<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Dásamlegur seinni partur þessa dags, sem er nú reyndar löngu liðinn þó ég ætti frekar að telja sólarhringinn frá hádegi til hádegis. Frábær söngtími hjá Möggu, kóræfing á eftir hjá Gospel þar sem farið var í aðra útsetningu en ég hef áður sunguð af Havanagila og svo rennt yfir Aguarius, þ.e. öld Vatnsberans og lag úr Sound of Music. Og svo beint á kóræfingu hjá mínum kæru Léttum. Og eftir svona góða upphitun voru raddböndin orðin sópranhæf og renndu sér með "léttum" leik upp í ofurháar nótur í la Traviata söngnum. Hefði með leik getað sungið sópraninn. Yndislegt að frá Maríu mína aftur í kórinn og bara heim og í nálægð.
Það er aftur á móti engar háar nótur á tækjasviðinu hér á bæ. Druslaðist loks með örbylgjuofninn í viðgerð og fæ að vita á morgun hvort það borgar sig að púkka upp á hann greyið. Og þá kem ég heim og dvd spilarinn neitar alfarið að spila diska, segir þá vitlausa (incorrect) og gerir ekkert. Svo það er ekki fyrr búið að láta gera við eitt tæki hér þá bilar eitthvað annað. Ég er orðin ótrúlega góð í að hafa upp á viðgerðarmönnum til að gera við þessi tæki, sem engin er af sömu sortinni eða keypt hjá sama fyrirtækinu. Það væri kannski ráð að fara að hugsa sinn gang og vera ekki svona tækjaóð. Einhvern veginn komst ég nú af án þeirra hér í denn en það var líka í denn. Nú er ég orðin vön öllum þessum frábæru græjum sem gera nánast allt fyrir mann.
Nú sá ég um daginn að komið er á markaðinn enn ein græjan sem mig hefur dreymt um í mörg ár og það er sjálfvirk ryksuga sem bara ryksugar sjálf og stingur sér meira að segja í samband sjálf. Þvílíkt draumatæki og algjört must að eignast fyrr en seinna. Svo bíð ég bara eftir því að það komi á markaðinn uppþvottavél sem er alsjálfvirk. Þar er nefnilega einhver misskilningur í gangi á meðal heimilisfólksins hér að hún taki úr sér og setji í sig sjálf og náni meira að segja í óhreina leirtauið út um allt hús, allavega upp á borð fyrir ofan sig. En því miður er það nú ekki raunin. Kannski halda þau að ég sé framlengingin, þ.e. sérstakur aukahlutur sem fylgir svona hálfsjálfvirkum tækjum.
Ég ætti nú að fara að dóla mér í rúmið. Foreldrafundir í skólanum á morgun, mæting 11.10, 11.20 og 12.30 og börnin þurfa að koma með. Mér finnst svona foreldrafundir þar sem krakkaanginn þarf að sitja og hlusta á þegar talað er um hana/hann í þriðju persónu afskaplega skrítnir. Er þetta ekki fyrirtaksverkefni fyrir skólasálfræðinga að athuga hvernig þetta virkar á þessi grey. Að þurfa að hlusta á kennarann kvarta við foreldrana yfir of miklu blaðri, lélegum heimalærdómi, óásættanlegri niðurstöðum á prófi og hvað annað sem er að angra kennarann í sambandi við viðkomandi nemanda. Var einmitt að horfa á Dr. Phil og hann var einmitt að ræða um lélegt sjálfsmat hjá fullorðnu fólki og allt mátti rekja það til bernsku viðkomandi. Nei, ég var bara svona að pæla í þessu, ekki af því að mikið sé kvartað yfir þessum blessuðu börnum mínum. Yfirleitt það sama sem sagt er. Petra talar of mikið og lærir ekki alltaf heima. Katrín er allt of lengi að klæða sig þegar hún er að fara út í frímínútur og Tristan er ótrúlega duglegur og klár þótt hann sé smár. Þannig að ég er svo sem ekkert að glíma við einhver stórvægileg vandamál.
Og svo eru það þessi vinahópar sem kennarar eru greinilega voðalega hrifnir af. Fór í gengum svona vinahópadæmi með Tristani fyrir áramótin. Vissi nú eiginlega ekkert hvað ég ætti að gera til að hafa ofan af þeim i tvo tíma. Er ekkert mikið svo sem að gera eitthvað sérstakt með börnunum mínum á daginn, er bara hér ef þau þurfa á mér að halda. Nema hvað, að ég ákvað að láta mig hafa það að taka þátt í þessum og um leið af hafa eitthvað gagn af þeim. Lét þau telja allar flöskur á heimilinu og flokka í þrjá poka, seta öll gömul dagblöð í poka og mjólkurfernur og svo var haldið í Sorpu. Fyrir peningana sem fengust fyrir flöskurnar var keypt brauð handa öndunum. Þau voru ótrúlega fljót að gefa þeim enda assk...kalt úti. Og svo var ég svo heppin að það byrjaði að snjóa og þau fóru öll út í garð að leika sér.
Og nú á að setja á þessa vinahópa hjá Katrínu og um leið og ég skrifa þetta man ég að ég á að vera búin að fá þennan hóp hingað. Vogaði mér nú samt á síðasta kennarafundi að spyrja hvað ætti að fást út úr þessum vinahópum, hver tilgangur þeirra væri. Jú, þjappa börnun um saman og eitthvað annað álíka væmið. Ég sagði nú bara eins og var að ég væri með þrjá krakka og þau kæmi alltaf á hverjum einasta degi með a.m.k. einn krakka með sér heim hvert þannig að hér væru lágmark sex krakkar á daginn og mér fyndist það bara meira en nóg. Já, en...það er alltaf eitthvað en ef maður segir eitthvað...láta þau kynnast hinum krökkunum sem þau draga ekki með sér heim á hverjum degi. Ok....ég sagði sem svo að ég gæti svo sem gert þetta, þó ég sæi það ekki þjóna neinum sérstökum tilgangi. Æ, þetta er bara eitthvað eins og að draga rollur í réttir. Ekki mundi ég vilja láta mig þurfa að bjóða heim einhverjum kerlingum sem mig langar ekkert til að bjóða heim.
En þetta er náttúrlega bara ég. Krökkunum finnst þetta voðalega spennandi þó það komi nú fyrir að þau annað hvort gleyma að fara eða vilja ekki hætta að leika sér til að fara. Svona er margt skrítið í kýrhausnum.
En nú er mál að linni að sinni...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter