<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Jís, hvað ég fyllist orku að byrja aftur að syngja og tralla. Eða þá bara að mitt drusluskammdegisþunglyndi er í lægð nema hvoru tveggja sé. Allavega hef ég það bara miklu betra í dag en í gær að ég tali nú ekki um fyrragær.
Að vísu voru nú einhver símtöl sem ég þurfti að hringja í dag sem ég gleymdi en í staðinn kom ég miklu í verk af einhverju öðru. Var eitthvað að dúlla mér í mínum Léttsveitarvef uppfæra og laga. Það má alltaf betrumbæta það sem gott er. Eitthvað var ég nú samt að vesenast með krónikkuangann sem ekki hefur sést á öllum tölvum Léttanna, lét John skoða málið og hann sá ekkert að, en allavega afrekaði ég að þurrka aftur út af henni, en nú er þetta vonandi komið í glimrandi lag aftur og verður vonandi þannig. Ætli ég fái yfir mig alla bókmenntafræðinga landsins þar sem ég er náttúrlega að nota beint nafn á bók Laxness og gleymi að geta heimilda eða setja inn gæsalappir og tilvitnanir.
Katrín og Tristan fóru í enskutíma hjá Ingu ömmu í dag. Hún er öll af vilja gerð að reyna að koma inn í þeirra litlu kolla örlítilli kunnáttu í engilsaxnesku áður en við höldum til USA í apríl. Petra er nú öll að koma til í enskunáminu í skólanum þó lengi hafi hún nú verið af stað, en það er kannski ekki nema von. Eitthvað rámar mig í að minn fyrsti stíll í ensku í Kvennó hafi ekki á neinum stað innihaldið sögnina "do" sem er afskaplega nauðsynleg sögn að nota. Ég bara gat ekki skilið til hvers í ósköpum ég þyrfti alltaf að vera að gera alla hluti. En svo síaðist þetta smá saman inn og ég er alveg ágætlega slarkfær í ensku þó ég hafi aldrei dvalið langdvölum erlendis. Það bara kveiknaði á perunni einn daginn og ég er að vona að það gerist líka með ítölskuna. Þar vil ég helst alltaf nota "sono" fyrir framan allt sem ég segi.
Talandi um allt annað. Ég er að fara í vinnuviðtal í fyrramálið. Ekki kannski alveg vinnan sem mig langar í en vinna samt. Málið er bara að ég má bara ekkert vera að því að vinna úti. Ég get einhvern veginn alltaf fundið mér nóg að dunda við hér heima hjá mér. En í alvöru talað þá held ég að ég hefði gott af því að fara aðeins út á vinnumarkaðinn, en ég er ekki alveg að falla fyrir því að vinna allan daginn, finnst það eiginlega svona aðeins of mikið af því góða. En það kemur allt í ljós á morgun.
Kattartuðran á heimilinu er breima einu sinni enn. Hér hefur sveimað um húsið undanfarnan 2-3 vikur afskaplega sætur, gulur heimilisköttur og gert "hosur" sínar grænar fyrir henni. En þó þessi guli köttur sé voða sætur þá er hann ekki að sama skapi skemmtilegur. Hann mígur utan í allt þannig að húsið og allt umhverfi þess "angar" af kattarhlandi. Hann gengur í kringum húsið allan liðlangan daginn og merkir sér staði. Hann reynir að komast inn allsstaðar sem er glufa, stekkur meira segja upp í glugga fyrir ofan hurðina út á pallinn sem er í tveggja metra hæð til að komast inn. Svo sammjálmar hann ekki, þ.e. hann mjálmar út í eitt, afskaplega þreytandi svo ekki sé meira sagt. Nú hefur annar gulur köttur bæst í hóp vonbiðlanna og hann er hvorki sætur né aðlaðandi. Hann mjálmar ekkert en er aftur á móti ótrúlega ágengur og lætur læðuangann alls ekki í friði. Hann ætlar sér að ná henni hvað sem það kostar. Minnir mig reyndar svoldið á einn af mínum sambýlismönnum þó ég fari ekki nánar út í það.
En nú er mál að linni að sinni. Þarf að vakna snemma í fyrramálið, koma bílnum í réttingu, keyra John í vinnuna á hinum bílnum, fara í þetta vinnuviðtal og ýmislegt fleira sem ég man ekki í svipinn...

Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter