<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, mars 31, 2004

Well, komin til Usa með allt mitt hyski. Flugið gekk vel þó Tristan hafi verið orðinn verulega flugleiður eftir tveggja tíma flug. Síðan koma limmi og keyrði okkur af flugvellinum til Kristínar. Og eins og allt í henni Ameríku er húsið hennar huge og Tristan sagði að það væri skrítið að mjólkin væri geymd í olíubrúsum. Hann kann að orða hlutina. Vaknaði í nótt um fjögur að usa tíma og nokkrum mínútum síðar hringdi síminn og það var prentsmiðjan sem prentar söngskrá Léttsveitarinnar og það vantaði einhvern font. Védís reddaði því og ég var varla búin að leggja símann á þegar Heiða í Gospel hringdi til að tékka hvort ég gæti gert auglýsingu fyrir þær fyrir vortónleikana þeirra í maí. Ótrúlegt hvað fólk virðist finna á sér að maður ekki á landinu til að redda öllum hlutum.
Og nú sitjum við hér í rólegheitum, allir komnir á fætur kl. sex og John fór með Kristínu í sundtíma með Isabelle og síðan ná þau í bílaleigubílinn svo hægt sé að komast á milli staða með alla. Planið að fara í gymmið, þ.e. ekki ég og Hrund sem ætlum bara að rápa um eitthvað moll. Svo á að fara í eitthvað workshop þar sem maður getur málað sínar eigin skálar eða dalla og það er síðan brennt og verður tilbúið eftir þrjá daga eða svo. Svipað og konan hans Stefáns Jóns er með á Íslandi.
Á morgun á að vara í aquarium og skoða hákarla og fleira. Kristín er með þetta allt planað svo aldrei verði hér dauður tími. Ekki það að mér finnist ekki bara gott að slappa af. Svo kemur Daníel og fleira skyldfólk hingað um helgina. Sem sagt family gathering og alles.
Nenni ekki að skrifa meira í bili...

mánudagur, mars 29, 2004

Stundum er lán í óláni að karlmenn eru með lægri veikindaþröskuld en konur. Elsku karlinn minn er búin að vera eitthvað slappur undanfarna viku svo hann dreif sig til læknis og út úr blóðrannsóknum kemur í ljós að hann er með sykursýki. Þetta var nú hressilegt sjokk en um leið skárra að þetta kom í ljós áður en við förum til USA. Og nú þarf hann að sprauta sig með insúlíni mörgum sinnum á dag og mæla blóðsykurinn. Og þetta er víst ævilangt. Svo nú verða allir að taka sig á hér á bæ og fara að borða hollari mat, minnka sykurneyslu og eiginlega bara skipta alfarið um mataræði. Förum á morgun að hitta næringarsérfræðing svo John geti vitað hvað hann má borða og hvað ekki. Við vorum nú sjálf búin að áætla að þetta væri sykursýki tegund 2 sem er áunnin sykursýki, en gátum engan veginn skilið að það gæti verið, því hann flokkast ekki undir neitt af þeim áhættuþáttum, þ.e. ekki feitur, reykir ekki, hreyfir sig reglulega og er ekki af asískum eða spænskum ættum. Læknirinn á göngudeild sykursjúkra taldi hins vegar nokkuð víst að þetta væri sykursýki 1 sem er insúlínháð sykursýki. Það þarf að rannsaka blóðið eitthvað meira og senda til útlanda svo trúlega koma niðurstöðurnar úr því á meðan við erum úti. En nú er bara að horfast í augu við staðreyndir og lifa samkvæmt því.
Söngskrá Léttsveitarinnar farin í prentun, ég er að verða búin að þvo allan þvott, pakka niður fötunum af krökkunum og þrífa lauslega húsið. Kettlingsangarnir aðeins farnir að opna augun og búið að flytja þá upp aftur svo Arne geti málað þvottahúsið á meðan við erum úti. Svo kom einhver villa uppí tölvunni minni en María náði að hreinsa út allt sem til skaða var og nú ætti tölvan að vera í skárra ástandi. Það hefði verið að æra óstöðugan ef diskurinn í tölvunni hefði hrunið. Alveg nóg að byrja.is diskurinn hrundi fyrir viku eða hálfum mánuði.
Skattframtöl heimilismeðlima komin til síns heima og okkur ekkert að vanbúnaði að drífa okkur til USA. Nú er bara að finna út úr því hvernig við komumst út á flugvöll með allan þennan farangur. Bíllinn tekur sjö manns en engan farangur þannig að nokkur ljóst er að við verðum að fara að tveimur bílum. Redda því á morgun.
En nú er kominn svefntími. John ætlar í æfingu í fyrramálið og svo förum við að ræða við næringarráðgjafann...

fimmtudagur, mars 25, 2004

Ég er gleymnari en andsk...Ég hringdi í Sollu vinkonu á afmælisdaginn hennar 22. mars, óskaði henni til hamingju með daginn og spurði svo hvort ekki væri örugglega saumaklúbbur þann 24., þ.e. á fimmtudaginn. Ó jú það var nú aldeilis rétt. Svo boðar Gunnsa komu sína í kaffi í kvöld og hún er varla komin inn úr dyrunum þegar síminn hringir og ég spurð að því hvort ég sé ekki á leiðinni í saumó í Fjörðinn. Alló, alló...átti hann ekki að vera fimmtudaginn 24. mars. Jú, 24. alveg rétt en það er nú óvart miðvikudagur. Ég er sem sagt algjörlega búin að týna áttum í þessum dögum, ekki verið með klukku síðan hún stoppaði tvær mínútur yfir tvö á miðnætti um áramótin og það skiptir mig í rauninni engu máli hvaða dagur er yfirleitt. Og í kvöld í saumklúbbnum mundi ég svo eftir því að ég er víst að fara á árshátíð á laugardaginn. Gott að muna það svona á miðvikudegi en nokkuð víst að ég verð búin að gleyma því á laugardaginn. Ranka kannski við mig tvær mín. yfir tólf.
Annars afrekaði ég það í dag að klára Frey eftir að hafa verið sagt að það væri spurning hver væri í vinnu hjá hverjum. Og svo fór ég og keypti ferðatöskur fyrir Ameríkuferðina og allar hinar utanlandsferðirnar sem ég fer í á þessu ári og næstu árum. Og nú er víst að skella á ferðin til Ameríku. Smátilhlökkun og smákvíði er í mér þessa dagana. Veit ekki af hverju.
Kattartuðran færði kettlingana niður í gær og ég var of sein á kóræfingu fyrir vikið. Ég er allt of meðvirk og finnst þessir litlu sætu kettlingar algjört æði eins og reyndar allt ungviði. Hef ekki hugmynd um af hverju kisan vildi endilega færa kettlingana en niður í þvottahús sótti hún og ef hún hefur ákveðið að vera þar næstu vikurnar er ég ansi hrædd um að Arne máli ekki mikið þvottahúsið á meðan við erum úti. En hann kannski nær að mála sturtuna að innan og ég get það gert restina við tækifæri.
En nú er mál að linni að sinni...

sunnudagur, mars 21, 2004

Búin í bloggbindindi í bili. Heimilið enn að jafna sig eftir að diskurinn á byrja.is hrundi og enn hefur ekki verið hægt að endurheimta neitt af þeim gögnum sem þar voru. Sem sagt allar líkur á því að byrja.is sé búið að vera og John ætlar alls ekki að byrja upp á nýtt. Fimm ára vinna fyrir bý og þar við situr í bili að minnsta kosti.
Og hér hefur fjölgað um heila fjóra fjölskyldumeðlimi. Kattarnóran gaut fjórum fallegum og heilbrigðum kettlingum aðfaranótt fimmtudags. Enginn þeirra eins og allir algjör krútt.
Búið að flísaleggja eldhúsið og þetta er allt annað líf. Og nú vildi ég bara óska þess að ég ætti meiri peninga til að framkvæma meira hér í húsinu. En nú verð ég víst bara að vera þolinmóð og fara að spila í lottói eða fá mér vinnu, hmm.
Að öðru leyti hef ég svo sem ekkert merkilegt að tjá mig um á þessu stigi málsins...

miðvikudagur, mars 17, 2004

Ég er hætt að blogga í bili...held ég...

þriðjudagur, mars 16, 2004

Ekki er enn búið að flísaleggja eldhúsið en það klárast vonandi á morgun og ég get farið að taka til hér. Er komin yfir söknuðinn að geta ekki eldað en nú get ég ekki beðið eftir því að uppþvottavélin komist í samband svo ég þurfi ekki að vaska upp. Mér leiðist það og það tekur allt of langan tíma. Og hér eru staflar af óhreinu leirtaui þar sem eldhúsið hefur verið lokað fyrir allri umferð í nokkra daga. Og ég nenni ekki að vaska upp í baðvaskinum.
Sendi Léttsveitarplakatið í prentun í nótt og get náð í það á morgun. Góð þjónusta hjá þeim í Prentmet þó þau vilji ekki ráða mig í vinnu. Og svo er ég búin með miðana og fer með þá í skurð á morgun. Ótrúlegt stundum að ég komi einhverju í verk í leti minni. Er reyndar enn að jafna mig eftir þetta Kringluráp um helgina. Hafðu mig þó upp í morgun til að mæta í klippingu. Var algjörlega að koxa á því að mæta og ætlaði að láta Hrund fá tímann minn en svo var hún farin í vinnu svo ég dreif mig og er núna voðalega fín um hausinn með hanakamp og læti.
Fór í bíó í kvöld með Maríu, Arne og John og sáum Mystic River. Mögnuð mynd og Sean Penn algjört sjarmatröll. Jís, hvað hann er sexí.
Og núna ætti ég að koma mér í rúmið. Er búin að sjá það að það eru alltaf sömu konurnar í Léttsveitinni sem mæta þegar verið að safna peningum svo þetta var engin vitleysa í mér. Flest allar sem voru í þessum tökum um helgina voru líka í Dís og ég er farin að verða sammála þeim sem vilja fara að eyrnamerkja þessa fjáröflun kórsins. Það er engan veginn sanngjarnt að sömu konurnar séu alltaf að safna peningum fyrir aðrar sem sýna engan lit. En nóg ef slíku röfli en ef ég ætti að fá þá peninga sem ég safnaði þessa helgina væri ég búin að borga ferðina mína upp en fæ víst ekki nema 5 þús. kall inn á minn miða og hana nú sagði hænan og lagðist á bakið...

mánudagur, mars 15, 2004

Þetta er nú búin að vera meiri helgin. Það sem maður leggur á sig fyrir Léttsveitina er alveg til að æra óstöðugan. Vakað til sjö á laugardagsmorgun og líka á sunnudagsmorgun. Og svo voru John og börnin send út af örkinni í dag og þau komu ekki heim fyrr en um hálf eitt og skóli á morgun. Petra búin að vera alla dagana en Katrín og Tristan í gær og í dag. Og Hrund og Robbi fengu að sleppa deginum í dag eins og ég. Svo er bara að krossa fingur og vona að þetta fari inn á Léttsveitarreikninginn á réttum tíma. Við eigum það svo sannarlega skilið eftir alla þessa vinnu. En nú er líka komið að öðrum að safna inn á Ítalíureikninginn. Ég hef lokið við minn skammt og rúmlega það. Þetta var voða gaman en anski strempið. Og nóg um það.
Flísarnar að komast á eldhúsið, verður vonandi klárað á morgun. Vantaði nokkrar flísar sem ég þarf að fara og kaupa á morgun og líka hraðlím svo hægt sé að fúa á morgun. Og eldhúsið verður glæsilegt eftir gólfskiptin. Úllala.
Og svo mundi ég eftir því að ég er að fara í klippngu í fyrramálið og ég þarf að koma plakatinu í prentun og gera miðana fyrir tónleikana.
Druslaðist til að ganga frá einhverju af öllum þessum þvotti sem búið var að brjóta svo vandlega saman en hafði ekki ratað í skápana. Það mætti stundum halda að hér byggju 100 manns en ekki sex miðað við magnið af óhreinu taui sem hér safnast upp. Og þó að ég sé stundum voðalega löt við að elda langar mig aldrei meira til þess en núna þegar eldavélin stendur hér í stofunni ótengd.
Og kattaranginn á að fara að gjóta á næstu dögum. Hún hegðar sér voðalega undarlega og er orðin feit og pattaraleg. Hér er veðmál í gangi hvað hún er með marga kettlinga, ég segi þrjá, John segir fimm og aðrir skipta um skoðun daglega. En ég held að ég ætti að koma mér í rúmið, er farin að sjá allt í móðu og ekki til stórræðanna...

laugardagur, mars 13, 2004

Úff, úff, úff. Nú er ég þreytt þó nývöknuð sé, klukkan fjögur á miðjum laugadegi og ég er samt búin að sofa í eina 7 tíma. Þetta var nú meira Kringluævintýrið í nótt. Aldrei hefði ég látið mér detta í hug að ég ætti eftir að eyða hálfum sólarhring í Kringlunni og væri á leið þangað aftur til að vera þar annan hálfan sólarhring. Og ég sagði við Petru að hún gæti skrifað um það í æviminningar sínar að hún hefði nú sofið í Kringlunni.
En sem sagt búin með einn dag af auglýsingatökum og annar dagur framundan. Á sunnudaginn slepp ég en John minn verður að mæta með börnin þannig að Petra verður alla þrjá dagana. Það er nú ekki hægt að segja að þetta hafi gengið sérlega snuðrulaust fyrir sig, endalaus bið en það versta var að fá ekkert almennilegt að borða. Það er ekki nóg að gefa fólki einn kjúklingabita um miðnætti og svo bara gos og kex þess á milli. Vonandi verður þetta eitthvað lagað í dag. Það má eiginlega segja að við höfum haldið okkur gangandi langt fram eftir nóttu með þá von í hjarta að fá að borða allar þær kræsingar sem lagðar voru á langborðið, en nei, ó nei. Sá matur var annað hvort úr plasti eða hafði verið úðaður og lakkaður með allskonar eiturefnum til að þetta liti vel út í mynd. En ég sver það að ef ég hefði komist í návígi við jarðaberin hefði ég sko látið mig hafa það að borða þau þó þau væru hjúpuð lakki.
Ég get nú ekki sagt að ég sé voðalega hress en góð sturta reddar því og gerir mann tilbúna í annan slag í kvöld, því mottóið er: "Allt fyrir Létturnar"...

miðvikudagur, mars 10, 2004

Ég var að vakna eftir að hafa setið hér fram undir morgun og spilað kana við Maríu og John. Það er náttúrlega ekki í lagi með fólk sem hangið svona lengi yfir spilum. Ég vorkenndi aumingja John að þurfa að vakna með krökkunum eftir tveggja tíma svefn.
Ég gleymdi alltaf að hringja í Þóru á laugardaginn. Ég er svo innilega dofin stundum. Vona að Valgerður hafi hringt í hana og látið hana vita að við værum uppgefnar eftir frábæra kóræfingu allan laugardaginn.
Svo er ég búin að taka þá stóru ákvörðun að hætta í Gospelnum. Hef hvorki tíma né nennu til að vera í tveimur kórum og þegar valið stendur á milli Léttsveitar og Gospelsystra vel ég Léttsveitina..
Það styttist óðum í Bandaríkjaferð og krakkarnir orðnir spenntir. Er sjálf svona beggja blands, hlakka til en kvíði þó fyrir. Það er ekkert auðvelt að ferðast með þrjá kolvitlausa krakkagrislinga í henni Ameríku. Þess vegna er fínt að Hrund kemur með líka því þá getur verið einn fullorðin á krakka. Það verður erfitt að hafa hemil á þeim þarna úti og allir óvanir að þurfa að passa upp á allt. Geta ekki bara hlaupið út og suður eins og hér á Íslandi. Hér geta þau valsað um óheft, farið í Kringluna eða Smáralindina sjálf og hlaupið á milli húsa að vild. Það er ekki hægt í henni Ameríku. (skítaland).
Og nú þarf ég að drífa í að kaupa pappír í tónleikamiðna fyrir Létturnar og komast að einhverri niðurstöði með plakatið. Svo var verið að biðja okkur um að vera í auglýsingatökum alla helgina og ég vona svo sannarlega að kórinn sé duglegur að mæta. Við fáum heilmikinnn pening fyrir þetta sem fer upp í ferðina okkar til Ítalíu. Verð stundum voðalega þreytt á að hlusta á sumar kerlingar sem vilja fá allt upp í hendurnar og nenna svo alls ekki að leggja neitt á sig til þess. Það virðast alltaf vera sömu konurnar sem eru boðnar og búnar að mæta á svona gigg og safna pening í ferðasjóðinn á meðan aðrar sitja bara á sínum rassi og nenna ekki að taka þátt. Og oftast eru það þær sem kvarta og kveina yfir því hvað allt er dýrt. Það hafa nokkrum sinnum komið upp svona tækifæri að leika í kvikmynd eða auglýsingu og fá borgað fyrir það, en aldrei næg þátttaka og því tækifærið runnið út í sandinn. Það getur vel verið að konur séu uppteknar og þá er bara að reyna að fá einhvern úr fjölskyldunni eða vinahópnum til að mæta. Ég get bara stundum orðið ferlega pirruð þegar stór partur kórsins getur ekki druslast til að líta jákvætt á það sem kórinn er að gera og eru sífellt nöldrandi yfir öllu. Líti svo hver í eigin barm...

þriðjudagur, mars 09, 2004

Enn er slagveður og verður víst út vikuna. Aumingja kattargreyið kasólett verður að láta sig hafa það að fara út í þetta veður. Held að það muni ganga illa að fá hana til að pissa í kassa, hvað þá kettlinga sem hún gengur með. Nú er ekki nema um vika þar til hún á að gjóta og meðgangan virðist ganga vel í þetta sinnið. Ég er afskaplega meðvirk...nenni ekki að skrifa...

mánudagur, mars 08, 2004

Ég er í undarlegu skapi þessa dagana. Eftir frábæran langan laugardag, umvafin hlýju léttanna kom ég heim og helti mér yfir alla hér á heimilinu. Ekki alveg að fatta af hverju. Börnin mín geta stundum algjörlega farið með mig. Þau gegna engu, ganga um eins og þau búi í svínastíu og ef ég skrepp í burtu í einhverja klukkutíma hef ég á tilfinningunni að allir hér hafi ekki gert annað en að bíða eftir að ég komi heim til að róa undir rassinum á þeim. Algjörlega óþolandi.
Í dag aftur á móti draslaðist ég út í búð að vesla í þessu assk...slagviðri og eldaði svo frábæran mat. En ég er eitthvað döpur í hjartanu og vantar að vera glöð...en ekki svona andlaus...

laugardagur, mars 06, 2004

Þetta var skrifað í gestabókina á fjölskylduvefnum í dag "Góðan dag, var að leita að uppskriftum og rakst þá á þessa síðu. Síðan er frábærlega gerð og kærkomin tilbreyting að sjá ritvillulausa heimasíðu. Takk fyrir mig". Krúttlegt, ha.
Kláraði Frey í dag og fór með í prentun. Sótti um vegabréf fyrir mig og börnin mín og fékk enn eina flísategundina lánaða heim.
Svo hringdi Þóra í dag og langar að fara í bíó og kaffihús á morgun. Hef ekki heyrt í henni lengi. Hún kvartaði yfir bloggleysi svo kannski maður ætti að fara að taka sig eitthvað á í þeim efnum. Spjallaði við Stínu aðeins á Msn og tékkaði á hvort hún og Hanna væru til í að skreppa í bíó á morgun. Hún vildi frekar fara í kvöld af því Hannan var á leið í leikhús. Ætlaði að hringja aftur í Þóru en steingleymdi því í tiltekt og heimilisrekstri. Svo kom Doddi að skoða flísarnar og mælti með að við kíktum í Áftaborg á morgun og þá hafði rifjast upp fyrir mér að það er langur æfingalaugardagur á morgun hjá Léttsveitinni. Ég algjörlega búin að gleyma því og skildi ekkert hvers vegna Stína spurði hvort hún ætti að leggja inn á reikning fyrir standinum eða koma með það á morgun. Kveikti bara alls ekki. Svona er ég nú orðin gömul og gleymin.
Og auðvitað ætti ég fyrir löngu að vera farin að sofa svo ég verði ekki eins og draugur í fyrramálið og vakni yfirleitt til að mæta á kóræfinguna.
Og svo vann Rúni bróðir hennar Sollu vinkonu tvo miða á Korn tónleikana í beinni í 70 mínútum. Horfi nú yfirleitt ekki en dett stundum inn í þennan þátt þegar ég er að flakka á milli stöðva þegar ekkert spennandi er í sjónvarpinu. Það eru allir að vinna eitthvað þessa dagana nema ég. Gunnsa og hennar hele familie vann t.d. kort í líkamsrækt í einhverjum tappaleik. Kannski er ráðið að spila með í einhverju til að vinna eitthvað...og núna zzzzz....

föstudagur, mars 05, 2004

Ekki skánar ástandið á bloggurum. Willa er sú eina sem eitthvað nennir að skrifa. Fór með Maríu í sumarbústað foreldra hennar í gær og þvílík sæla að vera í þessum fallega bústað. Við gerðum nákvæmlega ekki neitt, elduðum okkur carbonara, drukkum rauðvín, fórum í sauna og heita pottinn og gláptum á sjónvarpið og lásum og spjölluðum saman um heima og geima. Dásamleg afslöppun og frekar leiðinlegt að koma heim í allt draslið, uppvaskið enn á vaskinum og allt nákvæmlega eins og þegar ég fór nema bara öllu verra og meira drasl. Og svo er þvottavélin mín ekki viðgerðarinnar virði greyið. Svo þar fór síðasta stóra tækið á heimilinu sem bilað getur. En þvottavélin mín sú arna er nú aldeilis búin að duga greyið árgerð 1986 svo það var kannski ekki við öðru að búast. Nú eru farnar í henni legurnar sem gerist nú með aldrinum. Er ekki alltaf verið að skipta um kúlulegur í mjöðmum á fólki. Get látið þvottavélagarminn ganga svona þangað til hún gefst endanlega upp.
Og ég kemst ekki að neinni niðurstöðum með hvað ég á að setja á eldhúsgólfið sem er orðið ennþá eldra en þvottavélin eða síðan húsið hér var byggt árið 1968. Gæti alveg þegið góð ráð með hvað er best á þetta blessað gólf. Hvað passar við upprunalega eldhúsinnréttingu frá 68 úr tékki og hvítum plastplötum?? Mér er spurn.
Annars er svo sem ekkert merkilegt að gerast í mínu lífið frekar en fyrri daginn...

mánudagur, mars 01, 2004

Það er náttúrlega engin hemja að nenna ekki að blogga lengur. Það virðast allir vera haldnir andleysi og leti sem stunda þessa undarlegu iðju. Ég var að enda við að horfa á óskarinn í nýja sjónvarpinu mínu. Mér varð nefnilega loksins að ósk minni um að þetta sjónvarp mitt gæfi upp öndina og í gær hætti að heyrast nokkuð í því nema í gengum videóið. Og þvílíkur munur að vera komin með risastórt breiðtjald. Að vísu virkaði þetta sjónvarp bara passlega stórt í búðinni en þegar heim var komið er þetta svoldið mikið risastórt en ógislega flott.
Annars er ég haldin sama andleysinu og flestir aðrir bloggarar, hef eiginlega ekkert að segja og eiginlega heldur enga þörf fyrir að tjá mig. Er aðallega búin að eyða vikunni í að skoða hús og fleiri hús með Maríu en hún finnur ekkert sem henni líkar. Að vísu var alveg rosalega flott raðhús sem við skoðuðum í Hafnarfirði en þau sækja allt til Reykjavíkur og það er því skiljanlegt að þau vilji halda sig þar. En það hlýtur að koma að því að þau detta niður á draumahúsið sitt.
Og hinn fallega ljóti og sexí Sean Penn fékk óskarinn...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter