<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 25, 2005

Segið að það sé ekki hægt að læra neitt af því að glápa á sjónvarpið. Horfið í gærkvöldi á fommann og Eddu Björgvins í Fólki hjá Sirrý ræða um skilnaði. Ýmislegt fróðlegt kom þar fram og var ég sammála flestu. Hef langa reynslu af skilnuðum en er eiginlega komin úr æfingu eftir þessa löngu sambúð með mínum núverandi ektaspúsa. Það gengur voðalega illa hjá mér að láta hann fara nægilega mikið í taugarnar á mér til að ég sjái ástæðu til að skilja við hann. Og svo er ég orðin allt of gömul til að standa í slíku. En reynslan er engu að síður til staðar. Er þrígift, hef orðið ekkja einu sinni, skilið einu sinni og slitið tveimur sambúðum. Geri aðrir betur. En ég uppgötvaði það að ég er núna búin að búa með honum John mínum lengur en öllum hinum til samans. Átti aldrei von á því að ég mundi brjóta 4 1/2 árs múrinn en það var sá tími sem ég eyddi með fyrrverandi eiginmanni og barnsföður en þetta er fimmtánda árið sem við John erum saman. Samt finnst mér þessi tími alls ekki vera svona langur. Sá sem mér finnst í minningu ég hafa eytt lengstum tíma með bjó ég með í rúm tvö ár og það algjörlega allt of langur tími. Hann var svo ótrúlega leiðinlegur og þegar manni leiðist er tíminn óheyrilega lengi að líða.
Eftir Fólk tók við þáttur um fólk sem er að éta sig í gröfina af öllu ruslfæðinu sem það borðar. Mér finnast þetta nú ekkert sérstaklega interesant þættir en glápti nú samt þá þennan þátt í gær. Held að ég þurfi að fá mér sink. Það eykur víst kynhvötina og hlýtur þar af leiðandi að vera allra meina bót fyrir konur komnar næstum yfir breytingaskeið.
Svo tók við Oprah með SuperNanny sem kemur inn á heimili þar sem er óhemju óþekk börn og tekur foreldrana svoldið í gegn og börnin í leiðinni. Eftir að hún fer eins og hvítur stormsveipur um heimilið fellur þar allt í dúnalogn og næstheit. Mér veitti nú stundum ekki af að fá svona konu í heimsókn. Unglingurinn á heimilinu tjáir sig á háa séinu, sú elsta reynir að siða systkini sín til af því móðirin er ekki nógu ströng og svo rífast þessi grey sitt á hvað. En er það ekki bara eðlileg samskipti milli systkina að rífast. Ég veit ekki betur en við systurnar höfum oft og tíðum nærri gegnið hvor af annarri dauðri en í dag er við fyrirtaks systur og elskum hvora aðra yfir lönd og höf. Svo er aftur á móti annað mál að halda sæmilegri geðheilsu með argandi börn yfir sér daginn út og inn. En til allrar hamingju eru þau stundum eins og hugur manns þó mér finnist það stundum að það mætti vera oftar.
En nú fröken Sigurlaug drullar þú þér í rúmið með di samme...kominn tími á að snúa sólarhringnum á réttara ról og reyna að breytast í A manneskju...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter