<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Það er nokkuð ljóst að sumarið er ekki bloggtími. Fólk er út og suður í sumarfríum og má ekkert vera að því að segja öðrum frá og ég er ekki skömminni skárri.
Löngu búin að gleyma hvað ég hef gert af mér þessa vikuna. Kannski bara nánast lítið og þó. Málaði svoldið fyrir Bimbu og Einar Gylfa þarna um daginn og allt er þetta að smella hjá þeim og áætlaður flutningur seinnipartinn á morgun.
Fór og söng í brúðkaupi ásamt nokkrum eðalkonum úr Léttsveitinni við undirleik Öllu á laugardaginn. Gekk að ég held bara alveg hreint ágætlega og eftir sönginn komu Bimba, María og Binna ásamt hennar manni hér á pallinn í góða veðrið og sötruðum við saman svoldið rauðvín og möluðum saman inn í nóttina.
Daginn eftir örlítil þynnka sem enginn tími var til að velta sér upp úr því planað var matarboð að hætti Hlégerðinga hér um kvöldið. Grillaðaður lemonmustardchicken og mikið meðlæti. Jón bóndi sá sér ekki fært að mæta, en Rikke, Hanne, Halli og Hanne, Kristín og Inga og Halli eldri mættu hér og talað saman á öllum tungumálum nánast. Skemmtilegt kvöld og maturinn eiginlega of vel heppnaður ef það er hægt.
Í gær skroppið í Smáralindina í klukkustund með Kristínu og svo skötuselur hjá Ingu. Og í dag á Jómfrúnna í lunch og svo rápað um laugaveginn í allar design búðirnar þar. Keypti mér voða sætt bleikt úr við bleika kjólinn minn. Allt voða bleikt og sætt hjá mér. Kíkti aðeins við hjá Bimbu, naglhreinsaði nokkra lista og raðaði þeim upp að veggjum en varð þá eitthvað flökurt, hef ekki hugmynd út af hverju en hélt hér heim, upp í rúm og dormaði yfir sjónvarpinu fram eftir kvöld og nú er ég ekkert syfjuð...

föstudagur, júlí 23, 2004

Eitthvað hafði nú misskilist tíminn sem hún dóttir mín átti að fara í sónarinn, átti víst að mæta tíu þó svo Robbi hafi verið búinn að hringja og fá staðfestan tímann kl. ellefu. En annar tími fékkst kl. tvö. Litla krílið í himnalagi og hreyfði sig mikið. Petra fór líka með okkur. Fannst þetta svoldið skrítið. Fínar myndir með vangasvipnum, alveg eins og pabbinn. Fengum að vita kynið en eitthvað vill Hrund ekki alveg segja öllum frá hvort það er. Segjum bara að ríkjandi kynið í hennar móðurfjölskyldu ráði og spái svo hver í það.
Er afspyrnulöt þessa dagana, einhvern vegin andlaus eftir dauða kettlingsins, sem situr eftir í minninu. Doppa að jafna sig eftir ófrjósemisaðgerðina, en virðist eitthvað dauf. Fylgist vel með henni því ekki vil ég lenda í því að horfa upp á hana fjara út. Það væri hræðilegt.
Fór á æfingu í gær fyrir brúðkaupið sem við nokkrar léttur eru að syngja í um helgina. Dóttir Guðmundu að gifta sig. Æfingin heima hjá Öllu gekk alveg ljómandi vel og Jóhanna peppaði okkur upp og sagði að við værum frábærar sem við náttúrlega erum. Svo nú er bara að læra textann nokkurn veginn og brosa og vera sætar.
Og eftir æfinguna var okkur boðið í afmæli hjá Margréti þar sem á borðum voru þvílíkar veigar. Hún er ekki lengi að hrista hnallþórurnar upp úr erminni, kom heim frá London kvöldinu áður. Verð að prófa marenzrúllutertuna hennar við fyrsta tækifæri. Skemmtilegt kvöld með skemmtilegum konum.
Eitthvað var nú mágkona mín að pæla í að rölta í búðir á Laugaveginum í dag og vill svo fara á skrall í kvöld. Er nú ekki alveg í því stuðinu enda er nákvæmlega ekkert að gerast í bænum þessa dagana. Langar samt að skreppa á miðvikudaginn og heyra í bandinu hennar Öllu. Er búin að vera á leiðinni til þessa oft en aldrei látið neitt verða úr því. Og svo var ég að lesa í Mogganum að Marianne Faithful er á leið til landsins í kringum afmælið mitt. Ætla á hana alveg örugglega.
En nú ætla ég að skella mér í sturtu og skreppa svo og mála pínu fyrir Bimbu. Minna má það nú ekki vera...

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Er á leið í sónar með Hrundsunni. Meira á eftir...

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Það eru enn allir í sjokki yfir dauða kettlingsins. Hrund svaf nánast ekkert sl. nótt og Petra mín grætur yfir þessu öllu saman. John fór með kettlinginn í krufningu upp á Keldur í gær og það tekur nokkra daga að finna út úr því hvað raunverulega gerðist. Sjálfri líður mér hálf illa yfir þessu öllu saman.
Við fórum svo með Doppu í morgun að láta taka hana úr sambandi. Og við vonum að hún veikist ekki því þá yrði allir óheyrilega daprir og það er nóg komið af því.
Stefnan tekin á Húsdýragarðinn í dag með Kristínu og Ísabellu. Inga og Halli ásamt Rikke og Hanne í vestfjarðatúr fram á föstudag svo Jón bóndi er einn í kotinu og Kristín verður víst að sinna honum.
Og þar sem ég er komin á fætur svona snemma ætla ég að reyna að ganga frá þvotti og þvo nokkrar vélar áður en haldið verður í húsdýrin...

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Það ríkir sorg hér á heimilinu því litla Monsan dó í nótt. Við tókum eftir því að hún var veik um ellefuleytið og rétt fyrir fjögur í nótt var hún dáin. Og við gátum ekkert gert. Það var ömulegt að horfa upp á dýrið svona veikt og það tók okkur Hrund langan tíma að viðurkenna að hún væri dauð og við gætum ekkert gert. Ég ætla að láta skoða hana og sjá hvort þetta hefur ekki verið kattafár, sem miðað við hvernig þetta gekk fyrir sig er líklegast. Við John fórum með Doppu upp á dýraspítala og létum sprauta hana við kattafári, þó svo það hafi lítið að segja ef hún er smituð nú þegar. En yfirleitt ná fullorðnir kettir að vinna sig út úr þessu fári, en í kettlingum þar sem líkamsstarfsemin er rosalega hröð er yfirleitt ekkert hægt að gera.
Hrund mín svaf nánast ekkert í nótt og Petra grét mikið í morgun þegar ég sagði henni að kettlingur hefði dáið. Bæði Doppa og Monsa eru mjög hænd að Petru...
Ja, hérna hér. Þetta er nú meiri dagurinn. Fór með Kristínu í klippingu til Jóu í morgun og nú er hún "funky" eins og hún orðar það. Ég dúllaði mér með Isabelle á meðan. Svo í Gauk í late lunch. Fór svo og keypti eina partýtjaldið sem fáanlegt er á stórkópavogssvæðinu eða þannig. Ekki alveg eins og ég hefði viljað en betra en ekkert. Svo heim að undirbúa matarboð hér í kvöld. Skemmtilegt kvöld og fínn matur að hætti grillmeistarans á heimilinu.
En svo fór Monsan að haga sér eitthvað skringilega, gubbaði og skeit og greinileg eins og verið væri að hræra innan í maganum á henni. Hún dröslaðist út greyið með skítaslóðina á eftir sér. Týndist svo inn í runna og alveg sama hvað Petra og Hrund leituðu, þær fundu hana ekki. Petra með mikinn áhyggjusvip og ég svoldið stressuð yfir útliti kattarins. Loks skilaðu hún sér inn og var alveg ógeðslega veik, himna yfir augunum og hún hreinlega grét af kvöldum. Reyndi og reyndi að ná í Dýraspítalann sem gefur upp bakvakt allan sólarhringinn, en ekkert gekk. Fann svo símann hjá dýralækni að nafni Helga og náði loks í hana eftir margar tilraunir rétt fyrir tvö. Þá var kattargreyið búið að æla öllu sem hægt var að æla. Helga þessi sagði mér að taka allan mat frá henni, hræra saman eina eggjarauðu og eina msk. af rjóma og píska saman og gefa svo kettlingunum á tveggja tíma fresti ca. eina tsk. eða varla það. Kom ofan í hana örlitlu og nú hangir þessi angi, reynir að mala þegar henni er klappað og nú verð ég bara að bíða örlítið lengur og reyna að koma ofan í hana annarri skeið áður en ég fer að sofa. Hræðilegt að horfa upp á svona dýr svona veik. Þetta gæti verið kattafár eða þá að hún hefur étið eitthvern skrattann úti einhvers staðar. Vona bara að henni batni en fer með hana til dýralæknis strax í fyrramálið.
Er sjálf að fara í klippingu og allar stelpurnar líka, en Tristan þrjóskast við og er að safna hári.
Ætla að kíkja aðeins á OC áður en ég hef kettinum meira af þessu jukki...

mánudagur, júlí 19, 2004

Ég sé ekki í fókus. Ég held að ég sé að reykja frá mér sjónina eða eitthvað. Fór í gospelútilegum um helgina. Fyrsta útilegan þeirra og þetta var voða skemmtilegt, þó ekki hafi nú mætingin verið sú sama og hjá léttum um síðustu helgi. Mikið spjallað, sungið og hlegið. Fíla þessar gospelsystur í tætlur og vildi að kóræfingar hjá þeim og tónleikar væru jafnskemmtilegir og hjá okkur léttunum. En nú langar mig að byrja aftur og sjá hvort stefnan breytist ekki eitthvað.
Kristín kemur til landsins á morgun með Isabellu og matur hér annað kvöld svo ég held ég drulli mér í svefn. Svaf ekki yfir mig í útilegunni og aumingja Gunnsa svaf nánast ekki neitt. Nokkuð ljóst að vindsængin lekur og það var lítið loft eftir í henni í morgun og svo er kattarhlandslykt í tjaldinu svo ég held að ég skelli innra tjaldinu í þvottavélina. Það hlýtur að vera í lagi. Allt betra en hlandlyktin...

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Jæja, eitthvað eru augun að skána en samt ekki nógu góð. Ekki reið nú Guðrún mín feitum hesti frá tupperwareinu í gær, en við Sigrún vorum allavega duglegar að kaupa okkur fleiri dollur í safnið. Ekki komust nú allar sem ætluðu að koma. Solla þurfti að rjúka, stoppaði í einhvern hálftíma og Sigga komst ekki þar sem engin var pössunin heima við.
Ég ætlaði svo að reyna að snúa sólarhringum við og vaka af mér nóttina en ekki tókst það nú. Er eitthvað voðalega löt og leiðinleg þessa dagana og næ ekki úr mér letinni. Kláraði reyndar að mála hilluna sem John var að smíða undir vídeóið niðri og sitthvað fleira sem ég hef svo sem gert, en ekkert svo orð sé á gerandi.
Síðasti dagur á hrossanámskeiði barnanna á morgun og þá á að grilla. Svo er ég ekki búin að gera það upp við mig hvort ég skrepp með Gunnsu í gospelútilegu á laugardaginn. Langar aðeins að kíkja en leiðist að keyra þó ekki sé nú langt að fara...
Well, smápása á skrifum, var að spjalla við Ragnhildi og hún krossar fingur og vonar að sumarið komi á mánudaginn í Danaveldi.
En nú ætla ég að gera eitthvað af viti hvað sem það getur nú verið...

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Ég held að ég sé með ofnæmi fyrir sjálfri mér. Augun í mér eru sokkin inn í hausinn, og þegar líða tekur á kvöldið hætti ég að sjá í fókus. Og það er ekkert sem pirrar mig meira en þegar ég lít í spegil og ég er ljótari en ég á að mér að vera.
Dásamleg Léttsveitarútilega að baki. Aldrei verið jafnfjölmennt, held að mætt hafi yfir hundrað manns, mikið sungið, borðað og spjallað. Odda fór á kostum á gítarnum ásamt Gunnari. Það er nú ekkert slor að fá svona gæðaspilara til að halda okkur á réttu tónunum. Annars fékk ég komment frá mínum heittelskaða og börnunum mínum að ég hefði verið ívið of hávær á köflum. Gott að mig rekur ekki minni til þess, þó ég svo sem trúi þeim alveg. Mér liggur ansi hátt rómur stundum ( en bara stundum).
Finnst leiðinlegt til þess að vita að við höfum ekki gengið nógu vel um og það hafi verið sígarettustubbar út um allt. Ég tek þetta ekki til mín þar sem ég mætti með þrjá öskubakka á svæðið og notaði þá eins mikið og ég gat. Veit aftur á móti að börnin mín sáu um að ata allt svæðið út með bláberjum, en það samlagast vonandi náttúrunni fljótt og vel.
Ég fæ yfirleitt heiftarleg fráhvarfseinkenni eftir samveru við þessar yndislegu Léttur, langar ekki til að tala við nokkurn mann í marga daga á eftir. Reyndar kenni ég mínum bólgnu augum svoldið um það. Held að ég þurfi alvarlega að fara að hugsa um það að hætta að drekka rauðvín eða bara að drekka yfirleitt.
Hér bankar einhver...úbbs verið að skila Monsu. Hún hefur verið á einhverjum flækingi. Ætla að skella mér í sturtu og drífa svo í því að hringja í einhverjar kellur og smala í tupperware annað kvöld. Er einhver sem gefur sig fram...

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Ætti þetta blogg ekki að vera til að skrifa hugsanir sínar. Ég er komin á þá skoðun að ég hugsi ekki neitt nema rétt í lok dags rétt áður en ég svíf inn í draumalandið. Ég er alltaf að skilja betur og betur söguna hennar Svövu Jakobsdóttur, "Saga handa börnum", en sú saga fjallar einmitt um móður þar sem börnin taka úr henni heilann og setja í krukku sem höfð er uppi á hillu. Konan finnur lítinn mun á sér án hans og getur gengið í öll sín verk. Þannig líður mér stundum. Þarf ekkert á mínum fína heila að halda. Get alveg gert allt sem ég geri án nokkurrar heilrar hugsunar. Æ, æ...mörg er mæðra mæðan.
Annars ætla ég að gera fullt í dag sem ég hef trassað undanfarna daga, klára að mála hilluna góðu og ganga frá 10 tonnum af þvegnum þvotti og undirbúa léttsveitarútilegu. Ég kemst aldrei úr náttfötunum fyrir fimm á daginn og ef einhver kíkir í kaffi hér er ég alltaf á náttunum að laga til eða eitthvað álika gáfulegt. Já líf mitt eru náttföt, óhreinn þvottur og drasl. Nei, ég segi nú bara svona.
Ansi hreint skemmtileg léttuganga á þriðjudaginn, metþátttaka þar eins og verður í útilegunni. Sumar okkar þurfa greinilega gulrót til að koma sér út úr húsi. En það var gaman að hitta aftur þessar frábæru konur, spjalla aðeins og hlæja. En nú dugar ekki lengur að dedisera, draga vírinn og emilera...

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Vinnupartý bóndans tókst vel, gæðamatur að hætti Garðars og mikið spjallað og drukkið, spilað babminton og hvað eina. Held nú samt að ég hafi drukkið aðeins of mikið rauðvín svona í restina og er ekki alveg með það á hreinu hvað gerðist hér síðasta klukkutímann eða svo, og þó.
Börnin byrjuð á reiðnámskeiði og finnst voðalega gaman, en það er assk...langt að keyra þarna upp í Íshesta við Kaldárselsveg. Petra ríður hesti sem heitir Kolskeggur, Tristan er á Rauðu-Þrumunni og Katrín á Ragnari. Alveg stórkostlegt að koma þessum börnum á fætur á morgnana og þá kannski eitthvað fyrr í rúmið á kvöldin. Þegar ég keyri þennan Kaldárselsveg kemur upp svoldil fortíðarnostalgía. Það var nokkrum sinnum farið í hjólreiðatúr upp í Kaldársel þegar ég var krakki og svo náttúrlega réttirnar og smalabrauðið hans afa sem var það albesta sem hægt var að fá.
Var í kvikmyndaleik í gær og fer aftur kl. fimm í dag. Skil eiginlega ekki hvernig ég nenni þessu, en þetta er svo sannarlega ekkert leiðinlegra en annað.
Ætla nú að klára að grunna þessar hillur sem John var að smíða, ná svo í krakkana á reiðnámskeiðið og kíkja svo aðeins á Bimbu í nýja húsið hennar. Og svo sé ég til hvort ég næ göngunni í kvöld, þ.e. Flórunni. Gerir lítið þó ekki verði mikið gengið. Og svo er það Léttsveitarútilegan um helgina, jei...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter