<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, ágúst 28, 2004

hmm...hvað á ég nú að skrifa um. Foreldrar mínir komu hér í heimsókn í dag og pabbi settur í berjatínslu sem leiðir það af sér að ég þarf að leggjast í sultugerð.
Skrapp til Stínu að stækja indesign diska en þeir virka því miður ekki á pc. Það er víst þannig að pc virkar á makkann en ekki öfugt. Druslu Microsoft eða druslu apple.
Og svo fórum við hjónin til Arne og Maríu í pottakynningu. Og viti menn. Dásamlegir pottar og dásamlegur matur sem upp úr þeim kom. Asskoti dýrir en vonandi peninganna virði. Svo brátt verður það hollustan sem hér ræður ríkjunum. Þetta er náttúrlega bilun. Er ekki bara málið að fara í bankann og fá hagstætt fasteignalán fyrir þessum ósköpum. Og taka í leiðinni lán fyrir öllu hinu sem er inn í framtíðarplönum, sem sagt glerhýsi, heitur pottur og nýjan bílskúr og svo náttúrlega pottarnir. Ég held það bara. Og svo bara að halda eina kynningu og fá grænmetiskvörnina góðu. Þá erum við búin að græða heilan helling, fría rafmagnspönnu og kvörn. Svona á að gera hlutina, koma sjá og sigra.
Annars ætlaði ég inn á netið núna til að sjá hvaða snillingur er að syngja Somewhere over the rainbow í einhverri umferðarráðsauglýsingu og svo núna í myndinni 50FirstDates. Asnaleg mynd en dúndrandi gott soundtrack.
Á morgun er það sultan og kannski einhver tiltekt, t.d. í bílskúrnum, sorpa og úlpukaup á krakkana...

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Suma morgna vakna ég án þessa að langa nokkurn skapaðan hlut til að rísa úr minni mjúku rekkju. Og á hverju kvöldi fer ég að sofa án þessa að langa neitt til þess, neyði mig hreinlega í rúmið. Skil ekki af hverju sólarhringurinn getur ekki verið eitthvað nær mínum þörfum, þ.e. dagur þegar ég þarf á því að halda og nótt þegar ég vil. Klukkan í mér er sex tímum á eftir fyrirskipaðri klukku í þessu landi. Held ég þurfi að flytja til Kúbu eða eitthvað enn lengra til að vera á mínum tíma. Það er hér með í athugun.
Skrapp til Stínu í gær. Hún er öll að skríða saman eftir uppskurð, bjúgað að minnka og allt. Hún er sannarlega búin að taka til hendinni heima hjá sér, skipta um fronta á eldhúsinnréttingunni og flísaleggja ganginn og örugglega eitthvað meira. Gott í henni hljóðið og Hönnu líka, sem er nú komin í háskólanám ásamt Láru.
Börnin mín byrjuð í skólanum eins og öll önnur börn og nú byrjar aftur stríðið við að fá þau til að læra og fara að sofa á skikkjanlegum tíma. Er fegin því að húsbóndinn á heimilinu rekur þau á fætur á morgnana og kemur þeim í skólann. Katrín að fara í haustferð á morgun.
Skrapp á kóræfingu í dag að æfa sænska söngva fyrir sænska kónginn sem verður hér í sepemberbyrjun. Held ég gefi gospelnum sjéns enn eina ferðina. Þegar maður hittir þessar kerlur aftur eftir svona langan tíma er það bara svo óttalega skemmtilegt. Og maðurinn minn hvað ég hlakka til að byrja léttsveitarafmælisárið. Ætlaði að skella mér í létta göngu eftir kóræfinguna en nennti svo ekki. Letin er mig lifandi að drepa þessa dagana.
Grill á fimmtudaginn hjá Melgerðingum og pottakynning á föstudag hjá Maríu. John að fara í veiði á laugardaginn og Xander að fara heim þann dag líka. Sauður framundan og afmælisrit einnig. Svo allt er lífið að smella inn í haustfarveginn þó enn sú úti sól og blíða.
Og Clinton og Hillary farin af landinu eftir að hafa heillað vegfarendur í Austurstrætinu í dag og fengið sér eina með öllu...

föstudagur, ágúst 20, 2004

Loksins, loksins, loksins kom ég þessu öllu inn á ipodið. Og það kostaði sko streð, tölvan endalaust að frjósa. Þetta iTunes forrit er með ólíkindum ömulegt enda frá apple. Af tvennu illu má á þá heldur biðja um microsoft.
Og nú er Gunnsudóttir komin á fæðingardeildina og búið að setja hana af stað. Spennandi að fylgjast með gangi mála. Mín dóttir er að verða svoldið myndarleg en samt sést ekki mikið að hún er komin sex mánuði á leið. Þetta fer henni vel og fer líka vel með hana. Og ég hlakka mikið til að verða amma og fá eitt lítið hér í húsið aftur.
Annars ekkert merkilegt að gerast. John ætlar á Sand í kvöld með krakkana svo ég verð ein í kotinu. Finnst það voðalega notarlegt að geta bara dúllað mér og helst ekki gert neitt nema dvelja í eigin heimi.
Og svo er menningarnótt á morgun...

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Engan enda tekur að setja inn á ipodið. Fékk lánaða fulla tösku af diskum hjá Arne og Maríu og er búin að setja slatta af þeim inn. Ætla að reyna að skila þeim í kvöld. Arne líður ekki vel að vita að diskunum sínum út í bæ. Lánar þá aldrei út úr húsi og ég skil hann vel. Er ekki hrifin af því sjálf og mundi ekki láta hvern sem er fá þá. En ég passa diskana hans eins og sjáaldur auga míns og vona að standi undir þessu trausti.
Fórum hjónin í fimmtugsafmæli Hanne. Dásamlegt veður og sæmileg mæting þrátt fyrir að mikið af fólki sé út úr bænum. Sungið og dansað, spjallað og bara gaman. Sé að ég þarf að fara að plana mitt eigið fimmtugsafmæli og reyna að koma mér niður á hvað ég ætla að gera. Er svo sem með það í kollinum. Planið að halda sameiginlegt afmæli okkar John´s í október í kringum brúðkaupsafmælið okkar og vera þá með fjöldskyldu og sameiginlega vini. Á mínu afmæli langar mig bara til að vera með konur og stefni á það. Hef ekki hugmynd hvernig ég ætla að haga veitingum eða hvernig ég ætla að koma fjölda fólks fyrir hér í húsinu. Á ekki von á að hægt sé að vera mikið úti í nóvember, þó það sé aldrei að vita. En þetta verður ágætis upphitun fyrir væntanlega fermingu Petru á næsta ári.
Tengdamúmmsan talaði nú við mig í veislunni í gær, en hafði á orði að sporðdrekar væru langræknir og bæðust aldrei afsökunar á gerðum sínum. Ég var nú ekki alveg tilbúin að taka undir þessi rök, sagði að þeir væru ekki langræknir og bæðust fyrirgefningar ef þeir sæu ástæðu til. Sumir ættu kannski að líta í eigin barm. Ekki var ég að ausa svívirðingum yfir hana heldur öfugt svo ég veit ekki alveg hver á að biðjast afsökunar við hvern. hmmm....
John fór með Xander og Tristan á slökkviliðssýningu í Hafnarfirði og Petra telur flöskur í poka. Katrín að föndra inni í herbergi og ég í tölvunni. Þannig er nú lífið hér á sunnudagseftirmiðdegi í örlítilli þynnku...

föstudagur, ágúst 13, 2004

Ekkert lát virðist á þessum dæmalausa hita sem vermir landann þessa dagana. Útlendingar kvarta unnvörpum yfir þessari endaleysu, enda að koma til Íslands til að kæla sig niður en ekki að lenda í einhverri hitabylgju hér norður í ballarhafi. Það hlýtur nú samt að vera nokkuð heitt þegar maður endist utandyra í nokkrar mínútur og drífur sig þá inn að kæla sig. Með þessu áframhaldi verðum við að fá okkur loftkælingu í bæði bíla og híbýli (get aldrei munað hvort ypsilonið er í hí eða bý).
Xander kvartar sáran yfir hita, komin alla leið frá Boston til að losna úr hitakófi og lendir svo hér í sama hitanum. Honum líkaði betur rigningin og rokið sem var á Snæfellsnesinu í síðustu viku, þó rignt hafi þá úr hófi. Hann er á hestanámskeiði og að farast úr hita.
Ég er afskaplega löt þessa dagana, aldrei þessu vant hef ég afsökun fyrir því að geta ekki tekið til í herbergjum krakkanna sem löngu er orðin þörf á. Reyndi í fyrradag að byrja inni hjá Katrínu þar sem alltaf er nóg af drasli, en gafst upp eftir fimm mínútur sökum hita. Ofninn á fjórum og glugginn lokaður. Petra fær nú borgað fyrir að taka til inni hjá sér og hún gerir það samviskusamlega einu sinni í viku og gerir það meira að segja bara vel, þurrkar af, ryksugar og skúrar og skiptir á rúminu og alles. Aldeilis munur það. Katrín aftur á móti lætur ekki ginnast af peningumtilboðum mínum eða þá að hún hreinlega leggur ekki í allt draslið sem inni hjá henni er. Ef hún aftur á móti fengi borgað fyrir að drasla út væri hún milljónamæringur. Hún er alltaf að búa eitthvað til og hefur aldrei tíma til að ganga frá eftir sig. Svo riður hún fötunum út úr skápunum hjá sér og setur þau aldrei inn aftur svo ég er endalaust að þvo föt sem aldrei hefur verið farið í, þau eru bara þarna á gólfinu með öllu hinu dótinu. Tristan lagar til þegar hann vantar pening. En nóg um peninga og tiltektir.
Kláraði í dag að setja alla diskana mína inn á ipod. Svo get ég dundað mér við það næstu daga að búa til alls konar lista og dúllerí.
María og Arne komu hér í kvöld og við grilluðum og spiluðum og kjöftuðum. Alltaf gaman að fá þau í heimsókn. Þyrftum bara að fara að gera þetta að reglu að taka frá eitt kvöld í viku og borða saman eða þá bara spila og sötra rauðvín. Bráðnauðsynlegt fyrir geðheilsuna.
Fimmtugsafmæli Hönnu á laugardaginn. Reyndar eiga hún, Vignir bróðir og Robbi öll afmæli 15. ágúst. En í dag, þ.e. 12. ágúst átti afi John´s afmæli og svo á Glenn afmæli í dag. Meira afmælisstandið í þessum ágústmánuði. Og Petra var í afmæli Sigrúnar Finns í dag. Katrín eyddi deginum í sólinni í Nauthólsvík og Tristan fyllti garðinn af drengjum.
Ekkert bólar enn á barnabarni Gunnsunnar.
En nú ætla ég annað hvort að drusla mér í háttinn eða dúlla mér aðeins í að setja saman lagalista...

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Það er hádegi og mælinn hér á pallinum sem er í skugga sýnir 28°C. Þetta er alveg örugglega hitamet hér þó oft sé hér heitt í sólinni. Ég ætti eiginlega að setja upp annan mæli sem sýnir þann hita.
Er langt komin með að setja alla diskana hér á heimilinu inn í ipodið. Þetta er ótrúlegt tæki, pínulítið og samt tekur það við um 50 þús. lögum. Get örugglega eytt heilmiklum tíma í að búa til spilunarlista og svoleiðis.
Gerði heiðarlega tilraun í gær að byrja á að taka til í herbergi Katrínar en ég var algjörlega að kafna úr hita og hætti þeirri iðju. Sýnist dagurinn í dag ekki bjóða upp á tiltekir heldur, en ég get gengið frá þvottinum og svo ætla ég í garðinn. Færa til plöntur og búa til beð fyrir jarðaberin sem spretta vel eins og allt annað á þessu sumri. En nú, út vil ek...

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Úff, þetta ipod er algjörlega að fara með geðheilsu mína. Ég afrekaði náttúrlega að stroka allt út af því sem Dee var búin að setja inn. Hefði gjarnan viljað eiga eitthvað af því, en allt fór þetta út í buskann eins og myndirnar á myndavélinni minni forðum. Engin leið til að bakka. Svo dettur stundum út það sem ég er búin að setja inn. Ég þarf endalaust að vera fikta og gera eitthvað sem ég á greinilega ekki að gera.
Þvílikt dásemdarveður úti núna, mælinn kominn í 23°C hér í skugga. Reyni að reka börnin mín út í góða veðrið en það tekst nú svona og svona. Um að gera að njóta þessarar veðurblíðu á meðan hún stendur, en svona segja (ó)veðurfræðingar að veðrið eigi að vera fram á sunnudag.
Tiltekt stendur nú reyndar yfir á þessu heimili, endalaust drasl eftir veru útlendinganna hér. Ekki að það pirri mig neitt. Tek þessu öllu saman með jafnaðargeði. Þreif allavega millihæðina hér í gær og krakkaherbergin næst á dagskrá og baðið. Og enn hef ég ekki komið mér í að ganga frá þvottastæðunni í svefnherberginu. Þarf líka að festa tölu á uppáhaldsinnibuxurnar af bóndanum.
Best að gera eitthvað annað en að blogga. Og by the way, aumingja Frikki, alltaf strikaður út...

mánudagur, ágúst 09, 2004

Nú eru allir ameríkanar farnir til síns heima nema Xander sem verður hér til 28. ágúst. Fór ekki í matinn til Halla og Hönnu þar sem ég nennti ekki að taka við meiri blammeringum. Allir afskaplega þreyttir eftir göngu yfir Esjuna í grenjandi rigningu. Ég náttúrlega fór ekki í þá göngu. Hef gengið þetta einu sinni og það nægir mér fyrir ævina. Alveg hissa að Katrín mín skyldi hafa það að labba þessa leið. Tristan var hér heima og fór því ekki.
Á laugardaginn var farið í bæinn að fylgjast með gay pride göngunni niður laugaveginn, farið í búlluna og étnir bestu hamborgarar bæjarins og kíkt við í Kolaportinu. Um kvöldið fóru svo allir út á lífið, nema Daníel og Christine sem vildu eyða síðasta kvöldinu með syni sínum og þau voru náttúrlega líka að passa hina 7 grísina sem heima voru. Sofið út um allt.
Byrjuðum á GrandRokk og dansað þar í einhvern tíma við undirleik blúsbands Pollock bræðra og svo á Nasa í þvílíka mannmergð. Rölt við á Rex og svo heim.
Svo fóru allir, nema ég auðvitað, að borða á Flugleiðum áður en haldið var til USA. Og Dee gaf mér ipottið sitt. Vá, þvílíkt leikfang. Hafði það nú reyndar af að eyða út öllu sem á því var, þ.e. allri músíkinni sem Dee var búin að setja þar inn og engin leið til baka eins og á myndavélinni. Ætlaði að eyða allt öðru út en...það er víst ekki aftur tekið. Fíflið ég. Það voru allavega nokkrar plötur þarna sem ég hefði viljað eiga, þó megnið hafi nú verið eitthvað sem ég er ekki hrifin af. Svo nú stend ég í því að setja alla mína geisladiska inn. Þetta er ótrúlegt tæki. Ekkert mál að setja saman allskonar playlista bara eftir því hvernig maður er stemmdur.
Og svo hringdi Birna systir í morgun og hún kemur til landsins þann 11. nóv. til að koma í afmælið mitt, svo nú er ekki aftur snúið. Verð að fara að skipuleggja það.
Annars sé ég fram á allsherjartiltekt hér og neyðist til að draga fram ryksuguna og ganga frá himinháum stöflum af hreinum þvotti...

föstudagur, ágúst 06, 2004

Það er algjörlega með ólíkindum hvað fólk getur verið drullulegt og ókurteist. Hún Inga mín, þ.e. tengdó, fór gjörsamlega yfir strikið í kvöld. Ég mátti svo sem vita það að ég fengi eitthvað skítkast frá henni fyrir það að hafa yfirgefið útileguna, en fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Ég var búin að tala um það við hana að bjóða Arne og Maríu upp á Sand og henni fannst það voðalega fín hugmynd, þar sem Maríu langaði til að hitta aftur Daníel og Christine og Arne langaði að hitta systkini John´s. Aftur á móti virtist sem ég hefði aldrei minnst á það að bjóða þeim, hef trúlega talað um þetta eftir of marga sexara. Ég gleymi því greinilega að þetta fólk missir minnið eftir klukkan sex á kvöldin. En allavega Inga var bæði ókurteis við mig að ég tali nú ekki um Maríu og Arne, sem ég er alveg rosalega reið yfir akkúrat núna. Ég veit ekki betur en að ég hafi tekið hér vel á móti hennar vinum í skötuveislu í einhver skipti og sé boðin og búin að halda hér fjölskylduboð þegar börnin hennar koma frá Bandaríkjunum af því að hún getur það ekki (þ.e. nennir því ekki).
Og það sem ég fékk að heyra var að aumingja börnin mín hafi verið rennandi blaut og fatalaus og engin mamma á staðnum til að hugsa um þau. María sagði þá að það væri nú gott að þau ættu pabba til að hugsa um þau. Og þá kom frá Ingu að það væri nú gott og þau þyrftu trúlega ekkert að eiga mömmu. Ég hefði kannski átt að segja henni frá því að einu minningar sem sonur hennar á frá útlegum þegar hann var krakki að honum var alltaf kalt og ef hann kvartaði við foreldra sína fékk hann smá klapp á bakið og svo hvort honum væri ekki að hlýna. Engum datt í hug að reyna að koma honum í meiri og hlýrri föt, enda allir yfirleitt hálfrænulausir af áfengisdrykkju.
En nóg um þetta tengdalið. Nenni ekki að velta mér upp úr þessu. Þegar við yfirgáfum Sand um ellefuleytið var Inga orðin ofurölvi og þvöglumælt og hún var ábyggilega ekki ein um það. Jón bóndi var hættur að vita hvort hann var að koma eða fara. Hvernig stendur á því að maður endar uppi með svona tengdaforeldra sem sífellt eru að amast út í allt sem ég geri. Ég er allavega búin að fá nóg af skítkasti í bili og held að tími sé komin á pásu frá þessu liði í einhvern tíma.
Vona allavega að ég hafi þroska til að láta þetta ekki pirra mig í marga daga. Er bara reið núna yfir því hvernig þau komu fram við mína vini, aljgörlega óþolandi framkoma.
Tristan ákvað að koma heim, var búin að fá nóg af tjaldbúðunum og langaði heim í sitt hlýja ból með mömmsunni...

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Mikið er ég fegin að ég dreif mig í bæinn og hætti þessu útilegustandi. Svaf eins og engill alein í mínu fína rúmi langt fram eftir morgni.
Odda kíkti hér með myndirnar úr útilegunni en eitthvað hefur skrifið á diskana mistekist því ég gat ekki opnað þá. Svo hún verður að leggjast yfir þetta og stúdera næsta mánuðinn. Hún ætti eiginlega að fá Maríu í heimsókn til að fá smákennslu í þessu öllu saman.
Kíkti svo aðeins til Bimbu en þar var María að hjálpa henni í að koma sér betur fyrir. Þetta er allt að koma á þeim bænum þó mikið sé eftir enda eru þau nýflutt og svona. Ólíkt skemmtilegri félagsskapur með þeim stöllum en slegtinu í útilegunni.
Ég ætlaði nú að vera óhemju dugleg að taka hér til, þurrka af sem ekki er vanþörf á og bara þrífa yfirleitt, en einhvern veginn nenni ég því ekki. Geri kannski eitthvað á eftir.
Stefnan tekin á Sand í kvöld í læragrillveislu að hætti Rutar og Friðgeirs. Flestir ætla að gista þar en ekki ég. Vona að Arne komist með en allavega tek ég Maríu og Hrund með mér. Hrund er í sumarfríi og hefur svo sem ekkert betra að gera. En Arne ætti að komast með ef það heldur áfram að rigna eins og hefur gert undanfarna daga.
Well, nú ætla ég að taka á honum stóra mínum og gera eitthvað af viti ef það kallast vit að taka til og setja í þvottavél...

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Ekki toldi ég lengi í útilegunni með frantzslegtinu. Lögðum af stað í gær, gistum eina nótt í Stykkishólmi, fórum í siglingu um eyjarnar og svo haldið á Arnarstapa. Þegar þangað var komið nennti ég ekki meir og ákvað eftir mikla umhugsun að fara bara heim í stað þess að vera í tvær nætur í viðbót og láta mér leiðast. Ég er nú ekki mikil útilegukona, finnst samt allt í lagi að fara í eina og eina útilegu, en útilega að hætti frantzara er ekki að mínu skapi eða ætti ég kannski frekar að segja að hætti Jóns bónda, þ.e. tengdaföður míns. Ég bara nenni ekki að pæla ekki í hvenær næsta tækifæri er að fá sér drykk eða mat. Það er fyrir mestu að eiga nóg af áfengi til að skola niður matnum, sem eru að mestu samlokur sem tengdadætrunum er sett fyrir að smyrja. Jís, hvað ég er bara alls ekki til í það. Ég get séð um að koma mat ofan í mig og mína, en að smyrja samlokur í massavís fyrir alla eftir skipun er ekki alveg það sem ég fíla. Svo ég held að það hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að koma mér bara í bæinn og leyfa mínum ektamaka að vera í friði í sinni útilegu með sínum án þess að vera að plaga hann með mínum pirringi. Vona bara að hann muni eftir því að hann er með krakkagarmana með og týni þeim ekki.
En nú held ég að tími sem komin á mitt mjúka ból þó ég kúri þar karlsmannslaus. Hrundsan mín allt í einu komin má sæta kúlu og kisan pakksödd af harðfiski úr Bjarnarhöfn...

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Hér er orðið allt fullt af ameríkönum með tjöld sem þola ábyggilega ekki íslenska veðráttu. Og allir keppast við að elda ofan í allt þetta fólk. Gerði kjúkling á spænska vísu í gær og hann var hreint dásamlegur. Hér kemur uppskriftin:

Spænskur kjúklingur a la Magga Hrefna
fyrir átta

2 heilir kjúklingar eða 8 bringur
1/2 hvítlaukur saxaður
1/4 bolli rauðvínsedik
1/8 bolli oregano
1/2 bolli sveskjur
1/4 bolli grænar olívur
1/4 bolli kapers
1 bolli olívuolía
6 lárviðarlauf
Salt og pipar eftir smekk

Blanda öllu saman í skál. Ef bringur eru notaðar eru þær skornar í þrjá bita.

Bringurnar maríneraðar í leginum í 6-24 klst.
Sett í eldfast mót.

1/2 bolli hvítvín, 1/2 bolli púðursykur og 1/4 bolli steinselja hrært saman og hellt yfir.
Steikt í 180°C heitum ofni í 30-40 mínútur.

Borið fram með fersku salati og brauði.

Þarf að fara að koma í lag nýrri krónikku þar sem einungis eiga að koma uppskriftir í næstu uppskriftabók okkar Létta.

Nenni eiginlega ekki að skrifa. Fer á Snæfellsnesið á morgun í fjóra daga með öllum þessum útlendingum, samtals 18 manns með mér og mínum. Það verður fróðlegt að vita hvernig Jón bóndi verður í þessari ferð. Hvort hann fær að ráða eða verður látinn fylgja meirihlutanum. Skrifa þegar ég kem heim aftur eða seinna í dag ef ég hef ekkert annað að gera...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter