<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júní 25, 2004

Það eru víst forsetakosningar á laugardaginn. Ekki get ég nú heyrt á fólki að það sé neitt spennt yfir þeim, þ.e.a.s enginn talar um þessar kosningar yfirleitt. Veit ekki hvort ég á að skila auðu eða kjósa Baldur hinn svera, ekki kýs ég Friðþór eða Grísinn. Hann fór alveg með það með þessu fjölmiðlafrumvarpi. Skil ekki alveg af hverju einhver út í bæ má ekki verða moldríkur á einhverjum bisness eða einhver fyrirtæki megi ekki renna saman. Hef reyndar ekkert kynnt mér þetta fjölmiðlafrumvarp en aldrei þessu vant er ég ósammála Davíð og vil ekki setja þessi fjölmiðlalög, en ég er líka ósammála grísnum um að það sé þörf á að láta þjóðina kjósa um það. Væri ekki nær að eyða þessum peningum sem fara í svona kosningastúss og reyna að rétta eitthvað af hallana á spítulunum eða stækka skólana svo þessi krakkagrey geti haldið áfram að læra og fái skólavist. Sér er nú hver assk..vitleysan.
Og þar sem Willa var að tala um miðfótinn þá heyrði ég auglýsingu um daginn frá einhverju hóteli úti á landi sem leyfði veiðar í Rangá eða Laxá AUSTARI og VESTARI. Er ekki alveg í lagi með fólk sem er að búa til texta í þessar auglýsingar. Hef aldrei heyrt um að nokkra á sem er austari eða vestari en aðrar. Það var hreinlega vont að heyra þetta og varð "vondara" og vondara.
Annars hef ég svo sem ekkert að skrifa um. Lífið hér á bæ gengur sinn vanagang með þessum venjulegu látum í börnunum mínum sem rífast sitt á hvað, rústa heimilinu reglulega og bjóða vinum sínum hér í mat á öllum tímum og kvarta svo og kveina yfir því að ekkert sé í ísskápnum. Hrund fór á Deep Purple í kvöld og hún er ekki komin heim ennþá, en miðað við fréttir voru þetta víst hinir bestu tónleikar.
Og hönnun á hillusamstæðunni niðri heldur áfram því nú verður að smíða borð fyrir tölvu og sjónvarp og svo eitthvað meira í framhaldi af því. Grindverkið á pallinum hefur verið sett í salt fram á næsta sumar eða þaðan af lengur og verður gert með heitapottspallinum sem er líka á dagskránni. Og svo vantar mig bílskúr og sólstofu. Það er alltaf hægt að hugsa upp eitthvað sem mann vantar og til að eyða peningunum í. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé ekki gott að safna peningum, enda hefur mér alla mína ævi gengið illa að safna peningum. Mér finnst miklu betra að eyða þeim á meðan þeir eru til og þá er það búið...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter