<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 30, 2004

Svei mér ef ekki fer að sjá fyrir endann á menustandinu fyrir vefinn hennar Stínu. Eftir allar þessar pælingar á hún "inni" hjá mér big time. Hún skilur hvað ég meina. En eins og Dói afi hennar Hrundar sagði oft: "Það dugar ekki að dedisera, draga vírinn og emilera", hvað sem það nú þýðir.
Ég fór í Kringluna í dag eins og nokkrar Léttur gerðu víst líka og festi kaup á tveimur "druslum" til að fara með til Ítalíu. Ef ég má ekki kaupa fleiri en eina flík getur bara einhver fengið annað stykkið. Keypti skokk og buxur. Heyrist á konunni í búðinni að litið ef nokkuð væri til af þessu í stórum stærðum. Það klárast alltaf fyrst. En það verður bara að koma í ljós hvort allar fá eitthvað sem hægt að breyta og bæta og drasla með sér til Ítalíu. Og svei mér ef þetta var bara ekki nokkuð klæðilegt þegar í var komið. Allavega skárra en á herðatrjánum á æfingunni. Þetta er nú reyndar ekki minni litur en nægilega hvítt til að ég þoli það. Ef ég fer í meira beige má bara jarða mig, ég verð eins og liðið lík.
Náði í örbylgjuna úr viðgerð og þetta er náttúrlega allt annað líf. Ætli ég verði svo ekki bara að skreppa til Danmerkur til að láta gera við dvd spilarann sem er í ábyrgð þar. Kemur í ljós hvað ég geri.
Og svo ryksugaði ég ganginn, stofuna og tölvuherbergið og bjó svo til dásamlegan bixímat úr afgöngum gærdagsins. Ekkert í sjónvarpinu sem glápandi er á og ég er að hugsa um að koma mér bara snemma í rúmið. Ætla að skreppast eitthvað með Maríu á morgun og svo er þorrapartý annað kvöld hjá Kristínu Lýðs...

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Dásamlegur seinni partur þessa dags, sem er nú reyndar löngu liðinn þó ég ætti frekar að telja sólarhringinn frá hádegi til hádegis. Frábær söngtími hjá Möggu, kóræfing á eftir hjá Gospel þar sem farið var í aðra útsetningu en ég hef áður sunguð af Havanagila og svo rennt yfir Aguarius, þ.e. öld Vatnsberans og lag úr Sound of Music. Og svo beint á kóræfingu hjá mínum kæru Léttum. Og eftir svona góða upphitun voru raddböndin orðin sópranhæf og renndu sér með "léttum" leik upp í ofurháar nótur í la Traviata söngnum. Hefði með leik getað sungið sópraninn. Yndislegt að frá Maríu mína aftur í kórinn og bara heim og í nálægð.
Það er aftur á móti engar háar nótur á tækjasviðinu hér á bæ. Druslaðist loks með örbylgjuofninn í viðgerð og fæ að vita á morgun hvort það borgar sig að púkka upp á hann greyið. Og þá kem ég heim og dvd spilarinn neitar alfarið að spila diska, segir þá vitlausa (incorrect) og gerir ekkert. Svo það er ekki fyrr búið að láta gera við eitt tæki hér þá bilar eitthvað annað. Ég er orðin ótrúlega góð í að hafa upp á viðgerðarmönnum til að gera við þessi tæki, sem engin er af sömu sortinni eða keypt hjá sama fyrirtækinu. Það væri kannski ráð að fara að hugsa sinn gang og vera ekki svona tækjaóð. Einhvern veginn komst ég nú af án þeirra hér í denn en það var líka í denn. Nú er ég orðin vön öllum þessum frábæru græjum sem gera nánast allt fyrir mann.
Nú sá ég um daginn að komið er á markaðinn enn ein græjan sem mig hefur dreymt um í mörg ár og það er sjálfvirk ryksuga sem bara ryksugar sjálf og stingur sér meira að segja í samband sjálf. Þvílíkt draumatæki og algjört must að eignast fyrr en seinna. Svo bíð ég bara eftir því að það komi á markaðinn uppþvottavél sem er alsjálfvirk. Þar er nefnilega einhver misskilningur í gangi á meðal heimilisfólksins hér að hún taki úr sér og setji í sig sjálf og náni meira að segja í óhreina leirtauið út um allt hús, allavega upp á borð fyrir ofan sig. En því miður er það nú ekki raunin. Kannski halda þau að ég sé framlengingin, þ.e. sérstakur aukahlutur sem fylgir svona hálfsjálfvirkum tækjum.
Ég ætti nú að fara að dóla mér í rúmið. Foreldrafundir í skólanum á morgun, mæting 11.10, 11.20 og 12.30 og börnin þurfa að koma með. Mér finnst svona foreldrafundir þar sem krakkaanginn þarf að sitja og hlusta á þegar talað er um hana/hann í þriðju persónu afskaplega skrítnir. Er þetta ekki fyrirtaksverkefni fyrir skólasálfræðinga að athuga hvernig þetta virkar á þessi grey. Að þurfa að hlusta á kennarann kvarta við foreldrana yfir of miklu blaðri, lélegum heimalærdómi, óásættanlegri niðurstöðum á prófi og hvað annað sem er að angra kennarann í sambandi við viðkomandi nemanda. Var einmitt að horfa á Dr. Phil og hann var einmitt að ræða um lélegt sjálfsmat hjá fullorðnu fólki og allt mátti rekja það til bernsku viðkomandi. Nei, ég var bara svona að pæla í þessu, ekki af því að mikið sé kvartað yfir þessum blessuðu börnum mínum. Yfirleitt það sama sem sagt er. Petra talar of mikið og lærir ekki alltaf heima. Katrín er allt of lengi að klæða sig þegar hún er að fara út í frímínútur og Tristan er ótrúlega duglegur og klár þótt hann sé smár. Þannig að ég er svo sem ekkert að glíma við einhver stórvægileg vandamál.
Og svo eru það þessi vinahópar sem kennarar eru greinilega voðalega hrifnir af. Fór í gengum svona vinahópadæmi með Tristani fyrir áramótin. Vissi nú eiginlega ekkert hvað ég ætti að gera til að hafa ofan af þeim i tvo tíma. Er ekkert mikið svo sem að gera eitthvað sérstakt með börnunum mínum á daginn, er bara hér ef þau þurfa á mér að halda. Nema hvað, að ég ákvað að láta mig hafa það að taka þátt í þessum og um leið af hafa eitthvað gagn af þeim. Lét þau telja allar flöskur á heimilinu og flokka í þrjá poka, seta öll gömul dagblöð í poka og mjólkurfernur og svo var haldið í Sorpu. Fyrir peningana sem fengust fyrir flöskurnar var keypt brauð handa öndunum. Þau voru ótrúlega fljót að gefa þeim enda assk...kalt úti. Og svo var ég svo heppin að það byrjaði að snjóa og þau fóru öll út í garð að leika sér.
Og nú á að setja á þessa vinahópa hjá Katrínu og um leið og ég skrifa þetta man ég að ég á að vera búin að fá þennan hóp hingað. Vogaði mér nú samt á síðasta kennarafundi að spyrja hvað ætti að fást út úr þessum vinahópum, hver tilgangur þeirra væri. Jú, þjappa börnun um saman og eitthvað annað álíka væmið. Ég sagði nú bara eins og var að ég væri með þrjá krakka og þau kæmi alltaf á hverjum einasta degi með a.m.k. einn krakka með sér heim hvert þannig að hér væru lágmark sex krakkar á daginn og mér fyndist það bara meira en nóg. Já, en...það er alltaf eitthvað en ef maður segir eitthvað...láta þau kynnast hinum krökkunum sem þau draga ekki með sér heim á hverjum degi. Ok....ég sagði sem svo að ég gæti svo sem gert þetta, þó ég sæi það ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi. Æ, þetta er bara eitthvað eins og að draga rollur í réttir. Ekki mundi ég vilja láta mig þurfa að bjóða heim einhverjum kerlingum sem mig langar ekkert til að bjóða heim.
En þetta er náttúrlega bara ég. Krökkunum finnst þetta voðalega spennandi þó það komi nú fyrir að þau annað hvort gleyma að fara eða vilja ekki hætta að leika sér til að fara. Svona er margt skrítið í kýrhausnum.
En nú er mál að linni að sinni...

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Allora, er ekki löngu kominn tími á blogg. Eins og flestir sem þekkja mig er ég frjóust eftir miðnætti á þá meina ég á öllum sviðum þannig að ekki búast við löngu eða skemmtilegu bloggi svona um hábjartan daginn.
Það er ýmislegt sem ég þarf að kvarta yfir og efst þar á baugi er það að fá ekki Fréttablaðið um helgar. Ég er búin að hringja þangað um hverja helgi í margar vikur og ég fæ annað hvort laugardagsblaðið eða sunnudagsblaðið, en aldrei bæði tvö og stundum fæ ég ekki neitt. Þeir þarna á Fréttablaðinu eru nú ekkert of áhugasamir um það, hafa meiri áhuga á að vita hvort maður er að hringja út af DV í áskrift. Hef engan áhuga á DV, hef ekki lesið það í mörg ár og er ekki alveg að fíla þeirra fréttamennsku. Slúður og niðurrif náungans ekki alveg að falla í kramið.
Svo skil ég ekki þetta kvart og kvein yfir Svínasúpunni. Þetta eru ógeðslega fyndir þættir og mikið gott að fá eitthvað svona absúrd grín eftir að hafa horft á Spaugstofuna í mörg ár. Þeir Spaugstofumenn eru algjörlega búnir að þurramjólka kúna, það er hending af manni stekkur bros á vor yfir þeim. Þeir eru líka svo misjafnir. Einn þáttinn eru þeir rosa fyndnir og svo þann næsta bara hreint alls ekki.
Hvað fleira get ég röflað yfir. Man nú ekki eftir neinu í svipinn. Er búin að liggja yfir menúum með Stínu frá sunnudegi, en enginn botn fæst í málið. Bölvað vesen, hmmm.
Og svo er söngdagur í dag. Og það er voða gott og nú ætla ég að skella mér í sturtu og fara kannski aðeins út úr húsi áður en ég mygla...

föstudagur, janúar 23, 2004

Það er að æra óstöðugan að reyna að skrifa diska á þessari tölvu. Skil ekki alveg hvað er að gerast með þennan skrifara. Hann virðist skrifa en svo er ekkert. Eru allir þessir andsk...diskar orðnir læstir eða hvað. Eða þá að þessir diskar sem ég keypti í Elkó eru allir handónýtir, hvað veit ég. Nú er ég að prófa aðra týpu af diskum og ef það gengur fer ég með þessar diskadruslur aftur í Elkó og skila þeim. Fjand.....
Fór í kvöld til Gunnsu og setti inn komment á bloggið hjá Lonni svo nú getur hún bloggað eins og brjálæðingur í Ástrallalíunni í heilar sex vikur. Við Gunnhildur náttúrlega kjöftuðum frá okkur allt vit langt fram á nótt og nú er ég búin að drekka svo mikið kaffi að ég sofna ekki í bráð. Og Gunnhildur segir ekkert þó klukkan sé langt gengin í morgun að hún eigi að mæta í vinnu kl. hálf átta. Meiri vitleysan að blaðra svona, en gaman er það samt.
Fór í Kringluna í dag og keypti mér buxur og jakka í Cosmo út á gjafabréfið sem John fékk í jólagjöf. Aldurinn er greinilega að færast yfir mig. Geri ekkert annað orðið en að kaupa mér dragtir. Það er á hreinu að þetta hefur eitthvað með aldurinn að gera. Ja hérna og svei.
Svo er ég að hugsa um að leggjast í það að skrifa lesendabréf og kvarta yfir öllu því sem betur mætti fara í þessu þjóðfélagi. Hvað á það t.d. að þýða af hafa 70 mínútur á PoppTV svona seint á kvöldin. Það eru aðallega börn og unglingar sem glápa á þennan þátt og hann er ekki búin fyrr en ellefu á kvöldin. Svo er hann endursýndur kl. sjö á morgnana. Ég bara fatta ekki þessa sýningartíma. Börnin verða að horfa á þetta út af einhverjum Pétri sem þar er nýbyrjaður og þau verða að horfa á ógeðsdrykkinn og áskorunina og ég veit ekki hvað og hvað. Og svo eru þau nánast ósofin, allavega ekki útsofin, þegar þau þurfa að vakna í skólann á morgnana.
Svo fékk ég bílinn minn loksins úr réttingu í dag og ég hef ekki verið í umferðinni að neinu viti í meira en vikutíma. Og almáttugur hvað sumir bílstjórar eru ömulegir og fara mikið í pirrurnar á mér. Eins og þeir séu í orðsins fyllstu merkingu úti að aka. Og flautan á bílnum virkar ekki !!!
Það tókst að skrifa diskinn á þennan þannig að nokkuð ljóst er að það er einhvern fjand...að þessum Elkódiskum.
Það er nú víst ýmislegt fleira sem ég gæti kvartað og kveinað yfir en ég man það bara ekki í svipinn.
Ég keypti frábæran disk í dag með Jennifer Warnes - Famous Blue Raincoat. Jennifer þessi var bakraddasöngkona hjá Lenoard Cohen og á þessum diski syngur hún lög eftir Cohen og hann syngur bakraddir hjá henni. Átti þessa plötu á spólu en er núna smátt og smátt að kaupa mér á cd þær plötur sem ég fílaði hér í den. Ætlaði líka að kaupa disk með Alison Moyet en hann fannst ekki í búðinni. Líka frábær plata. Svo var einhver diskur sem mér datt í hug um daginn að væri sniðugt að kaupa en er núna búin að gleyma hvaða diskur það var. Það rifjast ábyggilega upp einhvern daginn. Þetta er orðinn fastur liður í mínu lífið að muna og gleyma og gleyma og muna. Er löngu hætt að kippa mér upp við þetta óminni sem hrjáir mig.
Nú er ég aldeilis hlessa. Nú tókst mér að skrifa á elkódisk. Hvað er eiginlega í gangi. Það er greinilega einhver happa og glappa skrifun í gangi hjá þessum skrifara. Kannski þarf hann bara að hita sig upp áður en honum tekst það sem hann á að gera...

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Alveg er það ótrúlegt hvað maður getur stundum tekið sig á ef viljinn er fyrir hendi. Setti upp nýtt tiltektarskema í stað þess gamla sem hangið hefur hér á ísskápnum í marga mánuði án þess að ég hafi haft nennu til að fara eftir því. En í gær tók ég mig til og gerði nýtt og til að ég læri kannski eitthvað í ítölskunni þá setti ég dagana inn á ítölsku. Og það verður bara að segjast alveg eins og er að það er allt annað líf að fara eftir þessu plani á ítölsku - Lunedi - Martedi - Mercoledi -Giovedi -Venerdi. Skipulagið er að hafa frí fyrir tiltekt á Sabato og Domenica. Og ég er búin að fara eftir þessu í heila tvo daga og meira að segja gert meira en ég á að gera. Salute fyrir því.
Fyrir utan tiltektina er þetta búinn að vera mikill söngdagur. Fyrst í söngtíma hjá Möggu, svo á Gospelæfingu og svo Léttsveitaræfingu. Að vísu mætti ég klukkutíma of seint á Léttsveitina vegna fundar hjá Gospelnum og æfingu fyrir jarðarför. Ég ákvað að gefa Gospelsystrum séns eftir áramótin og sjá hvort eitthvað nýtt verður hrist þar fram úr erminni. Og svo erum við að fara að syngja dömubindasönginn í Léttsveitinni. Oh, það er svo gaman að syngja svona óperulög. Og ekki skemmir að læra kannski eitthvað pínulítið í söngtímunum hjá Möggu. Og allur þessi söngur lífgar eitthvað svo mikið upp á tilveruna.
Sé að það fer að verða bráðnauðsynlegt að sett verði upp comment á bloggið hjá Jóhönnu. Kannski María reddi því þegar hún kemur heim sem er von bráðar. Hlakka til að fá hana heim aftur. Kannski hún ætti að slá til og kaupa gömlu íbúðina mína á Dyngjuveginum sem ég sá að var auglýst til sölu í fasteignablaðinu í dag. En vá hvað hún hefur hækkað í verði á þessum sjö árum frá því við seldum hana. Við seldum á 10 millj. og nú eru settar á hana 19,2 millj. Og risið er líka til sölu, en það var alltaf stefnan hjá okkur John að kaupa risið líka, en það verður nú ekki úr þessu.
Ég fékk rosalegan fallegan blómvönd heim með mér úr jarðarför Ólafar, ömmu hennar Hrundar, rauðar rósir og liljur. Þessar liljur ilma þvílíkt hér á kvöldin að það er ólýsanlegt. Það tók mig svoldið tíma að átta mig á því að þetta væru blómin sem ilmuðu svona. Skyldi bara hreinlega ekki hvaðan þess lykt kom, þefaði ofan í skólatöskur barnanna og guð má vita hvar áður en ég rann á hana. Hmm....
Bíllinn minn enn í réttingu. Það er eitthvað undanrlegt með þennan mann á verkstæðinu. Hann er aldrei við á mánudögum og þriðjudögum og jafnvel miðvikudögum. Það verður fróðlegt að vita hvort hann verður við á morgun. Bíllinn átti að fara í viðgerð síðasta mánudag en þá var hann veikur svo hann var ekki tekinn inn fyrr en á fimmtudaginn og átti að vera tilbúinn í gær en...enn og aftur enginn karl á verkstæðinu. Eitthvað dúbí við þessi mánudagsveikindi....
En nú ætti ég að drusla mér í svefn ef ég ætla að halda mínu skema á morgun...krónikkan enn ósjáanleg á hinum ýmsustu stöðum og maðurinn minn sem hefur hannað risastórt og flókið skráningarkerfi fyrir lífeyrissjóðina getur ekki fundið úr því hvað hrjáir krónikkuna...hann bara sinnir ekki Léttsveitinni af heilum hug...spurning hvort ég leyfi honum að koma með til Ítalíu...

mánudagur, janúar 19, 2004

Það kom að því að ég yrð lens. Ég er búin að reyna allt til að láta krónikkuangann virka en einhverra hluta vegna gengur það bara ekki. Hef ekki hugmynd um hvað er að sem gerir það að verkum að sumar geta séð hana og aðrar ekki. Hún er nákvæmlega eins upp sett og gestabókin en ...ég er sem sagt lens... hef reynt til þrautar allt sem mér dettur í hug og líka það sem John dettur í hug en ekkert gengur. Ég sem sagt gefst hér með upp, allavega í bili.
Eftir svaðilfarir gærdagsins á Hellisheiðinni var rólegur dagur framundan í dag nema löngu fyrirætluð ferð á Dýrin í Hálsaskógi. Sýningin var voða skemmtileg en það er eitthvað sem plagar mig í sambandi við leikmyndir á öllum sýningum sem ég sé þessa dagana. Það eru allar leikmyndir í dag svo flatar og óspennandi. Engin þrívídd í þeim lengur. Þetta er þriðja uppfærslan á Dýrunum sem ég sé, sá þau þegar ég var krakki og þá var leikmyndin örugglega í þrívídd. Þá var Bessi Mikki refur og Árni Tryggva Lilli klifurmús. Á þessum tveimur leikurum er heljarinnar stærðarmunur og Bessi var afskaplega ógnvekjandi Mikki refur og Árni mér mjög eftirminnilegur sem Lilli klifurmús. Man nú ekkert hverjir voru í þessum hlutverkum þegar ég sá uppfærslu nr. 2 en núna er Þröstur Leó Mikki refur. Hann er nú ekkert voðalega stór og mikill en samt mjög skemmtilegur í þessu hlutverki. Sem sagt sýningin var ágæt en leikmyndin, æ fílaði hana eiginlega ekki. Ég held að krakkarnir hafi skemmt sér ágætlega. Að vísu held ég að þeim hafi, allavega Petru, fundist óþarfi að móðir þeirra tæki undir í afmælissöngnum þegar bangsapabbi verður 50 ára sem þykir greinilega afskaplega hár aldur í Hálsaskógi..."hæ lengi, lengi lifi hann, sem listir allar kann". Ætli þetta verði sungið fyrir mig síðar á árinu þegar ég næ þessum "háa aldri".
Ég er eitthvað hálf andlaus núna...

sunnudagur, janúar 18, 2004

Úbbs, það er að koma sunnudagsmorgun og ég ennþá vakandi. Vil nú bara byrja á því sem ég gleymdi um daginn, það hvað mitt Léttsveitarhjarta er stolt af honum Tomma okkar. Hann átti það svo sannarlega skilið að fá tónlistarverðlaunin, bæði fyrir lagið og plötuna. Ég sem þoli ekki jazz hef hlustað á plötuna hans oft og mörgum sinnum mér til ánægju og gleði. Og dóttir mín sem ég held nú að sé ekki heldur mikill jazzgeggjari fékk hitt eintakið sem ég lét hana fá til að gefa pabba sínum í jólagjöf. Hún ákvað að eiga diskinn sjálf í stað þess að gefa hann. Sem sagt frábær diskur og Tómas vel að verðlaunum kominn.
Ég lenti í því í dag að öslast yfir Hellisheiði í brjáluðum skafrenningi og engu skyggni. Vorum að fara í jarðarför ömmu hennar Hrundar minnar á Selfoss. Til allrar hamingju þurfti ég ekki að keyra. Þoli ekki að keyra þegar vegurinn flýtur svona í snjókafaldi. Hef á tilfinningunni að ég sé í lausu lofti. Ferðin yfir sjálfa heiðina gekk reyndar framar vonum en niður Kambana sá ekki út úr augum, fullt af bílum komnir útaf. Rosalegt rok undir Ingólfsfjalli og svo var allt fast við hringtorgið inn í Selfoss. Ferðin úr bænum og að hringtorginu tók um 40 mínútur en við hringtorgið vorum við föst í 20 mínútur. Komum því aðeins of seint í jarðarförina. Ferðin í bæinn gekk aftur á móti vel, búið að loka Helllisheiðinni svo eina leiðin í bæinn að fara Þrengslin og það var bara ok. En mér er óskiljanlegt hvernig maður öslaði heiðina í öllum veðrum þegar ég bjó á Selfossi. Þessi eina ferð nægir mér næstu árin.
Svo fór ég að syngja fyrir framsóknarmenn með Gospelsystrum í kvöld, Gunnsa keyrði mig svo heim og við sátum hér í eldhúsinu drukkum kaffi, reyktum ótæpilega mikið og kjöftuðum ennþá meira. En það er voðalega skemmtilegt að slappa af og slúðra í eldhúskróknum langt fram á nótt.
Og svo er ég að fara á Dýrin í Hálsaskógi í dag. Og ég hlakka svoldið til. Sá blessuð dýrin þegar ég var krakki, svo þegar Vignir bróðir var krakki og núna fer ég með mínum börnum. Og veit líka að þetta verður skemmtilegri leikhúsferð en Grease sem var einhver aljafnleiðinlegasta leiksýning sem ég hef farið á um dagana.
Og svo komst ég að því hvernig maður segir "allir ávextir" á ítölsku - tutti frutti...

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Jís, hvað ég fyllist orku að byrja aftur að syngja og tralla. Eða þá bara að mitt drusluskammdegisþunglyndi er í lægð nema hvoru tveggja sé. Allavega hef ég það bara miklu betra í dag en í gær að ég tali nú ekki um fyrragær.
Að vísu voru nú einhver símtöl sem ég þurfti að hringja í dag sem ég gleymdi en í staðinn kom ég miklu í verk af einhverju öðru. Var eitthvað að dúlla mér í mínum Léttsveitarvef uppfæra og laga. Það má alltaf betrumbæta það sem gott er. Eitthvað var ég nú samt að vesenast með krónikkuangann sem ekki hefur sést á öllum tölvum Léttanna, lét John skoða málið og hann sá ekkert að, en allavega afrekaði ég að þurrka aftur út af henni, en nú er þetta vonandi komið í glimrandi lag aftur og verður vonandi þannig. Ætli ég fái yfir mig alla bókmenntafræðinga landsins þar sem ég er náttúrlega að nota beint nafn á bók Laxness og gleymi að geta heimilda eða setja inn gæsalappir og tilvitnanir.
Katrín og Tristan fóru í enskutíma hjá Ingu ömmu í dag. Hún er öll af vilja gerð að reyna að koma inn í þeirra litlu kolla örlítilli kunnáttu í engilsaxnesku áður en við höldum til USA í apríl. Petra er nú öll að koma til í enskunáminu í skólanum þó lengi hafi hún nú verið af stað, en það er kannski ekki nema von. Eitthvað rámar mig í að minn fyrsti stíll í ensku í Kvennó hafi ekki á neinum stað innihaldið sögnina "do" sem er afskaplega nauðsynleg sögn að nota. Ég bara gat ekki skilið til hvers í ósköpum ég þyrfti alltaf að vera að gera alla hluti. En svo síaðist þetta smá saman inn og ég er alveg ágætlega slarkfær í ensku þó ég hafi aldrei dvalið langdvölum erlendis. Það bara kveiknaði á perunni einn daginn og ég er að vona að það gerist líka með ítölskuna. Þar vil ég helst alltaf nota "sono" fyrir framan allt sem ég segi.
Talandi um allt annað. Ég er að fara í vinnuviðtal í fyrramálið. Ekki kannski alveg vinnan sem mig langar í en vinna samt. Málið er bara að ég má bara ekkert vera að því að vinna úti. Ég get einhvern veginn alltaf fundið mér nóg að dunda við hér heima hjá mér. En í alvöru talað þá held ég að ég hefði gott af því að fara aðeins út á vinnumarkaðinn, en ég er ekki alveg að falla fyrir því að vinna allan daginn, finnst það eiginlega svona aðeins of mikið af því góða. En það kemur allt í ljós á morgun.
Kattartuðran á heimilinu er breima einu sinni enn. Hér hefur sveimað um húsið undanfarnan 2-3 vikur afskaplega sætur, gulur heimilisköttur og gert "hosur" sínar grænar fyrir henni. En þó þessi guli köttur sé voða sætur þá er hann ekki að sama skapi skemmtilegur. Hann mígur utan í allt þannig að húsið og allt umhverfi þess "angar" af kattarhlandi. Hann gengur í kringum húsið allan liðlangan daginn og merkir sér staði. Hann reynir að komast inn allsstaðar sem er glufa, stekkur meira segja upp í glugga fyrir ofan hurðina út á pallinn sem er í tveggja metra hæð til að komast inn. Svo sammjálmar hann ekki, þ.e. hann mjálmar út í eitt, afskaplega þreytandi svo ekki sé meira sagt. Nú hefur annar gulur köttur bæst í hóp vonbiðlanna og hann er hvorki sætur né aðlaðandi. Hann mjálmar ekkert en er aftur á móti ótrúlega ágengur og lætur læðuangann alls ekki í friði. Hann ætlar sér að ná henni hvað sem það kostar. Minnir mig reyndar svoldið á einn af mínum sambýlismönnum þó ég fari ekki nánar út í það.
En nú er mál að linni að sinni. Þarf að vakna snemma í fyrramálið, koma bílnum í réttingu, keyra John í vinnuna á hinum bílnum, fara í þetta vinnuviðtal og ýmislegt fleira sem ég man ekki í svipinn...

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Gaman að byrja aftur í ítölskunni. Druslaðist loksins til að renna í gegnum fyrstu fimm kaflana og rifja aðeins upp það sem við eigum að vera búnar að læra. Og nú verða fyrstu kóræfingar í kvöld. Ætla að byrja aftur í Gospelnum og sjá til hvort eitthvað nýtt gerist ekki á þeim bænum. Ef ekki læt ég Léttsveitina nægja. Hún stendur alltaf undir væntingum. Alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt að gerast þar. Aðallega leitt að vera erlendis þegar vortónleikarnir verða en það er ekki á eitt kosið.
Og mér sýnist á póstinum mínum að John sé að búa til endalaust verkefni fyrir mig á byrja.is. Hér hellist inn póstur með athugasemdir um flokkun og fleira í þeim dúr. Hef nú ekki sinnt þessu sem skyldi lengi svo nú er mál til komið að ég geri eitthvað...

mánudagur, janúar 12, 2004

Ég held að ég sé að verða ég aftur, þ.e. er ekki lengur kerling eins og um daginn. Farin að taka til í kringum mig og elda mat, og brjóta saman þvott. Sem sagt aftur að verða "casalinga" - sem by the way er ítalska orðið yfir húsmóður. Talandi um ítölsku. Ég er búin að hafa megnið af desember og það sem af er janúar til að læra fyrir fyrsta tímann eftir jólin sem er annað kvöld og enn ekki búin að koma mér í það. Er að vísu búin að láta diskinn rúlla en það er eitthvað voðalega lítið sem hangir inni í mínum gamla kolli. Þetta er sko alls ekki eins auðvelt og ég hélt. En vonandi síast eitthvað inn fyrir Ítalíuferðina.
Er núna að eyða tímanum og bíða eftir því að María hringi. Við erum ekki mjög góðar í að spjalla saman á msn þar sem við þurfum að segja svoldið mikið við hvora aðra þar sem við höfum ekki heyrst að neinu viti síðan hún var hér í desember.
Nú hringir hún...

laugardagur, janúar 10, 2004

Gerði mér ekki grein fyrir að ég hefði ekkert bloggað í gær og það berast strax kvartanir. Eitthvað andlaus og ekki alveg í stuði til að tjá mig opinberlega.
Er þó farin að taka eftir rykinu og drullunni á heimilinu eftir jólin og tók aðeins til í gær og ætla að klára það í dag. Annars er Petra Kristín að safna fyrir einhverju og er í tiltekt á ganginum uppi og trúlega í sínu eigin herbergi. Ekki verra að losna við eitthvað af draslinu án þess að þurfa að gera það sjálf.
Hrund mín fékk þær fréttir í morgun að amma hennar hefði dáið í nótt. Það var gott að Hrund eyddi jólunum með henni þó gamla konan hafi verið orðin svoldið út úr heiminum.
Skrifa þegar andinn kemur yfir mig...

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Eitthvað virðist blogger.com vera að hrekkja fólk þessa dagana með því að breyta öllu sem maður hefur myndast við að skrifa í einhverja tóma steypu. Þessir íslensku stafir eru greinilega sífellt til vandræða. Til ráða er það eitt að kópera það sem maður hefur skrifað og þá er hægt að peista aftur og eyða vitleysunni út. Ekki að maður muni nú alltaf eftir því að gera svona varúðarráðstafnir en ef maður lendir í því oft að allt komi ruglað út þá kannski lærir maður á því og gerir kópí.
Svei mér ef mín er ekki næstum búin að ná sólarhringnum á rétt ról. Katrín mín var eitthvað slöpp í gær, trúlega af svefnleysi þannig að ég lagðist með henni upp í rúm og ætlaði að horfa á eitthvað viturlegt í sjónvarpinu en sofnaði út frá því og vaknaði svo bara við vekjarann í morgun. Náði því þess vegna í rólegheitum að taka niður jólaskrautið og koma jólatrénu út fyrir ruslakarlana. Það verður alltaf hálftómlegt þegar jólin eru tekin niður aftur þó maður sé löngu orðinn hundleiður á því að hafa það uppi. Reyndar ætti maður að vera með jólaseríur í gluggum fram á vor. Það birtir upp svartasta skammdegið og það veitir ekkert af því. Nú eru bara eftir jólagardínurnar í eldhúsinu en ég ætla ekki að taka þær alveg niður strax. Langar í nýjar gardínur fyrir mitt nýmálaða eldhús.
Hún Hrund mín er að valda mér áhyggjum þessa dagana. Hún er farin að drekka svoldið oft og mikið finnst mér og ég er ekki mjög glöð með það. Langar ekki til að hún endi í meðferð löngu fyrir þritugt en hún stefnir óðfluga í það með þessu áframhaldi. Ég þarf líklega að reyna að tala eitthvað við hana og finna út hvað veldur.
Fór aðeins í Ikea í dag og held að ég skreppi þangað á morgun og kaupi skóskáp í ganginn. Er búin að mæla allt út í ganginum og ég held að hann ætti að smella þar sem ég vil setja.
Bændur höfðu samband í dag og voru bara spakir. Ég var það reyndar líka, allavega ekki alveg eins úrill og korter fyrir jól.
Lagaði vef Goddverja svo hægt sé að prenta síðurnar í heild sinni út helv...explorernum.
Og Petra Kristín finnur ekki stærðfræðibókina sína - ekki í fyrsta skipti...

mánudagur, janúar 05, 2004

Eitthvað er nú Eyjólfur hressari í dag en í gær og undanfarið. Illa gengur þó að snúa sólarhringnum við en vonandi kemur það með betri tíð og blóm í haga þó langt sé nú í það. Neyddist allavega til þess að labba út í sjoppu í dag eftir sígarettum og það var bara hressandi og endurnærandi. Hrund svaf yfir sig í dag og þurfti að fá bílinn lánaðan til að mæta ekki allt of seint í vinnuna. Ég hefði kannski átt að druslast til að bera út Fréttablaðið örlítið lengur, en málið var að þetta var farið að bitna ansi mikið á mínum heittelskaða. Hann var farinn að bera svoldið oft og mikið út með mér. Það er svona þegar letin í morgunsárið er alveg mann lifandi að drepa. Og eins og alþjóð ætti að vera farin að vita er ég ekki morgunhani heldur algjör náttugla. Ég væri fín í að bera út næturblað en því miður eru þau ekki til ennþá og því ekki í boði.
Ég ætlaði nú að afreka einhver ósköp í gær þegar John fór með börnin á skauta. Ekki voru það nú nein stórvirki sem ég afrekaði en ég lagaði allavega voðalega vel til hér í tölvuherberginu. Allt annað líf. Vann aðeins í Frey í dag og vona að ég hafi ekki styggt bændasamtökin mikið þegar ég lét í ljós að ég væri komin i jólafrí þegar ég átti að fara að leiðrétta einhverjar kommur og punkta korter fyrir jól. Það verður þá bara að hafa það. Tilfinning mín fyrir þeim samtökum er sú, að þeir beri nú ekki mikla virðingu fyrir konum almennt og að þær eiga að vera boðnar og búnar þegar bændum hentar að leggjast á bakið og vinna sitt verk.
Börnin mín enn í jólafríi en á morgun tekur alvara lífisins við þegar skólinn byrjar. Ég er ansi hrædd um að það verði erfitt að koma þeim á fætur í fyrramálið því þau eru eins og móðirin búin að snúa sólarhringnum við og markmiðið hjá þeim að fara eins seint að sofa og mögulegt er.
Og maðurinn minn keyrði á eitthvað skilti á Reykjanesbrautinni í morgun og klessti bílinn minn. Og hann sem heldur því fram að "konur" kunni ekki að keyra. Stundum er sárt að líta í eigin barm og viðurkenna mistök sín...

sunnudagur, janúar 04, 2004

Mig langar til að liggja í hýði þessa dagana. Ég held að þetta megi rekja til upphafsins, þ.e. ég er fædd í byrjun nóvember og eins og öll ungabörn hlýt ég að hafa sofið fyrstu mánuði ævinnar. Ég hef allavega tekið eftir því að ég fer alltaf á svona skammdegisblús, frá nóvember og fram í mars vil ég bara liggja í hýði eins og björninn og sofa og gera ekki neitt. Jól og áramót eru ekki minn uppáhaldstími eins og margra. Er alltaf jafnfegin þegar desember er liðinn og bara janúar og febrúar eftir þar til sólin fer að hækka á lofti. Birna systir segir að ég þurfi að fá mér svona bjartsýnisljós, eitthvað voðalega sniðugt ljós sem maður situr undir í klukkutíma á dag og það á víst að redda deginum. Er ekki viss um að það mundi virka á mig en kannski sakar ekki að prófa. John farin með krakkana á skauta og ég "ætla" og "skal" gera eitthvað af viti á meðan...

laugardagur, janúar 03, 2004

Nú árið er liðið og allt það. Ég vaknaði í morgun og uppgötvaði að ég er að breytast úr konu í kerlingu. Ekki gott. Og ég er ekki bara miðaldra heldur er ég búin með 2/3 ævinnar. Heldur ekki gott. Að vísu held ég að ég væri nú ekki alveg sátt við það að þurfa kannski að lifa í önnur 50 ár. Það væri nú svona aðeins of mikið. En ég held að kerlingin sé komin til að vera og lítið við því að gera. Í kvöld ætti ég t.d. að vera í partýi með krökkum sem ég var með í Margmiðlunarskólanum en það veit Guð að ég nenni ekki. Nenni ekki lengur að detta í það og vakna þunn daginn eftir. Eins og það sé eitthvað til að nenna. Halló Sigurlaug, fyrir ekki svo löngu síðan hefðir þú sko verið manna fyrst á svæðið en nú hefur kerlingin tekið yfir og hún nennir sko ekki í partý með krökkum á aldur við Hrund. Og svo er skrokkurinn að breytast í kerlingingarskrokk. Naflinn með skeifu eftir fjórar meðgöngur, appelsínuhúðin á lærunum algjörlega á sínum stað dag eftir dag og þetta endar með lærunum í skónum. Mínar uppáhaldsflíkur eru dragtir, þ.e. jakki og buxur, eitthvað sem fyrir nokkrum árum voru ekki alveg "inn" í mínum klæðaskáp. Kerlingin aftur mætt á svæðið. Og ég er alvarlega að hugsa um að fara í augnlokaaðgerð. Hefði átt að hneykslast minna á brjóstastækkunum á dætrum vinkvenna minna. Stefni hraðbyri í lýtaaðgerð sjálf. Kerlingin enn og aftur. Hún reynir að halda í það að vera ung og sæt og sexí. Talandi um sexí. Ég er löngu búin að gleyma í hverju það felst að vera sexí eða flörta eða bara fíla sig sem flotta konu. Nú er tilfinningin bara hú kers há æ lúkk. Og ég er farin að nöldra eins og mamma. Og það er eitthvað sem ég hélt að ég mundi aldrei gera. Að vísu er ég nú ekki enn farin að hneykslast á því hvernig aðrir haga sínu lífi eða pæla í því hvað nágranninn heldur um eitthvað sem ég geri. En það hlýtur að vera næst. Það er einmitt svona kerlingahugsanaháttur. Hvað skyldi nágranninn halda...

föstudagur, janúar 02, 2004

Hér hafði ég skrifað ýmislegt markvert en allir íslenskir stafir fóru í tóma steypu...fokk...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter