<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, desember 01, 2003

Indælis dagur í dag. Vaknaði að vísu ekki fyrr en um ellefu og þurfti þá að drífa í að setja á afmælistertur en það gekk eins og í sögu og var búin með það sem ég þurfti að gera um hálf tvö. Þá í sturtu og kórdress, ná í Sigrúnu frænku og uppí Húsgagnahöll að syngja með Léttum. Það gekk alveg ljómandi vel þó eitthvað þætti Oddu sumt fólk ekki sýna okkur nægilegan áhuga. En þetta var bara afslappað og skemmtilegt. Dreif mig svo heim til að klára drengjaafmælið sem gekk bara furðu vel með ekkert of miklum látum, enda voru þeir nú ekki nema sex. Það eru svo fáir strákar í bekknum hjá Tristani og einn þeirra sem mætti þurfti að fara fljótlega aftur í annað afmæli. Svo er þetta öfugt hjá Katrínu. Í hennar bekk eru ekki nema sjö stelpur svo það eru fámenn afmæli líka. Hjá Petru aftur á móti fyllist hér húsið af flissandi stelpum á gelgjuskeiði og það þau hljóð gleðja ekki mitt hjarta. En sem sagt síðasta afmæli ársins búið og það næsta ekki fyrr en seinni part febrúar.
Heiða og Sigurbjörg komu hér í kvöld til að lesa yfir söngskránna fyrir aðventutónleika Gospel, Vox og stúlknakórs og allt að smella saman. Síðasti textinn kemur í fyrramálið frá Stellu. Og þegar þessi söngskrá er að baki ætla ég ekki að tölvast meira fyrir jól nema að prenta út dagatölin fyrir fjölskylduna sem eiga að fara í jólapakkana.
Þarf því að vakna snemma í fyrramálið til að koma þessu í prentun og svo í jólaklippinguna kl. 10 hjá Jóu. Verð því vonandi búin að þessu öllu um hádegisbilið og þá er bara að drífa í að taka upp jóladótið og fara að skreyta hér hús með greinum grænum og öðru fíneríi. Þarf að vísu að læra aðeins fyrir síðasta ítölskutímann fyrir jól sem er annað kvöld. Ágætt að rifja upp það sem við eigum að vera búnar að læra, þó ekki væri annað en að reyna að troða inn þessum ítölsku tölum sem eru eitthvað að vefjast fyrir mér þó ég viti eftir Rómarferðina að trenta er þrjátíu en ekki þrettán.
Ætla líka að drífa í að mála eldhúsið fyrir skötupartíið sem verður hér þann 12. des. og kannski klína einhverju á stigann niður svo hann sé ekki bara ber steininn. John vill ekki gera neitt til bráðabirgða svo það verða ekki settar flísar eða parkett á ganginn niðri fyrir jól a.m.k. Og ef hann vill endilega gera eitthvað sem kostar fullt af peningum á gólfið niðri vil ég nú heldur fá eitthvað nýtt á eldhúsgólfið sem er að gera mig vitlausa. Þessar dúkaflísar sem þar eru eru hrein út sagt ógeðslegar og lítið smart enda búnar að vera á þessu blessaða gólfi síðan húsið var byggt í kringum 1968.
En nú er mál að linni og að ég sinni sjálfri mér og drusli mér í svefn...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter