<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, desember 30, 2003

Það ætlar að reynast mér erfitt að snúa aftur við sólarhringnum. Vaki fram undir morgun og sef langt fram eftir degi. Vaknaði að vísu um hádegisbilið í dag og ætlaði til Stínu að kenna henni pínupons í vefsíðugerð en það var eiginlega óveður svo við ákváðum að fresta kennslunni til morguns. Upp úr tvö var komið hið skaplegasta veður en allt á kafi í snjó. Börnin fóru út að búa til snjókarl en komu inn aftur rennandi blaut upp fyrir haus. En seinna í dag fóru þau á Rútstún á nýja sleðanum og renndu sér í marga klukkutíma. Tristan er búin að týna snjóskóflunni eða hún er fennt í kaf einhvers staðar í garðinum og finnst ekki. Það verður að fara upp á þak og moka snjó. Vil síður að það taki upp á því að leka hér inn með nýmálað stofuloftið en allur þessi snjór á eftir að bráðna og renna einhvers staðar undir og safnast saman í vatnsformi og leka svo hér niður úr loftinu. Við höfum ekki hugmynd um hvar eða hvert allur þessi snjór fer til að koma í veg fyrir að þetta gerist.
Nú sit ég hér við tölvuna og er að breyta Léttsveitarvefnum. Dreamweaver ekki alveg að virka rétt eða ég er að gera einhverja bölvaða vitleysu. Allavega uppfærist vefurinn ekki rétt þannig að ég verð að fara í gegnum allar index síður og alla linka. Tekur smátíma en vonandi kem ég þessu á netið um áramótin með nýju útliti. Það eru nú svo sem ekki miklar breytingar sem ég geri, bara að "létta" aðeins útlitið.
Steinsofnaði yfir sjónvarpinu í kvöld og núna er ég ekkert syfjuð. Ætti trúlega bara að vaka og þá fer ég kannski að sofa á skikkanlegum tíma annað kvöld. Verð að reyna að snúa þessum sólarhring við áður en ég missi vitið. Eldaði algjörlega allt of góðan mat í kvöld og allir borðuðu yfir sig. Er að hugsa um að hafa fisk á morgun. Það eru ár og aldir síðan það hefur verið hér fiskur á borðum. Maður verður voðalega þreyttur á öllu þessu kétáti dag eftir dag.
Skrapp aðeins til Sigrúnar frænku í dag. Gunna Ax var í heimsókn. Gaman að hitta hana. Varð að moka mig út úr bílastæðinu til að komast frá húsinu. Einhver óður skafari búin að ryðja hér snjósköflum fyrir innkeyrsluna. En þessi bíll minn draslaðist yfir þessa skafla eins og ekkert væri. Ótrúlegt hvað þessi bíll fer í snjó enda fjórhjóladrifinn. Stefni á það í náinni framtíð að fá mér nýrri árgerð af Space Wagon. Frábærir bílar.
Well, nóg af rausi í bili...

laugardagur, desember 27, 2003

Well, well, well. Er ekki löngu kominn tími á að blogga svoldið eftir jólin. Get sagt eins og Ingibjörg að þetta voru hefðbundin jól, maturinn allt of góður og allir glaðir með jólagjafirnar. Sólarhringnum snúið við, farið seint í rúmið og vaknað seint. Fór ekki í jólaboðið hjá Auði frænku þar sem ég vaknaði allt of seint. Var að lesa til hálf átt á jóladagsmorgun. Kannski einum og mikið að halda sér vakandi yfir bók svona lengi. Var að lesa bókina hennar Stínu, Sporin í sandinum. Rosalega löng og engan veginn hálfrar sólarhrings lesning eins og bókin hennar Lindu Pé, sem lesin var á nokkrum klukkutímum. Svoldið ruglingsleg, sérstaklega framan af, tímasetningar sérkennilegar og eiginlega vaðið úr einu í annað. En persónan Stína skín allsstaðar í gegn sem er meira en hægt er að segja um bókina hennar Lindu. Kannski vegna þess að ég þekki Stínu en ekki Lindu. En innihaldið í þessum bókum er svoldið það sama, misnotkun í æsku, fyllerí og meira fyllerí og meðferðir og heimiliofbeldi. Þær fara báðar á sömu meðferðarstofnunina í Bandaríkjunum og verða báðar edrú og vonandi betri manneskjur eða þannig. Svei mér ef maður ætti ekki bara að setjast niður og skrifa ævisögu sína fyrir fimmtugt, þó ég hafi ekki orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku eða verið fyllibytta í bata eða farið í meðferð milljón sinnum. Get samt ekki séð að líf mitt hafi verið neitt minna merkilegt eða þannig. En ég held að ég haldi því fyrir mig.
Ég er eiginlega ekki lengur í stuði til að blogga...kannski ég bara leggi það af ef andinn kemur ekki yfir mig á næstunni...

miðvikudagur, desember 24, 2003

Jæja, þá er bara næstum komin jólin og ótrúlegt að það er líka næstum búið að gera allt. Á bara eftir að pakka inn möndlugjöfinni og skipta á rúmum. Gott að syngja inn jólin með Léttsveitinni í Austurstrætinu í kvöld og gaman að hitta Gunnu Ax svona algjörlega óvænt.
Allir orðnir sáttir hér á bæ eftir fjaðrafok mitt fyrr í vikunni. Búið að ræða málin, gráta og sættast.
Krakkarnir orðnir spenntir og Petra ætlaði aldrei að geta sofnað. Fór á endanum með köttinn upp með sér sem hefur ætti hér um húsið. Mikill veðurviti þessi köttur eins og reyndar flestir kettir og í henni var mikill rokrass hér í kvöld. Vinsælasti jólasveinninn hér á bæ rétt ókomin með í skóinn og allir sofnaðir nema ég auðvitað. Á morgun eldamennska eins og hún verður að gerast best og svo bara jólin og afslöppun...Gleðileg jól...

þriðjudagur, desember 23, 2003

Jólin koma...og hana nú...

laugardagur, desember 20, 2003

Er það ekki alveg merkilegt að þrátt fyrir ekkert jólastress koma blessuð jólin innan tíðar. Ég var að koma úr jólahlaðborði með nokkrum skemmtilegum kellum á Nordica Hotel. Maturinn of nútímalegur fyrir minn smekk en notarleg stund engu að síður. Fyrirmæli mín til fjölskyldunnar voru herbergisþrif og viti menn þegar ég stíg hér inn er enginn heima, herbergin tiltekin og búið að búa til þessa fínu músastiga og hengja hér í loftin og allir bara skroppnir í keilu. Er á leið í stúdentaútskrift hjá Aroni á sexaratíma. Hvað er hægt að gefa dreng sem stefnir á að gerast málaliði í einhverju barbararíki í útskriftargjöf. Pening upp í kistuna heima kannski. Ég bara skil ekki lengur þankagang ungmenna í þessu síðustu tímum.
Í morgun þegar ég vaknaði og ætlaði í sturtu var ég nánast dáin áfengisdauða af bjórveggnum sem mætti mér í kjallaranum. Hrund með tvo næturgesti og þar á meðal stúlkukind sem fer í mínar fínustu taugar og ég mörgum sinnum búin að segja að ég vilji ekki hér í mínum húsum. Ég er nokkuð góður mannþekkjari og þessi stelputuðra kemur mér fyrir sjónir sem bæði undirförul og ómerkileg. Sorry, ég þoli ekki fólk sem smjaðrar fyrir mér og er voða kurteis og um leið og búið er að snúa í hana bakinu stingur hún mann í bakið. Mágkona mín kallaði hana "white trash" og það er alveg rétt hjá henni. Bara manneskja sem ég vil ekki inn á mínu heimili og þar sem ég var ekki mjög hress svona nývöknuð henti ég þessu liði út. Í gær vissi ég að jafnvel væri von á þessu liði og læstu búrinu svo ekki væri drukkinn bjórinn minn án þess að spyrja um leyfi. En nei, nei, búið að opna búrið og næla sér í einn. Á maður að þurfa að setja hengilás svo ekki sé rænt frá manni á manns eigin heimili. Halló í alvöru. Einu sinni drukku þessar stelpur heila vodkaflösku úr búrinu og hafa aldrei sýnt einu sinni lit á að borga hana til baka. Ómerkilegt pakk og ég er alveg búin með minn kvóta á svona liði. Mér er alveg sama þó að fólk drekki allt sem rennur í þessu húsi ef ég býð upp á það en að koma inn á annarra manna heimili og hegða sér eins og þær séu á næsta bar. Svo í morgun held ég að ég hafi komið því til skila að ég vil þessa stelpu ekki hér inn fyrir dyr meir. Dóttir mín má velja sér sína vini sjálf en ég rek hér hvorki gistiheimili né krá fyrir þá. Uss, uss og sveiattann segi ég bara...

föstudagur, desember 19, 2003

Mér skilst að það séu bara 5-6 dagar til jóla. Halló, jóla hvað? Já, svona læðast þau aftan að manni þessu blessuð jól. En í alvöru talað ég er algjörlega hætt að standa undir því nafni að kallast "casalinga" sem útleggst bara húsmóðir á okkar ástkæra ylhýra. Ég er orðin eins og unglingurinn á heimilinu og geri alls ekki neitt sem almennileg húsmóðir á að gera. Ég baka ekki fyrir jólin, allavega ekki búin að því ennþá og svo les ég á blogginu hjá Jóhönnu og Ingibjörgu að þær eru búnar að fylla alla dalla af smákökum. Ég er líka frekar óskipulögð og eitthvað löt akkúrat þessa dagana og t.d. í dag þegar ég ætlaði að vera voðalega dugleg og laga til í herbergjum krakkana þá lagði ég bara nokkra kapla, vaskaði aðeins upp og fór svo í að pæla í nýju lúkki á heimasíðun Léttsveitarinnar eins og það liggi eitthvað á því. En svo hugsa ég bara þegar fer að líða á daginn að auðvitað er miklu skynsamlegra fyrir mig að laga bara til inni hjá þeim svona korter fyrir jól. Það er næstum öruggt að ég þurfi ekki að gera það aftur áður en jólin skella á.
Og í kvöld fór ég aðeins í Kringluna með Hrund til að reyna að finna á hana einhverjar buxur og kaupa jólagjafir fyrir pabba og mömmu og eftir hálftíma þar vorum við báðar orðnar algjörlega útkeyrðar af búðarrápi og drifum okkur bara heim. Þá var John búinn að elda pasta og við ætluðum að hita það aðeins upp í örbylgjunni og nei, ó nei. Ekki hitnaði maturinn og ég sannfærð um að enn eitt tækið á heimilinu bilað. Við reyndum allar mögulegar stillingar sem á nú ekki að þurfa, bara stilla einhverja mínútu og vella, allt heitt og fínt. En sem sagt örbylgjan úrskurðuð biluð. Ég vissi að Petra og Tristan höfðu fengið sér franskar í dag og alveg virtist árans ofninn virka þá. Svo ég bað Tristan um að setja eitthvað í örbylgjuna og viti menn. Út kom það heitt eins og það á að vera. Og svo reyndi Hrund aftur og allt kalt. Svo nú virðist sá eini á heimilinu sem getur látið örbylgjuna virka vera yngsti meðlimur fjöldskyldunnar, 8 ára gutti. Hvernig getur lífið verið svona undarlegt og skrítið...

fimmtudagur, desember 18, 2003

Er ekki í miklu bloggstuði þessa dagana. Jólin alveg að koma og ég er enn óskaplega löt og finnst bara best að sitja og leggja kapal heilu dagana. Nenni alls ekki að baka og það gerir svo sem ekkert til. Það er hægt að kaupa fínar smákökur út í búð. Næsta síðasti skóladagur fyrir jól og litlu jólin á morgun hjá krökkunum. Í dag eru stofujól. Vona að sonur minn hafi farið í almennilegar buxur í skólann í morgun. Hann átti að syngja í kirkjunni í dag og trúlega Katrín líka. Drengurinn er búinn að vera í sömu buxunum örugglega í heila viku. Þetta voru hans bestu buxur og áttu að vera jólabuxurnar í ár, en eitthvað undarlegt gerðist með þær því einn daginn voru þær tættar að neðan eins og þær hefðu lent í pappírstætara og annað hnéð komið út. Hann hlýtur að vera með eitthvað oddhvöss hné því allar hans buxur eru með hnén úti. Hann er ótrúlegur buxnaböðull. En í þessum lörfum virðist honum líða ágætlega og af hverju ætti ég þá að vera að stressa mig á því. Er loksins búin að finna út úr því hvað hægt er að gefa foreldrum mínum í jólagjöf og nú er bara að drífa í að kaupa það. Búin að kaupa vetrarBratz handa Katrínu en á eftir Tristan, Katrínu og Hrund. Búin að kaupa eitthvað smotterí fyrir bóndann og svo er Vignir bróðir og Guðný eftir. Það er nú örugglega hægt að finna eitthvað sniðugt handa þeim. Annars er ég ótrúlega lítið að stressa mig fyrir þessi jól. Þau koma og fara eins og undanfarin ár. Ég er heldur ekki sú týpa að þrífa allt hér upp úr og niðrúr meira en aðra daga og svo er ég líka nýbúin að mála, bæði stofuna og eldhúsið og þar eru nú yfirleitt mesta drullan.
Fékk loksins bílinn minn úr viðgerð í gær og nú er að koma uppþvottavélinni í viðgerð. Meira viðgerðarstandið á þessum bæ.
María kíkti hér við í gær og við spjölluðum lengi saman. Hún fór til Þýskalands í nótt. Hún hefði nú alveg mátt vera aðeins lengur þessi elska. En svona er lífið. Ekki á allt kosið. En nú er hún komin með heimasíma og í tölvusamband svo vonandi heyrumst við oftar. Þori varla að segja að ég sakni hennar nú þegar.
En nú er mál að linni og að ég sinni því sem ég þarf að gera á heimilinu...

þriðjudagur, desember 16, 2003

Nú er komin skýring á andleysi mínu undanfarna daga. Eftir ferðina á Tapaz barinn var ég með það á hreinu að ég þyldi alls ekki að setja rauðvín inn fyrir mínar varir. Það drægi úr mér alla orku en nú hangi ég hér heima yfir sjálfri mér með beinverki og særindi í hálsi. Ég er sem sagt komið með þessa viðurstyggilegu flensu sem hrjáð hefur landann undanfarið. Síðasti sólarhringur hefur farið í það að sofa út í eitt og í móki að plana smákökubakstur með börnunum og bara átta dagar til jóla og enn engin hugmynd komin í kollinn hvað eigi að gefa foreldrum mínum í jólagjöf. Þarf að tala við Vigni og athuga hvort hann hefur dottið niður á einhverja góða hugmynd að jólagjöf handa þeim svona inn á milli verkefnis í skólanum. Hann á að skila af sér í dag svo vonandi verður hann viðræðu hæfur seinni partinn.
Bílinn minn enn í viðgerð, verið að bíða eftir kveikjunni sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan kemur. Og það er komið í ljós að þetta er vikan sem allt bilar hér á bæ. Gamli þurrkarinn farinn á haugana og nýr kominn í stað. Bíllinn bilaður og nú er uppþvottavélin farin í verkfall. Þarf að koma henni á verkstæði og athuga hvort hægt er að gera við hana eða hvort ég þarf að kaupa mér nýja. Verð að bíða eftir að bíllinn komi úr viðgerð til að fara með hana. Löngu útséð með að ég eignast ekki nýtt sjónvarp fyrir þessi jól eftir öll þessi útgjöld. Ansans...
Þarf að reyna að nálgast nýja geisladiskinn með Léttum á jólatónleikum...

sunnudagur, desember 14, 2003

Skötupartýið tókst vel og húsið "ilmar" enn af smáskötulykt sem fer trúlega ekki alveg fyrr en ég sýð hangikétið á aðfangadag. Skemmtilegt kvöld með Léttsveitarelítunni á Tapaz í gærkvöldi. Ætlaði að fara í Húsgangahöllina í dag og syngja en nennti ekki fram úr rúminu fyrr en allt of seint og akkúrat núna eru þær að syngja þar. Heyri í þeim í huganum.
Eitthvað er ekki í lagi með Léttsveitarvefinn. Ég get ekki sent yfir á vefinn og kemur eins og ég hafi ekki aðgang. Það hlýtur bara að vera eitthvað að hjá Nýherja og ég verð bara að fara í það á morgun að fá þetta í lag. En það pirrar mig þegar eitthvað svona gerist.
Enn er ég frekar andlaus og er að hugsa um að gera ekki neitt í dag nema slappa af og láta mér líða vel. John fór með krakkana í keilu og það er ekki oft sem þögnin ræður hér ríkjum...

föstudagur, desember 12, 2003

Það er alveg makalaust hvað ég er orðin kærulaus og geri hlutina á síðustu stundu. Er nú loksins búin að ryksuga og John ætlar að koma heim úr vinnunni snemma til að skúra svo ég geti farið og keypt kerti og eitthvað fleira sem ég gleymdi að kaupa í gær. Er búin að skreyta skötuborðið, þarf bara að kaupa nokkrar grenigreinar og þá er þetta algjörlega fullkomið. María kíkti aðeins í kaffi. Gaman að sjá hana og lítur vel út og svo er stefnan að hittast á morgun og gera eitthvað skemmtilegt. Tristan búin að skrifa jólasveininum vinsamlegt bréf um að hann vilji fá dót í skóinn en ekki nammi. Ætli hann haldi ekki að það sé auðveldara að sníkja nammi út úr móður sinni. Mér finnst voðalega skemmtilegt að hann trúi alveg einlæglega að jólasveinarnir séu til og vona að hann geri það sem lengst.
En nú þarf ég að skella mér í sturtu og skreppa svo í smáútréttingar fyrir skötuna í kvöld...
Vaknaði óvenju snemma í morgun og ætlaði nú aldeilis að vera dugleg og ryksuga og skúra fyrir hádegi. En ekkert varð nú úr því. Fór í að brjóta um HrossaFrey svo Matthías hefði eitthvað að lesa yfir hátíðarnar og lagði nokkra kapla. Er búin að finna annan sem er enn meiri tímaþjófur en sá sem ég hef lagt undanfarið ár. Bíllinn enn í viðgerð og ég fæ hann kannski á morgun eða þá ekki fyrr en á mánudag. Og það var auðvitað kveikjan sem ég var einmitt búin að finn út að væri farin og það kostar einhver 40 þús. bara þetta eina stykki. Og þar fór peningurinn sem ég átti ekki til en átti að fara í að kaupa nýtt sjónvarp. Ansans. En svona er þetta stundum. Þetta er greinilega sá tími sem allt er að bila hér á bæ, nýbúin að kaupa nýjan þurrkara, uppþvottavélin hættir á miðri leið þegar henni dettur í hug, svo eitthvað er að klikka í henni og svo bíllinn. Og ég reyni að krossa putta og vona að sjónvarpið syngi sitt síðast þannig að ég verði að fá nýtt í jólagjöf. En auðvitað bilar það ekki þegar ég vil það.
En ég er nú samt ekki búin að sitja auðum höndum í dag frekar en fyrri daginn. Fór með dagatölin í gormun í Samskipti og fékk að vita að filma í eldhúsgluggana kostar heilar 15 þús. kr. af því ég vil hafa hana röndótta. Svo fór ég með dagatölin í götun í Prenttækni og lét skera Heilabrotsreikningana fyrir mig. Og svo í Blómaval að kaupa rafhlöðuseríu til að skreyta skötuborðið á morgun, ná í hangikétið í Fóstbræðraheimilið og svo í Kringluna. Petra hafði það af að láta mig eyða í sig tæpum 14 þús. kr. í föt og svo keypti ég restina af jólagjöfunum sem eiga að fara til útlanda. Þá er nú jólagjafastandið næstum búið, bara Vignir bróðir, mamma og pabbi og börnin mín eftir. En ég verð að fara með Katrínu mína í Kringluna við tækifæri og kaupa á hana föt. Hún er ansi mikið hógværari í kröfum en systir hennar.
Heyrði svo aðeins í Maríu og hún ætlar að kíkja í kaffi á morgun. Gott í henni hljóðið og hún er því miður ekki hætt við að búa í Þýskalandi.
Og þegar heim var komið var ég staðráðin í að klára það sem ég ætlaði að gera í morgun, þ.e. ryksuga og skúra og pakka svo inn jólagjöfum, en lagðist aðeins í sófann og steinsofnaði. Ansans. En á morgun segir sá lati. Ágætt að ekki þarf nú að undirbúa þessa skötuveislu mikið, bara skella þessu í pott og sjóða nógu mikið af kartöflum. Eitthvað er nú að fjölga í veislunni en það er líka allt í lagi.
Og svo fékk ég það loksins staðfest að elsta dóttir mín er komin með kærasta og það er ég voðalega ánægð með. Þau eru jafnvel að hugsa um að fara að búa eftir áramótin, þ.e. hún er sem sagt að hugsa um að flytja að heiman þessi elska. Gott mál, gott mál. Börn eiga ekki að búa á Hótel Mömmu fram eftir öllum aldri. Ég vil síður að hún dagi hér uppi. Þegar ég var á hennar aldri var ég tvígift kona með eitt barn. Ekki svo sem að ég mæli með því að fara að hlaða niður börnum en það er gott skref að flytja að heima og taka ábyrgð á eigin lífi.
Og nú kemur fyrsti jólasveinninn í nótt og hér er röðin á þeim eins og þeir koma til byggða:
Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir. Gott að vera með þetta á hreinu.
Petra vill fá í skóninn þó að hún trúi ekki lengur á jólasveinana en Tristan efast ekki um tilurð þeirra svo ég verð víst að gefa þeim öllum í skóinn. Vona að hann haldi áfram að vera svona auðtrúa drengurinn minn. Það er ekki erfitt að sannfæra hann um ótrúlegustu hluti...

miðvikudagur, desember 10, 2003

Leti mín er ótakmörkuð. Ég nenni ekki lengur að laga til í þessu húsi. Börnin mín eru allt of dugleg að drasla til hér og ég er varla búin að taka til hér þegar allt er komið í rusl og óreiðu þar. Ég verð að laga til fyrir skötupartýið hér á föstudaginn en bara hreinlega humma það fram af mér í lengstu lög. Er núna að prenta út dagatöl sem eiga að fara í jólapakkana og þarf að koma þeim í gormun í dag. Það síðasta er að prentast út. Svo þarf ég að gera reikningaeyðublöð fyrir Heilabrot og láta skera þau. Og einhverra hluta vegna finnst mér miklu skemmtilegra að gera eitthvað í tölvunni en að brjóta saman þvott og þrífa. En nóg um það.
Þóra Lár hringdi í mig í gær og við ætlum að skella okkur á dívurnar í Grafarvogskirkju þann 18. Hlakka til og vona að hún fái miða á góðum stað.
Frábærir aðventutónleikar Léttsveitarinnar að baki og aðeins eitt gigg eftir í Húsgagnahöllinni á sunnudaginn. Og María kemur til landsins á morgun. Gaman, gaman. Eitthvað var Stína að vorkenna mér að missa svona bestu vinkonu mína úr landi. En það er einhver örlög á mér. Allar mínar bestu vinkonur taka alltaf upp á því að flytja til útlanda, ein í Kaupmannahöfn, önnur í London og svo María til Swingenberg. Æ, æ...en sú mæða. Ég vona að Gunnsa taki ekki upp á því að flytja úr landi. Og ekki nóg með að vinkonur mínar flytji til útlanda heldur þurfti systir mín sem loksins var flutt í bæinn að flytja til Kaupmannahafnar og verður þar örugglega til frambúðar. Ekki gott, ekki gott. En svona er lífið stundum. En ég lifi þetta trúlega af. Verð bara að rækta betur þær vinkonur mínar sem enn hanga hér á klakanum.
Já, Léttsveitaraðventutónleikarnir. Bara skemmtilegir og tókust vel fyrir troðfullri kirkju í gær. Svo gúllassúpa á Kringlukránni á eftir. Góður endir á frábærum degi.
En í dag er ég andlaus og trúlega tunglsjúk á fullu tungli. Ætla að athuga með bílinn minn svo ég geti gert eitthvað af því sem ég þarf að koma í verk á þessum drottings degi...
Ég held ég láti mig hafa það að koma mér í rúmið núna og skrifa heldur á morgun. Er orðin stjörf en hangi enn uppi. Bara kom hér við í tölvunni til að lesa annarra manna blogg, búin að því og tjái mig með morgninum...

þriðjudagur, desember 09, 2003

Klukkan að ganga þrjú og ég er nýkomin úr kaffi hjá Gunnsu. Fór á tónleika Gospel, Vox og Stúlknakórs í kvöld í Hallgrímskirkju. Bara mjög fallegir og krúttlegir tónleikar þó mér hafi nú fundist systur mínar aðeins útundan í söngnum. Sungu aðeins eitt lag einar. Þær voru eiginlega eins og einhvers konar bakraddir í öllum þessum kvennafans. Stúlknakórinn söng ábyggilega þrjú lög bara þær og byrjuðu á nokkrum einar, Voxinn söng tvö ef ekki fleiri einar. Mér finnst svona að Gospelsystur megi nú fara að fá að njóta sín og vera einar á tónleikum og læra fleiri lög og svona. Er orðin voðalega þreytt á Go tell, jingala og fylgd þó þetta séu ágætis lög í hófi. Vonandi fer fáum við eitthvað nýtt og ferskt eftir áramótin.
Ég ætlaði að skutla Gunnsu heim eftir tónleikana en þá tók minn fíni bíll upp á því að fara bara alls ekki í gang þannig að nú er hann aleinn niðri í bæ greyið. Verð víst að reyna að koma honum á verkstæði á morgun. Og ég sem var einmitt að hugsa í dag þegar ég var á leið heim úr kringlurápi og einhver bíll var stopp á ljósum að það væru ár og öld síðan ég hef lent í því að bílinn mín dræpi á sér og færi ekki í gang. Alveg óstjórnlega pirrandi og eiginlega hallærislegt. Það var alveg sama þó við ýttum árans bílnum og reyndum að láta hann renna í gang. Ekkert gekk. Assko.....
Keypti jólagjafir handa öllum krökkum í fjölskyldunni í dag, en er algjörlega tóm í kollinum um hvað hægt er að gefa mágkonum og svilkonu. Málið er líka að mig langar ekki í neitt sjálfri sem ég sé og þá er voðalega erfitt að finna út úr því hvað aðra langar hugsanlega í í jólagjöf. Sei, sei, alltaf sama vandamálið öll jól. Og ég sem er alltaf staðráðin í því eftir að lenda í þessari krísu í desember að kaupa nú jólagjafir bara yfir árið ef ég rekst á eitthvað voðalega sniðugt en svo bara gerist það ekki. Hugmyndasneið á háu stigi.
Seinni tónleikar Léttsveitar annað kvöld og allt uppselt. Inga amma lasin í dag og ég þarf að hringja í hana á morgun og athuga hvort hún verður skárri svo hún komist á tónleikana. Ef ekki ætti nú ekki að vera vandamálið að losna við miðana.
En nú í háttinn...and by the way ég sakna hennar Maríu eitthvað svo mikið þessa dagana. Þarf að drífa í að hringja í hana og heyra í henni hljóðið. Mér skilst að svona söknuður komi í bylgjum.
Kona nokkur sendi mér þakkarbréf vegna uppskriftar á Ris a´lamande sem hún ætlaði að hafa um jólin. Foreldrar hennar danskir en hún greinilega amerísk. Vonandi verður henni að góðu...

mánudagur, desember 08, 2003

Já, það er undarleg árátta að blogga. Veit stundum ekki alveg af hverju ég er að þessu. En...svona er þetta bara. Kannski hef ég svona mikla þörf til að opinbera mig fyrir alþjóð. Mér finnst að fleiri Léttur ættu að taka sig til og blogga. Það eru örugglega margir góðir pennar á meðal okkar. Og Jóhanna er alls ekki nógu dugleg að blogga þessa dagana. Kannski bara allt of mikið annað sem hún þarf að gera. Ingibjörg og Willa standa sig aftur á móti í stykkinu. Guðrún Gunnars byrjaði en gafst svo upp nema hún sé byrjuð aftur án þess að ég viti af því. Þetta er nefnilega ekkert mál. Bara fara inn á www.blogger.com og byrja. Reyndar er komið íslenskt blogg sem ég held að sé www.blogg.is en ég sé ekki alveg hvernig það virkar í fljótu bragði og nenni ekki að leggja það á mig að fatta það.
Ég þarf að drífa mig í Kringluna í dag og reyna að versla einhverjar jólagjafir. Þarf að klára Bandaríkin fyrir föstudag.
Þarf svo að muna að ég er að fara á tónleika í kvöld hjá systrum mínum í Gospel.
Við erum búin að ákveða hvenær við ætlum að skella okkur til USA, förum 30. mars og heim aftur 17. apríl. Krakkarnir missa þá bara þrjá daga úr skóla í byrjun og enda ferðar. Þannig að það er nokkuð útséð með að ég get ekki sungið á vortónleikum Léttsveitarinnar sem er áætluð þann 3. apríl. Ég held að þetta sé ekki góður dagur. Var einmitt að lesa það í Mogganum að mjög margir munu fermar 4. apríl. Flott að muna fermingardaginn sinn 04.04.04. Mundi gjarnan vilja hafa þessa tónleika upp úr miðjum apríl þegar fermingar eru yfirstaðnar og svona og ég á landinu. En það er ekki alltaf á allt kosið. Veit ekki alveg af hverju tónleikarnir eiga að vera svona snemma. Væri ekki sniðugra að hafa þá nær Ítalíuferðinni t.d. í byrjun maí. En ég náttúrlega ræð engu þarna um og verð bara að bíta að það súra að geta ekki sungið með. Eins og mig langar til þess að syngja þetta skemmtilega ítalska prógram. Æ, æ, æ...
Nú ætla ég að skella mér í sturtu og drífa mig að kringlast...

laugardagur, desember 06, 2003

Nú ætti ég að vera löngu farin að sofa en ég hef einhverja sérstaka hæfileika í að koma mér EKKI í rúmið. Þegar komið er fram yfir miðnætti er eins og ég finni endalausar ástæður til að fara ekki að sofa. Ein besta ástæðan sem ég finn mér er sú að standa alls ekki upp úr sófanum eða allavega að draga það í lengstu lög þó ég sé löngu farin að dotta. Nú er ég t.d. orðin svo syfjuð að ég sé ekki hálfa sjón þó að ég setji upp sterkustu gleraugun sem ég FINN, sé allt í hálfgerðri móðu. Var að gera heiðarlega tilraun að fletta í gegnum Gestgjafann og ég sé svona móta fyrir öllum þessum frábæru réttum en get engan veginn gert mér almennilega grein fyrir því hvað ég er að horfa á. Ekki gott, ekki gott.
Var í kvöld í dásamlegum mat í Skíðaskálanum í Hveradölum. Hef ekki hugmynd um hvað ég var að borða nema ef vera skyldi hangikétið sem var einstaklega ljúffengt en allt rann þetta niður í magann án nokkurrar fyrirhafnar. Og svo náði ég því aðeins að þynna út á mér blóðið svo ég er öllu skrárri í mínum lúnu útlimum en þó ekki nándar nærri nógu góð.
Þegar ég kom heim renndi ég aðeins yfir idolið sem börnin mín sáu um að taka upp fyrir mig. Var nú alls ekki sammála dómurum um að minn maður, Helgi Rafn, hefði verið slæmur eða ekki nógu góður. Lagið sem hann söng var bara ekki nógu gott. Það kveikti ekki einu sinni á minni peru og er ég nú gamall SSSól aðdáandi. Minnist þess ekki að hafa heyrt þetta hörmungarlag sungið af Helga Björns. Kannski hef ég bara verið svona upptekin af því að horfa á Helga sjálfan (þ.e. Björns). Hann var alveg hroðalega sexí hér í denn en það er nú löngu liðin tíð. Núna er hann hroðalega sjúskaður greyið og lítið spennandi fyrir augað. Það á ekki við um hann að karlmenn verði kynþokkafyllri með aldrinum, ó nei, ó nei. En Helgi Rafn komst áfram og því ástæðulaust að örvænta. Hann stendur sig bara betur næst.
Er mikið að hugsa um að skella mér á dívurnar fimm í Grafarvogskirkju þann 19. aðallega þegar ég sá að Maríus hennar Möggu verður þar gestasöngvari. Hann syngur eins og engill drengurinn sá og það væri óskandi að við hér á klakanum fengjum að heyra meira í honum á komandi árum.
Svo er Páll Óskar að koma mér á óvart með þessu fína lagi sínu sem nú er í stöðugri spilun. Hef aldrei verið sérlega hrifin af honum en fyrst þegar ég heyrði þetta lag hélt ég að þetta væri Jeff Buckley. Þetta minnti mig svoldið á Hallelúja Cohens í flutningi hans. Og svo langar mig svoldið í Bjögga Halldórs og það eru nú pjúra ellimerki þegar mann langar í plötu með honum.
Það er nú ýmislegt annað sem ég er í stuði til að tjá mig akkúrat núna en ég læt það liggja á milli hluta, allt of persónulegt. Ég held að það sé ráð að bursta tönnslurnar og koma sér í rúmið og kúra hjá sínum ektamaka sem er náttúrlega löngu svifinn inn í sitt draumaland og svona...

föstudagur, desember 05, 2003

Eitthvað er skrokkurinn að skríða saman eða kannski bara eins og svona gamall skrokkur getur verið yfirleitt. Dásamlegir tónleikar í gær allavega fannst mér það og ég er að komast í jólaskap. Er loksins búin að taka upp jólaskrautið og setja upp seríur í glugga, mínar fínu jólakúlur líka í alla glugga og jólagardínurnar komnar fyrir nýmálað eldhúsið. Þarf að fara í Sorpu með allskonar bölvað drasl, losa mig við eitthvað á nytjamarkaðinn, dagblöð, rafhlöður og fernur í endurvinnslu. Er að fara í jólahlaðborð í kvöld hjá Landsteinum/Streng sem haldið verður í Skíðaskálanum. Nenni eiginlega ekki en það verður ábyggilega ágætt þegar komið er á staðinn. Fór frekar snemma að sofa miðað við fyrri kvöld og vaknaði líka snemma og því er ég búin að koma því í verk að setja upp smájólaskraut. Svo verðum við að fara og kaupa jólagjafir á morgun sem eiga að fara til USA því Inga og Jón fara þangað þann 14. Verð líka að kaupa jólagjafir fyrir liðið í Danmörku og koma því í póst og skrifa svo nokkur nett Léttsveitarjólakort.
Er ekki í tjáningarstuði...

fimmtudagur, desember 04, 2003

Allora...Tónleikar í kvöld. Hlakka til að ég veit ekki alveg hvað er að gerast með skrokkinn á mér. Er eins og gamalmenni í hreyfingum og verkjar um allt. Hef tekið eftir því að allt síðasta ár hefur eitthvað verið að gefa sig í mínum fína búk. Þetta er eitthvað í sambandi við beinin. Þarf eiginlega að láta skoða þetta en ég er ekki mikið fyrir að storma til lækna þó ég fái stingi einhversstaðar. Ég held að ég lifi allt of óheilbrigðu lífið, reyki of mikið en drekk ekki til sæmræmis við það. Reykingar þrengja nefnilega æðarna en áfengi víkkar þær út þannig að það vantar í þetta ballans. Verð líklega að fara að taka upp siði Frantzara og fá mér sexara á hverjum degi.
Kláraði að mála eldhúsið í gær, fór að sofa undir morgun og er með bauga niður á kinnar. Ég held að ég sé að breytast í uglu í kringum augun. Ekki gott, ekki gott...þó að eldhúsið sé orðið voðalega fínt. Þarf að byrja á því að hengja upp klukkuna. Get ekki verið án þess að hafa allsstaðar klukkur svo ég viti hvað tímanum líður. Ég virðist vera svoldið ofgakennt í því að safna að mér allskonar drasli. Einu sinni voru það krukkur og nú á ég svo mikið af krukkum að ég hef ekki hugmynd um hvar ég á að setja þær allar. Er að hugsa um að losa mig við eitthvað af þeim í nytjamarkaðinn. Svo safnaði ég andafælum og óróum í einhvern tíma og nú er nóg komið af þeim. Svo voru það ljósaseríur og ég á svo margar útgáfur af ljósaseríum af öllum gerðum að ég veit ekki lengur hvar ég á að setja þær og þaðan af síður að ég þurfi að taka upp seríur fyrir jólin. Hér er ljósadýrð allt árið um kring. Og ætla meira að bæta við mig einni blárri frá Sólveigu Ásgeirs. Maður getur alltaf á sig blómum bætt.
Svo komu uglurnar til sögunnar. Keypti þá fyrstu í Portúgal. Og síðan hef ég keypt allavega eina í hvert sinn sem ég fer til útlanda og svo hafa bæði Þóra Lár og María gefið mér uglu þegar þær hafa farið eitthvað. Svo nú á ég vænt uglusafn og er ekki hætt að safna þeim.
En núna eftir að hafa málað eldhúsið er ég staðráðin í því að losa mig við eitthvað af þessu drasli sem hlaðið hefur verið upp á skápa í eldhúsinu, bara verð. Og svo ætla ég að geyma eitthvað ef þessu trölladeigsdrasli sem ég gerði hér um árið. Annars held ég að minn karakter lýsi sér vel í öllu þessu drasli mínu. Ég er bara safnari og hafiði það.
Nú verð ég að reyna að slappa aðeins af, fara í góða sturtu, lita augnabrúnir og snurfusa fyrir tónleika Léttanna í kvöld. Það gengur ekki að vera eins og stirðbusi vegna ónógrar hreyfingar og óheilsusamlegs lífernis. Vona bara að löppin á mér verði komin í lag fyrir kvöldið.
Einstaka sinnum velti ég því fyrir mér hvers vegna í assk....ég er að blogga þetta. Hef t.d. ekki skrifað dagbók síðan um árið að ég komast að því að minn fyrrverandi sambýlismaður las dagbókina mína og ég varð svo æf að sambúðin rann út í sandi. Ekki að ég sjái eftir því. Maðurinn var svo dæmalaust leiðinlegur. En nú skrifa ég fyrir alþjóð nánast á hverjum degi og finnst ekkert athugavert við það að pulisha þessu á netinu...Þýðir þetta að batnandi konu sé best að lifa...

miðvikudagur, desember 03, 2003

Fínt rennsli í gær hjá Léttum og fyrri tónleikarnir á morgun. Eitthvað voru nú loðin viðlögin sem við syngjum með Önnu Pálínu og ég er ekki viss um að guð druslist inn í minn haus fyrir morgundaginn. Allir aðrir textar eru nokkurn veginn á hreinu.
Er byrjuð að mála eldhúsið, John málaði loftið í gærkvöldi og svo byrjaði ég á fullu að mála veggina. Nú vantar mig meiri málningu og þarf að skreppa í Byko. Stefni á að klára þetta í dag eða í síðasta lagi í fyrramálið. Það er nefnilega svo undarlegt hvað þetta tekur fljótt af þegar byrjað er á þessu. Þar á svo sannarlega við máltækið "Hálfnað verk þá hafið er". Verð svo að mála stigann niður. Það verður ekki flísalagt fyrir jól en ómögulegt að hafa bara berann steininn þó það sé betra en þetta hryllilega rauða filtteppi sem var á stiganum.
Tristan er með fullt húsið af strákum og ég skil ekki af hverju þeir geta ekki verið einn dag einhvers staðar annars staðar að leika sér og drasla út. Hér eru að meðaltali lágmark 6 börn á dag og oftast þó fleiri. Þessir drengir eru með ólíkindum. Ég skildi Ingibjörgu vel eftir drengjaafmælið hér um daginn. Klósettið var eins og útikamar um verslunarmannahelgi. Þeir geta ómögulega hitt ofan í klósettið og spræna út um allt. Þarf ekki bara að setja á þá framlengingu þar til áhaldið fer að stækka svo þeir hitti.
Allora....ég ætla í Byko í málningarkaup...

þriðjudagur, desember 02, 2003

Fór allt of seint að sofa. Tók upp á því að leggja nýjar kapal og varð að láta hann ganga upp nokkrum sinnum. Hef nefnilega lagt sama kapalinn u.þ.b. 7 þús. sinnum og það eru ekki ýkjur. Teljarinn er kominn í tæp fjögur þúsund og ég var búin að leggja hann lengi þegar ég ákvað að kortleggja hann og byrja á nr. 1 og svo áfram. Ætlaði sem sagt að skrifa niður þau númer sem ganga upp og núllstilla svo og gera aðeins þá sem ganga upp og fá 100% skor. Þetta er náttúrlega bilun. Gafst náttúrlega upp á þessari skráningu þegar miðarnir sem ég skrifaði þetta á fóru að týnast hver af öðrum og ég sem ætlaði sko aldeilis að halda þeim til haga.
Klárið loksins þetta blessaða Gospelprógramm. Það fór tvisvar í prentsmiðju, eitthvað gleymdist af efnisskránni og textunum. En nú er það frá og ég er búin að taka ákvörðun um að mála eldhúsið fyrir skötupartý. Ætla sem sagt að byrja á morgun eins og sá lati segir alltaf.
Fór í jólaklippinguna í dag alveg grútsyfjuð og síðasti ítölskutími fyrir jól var í kvöld. Lærði fyrir hann þótt ótrúlegt sé.
Skemmtilegur tími og svo sjónvarpsgláp, Dawson´s Creek og Jamie´s Kitchen. Þarf að kaupa pappír á morgun og prenta í dagatölin og fara með í görmun og kaupa svo málningu og byrja. Hálfnað verk þá hafið er.
Nú ætla ég að leggja nokkra kapla og drusla mér í svefn eftir meinhægan dag...

mánudagur, desember 01, 2003

Indælis dagur í dag. Vaknaði að vísu ekki fyrr en um ellefu og þurfti þá að drífa í að setja á afmælistertur en það gekk eins og í sögu og var búin með það sem ég þurfti að gera um hálf tvö. Þá í sturtu og kórdress, ná í Sigrúnu frænku og uppí Húsgagnahöll að syngja með Léttum. Það gekk alveg ljómandi vel þó eitthvað þætti Oddu sumt fólk ekki sýna okkur nægilegan áhuga. En þetta var bara afslappað og skemmtilegt. Dreif mig svo heim til að klára drengjaafmælið sem gekk bara furðu vel með ekkert of miklum látum, enda voru þeir nú ekki nema sex. Það eru svo fáir strákar í bekknum hjá Tristani og einn þeirra sem mætti þurfti að fara fljótlega aftur í annað afmæli. Svo er þetta öfugt hjá Katrínu. Í hennar bekk eru ekki nema sjö stelpur svo það eru fámenn afmæli líka. Hjá Petru aftur á móti fyllist hér húsið af flissandi stelpum á gelgjuskeiði og það þau hljóð gleðja ekki mitt hjarta. En sem sagt síðasta afmæli ársins búið og það næsta ekki fyrr en seinni part febrúar.
Heiða og Sigurbjörg komu hér í kvöld til að lesa yfir söngskránna fyrir aðventutónleika Gospel, Vox og stúlknakórs og allt að smella saman. Síðasti textinn kemur í fyrramálið frá Stellu. Og þegar þessi söngskrá er að baki ætla ég ekki að tölvast meira fyrir jól nema að prenta út dagatölin fyrir fjölskylduna sem eiga að fara í jólapakkana.
Þarf því að vakna snemma í fyrramálið til að koma þessu í prentun og svo í jólaklippinguna kl. 10 hjá Jóu. Verð því vonandi búin að þessu öllu um hádegisbilið og þá er bara að drífa í að taka upp jóladótið og fara að skreyta hér hús með greinum grænum og öðru fíneríi. Þarf að vísu að læra aðeins fyrir síðasta ítölskutímann fyrir jól sem er annað kvöld. Ágætt að rifja upp það sem við eigum að vera búnar að læra, þó ekki væri annað en að reyna að troða inn þessum ítölsku tölum sem eru eitthvað að vefjast fyrir mér þó ég viti eftir Rómarferðina að trenta er þrjátíu en ekki þrettán.
Ætla líka að drífa í að mála eldhúsið fyrir skötupartíið sem verður hér þann 12. des. og kannski klína einhverju á stigann niður svo hann sé ekki bara ber steininn. John vill ekki gera neitt til bráðabirgða svo það verða ekki settar flísar eða parkett á ganginn niðri fyrir jól a.m.k. Og ef hann vill endilega gera eitthvað sem kostar fullt af peningum á gólfið niðri vil ég nú heldur fá eitthvað nýtt á eldhúsgólfið sem er að gera mig vitlausa. Þessar dúkaflísar sem þar eru eru hrein út sagt ógeðslegar og lítið smart enda búnar að vera á þessu blessaða gólfi síðan húsið var byggt í kringum 1968.
En nú er mál að linni og að ég sinni sjálfri mér og drusli mér í svefn...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter