<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 23, 2004

Svei mér þá ef þetta afmælisstand er ekki allt að smella. Við María lögðumst hér yfir skipulagningu á þremur afmælisveislum í gær, ákváðum hvað við ætlum að hafa, hversu mikið þarf að versla og slíkt. Og svo settist ég niður og byrjaði að pæla í afmælisboðskorti og kláraði það að mestu leyti. Var með ákveðna hugmynd í kollinum og ég held að hún sé að ganga upp, ja hérna hér. Svo nú er bara að setjast niður, semja textann á kortið og senda svo þetta í allar áttir.
Ætti nú eiginlega að vera að taka svoldið til hér því mágkona mín kemur til landsins í fyrramálið en nei ó nei ég bara hreinlega nenni því ekki. Saumaklúbbur á Selfossi í kvöld, raddæfing á eftir, partý annað kvöld og Stykkishólmur á laugardag. Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að vera að taka til...

miðvikudagur, september 22, 2004

Mig vantar einhvern sem nennir að koma hingað og sparka í rassinn á mér. Mig vantar orku og gleði í líf mitt. Ég er einhvern veginn svo innilega bla bla og nenni alls ekki að gera neitt. Nú er hér kaffilaust svo ekki fæ ég mína venjulegu morgunorku úr því.
Fór með Maríu yfir dagatal næstu tveggja mánaða til að finna tíma til að halda upp á afmælin okkar John´s en það er nákvæmlega engin helgi laus til þess.
Næsta helgi fer í partý á föstudaginn og Stykkishólm á laugardaginn með vinnunni hjá John. Sökun skipulagsleysis og leti minnar get ég ekki séð að 1. okt. gangi og 2. okt. erum við að fara á Van Morrison í Laugardalshöllinni. 8. okt. fer ég til Danmerkur og kem aftur heim 15. okt. og þá beint í æfingabúðir Léttsveitar. 21. okt. förum við John til USA í viku og helgin þar á eftir gengur ekki þar sem Sigrún frænka á afmæli 31. okt. og þetta er hennar helgi ef hún ætlar að halda upp á fimmtugsafmælið sitt. Þá er októbermánuður búinn. Fyrstu helgina í nóvember heldur Arne upp á fertugsafmælið sitt. Svo á ég afmæli þann 9. nóv. Við förum á Marianne Faithful þann 11. nóv. á afmælisdegi Maríu og svo var ég löngu búin að ákveða að halda upp á fimmtugsafmælið mitt 13. nóvember. 20. nóvember var frátekin fyrir tónleika hjá Léttsveitinni en nú liggur fyrir að úr því verður ekki, heldur verða tónleikar laugardaginn 13. nóv. og svo líklega þann 18. nóv. Það þyrmdi yfir mig í gær þegar þessi 13. nóv. dagsetning kom upp, en vonandi verða þessir tónleikar að degi til svo kvöldið verði ekki ónýtt og þá held ég bara mínu striki. Enda held ég að laugardagskvöld sé ekki gott fyrir tónleikahald. Vonandi að þetta reddist allt og ég geti bæði sungið á tónleikum og haldið upp á afmælið mitt. Svo núna er komin upp sú staða að 20. nóv. ætti að geta gengið fyrir sameiginlegt afmæli okkar John´s. 27. nóv. á svo Tristan afmæli og ekki get ég tekið þann dag af drengnum.
Þegar upp er staðið vantar mig nokkrar helgar inn í októbermánuð. Hvar sækir maður um slíkt...

miðvikudagur, september 15, 2004

Mikið var dásamlegt að byrja aftur að syngja. Fékk náðarsamlegast að byrja aftur í Gospelsystrum. Eitthvað hafði mér láðst að láta vita af því að ég stefndi á að vera með í vetur og formaðurinn hafði á orði að ég virtist ekki geta ákveðið mig hvort ég ætlaði að vera með eða ekki. Það er náttúrlega alveg satt. Á erfitt með að ákveða eitthvað langt fram í tímann. Þess vegna er það undarlegt að allur októbermánuður er planlagður í utanlandsferðir. Gospeltónleikar upp á gamla máttan planlagðir 4. nóvember. Gaman.
Og ekki var síður yndislegt að hitta allar létturnar aftur. Þar eru framundan tónleikar 20. nóvember, íslenskt og keltneskt í bland. Og takk elsku Jóhanna að leyfa okkur að syngja aftur To a Rose. Og ekki er síðra nýja lagið sem við fengum. Umm...hrein unun.
Kíkti aðeins á Maríu í gær. Hún er ósköp slöpp þessi elska eftir uppskurðinn, sem tókst nú samt vel. Þarf að hringja í hana og sjá hvort hún verður send heim í dag.
Og ipodið mitt afrekaði það að þurrkast út einu sinni enn. Djöf....böggur í þessu apple drasli...

þriðjudagur, september 14, 2004

Það er kominn þriðjudagur, jess, og nú eru það kóræfingar á fullu. Gaman, gaman. Ætla að gefa Gospelsystrum sjéns einu sinni enn og vona að ég fái að vera með. Það var svo dæmalaust gaman að hitta þessar kerlur í útilegunni í sumar, helgina eftir léttuútileguna og svo aftur þegar við vorum að æfa fyrir kónginn. Létturnar munu aldrei fá frí frá mér. Hef aldrei tekið mér frí frá þeim, þó einhvern tímann á þessum 10 árum hafi þó hvarflað að mér. Elska þessar kerlingar allar saman. Ótrúlegt magn af skemmtilegum konum á einum stað. Og maður er alltaf að finna nýja gullmola á meðal þeirra.
Nú er komið á hreint með næstu utanlandsferðir á þessum bæ. Ætla að skreppa í viku til Danmerkur að heimsækja Birnu systur og mína fimmtugu vinkonu Ragnhildi. Hún er nú flutt af Istedgade til Jótlands í eitthvað lítið krummskuð þar. Svo helgin hjá Birnu með heimsókn í Bláa pakkhúsið og eitthvað annað skemmtilegt og svo nokkrir dagar hjá Ragnhildi í sveitasælunni. Svo ætlum við hjúin að skreppa til USA í systkinaheimsókn til Washington í viku. Þannig að október verður ferðamánuður hér á bæ. Kem reyndar heim frá Danmörku seint á fyrsta degi æfingabúða en vonandi kemst ég einhvern veginn í Munaðarnes, tek rútu ef ekki vill betur. Ekki sleppi ég æfingabúðunum, ó nei, ó nei.
Fékk í gær mitt frábæra pottasett, eldaði lambalæri og eitthvað annað skemmtilegt. Þarf að læra svoldið á þessa eðalpotta. Svoldið skrítið að nota ekki vatn eða olíu þegar maður er að búa til mat. Þarf líka að læra inn á eldunartímann og fleira. Ætla að prófa að elda grjónagraut í þessum pottum því það á ekki að þurfa að hræra eða standa yfir pottinum á meðan grauturinn mallar.
Hef áhyggjur af syni mínum sem er orðin verri matargikkur en nokkur annar á heimilinu, finnst allt vont og vill helst ekki kjöt eða fisk. En nú ætla ég að laga til eftir dagskipan og kíkja svo aðeins á hana Maríu mína á Landsanum...Og úpps ég var búin að gleyma því að Petran mín er löggiltur táningur í dag, orðin 13 ára. Jís hvað tíminn er fljótur að líða svona í ellinni...

sunnudagur, september 12, 2004

Gunnsa vildi fá að vita hvernig hafi verið að hlusta á Maríus Mögguson með sinfónínunni. Það var algjörlega yndislegt, hefði bara viljað heyra hann synga meira. Við fórum svo þessar saumaklúbbskerlur sem mættu á kaffihús, ætluðum fyrst á Café Borg í Hamraborginni en enduðum á Café Aroma í Firðinum. Fyllti okkar mjúku kviði af tacos og hinum ýmsustu sósum. Notarlegt kvöld sem sagt.
Og nú verður bóndinn 45 á morgun og ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera til dagurinn verði eitthvað öðruvísi en venjulegur sunnudagur. Ég er alltaf svo sein að hugsa að ég pæli aldrei í neinu fyrr en allt er skollið á. Hefði kannski átt að bjóða foreldrum hans í mat eða eitthvað en er helst að hugsa um að bjóða honum út að borða á hans kostnað. Eða þá að ég elda bara eitthvað gott handa honum og restinni af fjölskyldunni.
Mér er illt í augunum og sé eiginlega ekki hálfa sjón. Hef ekki hugmynd um af hverju augun í mér hætta að fúnkera eðlilega á kvöldin. Kannski of mikið sjónvarpsgláp. Annars veit ég ekki af hverju ég er að skrifa á þetta blogg. Hef ekkert skemmtilegt að segja eins og t.d. vinkona hennar Ingibjargar hún Carola en það geta náttúrlega ekki allir verið Carolur. Er samt orðin dæmalaust löt við þetta. Vil bara að aðrir skrifi eitthvað fyrir mig að lesa. Eitthvað skemmtilegt fyrir háttinn.
En næsta vika verður skemmtileg því þá byrja aftur kóræfingar. Það er einhver tilhlökkun í loftinu að byrja aftur að syngja sinn söng...

fimmtudagur, september 09, 2004

Ja, hérna hér. Það er aldeilis að fjölga í fjölskyldunni á næstunni. Í gær fékk ég þær fréttir að Vignir bróðir og Guðný eiga von á barni í mars og ég er dæmalaust glöð yfir því. Guðný er gengin 12 vikur og engin morgunógleði eða neitt. Frábært. Og Hrundsan mín blómstrar og er komin með voðalega sæta kúlu.
Svo pantaði ég sex miða á Marianne Faithful í 11. nóvember. Birna systir verður komin til landsins og vonandi Ragnhildur líka svo ég tek þær með og svo eiga María og Arne afmæli í nóvember, meira að segja María þann 11. svo þau fá miða í afmælisgjöf. Ég náttúrlega ætti ekki að skrifa þetta hér á bloggið mitt þar sem ég veit að María les það alltaf, en það er ágætt að koma í veg fyrir að þau kaupi miða líka. Það verður sem sagt ekkert surprice. Það verður bara eitthvað annað sem kemur þeim á óvart.
Bókaði miða í vildarklúbbnum til Köben 8. október og heim aftur 15. okt. Vona að það gangi upp og ég geti heilsað upp á Ragnhildi á hennar fimmtugsafmæli.
Og mér gengur dæmalaust vel að taka til hér á bæ, búin með neðri hæðina, bara eftir að skúra aðeins yfir og taka allt óhreina tauið af gólfunum hjá krökkunum. Bara gangurinn eftir og fara aðeins yfir baðið. Ekki að þetta sé nokkuð í frásögu færandi og þó.
Og svo er það Maríus og sinfónían í kvöld, gaman, gaman...

þriðjudagur, september 07, 2004

Svei mér ef ég er ekki að taka mig á. Var komin í rúmið skömmu eftir miðnætti og svaf í eina tíu tíma. Ekki veitir af að vera vel úthvíld áður en sungið er fyrir svíakóng í kvöld. Það verður örugglega svoldið skemmtilegt. Held að ég nái því ekki að fara á Dís fyrir það.
Raddæfingar léttanna komnar á netið, þó ekki altinn. Það er nú meira en að segja það að raddprófa 120 kerlingar.
Svo fer ég á Maríus og sinfóníuna með saumaklúbbskerlum á fimmtudaginn. Hlakka til að heyra aftur í Maríusi.
Kláraði loksins sauðafrey og fór með hann í prentun.
Og John bókaði okkur til USA 21.-28. október. Og nú langar mig líka að kíkja aðeins til Ragnhildar í Danaveldi. Held að ég eigi einhver ósköp af vildarpunktum svo kannski væri ráð að nota þá.
Og María mín á að fara í uppskurð eftir helgina. Mun hugsa fallega til hennar og vona að allt gangi vel. Ég held að hún sé svoldið kvíðin.
Að öðru leyti ekkert að gerast. Keypti mér reyndar gallabuxur áðan og á nú orðið heilan helling af slíkum flíkum...

mánudagur, september 06, 2004

Bloggleysi virðist hrjá fleiri en mig þessa dagana. Það er náttúrlega óttaleg vitleysa að setjast niður við tölvuna og skrifa um það sem á daga manns drífur. Það varðar ekki nokkurn mann um það hvað maður er að gera eða ekki gera.
En stundum kemur nú samt andinn yfir mann. Og úr því ég er hvort eð er ekki á þeim buxunum að drulla mér í rúmið þó syfjuð sé heldur er að loada inn myndum af myndavélinni er alveg eins gott að romsa út úr sér einhverri þvælu eins og að gera ekki neitt. Gæti nú reyndar lagt kapal.
En síðan andinn kom yfir mig síðast er ég búin að sjóða berin en saftin er enn í pottinum í ísskápnum og bíður þess húsmóðirin á heimilinu geri eitthvað úr sér. Kannski á morgun segir sá lati. Búin að halda pottakynningu og fæ því grænmetiskvörnina ásamt pottunum eftir um hálfan mánuð og þá verð ég víst að taka á honum stóra mínum og fara að elda reglulega. Það dugir ekki að láta þessa rándýru potta rykfalla í skápnum.
Og svo var þessi líka dásamlega skemmtilega sumarbústaðaferð á Arnarstapa um helgina og þess vegna er ég dáldið sybbin núna. Dottaði reyndar yfir sjónvarpinu áðan en það er ekki nóg fyrir þreytta konu. Guðmunda bauð okkur léttkerlum sem sungu í brúðkaupi dóttur hennar í sumar í bústaðinn sinn. Og þar beið okkar þetta líka æðislega hlaðborð. Svo farið í nokkra kílómetra göngu, snæddur kvöldverður í torfbænum á staðnum og svo sötruð gargolía fram eftir nóttu, spáð í spil og bolla og spjallað um heima og geima. Það er með ólíkindum hvað þessar léttur eru skemmtilega upp til hópa. Og það besta af öllu var að ég þurfti ekki að keyra því Odda tók það algjörlega að sér. Sem sagt skemmtileg helgi með skemmtilegum konum.
Og nú vill John skella sér til USA í október. Kannski við gerum það bara. Einskonar second honeymoon. Ég ætlaði nú reyndar að halda upp á afmælin okkar beggja á þessum tíma en who cares.
En ég þarf aftur á móti að taka sjálfa mig til endurskoðunar og fara að gera eitthvað af viti. Úff, nenni ekki að skrifa...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter