<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, janúar 18, 2004

Úbbs, það er að koma sunnudagsmorgun og ég ennþá vakandi. Vil nú bara byrja á því sem ég gleymdi um daginn, það hvað mitt Léttsveitarhjarta er stolt af honum Tomma okkar. Hann átti það svo sannarlega skilið að fá tónlistarverðlaunin, bæði fyrir lagið og plötuna. Ég sem þoli ekki jazz hef hlustað á plötuna hans oft og mörgum sinnum mér til ánægju og gleði. Og dóttir mín sem ég held nú að sé ekki heldur mikill jazzgeggjari fékk hitt eintakið sem ég lét hana fá til að gefa pabba sínum í jólagjöf. Hún ákvað að eiga diskinn sjálf í stað þess að gefa hann. Sem sagt frábær diskur og Tómas vel að verðlaunum kominn.
Ég lenti í því í dag að öslast yfir Hellisheiði í brjáluðum skafrenningi og engu skyggni. Vorum að fara í jarðarför ömmu hennar Hrundar minnar á Selfoss. Til allrar hamingju þurfti ég ekki að keyra. Þoli ekki að keyra þegar vegurinn flýtur svona í snjókafaldi. Hef á tilfinningunni að ég sé í lausu lofti. Ferðin yfir sjálfa heiðina gekk reyndar framar vonum en niður Kambana sá ekki út úr augum, fullt af bílum komnir útaf. Rosalegt rok undir Ingólfsfjalli og svo var allt fast við hringtorgið inn í Selfoss. Ferðin úr bænum og að hringtorginu tók um 40 mínútur en við hringtorgið vorum við föst í 20 mínútur. Komum því aðeins of seint í jarðarförina. Ferðin í bæinn gekk aftur á móti vel, búið að loka Helllisheiðinni svo eina leiðin í bæinn að fara Þrengslin og það var bara ok. En mér er óskiljanlegt hvernig maður öslaði heiðina í öllum veðrum þegar ég bjó á Selfossi. Þessi eina ferð nægir mér næstu árin.
Svo fór ég að syngja fyrir framsóknarmenn með Gospelsystrum í kvöld, Gunnsa keyrði mig svo heim og við sátum hér í eldhúsinu drukkum kaffi, reyktum ótæpilega mikið og kjöftuðum ennþá meira. En það er voðalega skemmtilegt að slappa af og slúðra í eldhúskróknum langt fram á nótt.
Og svo er ég að fara á Dýrin í Hálsaskógi í dag. Og ég hlakka svoldið til. Sá blessuð dýrin þegar ég var krakki, svo þegar Vignir bróðir var krakki og núna fer ég með mínum börnum. Og veit líka að þetta verður skemmtilegri leikhúsferð en Grease sem var einhver aljafnleiðinlegasta leiksýning sem ég hef farið á um dagana.
Og svo komst ég að því hvernig maður segir "allir ávextir" á ítölsku - tutti frutti...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter