<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Afmælispartýið mitt var algjörlega meiriháttar skemmtilegt. Létturnar mínar allar með dásamlegt skemmtiatriði og hún Solla mín flutti yndislega ræðu þar sem hún rifjaði upp æsku okkar og líf yfirleitt. Mikið drukkið af tequila sem fór nú víst misjafnlega með heilsu stúlknanna daginn eftir. En ég mæli með því að fólk haldi upp á afmælið sitt. Það er svo gaman. Mér finnst í lagi að vera fimmtug en að vera komin á sextugsaldurinn...halló get ekki sætt mig við það.
Eyddi sunnudeginum að mestu í þynnku og þrif. Ryksugaði upp megnið af stjörnunum á gólfinu og fór svo og hitti Gunnhildi og Önnu um kvöldið, fórum út að borða saman og spjölluðum út í eitt. Ákveðið að drífa sig í heimsókn til Önnu í endaðan apríl á næsta ári.
Svo var ég með matarboð hér í gær fyrir mína heittelskuðu fjölskyldu. Tókst ágætlega held ég. Við hjónin fengum þessa fínu kaffivél í afmælisgjöf, en eitthvað fannst pabba ég dónaleg yfir að spyrja hvort á tækinu væri malari. En hann þarf nú stundum ekki mikið til að móðgast enda af mikilli móðgunarfjölskyldu. Og ekki orð um það meir. Var ánægð með þessa gjöf þó ég hafi kannski látið eitthvað annað í ljós.
Börnin mín fóru ekki í skóla í morgun. John er algjörlega búin að fá nóg að vera að vekja þau og koma þeim í skólann og svo er engin kennsla. Þau verða ekki send í skóla fyrr en þessi kennaradeila er komin á hreint og vitað að kennarar mæti í vinnu. Það er algjörlega nóg komið af þessari vitleysu allri saman.
Og nú lítur allt út fyrir að Kópavogsbær ætli að hækka útsvarið. Þeir þurfa greinilega meiri peninga í reksturinn en svo virðist sem vesturbærinn hér sitji algjörlega á hakanum í framkvæmdum. Ég t.d. fæ ekki breiðbandið hér inn í húsið þó við séum á einstaklega gráu svæði hvað varðar útsendingar en málið er í bið hjá Símanum og ekki vitað hvenær Kópavogsbæ (þ.e. Gunnari Birgissyni) dettur í hug að gera eitthvað í málinu. Við erum búin að senda bréf í allar áttir en fáum engin svör. En það er nokkuð ljóst að Gunnar Birgisson og co fær ekki atkvæði mitt í næstu kosningum.
Hér við hliðina á mér eru margir pokar af allskonar áfengi sem veislugestir skyldu eftir hér á laugardaginn. Held að ég setji pokana í bílinn minn og reyni að koma einhverju af þessu áfengi til skila í kvöld.
Þarf svo að muna að mæta á fund í kvöld kl. 19.30 hjá minjanefndinni. Undirbúningur fyrir jólatónleika að skella á. Er nú ekki alveg sátt við hlut Gospelsystra í jólatónleikunum en fæ víst engu um það ráðið. Greinilega bara eitthvað sem ég verð að sætta mig við. Svo á ég nú eftir að sjá hvernig gengur að samræma söng á tónleikum og ömmuhlutverkið í byrjun desember. Það fer náttúrlega mikið eftir því hvenær litla skonsan ákveður að koma í heiminn. Ætti trúlega núna að drífa mig í Byko og kaupa málningu og mála kommóðuna undir fötin hennar svo það sé búið.
Önnur veisla hér á laugardaginn og trúlega getur hún María mín ekki hjálpað mér fyrir það. En einhvern veginn kemur þetta allt til með að reddast.
Ég er í eitthvað skrítnu skapi í dag eftir gærkvöldið. Stuðaði sjálf trúlega fjölskylduna og fjölskyldan stuðaði mig. Þarf að losna við þetta úr hausnum á mér....
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter