powerpoint og um daginn hlustaði ég á hana þar sem hún var útskýra fyrir vinkonu sinni hvernig ætti að breyta litum á heimasíðu. Alveg með kóðann á hreinu. Og ekki hef ég verið að kenna henni. Ótrúlega klárir þessir krakkar.
Kóræfing á morgun og söngskráin alveg að komast á hreint svo hægt verði setja hana í prentun á föstudaginn. Fékk laganiðurröðun frá Jóhönnu og nú vantar bara að Védís skrifti skemmtilegan inngang eins og henni einni er lagið. Sem sagt allt að smella og vona líka að hugljúf gleði smelli inn á morgun. Hlakka til að syngja á þessum tónleikum Léttsveitarinnar.
Ég verð nú að segja það alveg eins og er að ég er farin að sakna hennar Maríu svoldið mikið. Ég er fjandanum lélegri í að druslast til að skrifa henni mail, jafn slæm við það og ég er dugleg að blogga. Ekki gott að koma sér ekki í það að skrifa vinum sínum í útlöndum.
John keypti ný dekk undir bílinn minn í dag svo nú er ég fær í flestan snjó...

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Æ þetta var ljúf og góð æfing þó ekki kunni ég nú Hugljúfu gleðina almennilega en þegar maður kann allavega 6 línur af 10 hlýtur af vera hægt einhvern veginn að koma því inn fyrir tónleika. Textarnir eru allir að koma svona smátt og smátt og verða ábyggilega komnir fyrir tónleika líka. Anna Pálína var frábær. En ég þarf að reyna að sætta við mig árans hummið í Litla jólabarn. Það er bara fjandanum erfiðara að humma svona lag. Mér finnst líka sópraninn fá að syngja alveg nóg þó þau fái ekki heil tvö erindi í þessu lagi. Væri ekki ráð að fara að láta sópraninn humma eitthvað, hmmmmmmmmmmm....úff ég andvarpa bara. En auðvitað lifi ég þetta af eins og allt annað. Þrátt fyrir hummið og of mikinn sópransöng og of litla kunnáttu í hinni hugljúfu gleði er ég að komast í jólaskap. Við syngjum líka orðið eitthvað svo angurvært og mjúkt eða er það bara ég sem er hætt að þenja mig. Vonandi að söngtímarnir skili sér eitthvað í betri tilfinningu fyrir laginu og breiðara raddbili og lagi aðeins raddbeitinguna. Kannski kemst ég í sópraninn þegar fram líða stundir og þá hætti ég vonandi líka að vorkenna okkur hinum sem ekki fáum að syngja öll lög og þurfum bara að humma, ha.
En ég er líka búin að sjá það að ég hefði betur sleppt því að hætta að bera út Fréttablaðið. Nú hef ég á tilfinningunni að ég sé að hlaupa í spik af nákvæmlega engri hreyfingu. Þó að ég telji það sem hreyfingu að labba upp nokkrar tröppur á klósettið og niður nokkrar tröppur í þvottahúsið oft á dag þá er það nú trúlega ekki nóg. En það var bara svo assk...leiðinlegt að vakna svona fyrir allar aldir. Það var eiginlega það sem gerði útslagið að ég nennti ekki þessum útburði lengur. Það er nefnilega voðalega erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og ég er löngu búin að gera mér það ljóst að minn tíma er upp úr miðnætti en ekki í morgunsárið. Það er sagt að það sé miklu hollara að vera vakandi í birtunni á morgnana eða eitthvað álíka en á þessum tíma árs er alveg sama á hvaða tíma maður vakir eða sefur það er alltaf niðamyrkur úti. Að vísu birtir nú aðeins þegar blessaður snjórinn er kominn, vonandi til að vera. Mér finnst snjórinn æðislegur og ég man eftir því hvað það var alltaf falleg á Selfossi þegar snjóaði. Þar voru götur ekki saltaðar og því kom ekki þessi ógnardrulla eins og kemur eftir saltburð. Það var líka einstakt fyrirbæri þegar frysti og öll tré hrímuðu. Þeir sögðu að það væri vegna rakans frá ánni og það getur vel verið rétt. Allavega var það einstaklega rómantískt og huggulegt. Af hverju dettur mér allt í einu Selfoss í hug þegar minnst er á snjó. Veit ekki.
Það eru einhver hljóð í húsinu núna sem ég veit ekki hvaðan koma. Veit ekki hvers konar hljóð þetta er en eitthvað sem ég er ekki vön. Best að reyna að finna út úr því og koma sér svo í hlýtt bólið...

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Úti er alltaf að snjóa...dásamlegur þessi snjór og ekki væri verra ef vetrardekkin væru komin undir bílinn. En ég er orðin gömul og gleymin og þegar ekki er snjónum fyrir að fara gleymast vetrardekkin og svo er ég búin að gleyma því síðan í janúar að fara með bílinn í skoðun. Úff, þetta minnisleysi er mig lifandi að drepa.
Ætti að vera búin með dagskammtinn af tölvuhangsi og kominn tími á tiltektarskemað. Úff, erfitt að fylgja því. Söngskrárnar komnar af stað og þær ættu að klárast fyrir föstudag.
Kóræfing í kvöld, gaman, gaman. Söngurinn léttir andlega heilsu, allavega mína. Vonast til að fá kannski einn söngtíma hjá Möggu fyrir jól. Hef dásamlega gott af því að reyna aðeins á raddböndin og reyna að anda eftir pöntun. Snallinn minn á afmæli á fimmtudaginn og eitthvað verður að hugsa um hvað hann á að fá í afmælisgjöf. Þarf að útbúa boðskort í afmælisveisluna á laugardaginn.
Og nú er að drífa tiltektina af og ganga frá þvotti...

mánudagur, nóvember 24, 2003

Haldiði ekki að ég hafi næstum því farið eftir tiltektarskemanu mínu fína í dag. Í fyrsta skipti. Tók allavega saman dótið í herbergjum krakkanna en gangurinn var ekki í miklu drasli svo það var lítið að þrífa þar. Á morgun er það svefnherbergið og baðið. Þarf að vísu eitthvað að endurskoða þetta fína skema þar sem það virðist ekki alveg vera að ganga upp. Veit ekki hvort það er uppsetningunni að kenna að ég næ aldrei að fara eftir þessu en þá má alveg reyna að eyða smátíma í að stokka þetta upp á nýtt.
Annars var þetta einn af þessum dögum þegar ég geri ekki annað en að keyra á milli staða til að gera hluti sem hafa setið á hakanum að gera einhverra hluta vegna. Byrjaði á því að ná í Léttsveitarplakatið í prentsmiðjuna, svo í Flex með armbandið sem ég ætlaði að kaupa af Kristínu en hætti við, svo í Kringluna til að tékka á hvort nýju vörunar væri komnar í Xs sem þær voru ekki, kaupa kattareyri og hálsól fyrir Petru fyrir skólagrímuball sem verður á fimmtudaginn, svo í Byko að kaupa krana á ofninn í ganginum en var í vitlausu Byko og keyrði svo framhjá innkeyrslunni þangað og ákvað því að fara þangað í bakaleiðinni sem ég náttúrlega gleymdi. Svo í Smáralindina að sækja jóladagatöl fyrir krakkana í Íslandsbanka og ná í eitthvað jelly stick sem var í einhverri fjórkippu af kók og leita að vettlingum á Petru í öllum búðum á leið okkar í Kringlu og Smáralind, en engir fundust réttu vettlingarnir.
Svo dreif ég mig nú heim eftir þetta bæjarráp og fór yfir ítölskuna fyrir tímann í kvöld, lærði sem sagt heima í fyrsta skipti og nú get ég pantað alveg endalaus á veitingastöðum Milanó. Og nú nenni ég ekki meiru...
Hvernig var nú aftur máltækið það eitthvað ....við einteiming. Það var í kollinum rétt áðan en er dottið út. En þetta máltæki átti allavega við um þurrkarakaupin hér í Hlégerðinu. Við keyptum þurrkara í Elko og komum með hann hingað heim. Voða spennt að fá nýtt tæki, ég er verulega tækjasjúk, en um leið og lokið er tekið af kassanum kemur í ljós að þurrkarinn er illa skemmdur. Svo hann var ekki einu sinni tekinn úr kassanum. Vaknaði því snemma á laugardagsmorguninn til að skila þurrkaranum. Fyrst að skila honum fyrir aftan Elko, svo að ná í nýja afgreiðslunótu í Elkó og fara svo og ná í hann á lagerinn sem er fyrir neðan Byko. Hversu flókið er hægt að gera einfalda hluti. En það hafðist í annari tilraun að fá heilan þurrkara og nú hefur hann gengið hér alla helgina voða flottur og fínn. Og um leið og fór að minnka í óhreinatausdallinum kom í mig smá auka orka og ég kláraði að þrífa stofuna og ganginn. Nennti að vísu ekki að skúra en það má bíða þar til ég nenni því.
Svo það var hægt að horfa á idolið í nýryksugaðri stofunni og minn nýbakaði eiginmaður kom mér verulega á óvart þegar hann ákvað að greiða sínum manni atkvæði!!! Og inn komst hans idol og minn maður því glaður.
Uppgötvaði í morgun að börnin mín hafa verið að fikta í stillingunni á tölvuskjánum og ég sem var loksins búin að hafa það af að stilla hann eins og ég vild hafa hann og nú er hann aftur til vandræða. Það er næst á dagskránni að fá sér almennilegan flatan tölvuskjá sem sýnir liti aðeins réttar en þessi drusla gerir. Því miður eru allt of marg sem er ofar á dagskránni en tölvuskjárinn þó hann sé að verða algjört möst. Mig langar í nýtt sjónvarp en fæ það víst ekki fyrr en það gamala druslast til að bila eða þá að breiðbandið kemur í húsið sem getur nú víst dregist. Mig langar í nýjan bíl þó minn yndislegi Space Wagon standi alveg fyrir sínu. En mig langar bara í annan svoleiðis sem er aðeins nýrri. Svo langar mig í amerískan ísskáp og þannig mætti endalaust telja.
Dreif þó í því dag, ennþá á aukaorkunni að rífa upp gólfteppin af stiganum niður. Ég átti nú alveg eins von á því að það tæki einhverja daga en ég ruslaði þessi af á innan við hálftíma. Svo nú er stiginn ber steinninn og eitthvað verður að gera. Þannig væ ég líka yfirleitt mínu fram. Ég er búin að tala um það lengi við litlar undirtektir að gera eitthvað við þennan stiga en nú þegar ég er búin að rífa teppið af er jafnvel útlit fyrir að eitthvað verði gert í málinu. Eins var þetta með tölvuherbergið. Það var hreint út sagt hryllingur, eldgamalt teppi á gólfinu og það hafði ekki verið málið síðan elstu menn muna þegar ég tók mig til og reif af því teppið og byrjaði að mála. Þá tók John við sér, keypti kork á gólfin og lét smíða borð og keypti hillur og nú er tölvuherbergið algjörlega frábært.
Svo var það loftið í stofunni. Ég var búin að tala um það nánast síðan að við fluttum hingað inn að ég vildi mála loftið hvítt. Vildi samt fá fagmann í verkið og nú þegar Arne er búin að mála það er John náttúrlega voðalega ánægður og segir að við hefðum átt að gera þetta miklu fyrr. Þannig að ég er nú endanlega farin að þekkja minn mann. Hann nennir ekki að byrja á neinu en ef ég byrja þá klárar hann. Að vísu málar ekki, það er mitt mál, en ég læt hann mála loftin og hann gerir það. En nú er ég búin að ákveða að mála eldhúsið og ganginn niðri fyrir jól. Honum finnst það algjör óþarfi en verður örugglega voða ánægður þegar það er búið.
Næsta vika fer í að gera söngskrár og halda svo upp á afmæli Tristans og svo er bara að drífa í að framkvæma hlutina. Tvennir tónleikar inn á milli eru allt í lagi.
En nú er best að drífa sig í háttinn, þarf að fara aðeins yfir ítölskuna fyrir annað kvöld og læra nokkra texta sem ég kann ekki fyrir æfinguna á þriðjudaginn. En það geri ég eftir góðan svefn...

föstudagur, nóvember 21, 2003

Þá er það komið í ljós að þurrkarinn minn er ekki viðgerðarinnar virði. Svo nú bíð ég eftir John svo við getum farið að finna nýjan þurrkara fyrir þetta óhreinataushlaðaheimili. Ekki seinna vænna svona rétt fyrir lokun á föstudegi. Ekki að þetta gæti ekki beðið til morguns en nú er ég búin að vera án þurrkara í heilar tvær vikur og alltaf bætist við óhreinataushlaðann þó ég reyni að þvo öðru hvoru og hengja upp. Það er bara svoddan bölvað vesen. Miklu auðveldara að stinga þessu í þurrkarann og geta brotið saman samdægurs. Sá gamli var ódýr og einfaldur og hefur enst í heil 7 ár miðað við daglega notkun og þá meina ég líka allan daginn. Svona er þetta nú hér á þessu heimili.
Ekkert gengur að laga til. Horfi bara á draslið og er eiginlega alveg sama. Þurkkaði að vísu aðeins af í gærkvöldi og ætlaði svo að klára í dag að ryksuga og svona hér í stofunni og skúra kannski aðeins yfir óhreint eldhúsgólfið, en svo fór ég það að klára Frey og koma honum í prentsmiðju, keyra Petru á skauta sem var svo lokað og þá að finna ZikZak í Grafarvogi sem tók nú tímann sinn þar sem ég rata ekkert í þessum Grafarvogi, síðan í Kringluna að skoða buxur með Petru og vinkonum hennar sem ætluðu á skauta, leita að pastadiskum sem varla fást í nokkurri búð, aftur til baka í Kringluna þar sem Petra fann bolinn sem hana langaði til, versla pínsupons í Hagkaup fyrir kvöldmatinn og nú á að drífa sig í þurrkarakaup. Ætlaði reyndar með draugaseríuna í viðgerð en gleymdi því náttúrlega. Ég get ekki munað eftir öllum hlutum sama daginn. Svona gengur dagurinn stundum, John kominn og út í búð, núna...

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Jæja, þá eru báðar auglýsingarnar sem ég var að gera komnar í prentun. Eitthvað var nú Destillerinn enn að bögga mig í dag, pdf skjölin allt of lítil. Fékk nýjar í gær 5.0 og hélt nú að hann væri eitthvað skárri sem hann nú reyndar var en gerði ekki það sem ég vildi að væri gert. Fór því með skjölin á diski í tiff formi risastór og Oddur reddaði þessu og þetta kemur vel út, þ.e. ef bakgrunnurinn á Gospelplakatinu kemur eins og ég vil hafa hann. Uninstallaði síðan destillernum aftur og innstallaði upp á nýtt, en lítil breyting. Þá hætti Photoshop allt í einu að virka svo ég þurfti að taka það út líka og setja inn upp á nýtt. En nú er ég búin að fatta hvað ég var að gera vitlaust, ég vona það allavega. Svo að þetta verður vonandi í lagi þegar ég þarf að keyra út söngskrár. Þeir mega eiga það í GuðjóniÓ að það er frábært að koma þangað og þeir gera allt fyrir mann sem beðið er um og meira til.
Fór með Petru í Kringluna að leita að buxum. Hún er við sama heygarðshornið blessunin, veit alveg hvað hún vill ekki en alls ekki hvað hún vill. Engar buxur fundust í þessari ferð en von á fullt af fötum í XS á morgun. Petra ætlar aftur á móti á skauta á morgun svo við verðum að fara á þeim tíma sem henni hentar.
Dagurinn að öðru leyti ágætur. Las viðtalið við Bimbu í gær í Nýju lífi. Jákvæð og skemmtileg Bimba eins og alltaf. Það er leitun á betri konum eins og segja má reyndar um flest allar Léttsveitarikerlingarnar.
Alveg dáyndis skemmtilegur kór. Og svo er kóræfing á eftir og gott að ég mundi eftir henni.
Og nú er mér ekki til setunnar boðið...

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Skilaði af mér miðum í gær, bæði fyrir Gospel og Léttsveit. Örlygur var á sínum stað og skar fyrir mig miðana með gleði. Frábær kall hann Örlygur enda náfrændi minn þó ég hafi nú ekki vitað það áður en ég fór að vinna með honum.
Og nú tekur við að koma frá sér auglýsingum. Og það er ekki heiglum hent. Andsk...destillerinn er með eitthvað bögg og stundum get ég prentað inn í hann og stundum ekki. Hef ekki hugmynd um hvað er að og er að fríka út á þessu veseni. Get engan veginn náð auglýsingu Léttsveitarinnar inn í destillerinn og held að ég endi með að skila þessi í tiff formi til að redda mér fyrir horn. Enn og aftur andsk...
Jólalögin komin inn á vefinn og nú er bara að fara að læra þessa texta. En einhverra hluta vegna virðist ég aldrei muna eftir því að hlusta á spólurnar sem ég tek upp og heldur ekki að setja ítölsku diskinn á svo ég læri eitthvað í þessari blessuðu ítölsku. Tek eftir því að ég þarf eiginlega að læra þetta eins og páfagaukur sem er nú ekki nógu gott. Verð að reyna að ná tilfinningu fyrir þessu skrítna tungumáli.
Vakti allt of lengi frameftir í gær. Við Hrund sátum hér á kjaftasnakki og ræddum um allt milli himins og jarðar út frá bókinni hennar Lindu. Mér þykir nú ósköp vænt um þessa stóru stelpu mína og hún getur ekki án mín verið en það er ekki oft sem við spjöllum svona saman bara við tvær. Synd og skömm.
Vegna vöku minnar í gær svaf ég náttúrlega allt of lengi og næ engan veginn að gera allt það sem ég ætlaði að gera í dag. Var búin að lofa Petru að fara með henni til að kaupa buxur en verð að fresta því til morguns. Húsasmiðjumenn ekki enn komnir í það að athuga þurrkarann minn. Ég verð allavega að vita hvort hann er ónýtur eða hvort hægt er að gera við hann. Ekkert grynnkar á óhreinataushlaðanum í þvottahúsinu.
Svo dreymdi mig einhverja óheyrilega vitleysu í nótt. Fyrst var búið að ræna öllum mínum bráðnauðsynlegu heimilistækjum, þ.e. tölvunni, sjónvarpinu, vídeóinu, myndavélinni og græjunum. Asskotans vesen og ég sem hafði ekki tekið backup af auglýsingunum og sá fram á að þurfa að gera það allt upp á nýtt. Síðan var ég allt í einu stödd hjá einhverjum frábærum konum sem ég þekki ekki neitt sem voru að hanna einhverja undarlega skó og flíkur sem geta varla verið til í þessum heimi. Ég var alveg uppnumin af þessu dóti þeirra, prófaði skóna sem var enn undarlegra að vera í en horfa á þá. Og einhverjar fleiri konur voru þarna og allar voru þær með barni. Og ég fann fyrir ákveðinni öfund í garð þessara kvenna að eiga von á nýjum einstaklingi en um leið var ég fjarska glöð fyrir þeirra hönd vitandi hverslags dásemd það er að ganga með börn. Eins og ég segi þetta var nú meiri vitleysan allt saman. Á ekki von á að þetta tákni nokkurn hlut, nema einhver sé góður í að ráða drauma. Endilega látið mig þá vita.
Og nú er mér kalt á tásunum og þarf að finna mér hlýja sokka, taka upp þriðjudagskvöldið af skjá einum, sem ég gleymdi að taka upp í gær og kannski reyna að gera eitthvað annað en pirra mig á þessari tölvu minni sem er hægvirkari en allt þegar skjölin verða þung. Og bíða eftir því hvort John getur reddað þessum destiller svo ég geti sett hann aftur inn og fengið hann til að virka eins og hann á að virka. Og kannski ég skreppi í sjoppuna og kaupi nýtt líf og lesi viðtal við Bimbu eftir því sem kemur fram á bloggi Ingibjargar.
Og svo kemur í ljós að þessi litli, sæti söngvari í idolinu var ekki bara að syngja í afmælinu hennar Kristínar Einars heldur er þetta sonur hennar.!!!

mánudagur, nóvember 17, 2003

Allora, allora...Var að koma úr ítölskutíma. Hefði nú þurft að læra betur heima en hvað með það. Þetta kemur allt saman. Og nú þarf ég að senda á Léttsveitina um hana Margréti sem kennir okkur ítölskuna. Hún getur trúlega bætt við sig nemendum eftir áramót. Mæli með henni.
Sit hér við tölvuna og prenta út aðgöngumiða fyrir ferna jólatónleika. Þarf að fara með þá í skurð á morgun. Vona að Prenttækni sé enn við lýði og Örlygur standi enn við skurðarhnífinn til að hjálpa mér hvenær sem mér dettur í hug.
Tristan aftur orðinn lasinn. Endalaus flensa hér í gangi. Hann er með bullandi hita og voða slappur þessi litli angi minn. Mér líður alltaf hálfilla þegar börnin mín verða veik. Vil helst hafa þau uppí hjá mér svo ég geti fylgst með þeim yfir nóttina. Hisería, so...
Vinstri bringan á mér er eitthvað skárri en í gær. Hef ekki hugmynd um af hverju þessi verkur stafar en slæmur var hann og er enn. Músarúlnliðurinn að skreppa í lag enda sleppti ég því næstum alveg að hanga í tölvunni allan sunnudaginn. Það er vel af sér vikið. Tölvan er mín besta afsökun fyrir því að gera ekkert og þá meina ég ekkert. Get alltaf fundið mér eitthvað til dundurs í þessari tölvu. Ef það er ekkert sem ég þarf að gera legg ég sama kapalinn aftur og aftur og aftur...Þetta er náttúrlega bilun.
Eldaði meiriháttar fiskibollur í karrísósu í kvöldmatinn, uppáhaldsmat Tristan, og svo gat hann ekkert borðað fyrir slappleika. En við John borðuðum yfir okkur.
Fatahengið komið upp í ganginum en mér sýnist að börnin mín hengi ekkert úlpurnar sínar frekar upp þó þetta fína hengi sé komið sérstaklega fyrir þau. Úlpurnar lenda enn á gólfinu eða í einhverjum stólnum. Ótrúlegir draslarar þessi börn mín. Skil ekki hvaðan þau hafa þetta. Ekki frá mér.. og þó...
Ég er óvinnufær og get varla pikkað á þessa tölvu hvað þá meir. Ég veit ekki almennilega hvað er að hrjá mig en fyrir utan það að vera með músarúlnlið er ég með verki í vinstri handleggnum sem ég hef ekki hugmynd um af hverju er þarna. John heldur að þetta séu harðsprerrur af því að tína upp drasl af gólfinu í þremur barnaherbergjum. Það gæti svo sem allt eins verið, nóg er þar af draslinu, en sú skýring fær ekki staðist þar sem ég er ekki örfhent. Ég held bara að þetta sé ellin sem er að fara með mig. En þessi verkur lýsir sér samt eins og harðsprerrur. Á erfitt með að lyfta handleggnum upp og get ekki haldið á neinu. Þannig að það má eiginlega segja að ég sé handlama, hvorugur handleggur funkerar eðlilega.
Ég fékk síðbúna afmælisgjöf frá Hrund í kvöld, bókina hennar Lindu. Og ég sem les aldrei neitt er búin með bókina. Ég er reyndar yfirleitt þannig að ef ég byrja á að lesa bók þá klára ég hana samdægurs. Ágætisbók. Las reyndar líka hina bókina sem Reynir Traustason skrifaði um Sonju eitthvað (man ekki eftirnafnið hennar) og hún var svo sem allt í lagi líka þó að sú saga hafi nú ekki snert mig eins og bókin um Lindu. Að vísu á ég erfitt með að setja mig í spor alkahólistans. Ég fatta ekki alveg hvers vegna fólk getur ekki stjórnar drykkju sinni eða dópneyslu. Trúlega vegna þess að ég er ekki alkóhólisti. Fyrrverandi sambýlismaður minn sem var bæði alki og dópisti sagði við þegar hann hringdi í mig eftir að hafa sjálfur verið edrú í 5-6 ár til að biðjast afsökunar á því hvað hann hefði verið vondur við mig (sem er víst hluti af aa) að munurinn á mér og honum þegar við vorum saman í sukki hefði verið sá að ég fékk alltaf nóg eftir ákveðinn tíma en hann vildi halda endalaust áfram. Getur verið rétt. En ég virði það þegar fólk sem á við einhverja fíkn að stríða gerir eitthvað í sínum málum. Og ég er mjög þakklát fyrir það að þurfa ekki að glíma við þetta vandamál. Það má nú samt segja að ég glími við fíkn þar sem reykingar eru annars vegar. Einhvern veginn tókst mér að hætta að reykja í tæp átta ár og skil ekki af hverju ég byrjaði aftur vitandi hvað það er erfitt að hætta. Hver hefur sinn djöful að draga, segi ég og kveiki mér í sígarettu.
Nú verð ég að koma mér í rúmið, vona að handleggirnir skáni á meðan ég sef og ég verði vinnufær á morgun. Þarf að kaupa pappír í miða fyrir Léttsveitina
og gera eitthvað af því sem ég þarf að gera í miða og plakatmálum.
Fór í dag í Ikea með John og Tristani og keypti fatahengi í ganginn. Svo nú get farið að koma einhverju skipulagi á þennan gang sem alltaf er fullur af úlpum og skóm út um allt. Keypti líka ruslafötu og mottu á baðið og ljós á ganginn niðri. Svo kemur einhver á morgun og reynir að gera við þurrkarann minn. Ég get illa án hans verið.
Keyrðum líka framhjá húsi einu við Víðihamm í Kópavogi sem innheldur tvær íbúðir en komst að því að þar er lóðin svo lítil að það féll ekki alveg að mínum þörfum. Er orðin svo von stórri og góðri lóð að nú get ég ekki án hennar verið. Pæling um annað hús er aðallega í gangi vegna þess að Kristín systir Johns er að hugsa um að vera hér kannski í tvo mánuði á sumrin og þá væri auðvitað sniðugast að hún ætti bara litla íbúð hér. En okkur líður vel hérna í Hlégerðinu og langar ekkert til að flytja héðan. Væri frekar ráð að byggja hér við svo hér væri gestaherbergi fyrir öll þessi systkini okkar sem búa erlendis...

laugardagur, nóvember 15, 2003

Oh, hvað ég er glöð yfir því að minn maður hafi slegið öll atkvæðamet í idolinu. Hann söng náttúrlega eins og engill Wonderful tonight. Algjör dúlla og hefur ekkert fyrir því að syngja. Hann fékk mitt atkvæði og reyndar líka stelpan sem var önnur. Ég þoli ekki Celine Dion en þessi stúlka söng heldur ekkert eins og hún þó hún hafi sungið lag sem Celine hefur sungið.
Og svo er ég líka glöð með sjálfa mig að hafa klárað að þrífa uppi. Taka til inni hjá Petru og ryksuga og skúra svefnherbergið, baðið og ganginn. Frábært. Nú er bara stofan, eldhúsið, tölvuherbergið og gangurinn á morgun og þá get ég kannski farið að fara eftir þessu frábæra tiltektarplani sem ég gerði. Við sjáum til. Það hefur nú ekki gengið hingað til.
Er komin með sinaskeiðabólgu í hægri hendina eða réttara væri að segja músarúlnlið. Er búin að vera í tölvunni allt of lengi í dag og þá gerist þetta stundum. Nú er bara að finna teygjubandið og smeygja um úlnliðinn og athuga hvort þetta skánar ekki.
Þarf að drífa af þessa aðgöngumiða alla saman um helgina. Fara á morgun og kaupa pappír í Léttsveitarmiðana og reyna að hafa þá tilbúna fyrir þriðjudaginn.
Tristan er búin að reita af sér brandara í allt kvöld og hlær mest af þeim sjálfur. Allir búnir að borða allt of mikið af nammi. Það var sem sagt kósí í kvöld eins og krakkarnir kalla það. Katrín hætti við að gista hjá Sunnu vinkonu sinni svo hún missti ekki af kósíinu. Petra er með gelgjustæla og heldur að hún eigi að stjórna heiminum. I love these kids...

föstudagur, nóvember 14, 2003

Ég er búin að vera í Frey í allan dag. Skanna inn myndir, færa greinar og fylla upp í göt. En nú er þetta blað svona næstum því að verða búið. Vil endilega klára það sem fyrst, nenni ekki að hanga yfir því lengi í viðbót. Ég er ennþá í náttfötunum en ætla að koma mér í föt enda kannski ekki seinna vænna klukkan orðin hálf fimm.
Ætla að reyna að klára að taka til á efri hæðinni svo það sé búið. Sýnist að ég þurfi eitthvað að taka upp úr gólfum hjá Katrínu. Hún er ótrúlega ódugleg við að ganga frá í sínu herbergi. Svo er það Idolið í kvöld og þetta er fyrsta föstudagskvöldið sem ég er heima til að geta greitt atkvæði. Það er líka fínt því í kvöld verður minn uppáhaldsgaur. Lítill og sætur og krúttlegur og syngur eins og engill. Held að hann hafi verið sá sem söng í afmælinu hjá Kristínu í sumar, þó að ég sé ekki viss. Held bara áfram að halda það þar til annað kemur í ljós.
Ræddi aðeins við Maríu, fyrst á msninu en við þurfum að segja svo mikið eða réttara sagt hún að hún hringdi. Þau verða í Noregi fram yfir helgi og svo tekur alvaran við. Vona að þetta gangi allt saman vel og þau verði ánægð í Þýskalandi. Þó ekki of lengi. Vil fá þau heim sem fyrst.
Ég held að ég drífi mig núna í tiltektir sem eru eins og oft hefur komið fram endalausar á þessum bæ, slappa svo af yfir idoliu og knúsa manninn minn og fæ gott hugg frá grísunum...
Hugsa sér hvað ég er búin að afreka á heilum tveimur dögum. Laga til í tveimur barnaherbergjum og þá meina ég laga til. Fara í gegnum allskonar kassa og dollur og raða bílum í einn og körlum í annan, barbífötum í einn dallinn og Bratzfötum í hinn. Og skúra og skipta á rúmum. Nú er bara eitt stykki barnaherbergi í viðbót sem þarf að fara ærlega í gegnum og um og þá er restin af húsinu létt verk. Skil ekki af hverju ég geri þetta ekki reglulegar og þá væri þetta miklu minni dæmi en ég bara nenni því ekki. En nóg um tiltektir. Þetta gerir sig víst ekki sjálft og óþarfi að æsa sig yfir því. Bara eitthvað sem ég vildi að einhver annar gerði fyrir mig.
Er enn að hugsa um viðtalið við Lindu Pé í gær hjá Sirrí. Mér hefur alltaf fundist hún svoldið mikil með sig og fílaði Hófi miklu betur á sínum tíma. En ég algjörlega skipti um skoðun á henni í gær eftir þennan þátt. Hún var ótrúlega einlæg og opin. Ég man eftir því að fyrir mörgum árum sá ég hana og umræddan Les í Hagkaup. Þau voru voðalega sæt saman, hún náttúrlega okkar alheimsfegurðardrottning og hann ótrúlega myndarlegur. Held að ég hafi einmitt hugsað eitthvað á þá leið að sumt fólk kæmist í gegnum lífið án þess að hafa nokkuð fyrir því. Bæði svo voða sæt og hugguleg og ættu allt sem hægt væri að eiga. Og svo kemur bara í ljós að þessi gæi var algjör skítur. Já, oft leynist flagð undir fögru skinni. Og í gær hreinlega dáðist ég að Lindu að þora að koma fram fyrir alþjóð og segja frá þessari ömurlegu lífsreynslu. Hef svo sem sjálf í mínu lífið lent í svona kúgun af einhverju tagi, en aldrei neitt í líkingu við það sem hún lýsti í gær. Sterk kona, Linda.
En nú held ég að ég tuðri mér í svefn. Þarf að vakna í fyrramálið og leiðrétta Frey og svo þarf að ég að fara að huga að plakati, söngskrá og miðum fyrir bæði Gospel og Léttsveitina. Held að ég sé að komast að einhverri niðurstöðu með þetta allt og þarf að klára þetta í næstu viku í síðasta lagi. Svo þarf að ég að muna eftir því að setja keywords inn á standup vefinn svo hann finnist á leitarsíðum. Annars virðist vera að koma einhver kippur í sölunni á standup og vonandi fer eitthvað að rætast úr þessu. Það tekur einhvern tíma að ná þessu upp aftur eftir þennan skítalabba sem ætlaði að selja þetta. Fer ekki nánar út í það nema hann er algjör drulluhali og jaðrar við að vera siðblindur. Svik og prettir í allar átti.
Heyrði aðeins í Þóru í dag. Við ætluðum nokkrar Léttur að hittast hjá henni annað kvöld til að spila en erum allar eitthvað uppteknar. Nútímakonur í hnotskurn. En við reynum að finna einhvern annan góðan dag til að spila og kjafta. Er ég glöð að heyra í Þóru aftur eftir svona langan tíma. Vil helst að hún komi aftur í Léttsveitina og hætti að halda því fram að hún geti ekki sungið lengur. Og heyriru það!!!
Þarf að fara að skipuleggja mig betur svo ég komi einhverju í verk. Nenni ekki þessu drusluverki á mér. Verð að fara að muna eftir því að taka inn kvennaljóma eða kvennablóma eða hvað allt þetta pilluverk heitir sem á að gera svona miðaldra konum eins og mér gott. Það stefnir óðfluga í síðasta barnaafmæli ársins og svo tónleikar og jól. Tíminn líður allt of hratt þessa dagana. Mér finnst alltaf vera komin helgi og ég hef ekkert gert alla vikuna. Og svo þarf ég að fara að skrá inn á byrja aftur og reyna að koma meira skipulagi á þann vef.
Ég held að það sé allt of mikið sem ég þarf að gera og þessa vegna kem ég engu í verk. Er það bara ekki málið...

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Mikið lifandis vesen er stundum í kringum öll þessi börn mín. Það eru vinahópar og foreldraviðtöl. Og skemmtanir fyrir foreldra um einhver verkefni. Það þarf að kvitta undir þetta og hitt, ákveða hvort fara eigi í hópferð í leikhús, sund hjá einu þennan daginn og hinu hinn daginn. Leggja inn á smartkort og merkja við matalista, finna húfur og vettlinga þegar kalt er úti, stígvel og pollagalla í rigningu, leikfimisdót og handklæði. Þetta er algjörlega endalaust. Og svo eru það herbergin þeirra. Þau taka nú stundum til en þá er það bara að taka mesta draslið upp úr gólfinu. Þess á milli neyðist ég til að þrífa og hvílíkur skítur og drasl ef þetta er ekki gert reglulega. Er búin að vera ótrúlega löt við þessa iðju en nú bara verður að gera eitthvað í þessum málum. Það tekur mig þess vegna heilan dag að taka bara eitt herbergi almennilega í gegn, raða dótinu í hina ýmsustu kassa og flokka, þurrka af og reyna að ná mesta skítnum af veggjunum. Úff, og þetta er mig lifandi að drepa, þetta er svo dæmalaust leiðinlegt. Ég þyrfti bráðnauðsynlega að mála skrifborðið inni hjá Tristani og rúmið hjá Katrínu og fá nýja hillu inni hjá Petru. Og stundum hellist yfir mig þvílík svartsýni að ég meiki nokkurn tímann að gera þetta allt saman og að ég nái hringinn í þessari endalausu tiltekt. Samt er alltaf allt í drasli hérna, en með árunum læri ég að sjá ekki allt þetta drasl og humma það fram af mér dag eftir dag og stundum viku eftir viku að gera eitthvað í málinu. Og einhverra hluta vegna snertir þetta blessuð börnin ekki neitt þó að þau komist varla inn í holurnar sínar fyrir drasli. Oj, oj. oj og poj.
Og nú get ég bara þvegið eina vél á dag þegar þurrkarinn er bilaður og eftir fráveru í fimm daga er alveg ótrúlegt magn af þvotti hér. Svo þegar ég er að taka til verð ég að skipta á rúmum í leiðinni og þá hleðst enn meira upp. Þetta er sem sagt líf mitt í dag í hnotskurn. Drasl, drasl, drasl og meira drasl. Því miður þýðir lítið fyrir mig að láta þetta pirra mig enda hef ég tekið eftir því að eftir því sem árin færast yfir og mitt dæmalaust einu sinni góða minni nær varla lengra aftur en síðustu mínútu fer þetta minna í mínar fínu taugar. Kannski eins gott að ég man ekkert stundinni lengur. Þá gleymi ég því allavega öðru hvoru að ég þarf að vera endalaust að taka til.
Ég er löngu búin að sjá það að það mundi ekkert þýða fyrir mig að fara að vinna úti. Ég má ekkert vera að því. Þetta heimili er algjörlega full vinna fyrir mig. Auðvitað vinn ég eitthvað hérna heima líka fyrir utan að skúra, skrúbba og bóna. En það er nú bara dúllerí miðað við þessar tiltektir allar. Öll verkefni hafa upphaf og endi, ég þarf t.d. að gera vefsíðu og ég veit að ef ég byrja á henni í dag verð ég örugglega búin með hana eftir 1-2 vikur. En þessi heimilisstörf hafa hvorki upphaf né endi. Þau bara eru, byrja aldrei og enda aldrei. Fuss og svei. Sono casalinga!!!
Að einhverju skemmtilegra. Spjallaði aðeins við Maríu á Msninu í dag. Hún er í Norge og ætlar að vera þar í nokkra daga. Þau ná nú aðeins að slappa af áður en atið við að koma íbúðinni í Þýskalandi í lag loksins þegar þau fá hana. Það verður mikið djobb en ég vona samt að þau yfirkeyri sig ekki við að spartsla og mála og smíða milliveggi. Þau eru að reyna að fá leigt sumarhús fram í janúar svo að þau þurfi ekki að gera þetta allt á engum tíma. Ég vona þeirra vegna að það takist. Sakna þessa að hafa ekki Maríu og það á eftir að versna eftir því sem lengra líður að hún er í burtu. Vona að þau láti sér nægja að vera úti í eitt ár.
Well, best að halda áfram að taka til inni hjá Tristani. Ætlaði að fara með myndadisk til Stínu Snæfells en verð bara að hringja í hana og biðja hana um að ná í hann til mín. Nenni ekki og má ekki vera að því að fara út úr húsi í dag...

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Mikið skelfing er hversdagslífið fljótt að hellast yfir mann þegar maður skreppur til útlanda í nokkra daga. Endalaus tiltekt og mikið magn af þvotti hefur hrúgast hér upp þessa fimm daga sem við John skruppum til Rómar. Og nú er þurrkarinn bilaður. Bölvað vesen. Veit ekki hvort greyið hefur sungið sitt síðasta eða hvort hægt er að lappa eitthvað upp á hann. Fæ ekki viðgerðarmann fyrr en á mánudaginn.
Hlakka til kóræfingar í kvöld og fá að heyra allar sögurnar um dekur og djamm. Það hefur greinilega verið mikið fjör og mikið gaman.
Er að bíða eftir Vigni sem þarf að skila bílnum mínum. Og ég nenni ekki að taka til en it´s a must...
Hæ og hó og korriró. Nýlent eftir ferð til borgarinnar þar sem allir vegir liggja, þ.e. Rómar. Missti af ítölskutímanum í kvöld en vona svo sannarlega að ég hafi bara lært eitthvað í staðinn í Rómaveldi. Allvega kann ég nú að láta panta fyrir mig leigubíl; Mi chiami un taxi per favore og biðja um reikninginn á veitingahúsi; il conto per favore og alveg með það á hreinu hvenær sagt er Bon giorno og Buena Sera og hvað kostar þetta; Quanto costa og prego og fleira og fleira og veit að trenta er 30 en ekki þrettán. Tekur eiginlega engan enda hvað ég er orðin klár. Og ég veit að ristorante er dýrari veitingastaður en pizzeria og trattori og hostaria er ódýrara en pizzeria. Búin að prufa Tiramisu í öllum útgáfum, fékk það meira að segja í frosið á einum stað og kvartaði og þá átti það að vera gelato (ís)en það stóð ekkert á matseðlinum að þetta væri Tiramisu gelato og síðan í einhvers konar undarlegu kökulíki með gervikremi. Aðeins að einum stað af fjölmörgum var það eitthvað í líkingu við mitt frábæra Tiramisu og þar notuðu þeir ítalskan líkjör la Streggo sem ég náttúrlega varð að kaupa og mun prófa fljótlega. Búin að drekka grappa sem er eiginlega ekki drekkandi mjöður en hvað lætur maður sig ekki hafa ef það er ítalskt. Því miður var uppselt í allar skoðunarferðir en við John björguðum okkur bara sjálf. Tókum Metró á Colloseum og Circo Massimo og í Vatikanið. Komumst reyndar að því að Coloseum var bara rétt hjá hótelinu okkar og vel í göngufæri. Tókum líka sporvagn á mikinn flóamarkað. Auðvitað löbbuðum við líka heilu kílómetrana þannig að tilfinningin í fótum var orðin algjörlega gengin upp á hnjám. En þannig er það bara í útlöndum. Maður gengur heilu borgirnar endanna á milli án þess að kvarta en hér labbar maður varla á milli húsa.
En sem sagt Róm var yndisleg þó stundum hafi manni þótt skrautið og stærðin á þessum fornu byggingum yfirþyrmandi. Ég var nú að vona að yfir mig kæmi einhver guðdómleg lotning í páfaríki en það fór nú lítið fyrir henni heldur helltist frekar yfir mann materíalisminn sem þetta mikla hús er. Sé ekki alveg að Jesús Kristur hafi viljað allt þetta yfirgengilega skraut og peningaaustur í sínu nafni. Lét svo hafa mig í það að fara upp í turn vatikansins þar sem Hrund var búin að segja að ég yrði að fara þar upp. Fyrst var farið í lyftu upp á þakið þar sem hvolþakið byrjar og síðan gegnið upp mörg hundruð tröppur hálf hallandi undir flatt. Hefði aldrei lagt af stað upp þessra tröppur ef ég hefði vitað hvað þetta var langt en það var ekki aftur snúið. Útsýnið náttúrlega guðdómlegt þegar upp var komið. Glöð eftir á að hafa látið hafa mig út í þetta rölt. Á milli þess að rápa um Rómarborg var borðað meira en góðu hófi gengir. En það er eiginlega ekki hægt annað í þessu pasta og pizzalandi. Þeir kunna svo sannarlega að búa til góðan mat. Hlakka svo sannarlega til Ítalíuferðar Léttsveitarinnar og er eiginlega á því að taka John með. Hann var miklu betri en ég í að skilja ítölskuna þar sem hann kann frönsku þó hann hafi ekki verið eins duglegur að reyna að gera sig skiljanlegan á ítölsku og ég. Þannig að við erum fín saman, hann skilur og ég bulla einhverju út úr mér svo langt sem mitt gullfiskaminni nær.
Sé það á bloggi Ingibjargar og inn á Léttsveitarkrónikkuni að dekur og djamm þetta árið hefur slegið allt út. Assk...að hafa misst af því. Er ekki hægt að endurtaka þetta um næstu helgi...Skrifa meira á morgun þegar hausinn á mér hugsar ekki svona í belg og biðu...

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Það getur ært óstöðugan þegar letrið á þessu bloggi fer í tóma vitleysu. Var sem sagt að segja að ég hafi veritð að gera nýjan standup vef og setja hann á netið áður en við skreppum í fimm daga til Rómar. Er ekki alveg að fatta það að ég sé að fara og held að ég leggi mig ekki úr þessu. Þá vakna ég ekki á réttum tíma. Bara þrír tímar þangað til við leggjum í hann út á flugvöll og í loftið um sjö í fyrramálið. Búin að redda pössun fyrir börnin, þ.e. Hrund vaknar með þeim og kemur þeim í skólann og svo kemur Pabbi og verður hér yfir daginn þegar Hrund er að vinna. Mamma býður þeim svo í mat á sunnudaginn. Er alveg hætt að botna í manninum mínum. Að láta sér detta það í hug að skella sér til Rómar svona einn, tveir og þrír. Í dag kl. 4 var aðeins eitt laust sæti og svo var hringt í hann og hann náði í miðana rétt fyrir fimm. Hann hefur hingað til ekki verið svona fljótur að taka ákvarðanir. Þekkt dæmi var hillan í Ikea sem mig langaði að kaupa á baðið og hann þurfti að hugsa sig svo lengi um að hillan var löngu hætt í framleiðslu. Síðan þá hef ég farið og keypt hlutina án þess að ráðfæra mig lengi við hann. Fatta ekki alveg þegar hann svissar svona yfir og tekur skyndiákvarðanir en mér finnst það voðalega notarlegt engu að síður.
Nú ætla ég að slappa aðeins af og taka úr þvottavélinni og setja í þurrkarann. Er búin að pakka og vona að ég gleymi engu. Þarf svo að skella mér í sturtu og sjæna mig til. Nenni ekki að skrifa meira ef þetta breytist allt í einhverja þvælu um leið og publisha. Kannski skrifa ég frá Róm...

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Druslaðist til að vakna kl. níu í morgun og gera eitthvað af viti. Fór svo til Gunnhildar um ellefu og var hjá henni til þrjú að laga bloggið hennar. Allt var voðalega smátt hjá henni og svona þegar ég var að hætta að reyna að stækka bloggið hennar kom í ljós að letter viewið hjá henni var á minnstu stillingu. Svona getur maður stundum gert auðvelda hluti flókna.
Fór svo í Smáralindina að versla í tóman ísskápinn. Eitt af því leiðinlegra sem ég geri.
Og svo hringdi John og sagði að við gætum farið til Rómar ef við vildum og auðvitað viljum við það. Svo við erum að fara til Rómar í fyrramálið eldsnemma og komum heim aftur á mánudagskvöldið. Svona gerast hlutirnir hratt á eyrinni.
Þannig að ég kemst ekki á dekur og djammið, æ, æ, æ og kannski hitti ég heldur ekki Önnu vinkonu sem kemur í fyrramálið til landsins. En nú verð ég að þvo nokkrar vélar og pæla í því hvað ég þarf að hafa með mér til RÓMAR. Verst að vera ekki lengra komin í ítölskunni. En ég get allavega sagt ciao...

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Fínn tími í ítölskunni í gærkvöldi. Vonandi verðum við barfærar á Ítalíu í júní. Söngtími hjá Möggu Pálma í dag kl. fimm. Verð að reyna að muna eftir því. Og svo er kóræfing í kvöld. Þarf að byrja á auglýsingunni fyrir Gospel. Þarf trúlega líka að fara að huga að auglýsingu fyrir jólatónleika Léttsveitarinnar. Þarf að hringja í Axel og fá hann hingað heim. Það lekur eitthvað hérna niðri á bak við þvottavélina. Úti er ekta jólasnjór og börnin mín enn í vetrarfríi. Um að gera að nota þennan fína snjó. Þarf að fá ný dekk undir bílinn minn. Hann er eiginlega á sléttum dekkjum og svo væri ráð að fara að láta skoða hann. Hann átti að fara í skoðun í janúar!
Annars er ég ennþá alvarlega löt og nenni nánast engu. Kannski hefði ég átt að halda áfram að bera út. Ég vaknaði allavega á morgnana en núna sef ég allt of lengi og kannski er ég þess vegna svona asskoti löt. Þarf að finna javascript á vefnum til að láta mailto form virka. Nenni ekki að leita að því en verð svo standupvefurinn geti farið í loftið eigi síðar en núna. Ætlaði til Gunnhildar í dag og laga eitthvað bloggið hjá henni en fékk sms frá henni í gær þar sem hún þarf að gera eitthvað mikið í dag. Við finnum bara annan tíma. Nenni ekki að tjá mig meira í dag...

mánudagur, nóvember 03, 2003

Letilíf og meira letilíf. En á morgun er mánudagur og þá verður maður að gera eitthvað af viti. Þarf að gera aftur standupvefinn og byrja á auglýsingu fyrir jólatónleikana hjá Gospel. Þó að ég ætli ekki að syngja á tónleikunum tók ég það að mér. Á bara að vera eitthvað einfalt, ljós og svo videre. Hlýt að redda því.
Er búin að fá sms frá bæði Maríu og Arne og þau virðast sæl með að vera komin til Þýskalands. Sýndist allavega á smsinu frá Arne að hann hafi fengið Maríu ofan að því að æða til Danmerkur daginn eftir að þau komu til Þýskalands. Það var svo sannarlega kominn tími á að slappa af hjá þeim hjónum. Sakna þeirra og veit ekki hvenær ég venst því að hitta þau ekki þegar mig langar.
Ég er komin á þá skoðun að ég hafi ofnæmi fyrir rauðvíni. Ætla allavega að prófa að hætta að drekka rauðvín til að tékka á því hvort ég sé í marga daga að jafna mig eftir 2-3 rauðvínsglös. Það virðist draga úr mér alla orku að drekka rauðvín. Er það ekki ofnæmi...
Börnin enn í vetrarfrii og sólarhringurinn strax kominn í þann farveg að vaka frameftir. Og svo er verið að gista hingað og þangað og aðrir að gista hér. Tristan gisti eina nótt hjá Cesari og svo gisti Andri hjá honum. Nú er Katrín að gista hjá Sunnu og Petra er farin að metast um það hver gistir oftast og er náttúrlega sannfærð um að hún gisti sjaldnast. Hún passar sko upp á sitt sú dama. Það fær engin meira en hún sama í hverju það er. Ofdekruð skjóða hún Petra mín. Týpisk meyja. Getur allt og veit allt best.
En allavega eru allir stignir upp í flenskufaraldrinum sem fengu flensu. Eitthvað lekur í kjallaranum á bak við þvottavélina og mig vantar pípara til að skoða það. Tala við Axel hennar Möggu á morgun, bæði út af eldhúskrananum hjá tengdó og lekanum í þvottahúsinu hjá mér. Gott að eiga góða að.
Annars allt í rólegheitum allavega segir skaphringurinn það, hann verður turkisblár þegar ég set hann á mig og það þýðir að maður sé verulega afslappaður...ég mundi nú heldur segja að drepast úr leti...

laugardagur, nóvember 01, 2003

Vera að koma úr saumaklúbb hjá Möggu Hrefnu. Dásamlegur matur og skemmtilegt kvöld. Mikið slúðrað, hlegið og spjallað. Búin að renna yfir idol. Þær bestu komust trúlega áfram, þó ég fíli ekki alveg þessa flippuðu stelpu sem söng Megas.
Keypti í dag skórekka í ikea en fatahengið sem ég ætlaði að kaupa verður ekki til fyrr en eftir 2-3 vikur. Verð að endurskipuleggja þessa forstofu áður en ég fer yfir um. Vantar meiri hirslur undir skó. Hér eru að meðaltali 10 skópör í almennri umferð á þessu heimili og önnur 20 sem eru í stakri umferð þannig að það verður að vera eitthver hirsla undir alla þessa skó. Jís og allar þessar yfirhafnir líka. Þetta er allt of fjölmennt heimili og allir með nokkrar yfirhafnir í gangi í einu og ekki batnar þetta þegar snjógallar og kuldaskór bætast við þetta vanalega. Treflar og húfur og vettlingar í massavís. Alveg að fara með mig. Ég veit um fullt af fólki með minni forstofu en ég en þar er ekki allt þetta endalausa drasla út um allt. Kannski er ég bara ekki nógu dugleg að týna allt þetta útidót upp úr gólfinu. Börnin mín láta bara úlpur og skólatöskur detta af öxlunum og yfirleitt eru lágmark eitt barn með hverju minna barna svo þá eru komin allavega sex grísir sem láta allt detta af öxlunum og á forstofugólfið. Er þetta normalt?? Ég bara spyr.
En ég allavega afrekaði það að setja þennan skórekka saman alein og einsömul og nú er bara að bíða þolinmóð eftir fatahenginu.
Núna er klukkan orðin voðalega margt og ég held að ég ætti að drusla mér í svefn. Er að hugsa um að henda út teppinu af stiganum niður út í morgunsárið. Ég er í breytingastuði. Sumir segja að svona mikil þörf fyrir að breyta til bendi til óánægju með kynlífið. Getur það verið. Og ég nýgift, ha...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter