<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Ég er algjörlega uppfull af kvefi. Kenni nuddaranum um. Átti líka von á því að fara að dreyma mikið og undarlega en ekkert slíkt gerðist fyrstu nóttina eftir nuddið. En núna er ég lurkum lamin og dreymir þvílíka þvælu að nóttin endist varla til þess. Ég held að ég fari aftur í svona nudd. Held að nuddaranum hafi tekist að róta í mínum gamla skrokki og fá upp á yfirborðið uppsafnaða streitu og strengi sem löngu var kominn tími á að hleypa út.
Ég hef alltaf verið svoldið akkúrat manneskja, vil gera það sem ég geri vel og ekkert hálfkák á hlutunum. Eftir mín snemmkomnu tíðahvörf hef ég verið með afbrigðum kærulaus, þolinmæðisþröskuldur minn hefur hækkað um mörg stig og líka sá þröskuldur sem mælir drasl. Ég þoli ekki drasl í kringum mig í langan tíma, hætti hreinlega að geta andað þegar húsið er á hvolfi dag eftir dag og allt í skít og drullu. Einhvern veginn hef ég áorkað að leiða þetta hjá mér en það koma samt alltaf tímabil sem ég get sturlast yfir minni eigin leti. En eftir þetta frábæra nudd hefur komið yfir mig einhver orka sem gerir það að verkum að ég er búin að þrífa baðið hátt og lágt og í gær tók ég eldhúsið algjörlega í gegn, þreif meira að segja eldavélina hvað þá annað. Og það sem meira er ég lét það vera að hanga í tölvunni allan daginn. Og nú bíð ég eftir því að það komi yfir mig andi að taka til inni hjá krökkunum. Þar er ekki hægt að þverfóta fyrir drasli.
Í gær afrekaði ég líka að fara og versla í Bónus og það þarf sko þolinmæði í það. Og í leiðinni fór ég inn í Rúmfatalagerinn og rakst þar á voðalega sæta og litla saumavél sem ég ákvað að kaupa handa henni Katrínu minni. Hún var að vonum ánægð með hana, en Tristan er alveg sjúkur núna í að sauma föt á action karlana sína. En hann verður að koma sér í mjúkinn hjá systur sinni til að fá leyfi til að komast í vélina góðu. Að kaupa þessa saumavél leysir þann vanda að hleypa Katínu í saumavélina mína. Þegar ég var krakki fékk ég gamla saumavél sem amma átti og vinkona mín fékk líka saumavél frá ömmu sinni. Þessum tækjum komum við fyrir í kjallarnum heima hjá okkur og stofnuðum í kringum þetta Litla leynifélagið og aðalmarkmið þess félags var að sauma eina flík á dag á Barbie. Og í lok hvers dags fórum við til ömmu og sýndum henni nýju barbíkjólana. Við reyndar hekluðum og prjónuðum líka og amma hrósaði okkur alltaf í hástert yfir því hvað við værum duglegar. Ég á enn þessi frábæru föt. Og nú er hún Katrín mín tekin við af mér. Hver segir að myndarskapur erfist ekki...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter