<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 30, 2004

Setti inn myndir frá Oddu á léttsveitarvefinn í dag og dúllaði mér við það fram eftir degi. Dreif mig svo í Byko að panta aðra mdf plötu og láta saga hana niður eftir forskrift. Ætlaði svo að kíkja á Sollu en hún var ekki heima, María ekki heldur heima þegar ég hringdi. Sem sagt ekki nokkur maður heima hjá sér þessa dagana. Fór og verslaði í Fjarðarkaup(um). Veit aldrei hvort þetta eru ein eða fleiri kaup, trúlega fleiri af marka má það sem maður kaupir. Það er aldrei í eintölu. Ég þarf að hringja í foreldra mína. Þau komu frá Danmörku í gær og ég hef ekkert heyrt frá þeim.
Og hér er planað grillpartý með vinnufélögum John´s og mökum á föstudagskvöldið. Veit ekki hvernig skipulag er á því, hvað ég á að búa til og hvað ekki. Mun allavega búa til mitt fína Tiramisu og kannski eitthvað fleira.
Og Hrund fann hreyfingu í dag og fór líka í skoðun og allt í sómanum. Hlakka til að verða amma. Nenni ekki að skrifa meira, something else on my mind...

mánudagur, júní 28, 2004

Jæja, forsetakosningar afstaðar og grísinn lítur á þetta sem afgerandi traustyfirlýsingu. Það má túlka allt mögulegt á ótal vegu. En við sem sagt sitjum uppi með hann næstu fjögur árin að minnsta kosti og lítið við því að gera. Mér finnst allra verst að ég var alltaf ósammála Dabba með þetta assk. fjölsmiðlafrumvarp en er svo ekkert minna ósammála Ólafi um að þjóðin þurfi að greiða atkvæði um það. Á maður ekki að treysta því að réttkjörin ríkisstjórn hafi nægilegt vit til að vita hvað er best fyrir okkur og að forseti vor geti druslast til að halda sig frá þjóðmálunum og haldi sig bara sem mest í útlöndum á skíðum með þotuliðinu. Well nóg um þessa vitleysu alla. Við verðum hvort sem ert bommeruð til helvítis fyrir 2006 miðað við nákvæmar upplýsingar frá Friðþóri og því lítið við þessu öllu að gera. We´ll just take it as it comes...
Hef lítið gert að viti um helgina annað en að láta mér leiðast. Ég held að þetta sé veðrið, þetta árans rok er bara til ama og leiðinda. Fór reyndar og keypti mér bleika skó sem ég er búin að horfa á lengi þó ég hafi ekkert efni á því, en svo má líka spyrja, hefur maður hvort sem er nokkurn tímann efni á því sem maður er að kaupa. Þetta reddast hvort eð er alltaf fyrir horn einhvern veginn.
Eitthvað er nú skárra veðrið í dag og ég ætti eiginlega að vera úti í garði að reita illgresi. Á morgun er svo víst kvikmyndaleikur. Hvar endar þetta eiginlega. Endalaust verið að leika út og suður...

föstudagur, júní 25, 2004

Það eru víst forsetakosningar á laugardaginn. Ekki get ég nú heyrt á fólki að það sé neitt spennt yfir þeim, þ.e.a.s enginn talar um þessar kosningar yfirleitt. Veit ekki hvort ég á að skila auðu eða kjósa Baldur hinn svera, ekki kýs ég Friðþór eða Grísinn. Hann fór alveg með það með þessu fjölmiðlafrumvarpi. Skil ekki alveg af hverju einhver út í bæ má ekki verða moldríkur á einhverjum bisness eða einhver fyrirtæki megi ekki renna saman. Hef reyndar ekkert kynnt mér þetta fjölmiðlafrumvarp en aldrei þessu vant er ég ósammála Davíð og vil ekki setja þessi fjölmiðlalög, en ég er líka ósammála grísnum um að það sé þörf á að láta þjóðina kjósa um það. Væri ekki nær að eyða þessum peningum sem fara í svona kosningastúss og reyna að rétta eitthvað af hallana á spítulunum eða stækka skólana svo þessi krakkagrey geti haldið áfram að læra og fái skólavist. Sér er nú hver assk..vitleysan.
Og þar sem Willa var að tala um miðfótinn þá heyrði ég auglýsingu um daginn frá einhverju hóteli úti á landi sem leyfði veiðar í Rangá eða Laxá AUSTARI og VESTARI. Er ekki alveg í lagi með fólk sem er að búa til texta í þessar auglýsingar. Hef aldrei heyrt um að nokkra á sem er austari eða vestari en aðrar. Það var hreinlega vont að heyra þetta og varð "vondara" og vondara.
Annars hef ég svo sem ekkert að skrifa um. Lífið hér á bæ gengur sinn vanagang með þessum venjulegu látum í börnunum mínum sem rífast sitt á hvað, rústa heimilinu reglulega og bjóða vinum sínum hér í mat á öllum tímum og kvarta svo og kveina yfir því að ekkert sé í ísskápnum. Hrund fór á Deep Purple í kvöld og hún er ekki komin heim ennþá, en miðað við fréttir voru þetta víst hinir bestu tónleikar.
Og hönnun á hillusamstæðunni niðri heldur áfram því nú verður að smíða borð fyrir tölvu og sjónvarp og svo eitthvað meira í framhaldi af því. Grindverkið á pallinum hefur verið sett í salt fram á næsta sumar eða þaðan af lengur og verður gert með heitapottspallinum sem er líka á dagskránni. Og svo vantar mig bílskúr og sólstofu. Það er alltaf hægt að hugsa upp eitthvað sem mann vantar og til að eyða peningunum í. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé ekki gott að safna peningum, enda hefur mér alla mína ævi gengið illa að safna peningum. Mér finnst miklu betra að eyða þeim á meðan þeir eru til og þá er það búið...

fimmtudagur, júní 24, 2004

Alveg er það dæmalaust hvað allir eru eitthvað lausir við það að nenna að blogga þessa dagana. Ég er svo sem ekkert skárri en aðrir.
En núna er ég að fara út og gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Hvort það ber einhvern árangur kemur svo bara í ljós. Stundum verður maður að gera meira en gott þykir. Og svo í sorpu með drasl úr búrinu og kaupa fleiri box undir það drasl sem ég vil ekki henda akkúrat núna. Mér leiðist þetta veðurfar...
Nú er ég endanlega að klikkast á þessu bloggi. Nú hleypur það út og suður og lætur eins og fífl. Búin að fá nóg.
Að öðru leyti er ég búin að vera ógeðslega duglegt í dag. Gangurinn niðri komin í horf og svo tók ég til í búrinu. Það mætti halda að hér væru skipulagsdagar, allt sett í plastkassa og alls kyns box og ég tel sjálfri mér trú um að nú finni ég allt sem ég þarf að leita að. Á nú samt alls ekki von á að svo verði. Yfirleitt finn ég svo góða staði fyrir allt mitt drasl að það tekur sko tímann sinn að finna það aftur.
Grilluðum í gær með Maríu og Arne og átum á okkur gat. Svo var spiluð heil brigde rúberta, án þess að ég hafi hugmynd hvað ég er að gera. Síðan nokkrir kanar á eftir.
Svaf allt of lengi frameftir í dag og ætla ekki að gera það aftur á morgun. Rut kíkti við með Leu að skoða kettlinginn. Og leitaði lengi að uppskrift fyrir Rut af brauðrúllutertu með beikoni en fann ekkert. En nú ætla ég að leggja nokkra kapla og fara svo í háttinn. Er andlaus og nenni ekki að skrifa á þetta leiðindablogg...

mánudagur, júní 21, 2004

Nú geri ég ekki meira í þessu commentakerfi. Þetta er bara orðið nokkuð gott eða þannig. John smíðaði hillur undir vídeóspólur í dag eftir að hafa keypt sér hjólsög og borð undir hana og alles. Assk..flott hilla og nú þarf ég að mála hana. Hélt að ég ætti málningu en svo er alls ekki. So beint í málningarkaup í fyrramálið. Katrín á leið á sköpunarnámskeið á morgun í hálfan mánuð. Vona að henni þyki það gaman.
En nú skal sú gamla í svefn. Kíki á myndirnar sem Odda kom með á morgun, annars vaki ég enn lengur en orðið er...

sunnudagur, júní 20, 2004

Var að setja inn nýtt commentkerfi. Vona að það virki...

laugardagur, júní 19, 2004

Svei mér ef ég gerði bara ekki allt sem ég ætlaði að gera í dag og meira til. Byrjaði á að fara í Sorpu með gler úr Gaukshólunum sem voru að gera mig vitlausa, skröltandi við hvert bömp. Svo í Rúmfatalagerinn að kaupa plastkassa í geymsluna, í Bykó að kaupa og láta saga mdf plötu í hillur niðri, svo í Góða hirðinn að athuga hvort ég gæti notað hansahillu í gatið á innréttingunni, en það gekk ekki alveg upp. Þær eru of stuttar og of mjóar. Keypti í staðinn pastasett handa Hrund, fyrir pipar og salt og litla monsu. Heim með dótaríið og þá vantaði mig fleiri plastbox og renndi í rúmfatalagerinn í skeifunni og keypti fleiri. Og svo náttúrlega lagaði ég til í geymslunni í leiðinni. Allt orðið of skipulagt.
Svo nú getur John tekið sig til við smíðar og keypt sína langþráðu hjólsög eða hvað þetta nú heitir allt saman. Þessi þjónusta í Bykó er algjörlega til fyrirmyndar. Gott ef allsstaðar væri svona góð þjónusta.
Að öðru leyti er ég löt og nenni engu. Úbbs, ég ætlaði með gardínuefnið í póst til Ragnhildar. Geri það á morgun...eins og sá lati segir...

föstudagur, júní 18, 2004

Sautjándi júní að baki. Dásamlegt blíðviðri sem er óvenjulegt þennan dag. Segi eins og Ingibjörg að það er gott að þurfa ekki að hafa áhyggjur af krökkunum. Þau sjá algjörlega um sig sjálf á Rútstúni, koma og fara að vild og ekkert stress. Komum við hjá Rut og Friðgeiri á röltinu heim. Þau eru að koma pottinum í gagnið og miklar framkvæmdir á því heimilinu. Rut varð reyndar fyrir því óláni að taka næstum af sér puttann, hann hékk á bláþræði og þurfti að suma hann aftur á. Síðan rólegheit og grill og við nenntum ekki að fara í bæinn. Krakkarnir fóru bara sjálfir á Rútstún og um hálf ellefu kom Tristan heim og þá hafði Cesar vinur hans stungið sig á títuprjóni (vonandi ekki eitthvað verra en það) og hafði verið keyrður heim í löggubíl. Talaði aðeins við pabba hans og þau ætluðu að sjá til hvernig þetta færi. Aldrei þessu vant ekkert suð um gistingar hér og þar og allsstaðar. Kom Katrínu inn á sköpunarnámskeiðið og það byrjar á mánudaginn. Og síðan fara allir krakkarnir á reiðnámskeið sem byrjar 3. júlí. Og svo skellur alda ameríkana á um miðjan júlí. Gaman, gaman.
Arne búin að mála ganginn og þetta er allt að verða ótrúlega glæsilegt. Og nú stefni ég á rúmfaralagerinn að kaupa plastkassa í geymsluna. Skipulag og meira skipulag. Þoli ekki þessa pappakassa sem hringja saman við minnsta álag. Og svo í Byko að láta saga mdf plötu í hillur fyrir videóspólurnar niðri...

fimmtudagur, júní 17, 2004

Jís hvað netið er sló núna. Ég er að fara yfir um á hormónaflæði. Mér er allt of heitt, börnin mín pirra mig og ég nenni engu. Ætti eiginlega bara að fara að sofa...

þriðjudagur, júní 15, 2004

Hér ríkir vímuástand. Arne búin að mála ganginn niðri og lyktin, ó lyktin. Vona líka svo sannarlega að veðrið fari að skána. Það má náttúrlega láta sig dreyma verandi 17. júní á morgun, hæ, hó, jibbí jei. Kisurnar eru að gera mig klikkaða, ganga hér um mjálmandi, óþolandi. Petra heldur að það sé vegna þess að Doppa vilji ekki þurrmat lengur. Nú sé hún sólgin í kettlingamat. Halló, fyrr má nú tjá sig mataræðið en að sammjálma ekki.
Þarf að hringja í gluggagerðarmanninn sem ætlaði að koma í gær og mæla þetta allt út. Vona að það taki ekki fjögur ár hjá þessum að mæta á svæðið.
Fyrsta léttuganga í kvöld. Hvet mig til að mæta. Nú ætla ég að skrifa nokkra diska fyrir Ingu og vona að það gangi betur en í gær þegar ég var að skrifa hennar diska fyrir mig.
Svo þarf ég að finna út einhver námskeið til að senda krakkana á í sumar. Óhæft að láta þau hanga hér yfir engu. Vona að Katrín mín komist á sköpunarnámskeiðið. Hún er svo listræn þessi elska. Hún fær aldrei bestu myndirnar sínar sem hún gerir í skólanum því þær eru hengdar upp í skólanum. Mér finnst það ekki sniðugt því ég vil hengja þær upp hér heima. Börnin mín eru mínir uppáhaldslistamenn, öll fjögur. Og aldrei að vita nema fyrsta barnabarnið verði það líka, ætti ekki langt að sækja það.
Tjá þar til síðar...

mánudagur, júní 14, 2004

Já það er stundum ekki heiglum hent hvað ég get verið dugleg. Arne kom hér í hádeginu og grunnaði gólfið á mettíma (reyndar ekki minn dugnaður) og María kom hér til að fá uppskrift af saltfiskforrétti. Kristrún systir hennar var að útskrifast með enn eina mastersgráðuna og hún þurfti að finna handa henni skemmtilega útskrifargjöf. Ætlaði að fá mynd eftir Þuríði Sigurðar eða Ingunni vinkonu sína en svo endaði hún á henni Freyju okkar léttu. Fór með henni þangað og þvílík dásemdar málverk sem konan sú hefur töfrað fram. Mynd eftir hana verður efst á óskalistanum yfir fimmtugsafmælisgjafir handa mér. Tristan var alveg heillaður af einni myndinni hennar og nú planar hann að fara oft til tannlæknis og hafa enga holu því pabbi hans er búin að lofa honum 5 þús. kr. í hvert skipti sem hann er holulaus. Já hann er útsjónasamur hann sonur minn. Á leiðinni frá Freyju komum við María við í fiskbúð og allt í einu helltist yfir mig myndarskapurinn, keypti rúmlega tvö kíló af fiskhakki og gerði úr þessu þessar fínu fiskbollur. Og fór með 16 stk. til tengdamömmu sem var alsæl. Hún þykist ekki kunna að búa til fiskibollur konan sú, en auðvitað getur hún það. Hún er alveg hreint ágætis kokkur.
Nú sit ég og skrifa diska og einn þeirra með stolnum stefum Tómasar skrifast bara alls ekki. Óþolandi því þetta er hreint frá diskur með píanótónlist. Búin að gera fjórar tilraunir og nú loksins tókst það, jibbí.
Besta að skrifa fleiri diska og svo svefn því Arne kemur eldsnemma í fyrramálið að mála...
Mikið er skemmtilegt að lesa bloggið hennar Ingibjargar. Í henni rennur ennþá Ítalíublóð, heitt og seiðandi. Ég er sjálf algjörlega komin niður á jörðina eftir þessa dásemdarferð. Það er trúlega íslenska rigningin sem hefur komið mér niður á jörðina. Hún kemst þó ekki með tærnar þar sem sú feneyska hefur hælana.
Hef lítið gert sl. viku annað en að þvo þvott, laga til og falla aftur inn í minn íslenska raunveruleika. Og svo auðvitað að sakna daganna á Ítalíu með öllum þessum yndislegu konum.
Og svo kemur Arne á morgun að mála gólfið í kjallaranum og smiður að mæla fyrir glugganum í herberginu hennar Hrundar.
Og John langar til að fá gesti. María og Arne komu í grill á miðvikudaginn og ég held að hann vilji fleiri svoleiðist ljúf kvöld. Skil ekki alveg að þegar ég er dottin í það að vilja bara vera heima og gera ekki neitt þá vill hann allt í einu hafa fullt af fólki í kringum sig og gera eitthvað. Öðru vísi mér áður brá. Kannski er ég bara ekki nógu skemmtileg?
Held að ég dóli mér í rúmið. Þarf að vinna eitthvað pínulítið í fyrramálið og fara að koma þessum Frey frá svo ég geti gert það sem mig langar til, sem er nú reyndar ekki neitt sérstakt...

föstudagur, júní 11, 2004

Þvottahrúgan hefur minnkað og sér núna í botninn á óhreinatauskörfunni. Sólin skín ekki eins mikið og í gær og fyrradag en ágætisveður samt. Hundrað hlutir sem ég þarf að gera. Börnin búin að snúa sólarhringnum við og mál að finna einhvern námskeið sem hægt er að senda þau á. Og svo þarf ég að hringja og fá mann í gluggan niðri hjá Hrund. Arne kemur í dag að undirbúa málun á stiganum og gólfinu niðri. Ætti að fara í Byko og láta saga plötu í hillur fyrir videóspólurnar. Er ennþá þreytt eftir Ítalíuferðina, en það er bara líkamleg þreyta. Sálin er enn uppfull að samverunni við létturnar. Og tengdamamma á afmæli í dag...

miðvikudagur, júní 09, 2004

Jæja, þá er maður eitthvað að jafna sig eftir þessa frábæru Ítalíuferð og ekki er verra að koma heima í þetta ítalíuveður sem hér virðist ríkja sumar eftir sumar. Er búin að vera óskaplega dugleg í garðinum, búin að þrífa og snurfusa pallinn og lagaði til í garðskúrnum í dag, setti niður tvö runna, færði til blóm og alles. Og svo er ég enn að þvo og þvo. Hvernig er hægt að safna upp svona miklum þvotti á einni viku. Almáttugur, þvoði sex vélar í gær og búin með tvær í dag, gat ekki byrjað að þvo fyrr en um þrjú þar sem mig vantaði þvottaefni og Hrund á bílnum. Og enn er óhreinn þvottur í ábyggilega einar sex vélar í viðbót, halló.
Já, Ítalía. Þetta er nú meira dásemdarlandið, ég verð nú bara að segja það. Ég er algjörlega kolfallin fyrir þessu landi, fólkinu sem þar býr og málinu sem það talar. Verð og ætla að læra meiri ítölsku og ætla alveg örugglega aftur til Ítalíu eins fljótt og auðið er.
Ef einhver vill fá nána ferðasögu endilega skoða síðuna hennar Willu.
Síðasti skóladagur í dag hjá krökkunum, einkunnafhending og öll stóðu þau sig ágætlega í þeim fögum sem einhverju máli skipta. Svo nú er bara sól og sumar og bjartir dagar...

sunnudagur, júní 06, 2004

Dásamleg vika á Ítalíu liðin og aftur heim í hversdaginn og þó. Nóg að gera í garðinum, veðrið eins og best verður á kosið, glaðasólskin og steikjandi hiti, bara alveg eins og á Ítalíu.
Ég gæti trúlega skrifað heila bók um Ítalíu og það getur vel verið að ég geri það einhvern daginn. Þetta var reyndar svoldið strembin vika, fernir tónleikar á sjö dögum og mikil ferðalög. Fyrstu tónleikarnir í Riva, svo Feneyjar þar sem rigndi á okkur eldi og brennisteini, svo Torbole og loks Piacenza þar sem Jóhanna bjó um hríð. Allt saman einstaklega vel heppnaðir tónleikar og fullt af áhorfendum. Svaf eins og steinn í nótt í rúminu mínu og dreymdi tóma vitleysu, með kvikmyndatökulið allt í kring.
En nú ætla ég aftur í garðinn, klára að þrífa pallinn og svo að grilla í kvöld, enda veðrið til þess, ciao þar til síðar...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter