<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, október 30, 2004

Þá er ég komin heim í heiðardalinn og hér var allt fínt og hreint. Mér skilst að sonur minn hafi verið duglegur við tiltektir áður en ég kæmi heim svo hann fengi mömmuna heim í góðu skapi. Krakkarnir allir ánægðir með öll fatakaupin og aðeins þarf að skila einum náttfötum sem voru of lítil á Tristan og einum gallabuxum á stelpurnar. Við hjónin lögðum okkur eftir heimkomuna og létum okkur hafa það að vakna um tvöleytið. Svo náttúrlega sofnaði ég yfir sjónvarpinu og er ekkert syfjuð núna, enda klukkan enn fyrir miðnætti að amerískum tíma. En ég er nú samt á leið í háttinn.
Keyptur var fyrir mig nýr harður diskur og Vignir búinn að setja hann upp og þetta er sko bara allt annað líf. Komin með Photoshop CS og InDesign og hvaðeina. Þarf að mæta á kóræfingu kl. níu í fyrramálið og Gunnsan ætlar að vekja mig svo ég skrifa meira við tækifæri....

fimmtudagur, október 28, 2004

Alveg er það dæmalaust hvað hægt er að eyða miklum tíma í mollum hér í henni Ameríku. Þetta hefur reyndar verið algjör afslöppun hér ásamt því að ganga sig upp að hnjám í búðarrölti. Hef sjaldan eða aldrei verslað jafnmikið á krakkaormana mína sem heima sitja og að ég tali nú ekki um minn ektamann. Hér kostar allt líka svo ansi lítið, einhverja 50 og 100 kalla og ef maður lætur það alveg vera að margfalda það með einhverjum 70 þá er þetta bara nánast frítt. Hef lítið sem ekkert keypt fyrir sjálfa mig sem sýnir algjörlega hversu fórnfús ég verð þegar ég fæ smá frið frá dagsins amstri og þarf ekki að hugsa um neinn nema sjálfa mig. Tunglmyrkvi í gangi og tunglið orðið rautt...heimferð á morgun og enn eftir að versla ýmislegt...í háttinn...yfir og út...

sunnudagur, október 24, 2004

Eitthvað hefur borið á kvörtunum um að ég sé hætt að blogga. Hef bara alls ekki verið í bloggstuði í október...hef haft allt of annríkt við að dröslast á milli landa og heimsækja vini og vandamenn. Eyddi viku í vellystingum í Danmörku hjá systur minni og vinkonu. Þræddi stærsta moll í Danmörku með Birnu og hjálpaði svo Ragnhildi við að mála borðstofuna einn morguninn. Eftir Danmerkurreisuna var ég dæmalaust andlaus og þreytt, með bólgin augu og bara einhvern veginn lurkum lamin. Ætlaði mér t.d. beint í æfingabúðir með Léttum á föstudagskvöldinu þegar ég kom heim en fór ekki af stað fyrr en liðið var á laugardaginn en náði allavega tveimur tímum á æfingu og svo náttúrlega dæmalaust skemmtulegu kvöldi með þeim Léttum. Það er ekki á nokkurra Léttsveitarkonu leggjandi að mæta ekki í æfingabúðir.
Síðan fóru næstu þrír daga eftir æfingabúðirnar í að taka til heima hjá mér og þvo þvott úr botnlausri óhreinatauskröfunni, en svei mér ef ég sá ekki til botns daginn sem ég og bóndinn flugum til USA í annað sinn á þessu ári. Og hér erum við í góðu yfirlæti hjá Kristínu mágkonu minni, Glenn og Isabelle. Og hér er búið að versla einhver ósköp. Eins gott að við komum hér út með nánast tómar töskurnar, rétt fötin til skiptanna og búið. Veðrið hér eins og mér finnst best ekki of heitt og ekki of kalt. Og í dag eigum við John eins árs brúðkaupsafmæli, sem sagt pappírsbrúðkaup. Ekki við hvað við gerum í dag en í kvöld förum við út að borða í DC.
Saknaði þess að komast ekki á útgáfutónleika Jóhönnu, sé á bloggi annarra létta að þeir voru ljúfir. Hlakka til að láta ljúfa rödd Jóhönnu leika um hlustirnar þegar ég kem heim...

föstudagur, október 08, 2004

Það eru allir hættir að blogga. Er þetta bara helber leti í fólki eða almennt andleysi eða skortur á löngun til að tjá sig. Ég hef ekki bloggað síðan ég veit ekk hvenær og það verður bara að hafa það. En kannski er ráð að tjá sig aðeins rétt fyrir Danmerkurferð því nokkuð er víst að þá langar mig ábyggilega mikið að skrifa einhverja dellu en kemst ekki í það.
Búin að vera mjög dugleg í leti minni undanfarið. Við María búnar að gera heilu haugana af kjötbollum og olívubollum og vatnsdeigsbollum og partýbitum og skinkuhornum og hvað þetta heitir nú allt saman. Nánast búnar að fylla fyrstikistuna hjá henni af allskyns veisluföngum. Ekki get ég nú sagt að ég hafi verið sérstaklega dugleg við þetta en María rekur mig áfram eins og herforingi og þetta væri engan veginn komið svona langt á veg ef hún væri ekki svona framtakssöm. Sendi út boðskort í mitt stúlkupartý í dag. Gleymi örugglega einhverjum sem ég gjarnan vildi bjóða og þá verður bara að hafa það. Vona að enginn verði sár og virði það við mig að hálf öld í þessum heimi hefur farið dáldið illa með heilasellurnar sem eru ekki alveg eins frískar og hér í den.
Er held ég búin að koma því frá mér sem ég þurfti fyrir reisuna, 88 blaðsíðna afmælisfreyr komin í prentun og allt hitt á lokahnikknum. En ég er ekki byrjuð að pakka og gleymdi ábyggilega helmingnum af því sem ég átti að bera í farteskinu til soltinna íslendinga í danaveldi. Kannski man ég eftir harðfisknum í fríhöfninni og bæti henni við bláberjaskyrið, hrísmjólkina með karamellusósunni, flatkökurnar og hangikétið, bleiku möndlurnar, djúpurnar, lakkrísinn, súkkulaðirúsínurnar, cocopuffsið og síðast en ekki síst oragrænubaunirnar. Hætti við að bera með mér þrjú frosin slátur þegar ég sá hvað plastdúnkurinn var risastór og hefði aldrei komist í mína ferðatösku. Já, það getur verið erfitt að búa fjarri heimahögunum og fá ekki í svanganóruna allt þetta íslenska ljúfmeti sem rennur út á dagsetningum í búðunum hér. Því hér höfum við okkar amerísku, dönsku (ætlaði að segja sænsku en mundi þá að þeir éta makkarónur í tómatsósu flesta daga) og nú síðast ítalska daga. Hafiði ekki heyrt að ef þú ert staddur á stað þar sem danir sjá um drykkjuna, svíar um eldamennskuna, norsarar um húmorinn og íslendingar um fjármálin þá væri sá staður sjálft Helvíti.
Börnin mín eru hreint að fíla þetta kennaraverkfall í botn en ég get ekki sagt það sama. Sólarhringnum hér er algjörlega snúið við á nótæm og sofið fram eftir morgni. Þau eru sem sagt að færa sig smátt og smátt í átt að mínum sólarhring. Og nú er það nýjasta sem þau taka sér fyrir hendur er að sippa hér inni daginn út og inn. Þau fá allavega sína hreyfingu greyin og það er skárra en að hanga yfir tölvunni allan daginn þó þau geri það inn á milli sippustandsins.
En fröken sigurlaug nú er mál að linni að sinni og þú farir að gaufa þér í bælið svo þú sofir ekki af þér flugið kl. 13.15 á morgun...neyðist víst til að vakna fyrir allar aldir og pakka einhverjum fatalörfum í tösku innan um íslensku kræsingarnar...

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter