<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Allt sem mér lá á hjarta um daginn leystist farsællega og nú hvílir ekkert á mér enda að koma jól. Tók upp jólaskrautið um helgina, setti upp jólagardínurnar í eldhúsinu og eitthvað af seríum í gluggana og aðventuljósin. Mér finnst verst að vita hvað mér leiðist að taka þetta svo niður aftur í janúar og hvað ég er þá orðin þreytt á þessu jóladóti öllu saman. En nú er aðventan rétt og byrja og allt jóla jóla voða sætt og lýsir upp hversdaginn.
Kórdagur í dag og dagurinn líður yfirleitt með það í huganum að ég er bráðum að fara á kóræfingu. Söngurinn léttir lundina það er nokkuð víst og þessi jólin verður mikið sungið. Skrifa síðar þegar ég hef löngun til...

laugardagur, nóvember 27, 2004

Það er nú ekki alveg í lagi með mig núna. Klukkan er rúmlega níu á laugardegi og ég er búin að vera vakandi í tvo tíma. Ellin farin að segja til sín.
Kláraði að mála herbergið hennar Hrundar í gær og það er orðið algjörlega ljómandi fagurt. Búið að setja upp nýjar gardínur, nýtt ljós í loftið, kaupa náttlampa og hengja nýja ofninn á veginn. Gereftið verður sett á í dag og svo er bara eftir að mála það. Búin að þvo allt barnadót hér á bæ og allt að verða tilbúið fyrir snúlluna að koma í heiminn. Það væri verra ef þetta yrði drengur því ekkert blátt hefur læðst inn í fatakaupin. Bara hreinlega gert ráð fyrir stúlku. Ef stúlkan er nú kannski drengur notum við bara belgísku aðferðina og klæðum hann í bleikt.
Og drengurinn minn er níu ára í dag, reyndar ekki fyrr en átta mínútur í átta í kvöld en hvað eru nokkrir klukkutímar milli vina. Hann ætlar ekki að halda veislu en vill í staðinn fara í keilu og gera eitthvað annað skemmtilegt. Það hlýtur að vera hægt að finna út úr því.
Hafnaði vinnunni hjá DV. Gat engan veginn séð hvernig það ætti að ganga upp að vinna frá 2-9 alla daga nema laugardaga og bara frí þriðja hvern sunnudag. Bara gengur ekki með stóra fjölskyldu og engan veginn inn í myndinni að fórna henni fyrir einhverja vinnu. Hef alveg nóg að gera svo sem og alltaf leggst eitthvað til.
Annars liggur mér ýmislegt á hjarta sem ekki er við hæfi að ræða hér opinberlega. En ég sá það að Bubbi og Brynja ég elska þig eru skilin. Svo bregðast krosstré sem önnur tré...

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Það er mikið að hægt er að komast inn á þetta blessaða blogg. Ég virðist alltaf hafa þörf fyrir að tjá mig þegar allir aðrir eru að því líka.
Það er afmælishrinan nærri afstaðin. Reyndar verður drengurinn minn 9 ára á laugardaginn og þá er þetta árið búið. Ég nú von á ömmubarninu á næstu dögum svo Tristan verður ekki síðastur að eiga afmæli þegar það er komið í heiminn. Hann er nú eitthvað á báðum áttum um það hvort hann vill halda uppá afmælið sitt yfirleitt þar sem hann hefur sjálfur eitthvað verið slakur að mæta í afmæli og nú heldur hann að enginn mæti í hans. Æ hann er svo krúttlegur stundum þessi elska. Petra tók eitt af sínum frekjuköstum hér í kvöld, öskraði á allt og alla. Þegar kastið er yfirstaðið verður hún afskaplega ljúf en jís...meðan á þeim stendur almáttugur en sú mæða.
Byrjaði að mála herbergið hjá Hrund. Ekki beinlínis gott að mála svona einn vegg í einu en herbergið er fullt af drasli og ekkert hægt að setja það. En þetta kemur allt með kalda vatninu og er nokkuð viss um að ég lýk við þetta áður en vikan er liðin. Þá ætti allt að vera klárt fyrir litlu snuðruna að koma í þennan heim þó ég eigi nú allt eins von á að hún láti nú bíða eftir sér í nokkra daga, en 4. des. á hún að vera tilbúin.
Fór í vinnuviðtal í dag og ætla að prófa að taka eina-tvær vaktir í umbrotinu á DV. Reyndar langar mig ekkert sérstaklega til að fara að vinna, má eiginlega ekkert vera að því og þessar vaktir eru eiginlega agalegar, frá 2-9 alla daga nema laugardaga og frí þriðja hvern sunnudag. Er eiginlega ekki alveg að passa fyrir mig. Er eiginlega að hugsa um að segja bara nei takk...hmmm...já þetta er ekki alveg að passa mér.
Þarf að dóla mér í svefn og nenni ekki að tjá mig meira í bili...

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Þá eru kennaraskrattarnir búnir að semja. Hana nú sagði hænan. Vetrarríki og næsheit. Fór í skoðun með dóttur minni og allt í fína lagi. Og keypti lakk á kommóðuna. Ætlaði að gera reiðinnar býsn í dag, en kláraði bara frey fyrir veikan Matthías. Ætlaði líka á matreiðslunámskeið en má ekki vera að því. Og kemst ekki á kóræfingu. Og nú dugar ekki að dedisera...

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Börnin mín fóru í skólann í morgun og eru ekki komin heim aftur. Vá...þvílík framför. Að kennararnir skuli yfirleitt mæta í sína vinnu. Samúð mín með þeim er algjörlega rokin út í veður og vind og að mínu mati algjörlega nóg komið. Það er margt undarlegt í þessu lífi. Eins og þetta að kennarar í Keflavík hafi fengið áfallahjálp á meðan konan sem varð vitni að morði þurfti ekkert á henni að halda. Er ekki orðið fulllangt gengið þegar farið er að nota fólk sem sérhæft er í áfallahjálp við að veita kennurum þessa þjónustu. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Geta þessir angar ekki farið með faðirvorið sitt sjálft. Æ...þetta er bara gengið út í öfgar. Algjör steypa allt saman.
Held að ég verði að kaupa snjóskó á alla krakkagrísina mína og snjóbuxur handa Katrínu. Náttúrlega ómögulegt að senda þessi grey í íþróttaskóm í öllum þessum snjó sem er víst komin til að vera, allavega segir Siggi stormur það. Og húsbóndinn enn á sumardekkjunum á sinni tojótu.
Mætti ekki á kóræfingar í gær sökum ónógrar nennu...algjört inniveður og allur vindur úr mér eftir partý helgarinnar að ég tali nú ekki um fjölskyldumatarboðið á mánudagskvöldið. Mér hefði nú ekki veitt af smááfallahjálp eftir kaffikönnuumræðuna. Hefði betur þagað þunnu hljóði, allavega á meðan foreldrar mínir voru hér sem tóku náttúrlega spurningar mínar á versta veg.
Þarf að drífa mig í sturtu. Þarf að sækja mína kæru systur upp í Grafarvog og keyra hana niðrá BSÍ í flugrútuna...

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Afmælispartýið mitt var algjörlega meiriháttar skemmtilegt. Létturnar mínar allar með dásamlegt skemmtiatriði og hún Solla mín flutti yndislega ræðu þar sem hún rifjaði upp æsku okkar og líf yfirleitt. Mikið drukkið af tequila sem fór nú víst misjafnlega með heilsu stúlknanna daginn eftir. En ég mæli með því að fólk haldi upp á afmælið sitt. Það er svo gaman. Mér finnst í lagi að vera fimmtug en að vera komin á sextugsaldurinn...halló get ekki sætt mig við það.
Eyddi sunnudeginum að mestu í þynnku og þrif. Ryksugaði upp megnið af stjörnunum á gólfinu og fór svo og hitti Gunnhildi og Önnu um kvöldið, fórum út að borða saman og spjölluðum út í eitt. Ákveðið að drífa sig í heimsókn til Önnu í endaðan apríl á næsta ári.
Svo var ég með matarboð hér í gær fyrir mína heittelskuðu fjölskyldu. Tókst ágætlega held ég. Við hjónin fengum þessa fínu kaffivél í afmælisgjöf, en eitthvað fannst pabba ég dónaleg yfir að spyrja hvort á tækinu væri malari. En hann þarf nú stundum ekki mikið til að móðgast enda af mikilli móðgunarfjölskyldu. Og ekki orð um það meir. Var ánægð með þessa gjöf þó ég hafi kannski látið eitthvað annað í ljós.
Börnin mín fóru ekki í skóla í morgun. John er algjörlega búin að fá nóg að vera að vekja þau og koma þeim í skólann og svo er engin kennsla. Þau verða ekki send í skóla fyrr en þessi kennaradeila er komin á hreint og vitað að kennarar mæti í vinnu. Það er algjörlega nóg komið af þessari vitleysu allri saman.
Og nú lítur allt út fyrir að Kópavogsbær ætli að hækka útsvarið. Þeir þurfa greinilega meiri peninga í reksturinn en svo virðist sem vesturbærinn hér sitji algjörlega á hakanum í framkvæmdum. Ég t.d. fæ ekki breiðbandið hér inn í húsið þó við séum á einstaklega gráu svæði hvað varðar útsendingar en málið er í bið hjá Símanum og ekki vitað hvenær Kópavogsbæ (þ.e. Gunnari Birgissyni) dettur í hug að gera eitthvað í málinu. Við erum búin að senda bréf í allar áttir en fáum engin svör. En það er nokkuð ljóst að Gunnar Birgisson og co fær ekki atkvæði mitt í næstu kosningum.
Hér við hliðina á mér eru margir pokar af allskonar áfengi sem veislugestir skyldu eftir hér á laugardaginn. Held að ég setji pokana í bílinn minn og reyni að koma einhverju af þessu áfengi til skila í kvöld.
Þarf svo að muna að mæta á fund í kvöld kl. 19.30 hjá minjanefndinni. Undirbúningur fyrir jólatónleika að skella á. Er nú ekki alveg sátt við hlut Gospelsystra í jólatónleikunum en fæ víst engu um það ráðið. Greinilega bara eitthvað sem ég verð að sætta mig við. Svo á ég nú eftir að sjá hvernig gengur að samræma söng á tónleikum og ömmuhlutverkið í byrjun desember. Það fer náttúrlega mikið eftir því hvenær litla skonsan ákveður að koma í heiminn. Ætti trúlega núna að drífa mig í Byko og kaupa málningu og mála kommóðuna undir fötin hennar svo það sé búið.
Önnur veisla hér á laugardaginn og trúlega getur hún María mín ekki hjálpað mér fyrir það. En einhvern veginn kemur þetta allt til með að reddast.
Ég er í eitthvað skrítnu skapi í dag eftir gærkvöldið. Stuðaði sjálf trúlega fjölskylduna og fjölskyldan stuðaði mig. Þarf að losna við þetta úr hausnum á mér....

laugardagur, nóvember 13, 2004

Allt að smella fyrir stúlkupartýið á morgun. Búin að flestu og klára restina á morgun. Og nú er komin í mig svoldið tilhlökkun. Hlakka til að hitta allar þessar frábæru konur sem ég þekki, sumar hef ég ekki séð lengi og aðrar í gær. Ég held að þetta verði bara alveg ógislega gaman.
Fór á Faithfull tónleika í gær. Assk... góð kerlingin og nokkuð ljóst að konur bara bestna með aldrinum.
Er enn ekki búin að læra þessa texta alla saman fyrir tónleikana á morgun en hér er einn sem ég þarf að læra og á eiginlega bara nokkuð vel við þema morgundagsins:

Ég líka á mikið safn bæði af kjólum og af kápum
sem kirfilega geymt ég hef í mahóníuskápum.
Þær flíkur hafa aldur sinn ágætlega borið
Ég ýmsar þeirra keypti mér þjóðhátíðarvorið.

Hún móðir mín hefur reyndar ekki geymt fötin sín í mahónuskápum en geymt þau samt. Og allt er þetta saumað og hannað af henni. Hún var voða glöð þegar einhver gat notað gömlu fötin hennar og á morgun mun ég skarta einum þessara dásamlegu kjóla sem hún hefur saumað í gegnum tíðina...

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Afmælisdagurinn minn í gær var hreint yndislegur, kysst og knúsuð af um það bil 200 konum og manninum mínum og börnum. Kattarskottið var eina veran sem hegðaði sér eins og vanalega. Hún gengur með þá grillu í höfðinu að hún búi á fimm stjörnu hóteli þar sem allir aðrir á heimilinu eru þjónar hennar sem eiga að sitja og standa eins og henni dettur í hug.
Senn líður að léttsveitartónleikum og enn kann ég nú ekki nokkura texta almennilega en einhvern veginn verð ég kærulausari með aldrinum og veit að þó að ég kunni ekki allt þá er alltaf einhver sem kann það. Þetta er kosturinn við að vera í stórum kór. Það stendur ekki allt og fellur með MÉR! En ég hef enn tvo og hálfan dag til að berja þetta inn í minn gamla haus.
Og svo verður mitt fimmtugspartý á laugardagskvöldið. Mikið vildi ég að ég kæmi fleira fólki hér inn. Hefði svo mikið viljað bjóða miklu fleirum í afmælið mitt en einhvers staðar verð ég að setja stopp. Það eru takmörk fyrir öllu víst.
En þetta er allt að smella og þrifin nærri búin og svo bara að setja borðstofuborðið út og tjalda markísunni. Verst að spáð er suðvestan hryssingi og rigningu á laugardaginn en á svo að hægja, bara spurning hvenær.
Þarf að muna eftir að ná í systur mína og vinkonu út á flugvöll á morgun og kíkja svo á afmælisbarn morgundagsins, hana Maríu mína. Og svo tónleikar annað kvöld með Faithful...

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ja hérna hér...í dag eru heil fimmtíu ár síðan ég kom í heiminn. Skrítið að vera orðin svona öldruð en þó svo afskaplega ung...eða þannig. Allt á fullu að undirbúa afmælisveisluna á laugardaginn...

föstudagur, nóvember 05, 2004

Alveg er það dásamlegt að syngja. Var nú ekki alveg viss um hvort ég ætti að láta vaða og syngja með Gospelsystrum á tónleikum í kvöld en er afskaplega glöð yfir því að hafa gert það. Var nú reyndar ekki alveg með einn textann á hreinu sem ég sá nú í fyrsta skipti í gær en notaði mottóið hennar Jóhönnu: "If you don´t make, fake it. Maður fer assk....langt á því.
Dúndrandi skemmtilegir tónleikar, sem eru styrkartónleikar fyrir eiginmann einnar gospelsystur, sem er mikið veikur og er að leita sér lækninga til Noregs. Aðrir tónleikar í Hafnarborg nk. sunnudag. Andrea Gylfa algjörlega æðisleg. Hún fær svo sannarlega hárin til að rísa. Söng Cry me a river (the orginal ekki þetta með Justin Timberlake) svo frábærlega að ég var næstum farin að gráta fljóti.
Og nú er afmælisveisluhrinan að skella á. Arne hennar Maríu verður með heljarinnar partý á laugardaginn svo á morgun fer ég til Maríu minnar að undirbúa þá veislu. Hún kemur svo til með að hjálpa mér þessi elska.
Næsta vika fer svo í að undirbúa mitt stelpupartý. Markísan komin upp og John þarf að tengja hana við rafmagn, færa út borðstofuborðið og það eitt og sér er heljarinnar mál þar sem við þurfum örugglega að taka hurðina úr falsinu til að koma fætinum út. Setja upp ljósaseríu og bara að taka almennt til, fara í ríkið og versla restina sem til þarf til að slá upp góðri veislu. Hlakka rosalega til.
Petra Kristín í Vatnaskógi með prestinum og Katrín á leið í Kaldársel í skólaferð á morgun. Og svo þarf ég að muna eftir því að fá Hrund til að passa á laugardaginn því þá er afmælisveislan hans Arne.
Tjúll, tjúll....get ekki náð mér niður eftir þessa frábæru tónleika og hlakka til að syngja á þeim seinni og svo auðvitað Léttsveitartónleikarnir þann 13. nóv. Gaman, gaman...og fyrir þá þann 11. tónleikar með Maríanne Faithful. Ekki verður það minna gaman. Og hún systir mín skrítin að vilja ekki fara á þá, segir að hún jarmi. Held að hún ætli að skella sér á vodkakúrinn í staðinn.
Hún um það.
Allt útlit fyrir að kennaraverkfall skelli á eftir helgina. Meira ruglið þetta allt saman. Á ekki bara að sleppa þessum skóla fram á næsta haust...

mánudagur, nóvember 01, 2004

Mætti náttúrlega ekkert á þessa kóræfingu á laugardaginn enda klukkan farin að halla í sex á laugardagsmorgni þegar ég loksins sveif inn í draumalandið. Gunnsan og Stína stuð kom hér upp úr hádeginu eftir morgunæfinguna og við sátum hér við eldhúsborðið og kjöftuðum til að verða þrjú. Fór því ekkert úr náttfötunum þann daginn. Er að fíla nýja umhverfið í tölvunni minni og svona. Fór svo í fimmtugsafmæli hjá Sigrúnu frænku í kvöld, dásemdarmatur og rauðvín. Og á morgun eiga Ása frænka og Arne afmæli. Og um næstu helgi byrjar afmælispartýhrinan...þarf að gera boðskort fyrir þann 20. eigi síðar en á morgun og senda út...miða á fjáröflunartónleika Léttsveitarinnar ...og muna eftir að mæta á raddæfingu hjá einni Gospelsystur kl. 18 á morgun...hringja í markísusnúllann...og panta tíma í tannréttingar fyrir mig...og svo ætti ég trúlega að fara að huga að líkamsræktinni sem augnlæknirinn vill að ég drífi mig í...og börnin í skólann í fyrramálið í allavega viku...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter