<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Mikið lifandis vesen er stundum í kringum öll þessi börn mín. Það eru vinahópar og foreldraviðtöl. Og skemmtanir fyrir foreldra um einhver verkefni. Það þarf að kvitta undir þetta og hitt, ákveða hvort fara eigi í hópferð í leikhús, sund hjá einu þennan daginn og hinu hinn daginn. Leggja inn á smartkort og merkja við matalista, finna húfur og vettlinga þegar kalt er úti, stígvel og pollagalla í rigningu, leikfimisdót og handklæði. Þetta er algjörlega endalaust. Og svo eru það herbergin þeirra. Þau taka nú stundum til en þá er það bara að taka mesta draslið upp úr gólfinu. Þess á milli neyðist ég til að þrífa og hvílíkur skítur og drasl ef þetta er ekki gert reglulega. Er búin að vera ótrúlega löt við þessa iðju en nú bara verður að gera eitthvað í þessum málum. Það tekur mig þess vegna heilan dag að taka bara eitt herbergi almennilega í gegn, raða dótinu í hina ýmsustu kassa og flokka, þurrka af og reyna að ná mesta skítnum af veggjunum. Úff, og þetta er mig lifandi að drepa, þetta er svo dæmalaust leiðinlegt. Ég þyrfti bráðnauðsynlega að mála skrifborðið inni hjá Tristani og rúmið hjá Katrínu og fá nýja hillu inni hjá Petru. Og stundum hellist yfir mig þvílík svartsýni að ég meiki nokkurn tímann að gera þetta allt saman og að ég nái hringinn í þessari endalausu tiltekt. Samt er alltaf allt í drasli hérna, en með árunum læri ég að sjá ekki allt þetta drasl og humma það fram af mér dag eftir dag og stundum viku eftir viku að gera eitthvað í málinu. Og einhverra hluta vegna snertir þetta blessuð börnin ekki neitt þó að þau komist varla inn í holurnar sínar fyrir drasli. Oj, oj. oj og poj.
Og nú get ég bara þvegið eina vél á dag þegar þurrkarinn er bilaður og eftir fráveru í fimm daga er alveg ótrúlegt magn af þvotti hér. Svo þegar ég er að taka til verð ég að skipta á rúmum í leiðinni og þá hleðst enn meira upp. Þetta er sem sagt líf mitt í dag í hnotskurn. Drasl, drasl, drasl og meira drasl. Því miður þýðir lítið fyrir mig að láta þetta pirra mig enda hef ég tekið eftir því að eftir því sem árin færast yfir og mitt dæmalaust einu sinni góða minni nær varla lengra aftur en síðustu mínútu fer þetta minna í mínar fínu taugar. Kannski eins gott að ég man ekkert stundinni lengur. Þá gleymi ég því allavega öðru hvoru að ég þarf að vera endalaust að taka til.
Ég er löngu búin að sjá það að það mundi ekkert þýða fyrir mig að fara að vinna úti. Ég má ekkert vera að því. Þetta heimili er algjörlega full vinna fyrir mig. Auðvitað vinn ég eitthvað hérna heima líka fyrir utan að skúra, skrúbba og bóna. En það er nú bara dúllerí miðað við þessar tiltektir allar. Öll verkefni hafa upphaf og endi, ég þarf t.d. að gera vefsíðu og ég veit að ef ég byrja á henni í dag verð ég örugglega búin með hana eftir 1-2 vikur. En þessi heimilisstörf hafa hvorki upphaf né endi. Þau bara eru, byrja aldrei og enda aldrei. Fuss og svei. Sono casalinga!!!
Að einhverju skemmtilegra. Spjallaði aðeins við Maríu á Msninu í dag. Hún er í Norge og ætlar að vera þar í nokkra daga. Þau ná nú aðeins að slappa af áður en atið við að koma íbúðinni í Þýskalandi í lag loksins þegar þau fá hana. Það verður mikið djobb en ég vona samt að þau yfirkeyri sig ekki við að spartsla og mála og smíða milliveggi. Þau eru að reyna að fá leigt sumarhús fram í janúar svo að þau þurfi ekki að gera þetta allt á engum tíma. Ég vona þeirra vegna að það takist. Sakna þessa að hafa ekki Maríu og það á eftir að versna eftir því sem lengra líður að hún er í burtu. Vona að þau láti sér nægja að vera úti í eitt ár.
Well, best að halda áfram að taka til inni hjá Tristani. Ætlaði að fara með myndadisk til Stínu Snæfells en verð bara að hringja í hana og biðja hana um að ná í hann til mín. Nenni ekki og má ekki vera að því að fara út úr húsi í dag...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter