<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Æ þetta var ljúf og góð æfing þó ekki kunni ég nú Hugljúfu gleðina almennilega en þegar maður kann allavega 6 línur af 10 hlýtur af vera hægt einhvern veginn að koma því inn fyrir tónleika. Textarnir eru allir að koma svona smátt og smátt og verða ábyggilega komnir fyrir tónleika líka. Anna Pálína var frábær. En ég þarf að reyna að sætta við mig árans hummið í Litla jólabarn. Það er bara fjandanum erfiðara að humma svona lag. Mér finnst líka sópraninn fá að syngja alveg nóg þó þau fái ekki heil tvö erindi í þessu lagi. Væri ekki ráð að fara að láta sópraninn humma eitthvað, hmmmmmmmmmmm....úff ég andvarpa bara. En auðvitað lifi ég þetta af eins og allt annað. Þrátt fyrir hummið og of mikinn sópransöng og of litla kunnáttu í hinni hugljúfu gleði er ég að komast í jólaskap. Við syngjum líka orðið eitthvað svo angurvært og mjúkt eða er það bara ég sem er hætt að þenja mig. Vonandi að söngtímarnir skili sér eitthvað í betri tilfinningu fyrir laginu og breiðara raddbili og lagi aðeins raddbeitinguna. Kannski kemst ég í sópraninn þegar fram líða stundir og þá hætti ég vonandi líka að vorkenna okkur hinum sem ekki fáum að syngja öll lög og þurfum bara að humma, ha.
En ég er líka búin að sjá það að ég hefði betur sleppt því að hætta að bera út Fréttablaðið. Nú hef ég á tilfinningunni að ég sé að hlaupa í spik af nákvæmlega engri hreyfingu. Þó að ég telji það sem hreyfingu að labba upp nokkrar tröppur á klósettið og niður nokkrar tröppur í þvottahúsið oft á dag þá er það nú trúlega ekki nóg. En það var bara svo assk...leiðinlegt að vakna svona fyrir allar aldir. Það var eiginlega það sem gerði útslagið að ég nennti ekki þessum útburði lengur. Það er nefnilega voðalega erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og ég er löngu búin að gera mér það ljóst að minn tíma er upp úr miðnætti en ekki í morgunsárið. Það er sagt að það sé miklu hollara að vera vakandi í birtunni á morgnana eða eitthvað álíka en á þessum tíma árs er alveg sama á hvaða tíma maður vakir eða sefur það er alltaf niðamyrkur úti. Að vísu birtir nú aðeins þegar blessaður snjórinn er kominn, vonandi til að vera. Mér finnst snjórinn æðislegur og ég man eftir því hvað það var alltaf falleg á Selfossi þegar snjóaði. Þar voru götur ekki saltaðar og því kom ekki þessi ógnardrulla eins og kemur eftir saltburð. Það var líka einstakt fyrirbæri þegar frysti og öll tré hrímuðu. Þeir sögðu að það væri vegna rakans frá ánni og það getur vel verið rétt. Allavega var það einstaklega rómantískt og huggulegt. Af hverju dettur mér allt í einu Selfoss í hug þegar minnst er á snjó. Veit ekki.
Það eru einhver hljóð í húsinu núna sem ég veit ekki hvaðan koma. Veit ekki hvers konar hljóð þetta er en eitthvað sem ég er ekki vön. Best að reyna að finna út úr því og koma sér svo í hlýtt bólið...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter