<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 23, 2004

Well. Ellefuáraafmælisveisla Katrínar heppnaðist vonum framar og ég hafði vit á því að laga ekki til áður en hún hófst.
Stakk af úr veislunni rétt fyrir sjö og fór að syngja með Gospelnum í Grafarvogskirkju í kvennamessu (ekki hjá kvennakirkjunni). Ég trúi nú á Jesú Krist og heilagan anda en ræðurnar hjá sumum prestum eru algjörlega óskiljanlegar. Biskupinn okkar blessaður slær þó öll met í óskiljanlegum ræðuhöldum. Hef aldrei náð því um hvað hann er að tala og hef stundum velt því fyrir mér hvort hann sé yfirleitt að tala íslensku. Eins og hann var skemmtilegur forfallakennari í Kvennó forðum. Ekki það að mér finnist hann neitt útúrleiðinlegur núna en hann er bara ekki alveg að gera sig skiljanlegan greyið. Og presturinn í gær, sem var nú reyndar presta, talaði lengi og mikið um skírnina og opna himna og ég fann að ef ég lygndi aðeins aftur augunum var stutt í djúpan og væran svefn svo ég reyndi að halda þeim opnum. Aftur á móti fór hugurinn um víðan völl og ræðan fyrir ofan garð og neðan. Samt alltaf gott fyrir sálina að fara í kirkju. Ætti kannski að gera það oftar án kvaða.
Í morgun þurfti ég að vakna fyrir allar aldir til að fara með Petru til tannréttingatannlæknis (þessi orð fara nú bara að vera eins og vaðlaheiðarverkamannavegavinnuskúr) og í hana vantar eina tönn vinstra megin í neðri góm. Skárri staður en þar sem vantar í mig tönn sem er vinstra megin í efri góm. En hún þarf trúlega að fá spangir einhvern tímann í framtíðinni en fyrst þarf hún að klára að taka tennur. Svo hún verður kölluð inn eftir rúmt ár.
Svo var stormað eina ferðina enn í bandaríska sendiráðið til að sýna ræðismanninum Petru, sem ekki gat mætt um daginn þar sem hún var á Reykjum. Klukkan var bara rétt rúmlega níu og ræðismaðurinn ekki væntanlegur fyrr en um tíu. Við fórum því á Kaffi París og fengum okkur kakó og kaffi og ég fékk ræðuhöld frá bæði Petru og John um reykingar og að hver sígaretta stytti æfina um heilar ellefu mínútur og blablabla. Svo aftur í sendiráðið og þá voru þar fullt hús svo við þurftum að híma úti í kuldanum eftir því að fækkaði í húsinu. Og við tók önnur vopnaleit og líkamsskönnun og allt í einu pípti í John út um allt, sem ekki hafði gert fyrr um morguninn. Það kláraðist aldrei að fullskanna hann þar sem ræðismaðurinn var búin að sjá krakkann og við máttum fara út aftur. Meira assk...vesenið á þessum Könum.
Og það seljast hér orðið Standupar í massavís. Gaman, gaman...

sunnudagur, febrúar 22, 2004

Stundum er ég latasta mamma í heimi og sú allra gleymnasta. Var nærri búin að gleyma afmælinu hennar Katrínar minnar, kveikti á perunni þegar mail kom frá Gospelsystrum um dans í Kramhúsinu og söng í Grafarvogskirkju þann 22. febrúar og þá...ding...Katrín á afmæli þann dag. Halló hversu gleymnar geta mömmsur eiginlega leyft sér að vera. En í dag var farið af stað í afmælisgjafakaup og endað á æðislega flottu reiðhjóli handa stúlkunni. Hún var alsæl þó hún láti það nú ekkert of mikið í ljós. Þessi stúlka mín er afskaplega dul og sérkennileg. Getur dundað sér inni í herbergi tímunum saman án þess að nokkur verði hennar var og hún er þá búin að skapa heilu listaverkin. En tiltekt er aftur á móti allt annar handleggur. Hún reynir í lengstu lög að sleppa því og kemst því miður allt of oft upp með það þar sem þolinmæði mína þrýtur yfirleitt eftir nokkrar vikur. Herbergið hennar blasir líka við manni þegar inn í holið er komið. Ætti eiginlega að færa hana í eitthvað annað herbergi þar sem allt þetta dótarí sést ekki. Það stendur vonandi til bóta þegar sú elsta flytur í kjallaranum og Petra flytur þangað í staðinn. Þá færi ég Katrínu og veggurinn verður tekin niður aftur á milli herbergja Tristans og Katrínar. En það er trúlega seinni tima mál þar sem ég sé ekki nokkuð fararsnið á Hrunsunni í kjallaranum.
Og svo er leti mín svo mikil að ég er búin að humma það fram af mér í allan dag að baka fyrir þetta afmæli. Byrjaði ekki á því fyrr en um hálf tólf. Skil ekki alveg af hverju ég geri þetta þar sem þetta tekur nú ekki langan tíma að snara í nokkrar tertur. Er búin að baka muffins, afmæliskökuna, perutertu og bananarúllutertu og það tók bara einn og hálfan tíma. Mestur tími fer í að bíða eftir að kakan bakist. Sem sagt það búið.
Axel pípari er búin að vera hér frá því í morgun að taka í gegn hitakerfið hér í húsinu sem hefur verið í rauninni must síðan við fluttum hér inn en aldrei verið til peningar fyrr en nú. Hann er sem sagt búin með rörir og þrýstijafnarann og ofnakranana niðri, búin að skifta um krana á vaskinum á baðinu og kemur svo á mánudaginn og klárar ofnana hérna uppi. Þetta er allt annað líf nú þegar, ekkert syngur í ofnunum þó þeir séu settir á fullt.
Og svo keypti ég mér nýjan gemsa í dag. Voðalega lítill og sætur, eiginlega allt of lítill þar sem ég sé akkúrat ekkert á hann gleraugnalaus. Almáttugur hvað þessi elli kerling fer illa með sjónina. Hún bara versnar og versnar og mun víst aldrei skána aftur. Já, mikil er mæða mín...

föstudagur, febrúar 20, 2004

Almáttugur en sú mæða...allur morguninn fór í ameríska sendiráðið. Og ef eitthvað fer í mitt annars fína skap þá er það svona ónáttúruleg paranója eins og er í gangi hjá þessum liði frá landi tækifæranna. Vopnaleit og sprengjuleit og ekki hleypa fleirum en sex inn í húsið í einu og að þurfa að hanga úti í rigningunni og liggur við að fara úr hverri spjör til að sanna að maður er ekki gangandi tímasprengja. Fucking fasistar...og svo er ekki nóg að vera giftur heldur þurfa þeir einhverja eldgamla skilnaðarpappíra líka. Endalaus vottorð og helvítis vesen. En eitt kom þó gott úr þessum pirringi mínum út þessa ameríkana að John minn sá ástæðu til að gefa mér heljarinnar knús, bara svona til að vera góður við mig eftir að hafa lagt það á mig að hanga í sendiráðinu í tvo klukkutíma í annarrar gráðu yfirheyrslu. Svoldið krúttlegt og sætt. Það átti reyndar svoldið vel við að einn öryggisvarðanna var með Internationalinn á símanum sínum, mér fannst það einhvern veginn passa akkúrat. Þetta drusluland sem aldrei hefur viljað hleypa nokkrum manni inn á sína heilögu ættjörð ef það hefur einhvern tímann aðhyllst kommúnisma. En auðvitað þekkja þeir ekki þetta lag, aldrei fengið að heyra það hvað þá annað. Og þetta á að vera frjálsasta ríki heims. Sért er nú hvert frelsið...

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Þetta er nottlega bilun. Klukkan er sex að morgni. Ég held að ég hafi vaknað af því ég þurfti að missa en trúlega hefur kötturinn vakið mig. Hún þarf að fara út á nóttinni greyið til að pissa því nú er hún kettlingafull og er trúlega eins og við konunarnar í sama ásigkomulagi. Þarf að vakna um átta til að láta vita að Katrín og Tristan komi ekki í skólann. Nú er stefnt á bandaríska sendiráðið að sækja um ríkisborgararétt fyrir Tristan og passa fyrri allt stóðið.
Og svo var ég að fatta það að hún Katrín mín á afmæli á sunnudaginn. Hversu utan við sig í tíma er hægt að vera að muna ekki eftir afmælinu hennar. Hún er svo sallaróleg líka að hún hefur ekki minnt nokkurn mann á það að hún er að verða ellefu ára. Ekki eins og systir hennar sem spyr mörgum mánuðum fram í tímann hvað hún megi fá í afmælisgjöf og fer svo að gera kröfur þegar fer að líða af afmæli. Mikill munur á þeim systrum í kröfum. Þannig að ég þarf ræða þetta við hana og fara að undirbúa fyrsta barnaafmæli ársins. En nú ætla ég að tékka á hvort kötturinn hefur lokið sínum þörfum svo ég geti haldið áfram að sofa...

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Ekki í stuði né formi til að skrifa. Fór ekki á kóræfingar né í söngtíma sökum verkja í úlnliðnum. Þarf að láta skoða þetta. Veit ekki hvað er að angra mig í öllum liðum. Petra alsæl í skólabúðunum. Og ég ætla að fara að sofa...

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Sér er nú hver vitleysan. Nú er eitthvað fólk sem ég þekki ekki neitt farið að kommentera á það sem maður lætur út úr sér. Mér finnst nú lágmarkið að fólk láti í ljós skoðanir sínar undir nafni sérstaklega ókunnugt fólk...hmm...en nóg um það.
Ég er enn hálfandlaus þó dagur sé að kvöldi kominn og ég ætti að vera að færast öll í aukana. Þessi dúndrandi árshátíð Léttsveitarinnar er enn í huganum og verður eitthvað áfram. Þvílíkt stuð og skemmtilegheit. Hvert atriði á dagskránni öðru betra og eftir svona hlátur er ég hrædd um að líf mitt vari að eilífu. Og það er gott að vita það að þegar hrukkurnar fara að verða of miklar er bara að skella sér úr brjóstahaldaranum. Kostar ekki neitt.
Petra mín að fara á morgun í skólabúðir í heila viku. Þær vinkonurnar eru búnar að vera að æfa skemmtiatriði hér í margar vikur. Og öll börnin mín komin með það á hreint hvað þau ætla að vera á öskudaginn, ekki ráð nema í tíma sé tekið. Tristan ætlar að vera Baktus og Cesar vinur hans Karíus. Sko Karíus er nefnilega stærri. Petra Kristín sem spurði mig um það um daginn hvort ég hefði verið til þegar "eightís" tiskan var ætlar að vera eightís og búin að finna föt af aldraðri móður sinni. Katrín ætlar svo að vera pempía - sem er í hennar huga nafn yfir svona svísu eða gelgju. Ég mundi nú frekar nota orðið drós eða eitthvað sem ég vil ekki nefna við börnin mín.
En nú ætla ég að horfa á eitthvað í sjónvarpinu, popppunkt kannski...

Dásamleg árshátíð að baki, því miður. Hef held ég aldrei hlegið svona mikið. Það voru farin að vaxa á mig horn. Eftir svona skemmtilegt kvöld er ég hálfandlaus og er helst að hugsa um að hætta að blogga. Geri mér grein fyrir því að það eru allt of margir sem lesa þetta rugl og ég er ekki viss um að þetta tjáningarform henti mér. Þegar ég skrifaði dagbók hér í gamla daga var þetta mun persónulegra og nær sjálfri mér heldur en svona opinbert blogg er. Þetta er einhvern veginn að verða alltaf eins og svona farið oft og tíðum farið í kringum hlutina svona eins og köttur í kringum heitan graut. Reynt að sigla milli skers og báru um hvað er hægt að segja og hvað ekki og það er ekki alveg minn stíll...

laugardagur, febrúar 14, 2004

To be or not to be...þar liggur efinn...Komin heim úr fjölskyldupartýi í Melgerðinu. Dúndrandi gott grillað lambalæri að hætti Melgerðinga, mikið blaðrar og slúðrað og sungið. Ég held að John sé kominn upp í rúm, allavega heyri ég ekki í honum hér á röltinu. Ég held að ég ætti að gera slíkt hið sama. Það fer stundum í taugarnar á mér hvað ég er ligeglad með allt í kringum mig. Eiginlega ekkert sem pirrar mig verulega og allra síst að það gerist lengi. Og svo hef ég voðalega litla skoðun á hinum ýmsustu málefnum sem ég ætti alveg að hafa skoðun á.
Reyndar var svona í lokin eitthvað farið að ræða um væntanlega uppdubbun á Ruth Reginalds og helst að karlpeningnum fyndist þetta algjör óþarfi og vitleysa og manneskjan ætti bara að drífa sig í ræktina eða eitthvað. Halló, ekki mundi ég slá hendinni á móti því að láta lappa aðeins upp á mig fyrir heilar 5 milljónir þó svo að alþjóð fengi að fylgjast með því. Aftur á móti finnst mér skítalykt af þessu máli eftir að ég komst að því að Hanna Kristín Didriksen eða hvað hún nú heitir er einhvers konar verkefnisstjóri yfir þessu öllu saman. Hvernig gengur það eiginlega fyrir sig í þessu þjóðfélagi, konan búin að hafa hundruð ef ekki milljónir af blásaklausum nemendum í snyrtinámi og nú er hún að reyna að ná sér á strik aftur og þetta hlýtur að vera dúndrandi auglýsing fyrir hana. Held nú samt að hún hafi ekki átt von á svona neikvæðri umræðu eins og hefur farið að stað síðan þessir asssk.....femínistar fóru að skipta sér af þessu. Mun aldrei líta femínista sömu augum eftir gigg Léttsveitarinnar hjá þeim í Leikhúskjallaranum um árið. Þar sýndu þær þvílíkt dæmalaust virðingarleysi gagnvart heilum kvennakór að það hálfa hefði verið nóg og síðan er alveg sama hvern fjandann þær láta úr úr sér fara....ég er bara á móti þeim. Svo ég segi bara áfram Ruth, haltu þínu striki og láttu bara gera þig sæta. Ég vildi allavega óska þess að ég gæti sagt með góðu móti "sjáðu sæta naflann minn". En það get ég því miður ekki, því eftir fjórar meðgöngur er minn sæti nafli kominn með skeifu...

föstudagur, febrúar 13, 2004

Mikið er það sorglegt þegar fólk deyr á í blóma lífsins og frá ungum börnum. Í dag er verið að jarða tvær manneskjur á sama aldri og ég, Rut vinkonu hennar Þóru Lár og Matthías Viðar. Matthías hafði nú víst verið veikur í einhvern tíma en Rut bara dó án nokkurs fyrirvara. Lífið er stundum óréttlátt...
Tjáningarþörf mín er í lágmarki þessa dagana en leti mín í hámarki. Stundum er nú allt í lagi að hafa enga nennu en það eru samt sem áður takmörk fyrir því hvað hægt er að leyfa sér það lengi. Nennti t.d. alls ekki að fara með bílinn í skoðun á þriðjudaginn en fór svo með hann í dag og fékk á hann fulla skoðun þrátt fyrir flautuleysi. Skoðunarmaðurinn gerði einungis athugasemd við það. Kannski hefur hann séð á mér að flautan væri nú eitthvað sem ég þyrfti nauðsynlega að hafa og mundi trúlega láta gera við það án mikillar pressu. Ég uppgötvaði þessa bilun um leið og ég náði í bílinn úr réttingu og sprautun og lenti fyrir aftan einhverja gufu í umferðinni. Ég er ekki mjög þolinmóð t.d. á ljósum og þegar fólk svína fyrir mann. Hreinlega læt það fara í mínar fínustu taugar.
Og mér til mikillar gleði er ég búin að redda tansporti á dvd spilaranum til Danmerkur. Og að sjálfsögðu var það Léttsveitarkona sem þar hljóp undir bagga. Hún Helga Sigurgeirs er að fara um helgina í rómantíska valentínusardagsferð til Köben og ætlar að gera mér þann stórgreiða að koma spilaranum til kóngsins Köben þar sem hann er í ábyrgð. Ég vona nú samt að ég eyðileggi ekki helgina fyrir henni með þessu veseni mínu. Ragnhildur ætlar svo að koma honum í viðgerð fyrir mig og koma með hann heim aftur þegar hún kemur í apríl. Já, það er gott að eiga góða að. Að vísu er þetta svoldið langur tími án videós þar sem ég er mikill sjónvarpssjúklingur miðað við það sem heimilisfólkið hér segir og ég verð að trúa því og tek mikið upp þegar hittist þannig á að allir mínir uppáhaldsþættir eru á sama tíma á mismunandi stöðvum. En ég hlýt að lifa það af að nota gamla vídeóið á meðan.
Og nú líður að árshátíð. Fór með Maríu í gær (reyndar fyrradag skv. nákvæmu tímatali) í Flex þar sem hún fann æðislega fallegan kjól. Já, það leynist ýmislegt fallegt í þeirri búð en það kostar líka sitt. En nú er útsala og 50% afsláttur svo verðið er viðráðanlegra þó enn sé það rándýrt. En þessi kjóll er æði og María æði í honum og það er það sem öllu máli. skiptir.
Er búin að fara með þeim að skoða fullt af íbúðum bæði í gær og í dag. Ég elska að skoða hús og íbúðir og einhvern veginn nenna þau að hafa mig með. Mér finnst frábært að fá útrás fyrir þessa undanlegu áráttu mína að hafa gaman af þessu. Fannst það alltaf leiðinlegast af öllu í þau skipti sem ég hef skipt um íbúð þegar ég loksins fann það sem ég leitaði að. Þá var náttúrlega ekki hægt að draga John með sér að skoða meira. Ég gæti haft þetta fyrir hobbí, mér finnst þetta svo gaman. Ætli þetta sé óendanleg forvitni eða ....

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Letihelgi liðin hjá og komin ný vika. Og ekki hef ég staðið í neinum stórræðum undanfarna daga frekar en fyrri daginn. Að vísu kláraði ég að uppfæra portfóliuna mína á heimasíðunni minni og hjálpa Stínu pínulítið með engum árangri og svo ekki söguna meir. Börnin mín fóru með pabba sínum á skíði á sunnudaginn og fíluðu það í botn. Skil stundum ekki hvað maðurinn minn er duglegur að gera alla mögulega og ómögulega hluti með þeim. Og á meðan þau eru einhvers staðar að gera eitthvað skemmtilegt eyði ég yfirleitt deginum á náttfötunum í tölvunni. Svo er María búin að vera hér í allan dag að gera bókhaldið fyrir John. Hún ætlaði sér nú eitthvað að kenna mér að gera þetta, en áhugi minn fyrir bókhaldi er nákvæmlega enginn. Vann við svona í KÁ í gamla daga og fannst það ágætt þá en úff....ég bara meika ekki svona pappírsvinnu. Svo fór ég með Maríu og Arne að skoða eitt raðhús, eitt einbýlishús og eina íbúð í dag og svo fórum við John ásamt þeim að skoða hús hér í Kópavoginum sem ég varð að skoða til að sannfærast um að þetta hús hentaði mér ekki. Ekki vantaði nú stærðina á þetta hús og geðveika staðsetningu niður við Arnarnesvoginn, en húsið sjálft alveg ótrúlega illa skipulagt og hreinlega mætti moka öllu þar út. So...draumastaður en ekki draumahús. Mundi kosta margar milljónir að gera það almennilegt.
Svo fóru Robbi og Hrund að skoða íbúð til leigu á Grettisgötunni og ekki var það nú alveg heldur að ganga upp. En þeim er greinilega alvara með að fara að búa saman og dóttir mín í alvöru að fara að flytja að heima, þessi elska...

laugardagur, febrúar 07, 2004

Ég fékk í morgun nú orðið fátítt brjálæðiskast. Vaknaði við það í morgun kl. átta að John var í sturtu. Börnin ekki komin í snjógallana og eftir að skafa af bílnum og ég veit ekki hvað. Ég þoli ekki svona óstundvísi sérstaklega þegar kvartað var yfir því að stelpurnar hefðu mætt nokkrum sinnum of seint í skólann fyrir jól. Og ekki bætti úr skák að Katrín vildi vera í snjóbuxum af Petru sem Petra hafði sagt já við áður en hún fór út. Um leið og hún stóð í dyrunum og horfði út vildi hún fá buxurnar aftur. Katrín neitaði að fara úr þeim og þær görguðu hver á aðra á meðan Tristan klæddi sig í mestu makindum og engum flýti í gallann sinn. Og John enn í sturtu. Þau voru varla komin út úr dyrunum alveg örugglega aðeins of sein þegar ekki tók betra við til að hressa mína morgunfúlmennsku. Öll borð í eldhúsinu uppfull af óhreinu leirtaui. Ég hafði nefndilega skroppið til Maríu eftir kóræfinguna í gær og komið heim södd og sæl eftir saltkjöt hjá mömmu hennar og því bara alls ekkert farið í eldhúsið.
Það er alveg með ólíkindum að John, að ég tali nú ekki um Hrund, virðast geta komið því inn í sinn haus að helv....uppþvottavélin er ekki með sjálfvirka arma sem teygja sig upp á borð til að ná í óhreina leirtauið. Og hún tekur ekki úr sér sjálf. En í alvöru talað held ég að ég komi aldrei til með að koma þessu inn í þeirra meðvitund.
En eftir að hafa hent í gólfið því sem var ekki brothætt úr uppþvottavélinni og síðan eftir góðan, sterkan kaffibolla og þrjár sígarettur og moggalestur lægði aðeins og ég gat sest við tölvuna mína og dúllað mér. Og svo náttúrlega þegar John kom heim úr vinnunni var ég búin að elda ógeðslega gott spaghetti carponara og öll fýla löngu fokin út í veður og vind. En ég eldaði nú bara af því ég var svo asskoti svöng eitthvað...

föstudagur, febrúar 06, 2004

Það er einhver dæmalaus bloggleti í gangi. Frú Ingibjörg Margrét engan veginn að standa sig og mér finnst líka að góðir hálsar og hálsakot ættu að skrifa meira. Willa og Gunnsa eru ögninni skárri. Aftur á móti skil ég ekki af hverju fleiri Léttur druslast ekki til að blogga. Það væri svo óttalega skemmtilegt. Þær eru ekki einu sinni duglegar að skrifa í krónikkuna þessar kvennsur. Ekki gott.
Og úti er alltaf að snjóa og nú snjóar líka á skjá einum, allavega í mínu sjónvarpi. Rétt náði að horfa með öðru auganu á Tristu og Ryan undirbúa sitt risastóra ameríska bleika brúðkaup. Og stuttu eftir það byrjaði að snjóa og aumingja dr. Phil var orðinn eins og draugur á skjánum og þá gafst ég upp, enda verið að endursýna einhverja gamla þætti með honum um einhver konugrey sem ekki geta slitið sig frá einhverjum delum sem koma og fara og halda framhjá og hver veit hvað.
Og ég lagaði til hjá Katrínu og Tristani og það var eiginlega ekki eins mikið drasl þar inni og leit út fyrir. Aðalllega skítug föt út um öll gólf. Ég ætti kannski að fara að setja óhreinatausdalla inn til þeirra, þó ég held að það sé vonlaust að gera sér vonir um að eitthvað mundi lenda ofan í þeim, nema algjörlega óvart. Og Hrund lagaði til niðri, ótrúlegt. En hún er líka Robbalaus í augnablikinu, hann er einhvers staðar fyrir vestan að leggja gólf.
Ég byrjaði aðeins á Maður að nafni Dave fyrir svefninn í gær. Hinar bækurnar hans voru alveg hrein ágætar en ég veit ekki með þessa. Kannski ég ætti frekar að byrja á Þráni sem mér skilst á öllum sem hafa farið í rúmið honum að sé bara nokkuð góður.
Og ég er búin að fatta af hverju þetta virkar ekki með menúið hjá Stínu. Þarf að hringja í hana á morgun. Ótrúlegt hvað maður er stundum lengi að kveikja á perunni með eitthvað sem á að liggja í augum uppi.
Og svo er bara vika í Léttsveitarársháíð. Og eftir hana er bara einn og hálfur mánuður í Ameríku. Og eftir það má fara að telja niður fyrir Ítalíu. En ég þarf líka að finna einhvern veginn út úr því hvernig ég get komið dvd spilaranum til Danmerkur fyrir apríl. Veit einhver um einhvern sem er á leið til Köben í náinni framtíð...

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Ég er algjörlega uppfull af kvefi. Kenni nuddaranum um. Átti líka von á því að fara að dreyma mikið og undarlega en ekkert slíkt gerðist fyrstu nóttina eftir nuddið. En núna er ég lurkum lamin og dreymir þvílíka þvælu að nóttin endist varla til þess. Ég held að ég fari aftur í svona nudd. Held að nuddaranum hafi tekist að róta í mínum gamla skrokki og fá upp á yfirborðið uppsafnaða streitu og strengi sem löngu var kominn tími á að hleypa út.
Ég hef alltaf verið svoldið akkúrat manneskja, vil gera það sem ég geri vel og ekkert hálfkák á hlutunum. Eftir mín snemmkomnu tíðahvörf hef ég verið með afbrigðum kærulaus, þolinmæðisþröskuldur minn hefur hækkað um mörg stig og líka sá þröskuldur sem mælir drasl. Ég þoli ekki drasl í kringum mig í langan tíma, hætti hreinlega að geta andað þegar húsið er á hvolfi dag eftir dag og allt í skít og drullu. Einhvern veginn hef ég áorkað að leiða þetta hjá mér en það koma samt alltaf tímabil sem ég get sturlast yfir minni eigin leti. En eftir þetta frábæra nudd hefur komið yfir mig einhver orka sem gerir það að verkum að ég er búin að þrífa baðið hátt og lágt og í gær tók ég eldhúsið algjörlega í gegn, þreif meira að segja eldavélina hvað þá annað. Og það sem meira er ég lét það vera að hanga í tölvunni allan daginn. Og nú bíð ég eftir því að það komi yfir mig andi að taka til inni hjá krökkunum. Þar er ekki hægt að þverfóta fyrir drasli.
Í gær afrekaði ég líka að fara og versla í Bónus og það þarf sko þolinmæði í það. Og í leiðinni fór ég inn í Rúmfatalagerinn og rakst þar á voðalega sæta og litla saumavél sem ég ákvað að kaupa handa henni Katrínu minni. Hún var að vonum ánægð með hana, en Tristan er alveg sjúkur núna í að sauma föt á action karlana sína. En hann verður að koma sér í mjúkinn hjá systur sinni til að fá leyfi til að komast í vélina góðu. Að kaupa þessa saumavél leysir þann vanda að hleypa Katínu í saumavélina mína. Þegar ég var krakki fékk ég gamla saumavél sem amma átti og vinkona mín fékk líka saumavél frá ömmu sinni. Þessum tækjum komum við fyrir í kjallarnum heima hjá okkur og stofnuðum í kringum þetta Litla leynifélagið og aðalmarkmið þess félags var að sauma eina flík á dag á Barbie. Og í lok hvers dags fórum við til ömmu og sýndum henni nýju barbíkjólana. Við reyndar hekluðum og prjónuðum líka og amma hrósaði okkur alltaf í hástert yfir því hvað við værum duglegar. Ég á enn þessi frábæru föt. Og nú er hún Katrín mín tekin við af mér. Hver segir að myndarskapur erfist ekki...

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Nuddaranum tókst að nudda í mig kvef, allavega vaknaði ég í morgun þurr í hálsinum með áru út úr auganu. Í gærkvöldi sá ég risastóra zikzak áru út úr hinu auganu, lýsir sér svoldið eins og systir mín segist sjá þegar hún er að fá mígrenikast, en þann ára er ég nú laus við. Hún sér hálft andlit á fólki og einhverjar árur og þá veit hún að kast er í aðsigi. En árans áran fór þegar ég var búin að lesa hálfan Moggann. Fór þrátt fyrir þetta hæsi í söngtíma og mínar tvær kóræfingar og það er alveg ótrúlegt hvað hægt að syngja yfir svona hæsi. Nokkuð ljóst að ég þarf að leggjast yfir textalærdóm í náinni framtíð. Þó að ég komi ekki til að vera með á Léttsveitartónleikunum sökum Bandaríkjaferðar fer ég til Ítalíu og þarf víst að kunna mína texta þar eins og aðrir. Fyrir mér vefst líka fyrsta setningin í Volare eins og reyndar allar hinar setningarnar. Ekki nóg að muna að einhvers staðar kemur lontano.
Þreif baðið í morgun enda ekki vanþörf á en meiru áorkaði ég ekki í tiltekt. Þrátt fyrir mína ítölsku daga á tiltekarplaninu gengur illa að fara eftir því, enda má eiginlega segja að það sé hámark minnar bjartsýni að plana eitthvað fram í tímann og örugglega allra síst hvenær ég er í stuði til að laga til. Taldi bara sjálfri mér trú um að ef ég næði því að gera eitthvað pínulítið á hverjum degi yrði þetta aldrei neitt mál og húsið væri alltaf sæmilega spikk og span. En nei, ó nei, ekki alveg svo einfalt. Kannski ætti ég líka að setja mér fyrir hversu langan tíma þetta má taka á hverjum degi, svona eins og ég gerði tilraun til að gera þegar ég var að lesa fyrir sögupróf í gamla daga. Einhvern veginn var það alltaf þannig þegar ég gerði tilraun til að lesa þessa blessuðu mannkynssögu Óla Þ. að hugurinn fór eitthvað allt annað og þá byrjaði ég að ákveða að lesa svona 20 bls. á klukkutíma og að lokum voru þær komnar niður í tvær og ég náði því varla. Þannig að svona skipulagsagaleysi er mér greinilega bara í blóð borið og lítið hægt að breyta því. Góð afsökun að segja að þetta liggi bara í genunum. En var ekki hámark hraðans að kúka út um glugga á 10 hæð, hlaupa niður og sjá hann koma út...

mánudagur, febrúar 02, 2004

Helgin fór í leti og meiri leti eftir þorrablótið á föstudagskvöldið sem svar skínandi skemmtilegt í ofurstóru húsi Kristínar Lýðs og hennar ektamaka. Allir mátulega fullir og saddir af súrsuðum hrútspungum og fleira góðgæti sem venja er að gæða sér á þorra.
En í dag er ég lurkum lamin eftir allsherjar dekur í Laugum. Var að nota lúxusnuddið sem John fékk í jólagjöf frá vinnunni og bætti svo þar ofan á andlitshreinsun og litun. Þessi staður er eitt allsherjar aromatherapy, sem útleggst á okkar ylhýra ilmefnameðferð. Nuddað upp úr allskyns olíum og fíneríi sem ég kann engin nöfn á. Innifalið í þessu lúxusnuddi var góðfúslegt leyfi til að nýta sér aðstöðu baðstofunnar sem er yfirfull af allskyns sturtum og gufum með mismunandi ilmum, heitu eða köldu vatni, þurri eða blautri gufu, fossasturtu og guð má vita hvað annað. Ekki gafst mér nú samt tækifæri á eftir fjögurra klukkustunda ilmefnameðferð að notfæra mér öll þessi þægindi, þar sem ekki er mælt með því að þvo af sér allan þennan ilm samdægurs. Svo þannig fór um sjóferð þá.
Ég var nú nokkuð ánægð með alla þessa therapíu nema litunin var nú ekki alveg að gera sig. Ég sé ekki nokkurn mun á mínum augnaháradruslum, þ.e. þau sjást ekkert frekar nú en áður. En það er ekki hægt að ætlast til að alls sé fullkomið. Sem sagt nuddið var gott, andlitsendurnæringarmeðferðin fín, nema ég er verri í augunum en áður og var nú ekki á það bætandi. Ég er orðin eins og John Hurt til augnanna og þar er sko leiðum að líkjast. Mann með meiri poka undir augunum er varla hægt að finna og honum veitti svo sannarlega ekki af extreme makeover, allavega ef hann væri kona sem hann er víst ekki og kemst því upp með það að vera bara sjarmerandi með alla þessa augnpoka. Ég get allavega með góðu móti dregið mitt auga í pung!
En nú verð ég aðeins að renna yfir ítölskuna fyrir tímann í kvöld...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter