<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Ekki gekk það nú vel að leita að fermingarfötum á Rúskuna. Allir kjólar algjört hýjalín, hlýralausir og berir. Ekki alveg að ganga upp. Svo nú á að storma með ömmuna í Kringluna að skoða þá kjóla sem í boði eru og sjá hvort hún getur ekki hrist fram úr erminni eitthvað sem hægt er að klæðast án þess að það hrynji niður um fermingarstúlkuna. Rúskan efast um að amman geti saumað en mamman nokkuð sannfærð um að ef einhver getur það þá er það amman. Betri saumakona finnst ekki á Fróni og þó lengra væri leitað. Lagði til að stúlkan klæddist fermingarkjól mömmunnar sem er algjörlega í tísku en eitthvað efast hún. Finnst hann fullstuttur í annan endann. Reyndar stóð mamman ekki út úr hnefa þegar hún fermdist, náði ekki einum og hálfum og fermingarbarnið löngu vaxið yfir þá hæð eða oxið eins og Bubbi sagði hér um daginn.
Var að koma af Strengsskralli í Glersölum, tapaz í matinn og skorið við nögl. Diskóið frekar leiðinlegt en ágætis samkoma samt. Ætla hér með að stefna á að draga spúsa minn í dansskóla, læra fyrst frumsporin og svo förum við tvö í tangó þegar fótafimin verður skárri. Ekki það að ég kunni ekki frumsporin því þau lærði ég sem barn hjá Heiðari og allt sem ég lærði sem barn kann ég enn. Hef engu gleymt sem ég lærði þá þó ég gleymi öllu sem ég lærði í gær.
Og núna...sleep, ohh...sleep....

föstudagur, febrúar 25, 2005

"Hver skapaði sýkla?" spyr Helgi Hós þar sem hann sendur með skiltið sitt á Langholtsveginum.
Mér þætti hins vegar gaman að vita hver kom því inn í hausinn á mannfólkinu að konur væru betur fallnar til tiltektar en karlmenn. Úti er algjört gluggaveður þó milt sé og þá kemur í ljós allt rykið og skíturinn hér á heimilinu og örugglega á öðrum heimilum líka þó mér finnist alltaf skítugra hér en hjá öðrum. Er að reyna að koma einhveru skikki á herbergi Katrínar en gengur illa. Ég held ég verði að fara að flytja í annað hús svo ég hendi einhverju af öllu því drasli sem hér hefur safnast upp í gegnum árin. Samt eru farnar reglulegar ferðir héðan í Sorpu en það sér ekki högg á vatni...
Segið að það sé ekki hægt að læra neitt af því að glápa á sjónvarpið. Horfið í gærkvöldi á fommann og Eddu Björgvins í Fólki hjá Sirrý ræða um skilnaði. Ýmislegt fróðlegt kom þar fram og var ég sammála flestu. Hef langa reynslu af skilnuðum en er eiginlega komin úr æfingu eftir þessa löngu sambúð með mínum núverandi ektaspúsa. Það gengur voðalega illa hjá mér að láta hann fara nægilega mikið í taugarnar á mér til að ég sjái ástæðu til að skilja við hann. Og svo er ég orðin allt of gömul til að standa í slíku. En reynslan er engu að síður til staðar. Er þrígift, hef orðið ekkja einu sinni, skilið einu sinni og slitið tveimur sambúðum. Geri aðrir betur. En ég uppgötvaði það að ég er núna búin að búa með honum John mínum lengur en öllum hinum til samans. Átti aldrei von á því að ég mundi brjóta 4 1/2 árs múrinn en það var sá tími sem ég eyddi með fyrrverandi eiginmanni og barnsföður en þetta er fimmtánda árið sem við John erum saman. Samt finnst mér þessi tími alls ekki vera svona langur. Sá sem mér finnst í minningu ég hafa eytt lengstum tíma með bjó ég með í rúm tvö ár og það algjörlega allt of langur tími. Hann var svo ótrúlega leiðinlegur og þegar manni leiðist er tíminn óheyrilega lengi að líða.
Eftir Fólk tók við þáttur um fólk sem er að éta sig í gröfina af öllu ruslfæðinu sem það borðar. Mér finnast þetta nú ekkert sérstaklega interesant þættir en glápti nú samt þá þennan þátt í gær. Held að ég þurfi að fá mér sink. Það eykur víst kynhvötina og hlýtur þar af leiðandi að vera allra meina bót fyrir konur komnar næstum yfir breytingaskeið.
Svo tók við Oprah með SuperNanny sem kemur inn á heimili þar sem er óhemju óþekk börn og tekur foreldrana svoldið í gegn og börnin í leiðinni. Eftir að hún fer eins og hvítur stormsveipur um heimilið fellur þar allt í dúnalogn og næstheit. Mér veitti nú stundum ekki af að fá svona konu í heimsókn. Unglingurinn á heimilinu tjáir sig á háa séinu, sú elsta reynir að siða systkini sín til af því móðirin er ekki nógu ströng og svo rífast þessi grey sitt á hvað. En er það ekki bara eðlileg samskipti milli systkina að rífast. Ég veit ekki betur en við systurnar höfum oft og tíðum nærri gegnið hvor af annarri dauðri en í dag er við fyrirtaks systur og elskum hvora aðra yfir lönd og höf. Svo er aftur á móti annað mál að halda sæmilegri geðheilsu með argandi börn yfir sér daginn út og inn. En til allrar hamingju eru þau stundum eins og hugur manns þó mér finnist það stundum að það mætti vera oftar.
En nú fröken Sigurlaug drullar þú þér í rúmið með di samme...kominn tími á að snúa sólarhringnum á réttara ról og reyna að breytast í A manneskju...

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Það gengur erfiðlega fyrir mig að hafa mig á fætur á morgnana en er sem sagt komin á fætur töluvert fyrir hádegi. Þarf að baka nokkrar kökur fyrir afmæli Katrínar sem verður haldið hér í dag því þó meginuppistaðan í veislunni séu pizzur á ég að baka einhver ósköp líka. Eins og ég hafi ekki verið búin með árskvótann fyrir skírnarveisluna. En hvað lætur maður ekki hafa sig út í fyrir þessu blessuð börn.
Nýja rúmið hennar Katrínar komið upp og það tekur hálft herbergið en vonandi fer að koma að því að hún og Tristan fái stærra herbergi þó það verði nú ekki fyrr en Hrund flytur að heiman með Rakel Silju sem ég get nú ekki séð að verði í bráð. Ekki það að mér finnist ekki notarlegt að hafa þær hér heima.
Dúndrandi fín kóræfing í gær og morðin og myrkið allt á góðri leið að festast í hausnum. Eftir því sem þessi lög eru sungin oftar skána þau og stúlkan í grá húsinu í bláhvíta landinu er algörlega að slá í gegn, allavega í mínum haus þar sem það sönglar daginn út og inn.
Annars ekkert merkilegt á seiði...nema í kollinum á mér sem er á stöðugu flugi...

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Ekki veit ég hvað gerðist hjá henni Jónu minni í gær en þvílíkar og aðrar eins draumfarir eins og í nótt (eða reyndar í morgun). Ætlaði aldrei að ná mér á lappir þar sem draumheimar voru mun meira spennandi en okkar dull raunveruleiki, og þó.
Er að lenda eftir skírnarveisluna og nú á hún Katrín mín afmæli í dag og hún ætlar að vera með afmælisveislu á morgun og ég á víst að baka eitthvað fyrir þá veislu líka. Skelli kannski í tvær kökur í kvöld eftir kóræfingu og baka muffins í fyrramálið ef ég vakna.
Sleppti kóræfingu hjá gospel sökum tímaleysis. Fór með Maríu að ræða við pabba hennar út af heimasíðu fyrir fyrirtækið hans. Verður trúlega heljarinnar vefur þegar upp er staðið.
Og svo er spurning hvort blessað vorið er að koma...

mánudagur, febrúar 21, 2005


create your personalized map of europe
Þetta er Evrópukortið


create your own personalized map of the USA
Og þetta USA þó ég sé nú ekki alveg með fylkin á hreinu
Ég er ekki alveg í lagi að vera ekki löngu sofnuð en ég er bara eitthvað svo hátt uppi eftir daginn í dag. Vaknaði frekar snemma til að setja á kökur fyrir skírnarveisluna. Fékk rós frá mínum ektamanni í tilefni dagsins og svo var öllum smalað í bílinn og farið í messu þar sem litla ömmu snúllan mín varð skírð. Og þau komi okkur eðalömmunum skemmtilega á óvart þegar stúlkan var ekki bara látin heita Rakel heldur RAKEL SILJA. Ég var nú reyndar búin að ýja að þessu nafni þar sem ég er nú Silla og hin amma er Lilja. Ég held að okkur hafi eiginlega báðum bruðgið þegar við heyrðum nafnið hennar en auðvitað algjörlega í skýjunum yfir að fá svona sæta nöfnu. Skírnarveislan tókst dæmalaust vel þó allt of mikið af fólki hafi verið í húsinu um 35 manns. Og sú stutta fékk fullt af fallegum gjöfum frá öllum öfunum og ömmunum. Skemmtilegur dagur sem sagt og ég næ mér engan veginn í háttinn. En þó seint fari sumir fara þeir þó...

laugardagur, febrúar 19, 2005

Var í saumó hjá Möggu Hrefnu í gærkvöldi og hvílíkur gæðamatur alltaf hjá henni Möggu. Avakato/rækju forréttur, spænskur kjúlli í aðalrétt og einhver súkkulaðidásemd sem heitir víst "Synd" í eftirrétt og svo auðvitað grand og kaffi. Við stundum allar yfir syndinni eins og konur í fullnægingu. Og ekki skemmir fyrir hvað hún dásamlega flott leirtau þó mjólkurkannan hefði mátt vera stærri miðað við magnið sem við hafnfirðingarnir drekkum. Og ofan í okkur fór ómælt magn af rauðvíni og heilsufarið í morgun ekki gott. Mikið rætt og skrafað og bara ógeðslega skemmtilegt kvöld.
Hér neðst er uppskriftin af spænska kjúllanum hennar Möggu. Fleiri góðar uppskriftir á heimasíðunni minni.
Er núna að reyna skríða saman eftir gærkvöldið, þarf að baka aðeins meira fyrir skírnina á morgun. Það koma víst eitthvað fleiri gestir en áætlað var og ef skyldmenni Robba borða jafnmikið og hann er nokkuð víst að eitthvað verður að bæta við veitingarnar. Hrund ekki á staðnum til að taka til. Hún er eitthvað módel í einhverri klippikeppni og veit ekki hversu langan tíma það tekur. Og litla snúllan hjá pabba sínum þessa helgina. Sakna hennar alltaf um leið og hún fer úr húsi. Hún er verða svo skemmtileg, brosir út um allt og býr til ótrúlegustu hljóð.
Hef ekki heyrt í Vigni síðan í fyrradag en þá var litla daman komin úr hitakassanum og komin í venjulega vöggu. Allt sem sagt á góðri leið hjá litlu frænkunni.
En nú er víst best að taka á honum stóra sínum og henda sér í skírnarundirbúning. Þarf að skipta um slaufu á skírnarkjólnum og leggja á borðið og setja á kökur og svo framvegis...

Spænskur kjúklingur a la Magga Hrefna

fyrir átta

2 heilir kjúklingar eða 8 bringur
1/2 hvítlaukur saxaður
1/4 bolli rauðvínsedik
1/8 bolli oregano
1/2 bolli sveskjur
1/4 bolli grænar olívur
1/4 bolli kapers
1 bolli olívuolía
6 lárviðarlauf
Salt og pipar eftir smekk

Blanda öllu saman í skál. Ef bringur eru notaðar eru þær skornar í þrjá bita.

Bringurnar maríneraðar í leginum í 6-24 klst.
Sett í eldfast mót.

1/2 bolli hvítvín, 1/2 bolli púðursykur og 1/4 bolli steinselja hrært saman og hellt yfir.
Steikt í 180°C heitum ofni í 30-40 mínútur.

Borið fram með fersku salati og brauði.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Mig dreymdi í nótt að ég söng Vegir liggja til allra átta fyrir Bubba Morthens af mikilli innlifun og þurfti að hafa mig alla við að yfirgnæfa þrjár aðrar kerlingar sem allar sungur allt of hátt að mínu mati. Sér er það nú hver sönggræðgin þegar ég er farin að syngja í svefni líka. Kannski ég ætti að hinta þá hjá Idolinu að halda "Öldunga-Idol" fyrir 35 ára og eldri eða kannski 40 ára og eldri. Ekki svo galin hugmynd. Verst ef maður þyrfti að keppa við allar Létturnar og Gospelurnar um hylli goðanna. Er hrædd um að ég lenti ekki mjög ofarlega í samkeppni við allar þær söngspírur.
Litla frænkan öll að braggast og laus við slönguna niður í lungun og þarf ekki eins mikla hjálp frá öndunarvélinni og áður. Fer trúlega í aðra öndunarvél á morgun og þetta er allt að koma hjá þeirri stuttu.
Skírn um næstu helgi hjá ömmustúlkunni minni og ég þarf að taka á honum stóra mínum að drífa í að baka. Hin amman ætlar að gera kransaköku og eitthvað fleira svo þetta verður allt bara auðvelt og skemmtilegt.
Hef ekki heyrt neitt frá bændum enn um framhald á vinnu fyrir þá. Skilaði síðasta Frey síðasta árs í prentsmiðju á föstudaginn og hef ekki hugmynd um framhaldið. Finnst það nú eiginlega svoldið skrítið að tala ekkert við mann um fyrirhugaðar breytingar en kannski er þetta bara svona hjá verktökum.
Þarf að drífa í að búa til fermingarkort fyrir Petru og fer á morgun í klaustið að panta fyrir hana kerti sem hún endilega vill fá. Og það fer að styttast í ferminguna hjá henni. Annars er hún að rifna úr frekju stúlkan sú og veður yfir allt og alla á heimilinu. Sannkölluð unglingaveiki sem hana hrjáir.
Einhverra hluta vegna eru allir eitthvað óskaplega andlaustir í bloggi þessa dagana og ekkert skemmtilegt og krassandi að lesa. Áfram stelpur.
Fór á Piaf í gær. Allt í lagi sýning en heldur ekkert meira. Brynhildur góð en restin eitthvað laus í reipunum fannst mér. Sigurður er greinilega eins djúpur og Didda....

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Er ekki algjörlega laus við flensuskömmina eða hvað það nú er sem hefur blagað mig undanfarna daga. Stífleiki í hálsi aðaleinkennin og svo þurr hósti.
Litla frænkan mín virðist vera að braggast. Þurfti að fara öndunarvél og ýmislegt fleira en í gær var þetta á réttri leið og það er gott. Þetta hlýtur samt að taka á nýbakaða foreldra að geta ekki haldið á barninu sínu og horfa á allar þessar slöngur og tól sem sett eru á þessa litlu snúllu. Ég held að Guðný komi heim í dag en sú stutta þarf að vera eitthvað lengur.
Dásamlegt boð hjá Maríu á föstudagskvöldið og mér skilst að það hafi verið afskaplega gaman að syngja fyrir oddfellowana í gær. Sleppti því að fara enda ekki alveg við hestaheilsu. Og svo er það leikhúsið í kvöld á Piaf. Hlakka til.
Vaknaði í morgun með sting í maganum yfir því hvað ég ætti eftir að gera mikið fyrir skírn ömmustelpunnar næsta sunnudag. Trúlega algjörlega óþarfa stress. Einhvern veginn hefst þetta allt saman. Og nú er best að leggjast í tiltekt og önnur heimilisstörf. Þarf að komast til Jónu sem fyrst...

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Er andlaus þessa dagana og með einhverja flensudruslu sem er ekki skemmtilegt. Beinverkir og hósti. En ég eignaðist nýja frænku í gær. Vignir bróðir og Guðný eignuðust litla stúlku, rétt rúmar níu merkur. Sú stutta kom mánuði fyrir tímann í heiminn en er voða sæt. Finnst verst að geta ekki farið og kíkt á hana en ég held að það sé ekki sniðugt að vera að þvælast niðrá lansa með þessa pest. Er farið í bælið aftur...

mánudagur, febrúar 07, 2005

Dæmalaust skemmtilegt dekur og djamm á laugardaginn og langt fram á nótt. Mikið talað, borðað og drukkið. Ég held að of mikið tequila geri það að verkum að ég samkjafta ekki og blaðra stanslaust um allt og ekki neitt. En allt var þetta óskaplega gaman og heilsufarið ekki svo slæmt í gær. Var að koma úr klippingu og varð að fresta Jónunni fram á morgundaginn þó mér hefði svo sem ekki veitt af því að fara til hennar í dag. Þarf að taka til í eigin ranni...

föstudagur, febrúar 04, 2005

Hvurs lags, hvurs lags er þetta. Er virkilega allar "miðaldra" konur komnar með einkaþjálfara??? Það er greinilega algjörlega inn að vera með einn slíkan. Verð hreinlega að fara að drífa í þessu svo maður fylgi straumnum. Þetta fer kannski að vera svona eins og um árið rétt eftir að SÁÁ varð til að ef einhver sem maður hitti úti á lífinu þóttist kannast við mann var spurningin yfirleitt sú: "Varstu kannski með mér í meðferð, ha?" Nú ferð þetta að vera "Erum við kannski með sama einkaþjálfarann, ha??" Þarf líka að fara að drífa mig í eldfjallameðferðina sem nokkrar léttur gáfu mér í afmælisgjöf. Bara að finna góðan dag svo þær komist svo með með í pottinn á eftir.
Finn á heilsunni að ég þarf að fara oftar til hennar Jónu minnar. Það allavega gerir mér ekkert nema gott.
Og svo er ég allt í einu orðin tvístígandi um hvort ég eigi að mála arininn þó ég hafi keypt málninguna í gær. Veit samt að það yrði allt annað líf að hafa hann hvítan greyið, en mun trúlega koma til með að sakna geimverunnar sem hann prýðir í formi steingervinga. Hef eytt deginum í það að þurrka hér af enda er algjört gluggaveður úti og þá skín blessuð sólin á allt helv...rykið sem hér hefur safnast upp á ótrúlega skömmum tíma, fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Er að passa ömmustelpuna mína en hún sefur úti þessa stundina. Og eins og öll mín börn sefur hún eins og engill. Móðirin í heimsókn hjá vinkonu, ætlaði að taka hana með en amman vildi ekki valda rúmruski hjá litlu sætu dúllunni.
Well..besta að halda áfram að losa sig við rykið...og um leið spikið...

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Var vakin hér í morgun af B-konunni Gunnhildi sem var að koma úr leik í Spaugstofunni. Hún kom nú eiginlega reyndar meira til að heimsækja mína frábæru kaffivél en eitthvað var kaffið hennar þunnt og engar baunirnar til. Svo eftir kjaft og blaður og miklar reykingar keyrði ég hana heim tók strikið í Íkea að skila skóstandi sem hvergi komst fyrir í mínum núna ofurskipulögðu skápum. Svo í málningarkaup í HörpuSjöfn og svo í Te og kaffi að kaupa baunirnar sem vantaði sárlega í morgun. Tristan búin að hringja í mig milljón sinnum til að komast í Leikbæ að kaupa búning fyrir öskudaginn svo ég heim aftur að sækja hann. Er algjörlega á móti þessari assk...búningamenningu sem búið er að koma á á öskudaginn. Er enn svo gamaldags að ég vil bara öskupoka og næsheit en það er löngu liðin tíð og nú vita börn ekki hvað öskupokar eru. Ótrúlega að þurfa að taka þennan ósið upp af norðlenskum lofthænum og troða hér upp á öll heimili á stórkópavogssvæðinu. En tímarnir breytast víst og við mennirnir þurfum víst að bíta í það súra og fylgja þeim eftir.
Er á leið á raddæfingu léttanna á eftir og svo í mátun hjá Rögnu Fróða. Þyrfti tilfinnanlega að taka hér til og líka að búa til karrýsósuna fyrir fiskibollurnar og kannski dríf ég það af fyrir "myrkrið og morðin" hjá Léttum.
Ekkert merkilegt í dagblöðum dagsins nema helst að talið berist að samfylkingunni og væntanlegu formannskjöri. Flestir á því sem spurðir eru að Solla vinni slaginn. Ekki það að Össur sé í neinu uppáhaldi hjá mér eða nokkur annar samfylkingarmeðlimur en svei mér ef ég fer ekki að biðja fyrir því að hann haldi bara áfram. Er orðin verulega þreytt á "frekjunni" í Ingibjörgu Sólrúnu. Hún hefur svo sannarlega fengið nóg af þeim genum og ætti kannski að drífa sig í Framsókn þar sem ég mundi halda að hún fengi verðuga samkeppni við öll þau frekjugen sem þar eru (allavega miðað við skoðun vésunnar). Reynar er mér algjörlega sama um hvað þetta lið í samfylkingunni er að gera, hef aldrei og mun aldrei styðja svona rokkara...þ.e. sem eru sífellt að rokka á milli flokka og virðast ekki geta ákveðið sig hvort þau eru vinstra eða hægra megin við miðjuna, femínistar eða what ever...

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Nú er nóg komið af testum í bili a.m.k. Man ekki hvort ég var búin að minnast á það að ég lakkaði útihurðina að innan um helgina, algjörlega allt annað líf. Líf mitt er að breytast úr bláu í grátt svo bráðum verður húsið bara grár hversdagsleikinn uppmálaður. Er á leiðinni að mála hér allt milli himins og jarðar, er enn tvístígandi með arininn en er samt nokkuð viss um að hann verður málaður fyrr en síðar.
Er öll að koma til eftir meðferðirnar hjá Jónu. Skil samt ekki enn að ég skuli sofa út í eitt hjá henni. Ekki haldið að það væri minn stíll að slappa svona algjörlega af einhvers staðar út í bæ. En það er eitthvað sem gerist þarna á bekknum og ég fell bara í eitthvað ódáinsminni og langar eiginlega ekkert að vakna aftur. Og heimilisfólk hér telur sig finna breytingar á múmmsunni sem hefur frá miðjum nóvember verið algjört pain in the arse. Og svo reyni ég að sulla í mig ósköpunum öllum af vatni og blómadropum. Svo næsta skref hlýtur að vera einkaþjálfari að hætti Jóhönnu og annarra "miðaldra" kvenna.
En nú kallar sturtan svo maður mæti ekki illa lyktandi á kóræfingar dagsins...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter