<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 31, 2005

Ég er eins og þeytispjald út um allar trissur þessa dagana. Fermingin að hellast yfir og það þarf að redda þessu og redda hinu. Fór í gær og keypti skyrtu og bindi á bóndann. Hann á enga spariskyrtu sem er nógu fín fyrir árshátíð Léttana og eitt bindi á hann í fórum sínum sem hann keypti trúlega með Armani jakkafötunum sem hann er búin að eiga í ein þrjátíu ár. Hann keypti sér sín önnur jakkaföt í USA í haust svo nú hefur heldur betur vænkast hagur sveinka, á orðið til skiptanna. Ég auðvitað fór í dýrustu búðina í Kringlunni Hugo Boss og verslaði handa honum. Verður að vera gott og vandað ef það á að endast í þrjátíu ár.
Og svo eins og það hafi ekki verið nóg að kaupa rándýrar flíkur á bóndann keypti ég mér rándýran kjól fyrir árshátíð Léttanna. Algjör glamorgellukjóll sem hver einasta stórstjarna gæti mætt á á óskarinn. Fékk nú reyndar einhvera bakþanka í gærkvöldi og var næstum komin á það að skila kjólnum góða. Soldið erfitt að sitja í honum en hvað gerir maður ekki til að líta sómasamlega út á þessari árshátíð ársins. Svo get ég notað hann við fleiri tækifæri á árinu og svo auðvitað þegar við mætum allar 110 á Edduna að ári. Og Rúskan mín getur ekki beðið eftir að geta farið í svona flottan kjól. Spurði mömmsuna hversu gömul hún hefði verið þegar hún fékk svona kjól í fyrsta skipti. Þannig að þessi kjóll kemur til með að ganga í erfðir eins og kjólarnir hennar mömmu. Það hljóp sko heldur betur á snærið hjá mér þegar ég komst í alla kjólana hennar sem hún hefur saumað í gegnum tíðina.
Snúllinn minn er svoldið afbrýðisamur út í systur sína þessa dagana. Finnst allt of mikið stjanað í kringum hana fyrir þessa fermingu. Í gær fékk hún rúmið sem pabbi og mamma gefa henni í fermingargjöf og fermingarkjólinn tilbúinn. Daman alsæl og algjörlega í skýjunum yfir þessu öllu saman. Trínan lætur sér fátt um finnast enda nýbúið að gera herbergið hennar lífvænna, þó hún hafi lúmskan grun um að einhver eða einhverjir fari inn í herbergið hennar reglulega og rusli til. Trínan er sú allatasta sem ég þekki í tiltekt og slær meira að segja Dundý út í þeim efnum og var hún nú ekki tiltektaróð.
En nú fara baunverjar að hellast til landsins. Birna systir og Heimir koma í dag og Rankan og Peter á laugardaginn. Og um leið og Ragnhildur kemur leggjumst við í fermingarundirbúninginn á fullu. Er búin að kaupa dúk á borðið og ætla að sjá hvort borðskrautið sem komið er hús verði nóg að mati Rúskunnar.
Og shit...ég svaf yfir mig, ætlaði til hennar Jónu minnar kl. hálf ellefu. Úff mér hefði sko ekki veitt af því að komast til hennar. Fullbókuð helgin og ég þarf að skottast aðeins meira út um borg og bý...

miðvikudagur, mars 30, 2005

Það sem okkur Íslendingum dettur í hug er algjörlega ótrúlegt. Einu sinni fór fram landssöfnun til að kaupa uppstoppaðan geirfugl á milljón eða eitthvað og auðvitað náðist að kaupa þennan fuglsanga sem nú er þjóðareign þó ekki viti ég hvar hann er niðurkominn greyið. Við höldum að þetta sker hér út á ballarhafi sé nafli alheimsins og í kalda stríðinu vorum við alveg viss um að rússar vildu endilega komast yfir þetta sker okkar. Vorum voða glöð yfir því að kanarnir hefðu orðið á undan þeim og sest hér að á miðnesinu. Héldum líka að þar vildu þeir vera um alla eilífð. En Bush hefur engan áhuga á því og vill miklu frekar vera að skrattast í miðausturlöndum þar sem fjörið er. Og nú höfum við ættleitt gamlan skákmann af því hann var einu sinni frægur og við erum svo góð í okkur að halda alltaf með minni máttar og reyna að hjálpa. Og hver verður ekki glaður þegar hann fær að búa hér...ég meina Íslandi allt og allt er best sem íslenskt er. Er ekki ráð að ættleiða bin Laden líka. Hann á hvergi höfði sínu að halla fyrir Bush og könunum sem eiga ekki lengur upp á pallborðið hjá okkur nú þegar ljóst er að þeir vilja fara með þoturnar sínar tvær heim og nenna ekki að borga lengur fyrir eitthvað sem kemur þeim ekki að neinum notum í þessu írakstríði. Já, ekki er öll vitleysan eins í þessum heimi. Þjóðin sem sagt á nú bæði geirfugl og Fisher og að sjálfsögðu líður okkur betur með það...

sunnudagur, mars 27, 2005

Löngu komin tími á blogg. Þegar ég málaði arininn ætlaði ég sko ekki að mála meira hér fyrir fermingu en fermingarbarnið fær rúm í fermingargjöf frá ömmu og afa í Hafnarfirði og hún vildi að ég drifi í að mála herbergið hennar fyrir nýja rúmið. Og mammsan lætur auðvitað til leiðast og er bara búin og herbergið voða sætt með hálfum vegg túrkisbláum. Daman yfir sig hamingjusöm með nýmálað herbergið. Rakel ömmustelpa verður hjá pabba sínum alla næstu viku. Er þegar farin að sakna þeirrar stuttu sem er algjör gullmoli og eftirlæti ömmunnar.
Hrund komin með kærustu og er held ég bara ástfangin og það er bara af hinu góða. Vona að pabbi hennar fari að gera eitthvað í íbúðamálum fyrir hana. Löngu kominn tími til að hún flytji að heiman og sjái um sig sjálf. Hún má alveg skilja Rakel Silju eftir hjá ömmu.
Mikil eggjaleit fór fram hér í dag í tilefni dagsins og eins og alltaf fann Petra flest þeirra. Og á heimilinu er allt of mikið af súkkulaði og nammi en það stoppar trúlega stutt þar sem hér eru miklir afreksmenn í súkkulaðiáti.
Er að vona að það sé opið í Sorpu á morgun. Þarf að losa mig við helling af drasli. Húsið er hætt að rúma allt þetta dótarí sem maður safnar að sér í gegnum árin.
Og það virðist vera að ganga að ríka og fræga fólkið skilji. Mikið er ég fegin að vera hvorki rík né fræg...

föstudagur, mars 18, 2005

Stundum velti ég því fyrir mér hvers vegna konur fara í kór. Hvort þessar konur eru einhverjar sérstakar týpur og hvað eiginlega veldur því að þær velja það að fara í kór. Og ekki bara að velja sér það heldur eru í sama kórnum í heil tíu ár samfleytt. Er það sönggræðgin sem rekur þær áfram. Það getur ekki verið ástæðan í upphafi. Ég t.d. ákvað að sigla með henni frænku minni inn í Léttsveitina. Taldi eiginlega að stýrði góðri lukku að fara með henni því við komumst einmitt inn í Öldutúnsskólakórinn þegar við vorum raddprófaðar saman. Og þannig fór líka með Léttsveitina. Með frænkuna mér við hlið voru mér allir vegir færir og við fengum báðar inngöngu í þennan kór sem var verið að stofna út úr Kvennakórnum. Ég var nú ekkert alveg með það á hreinu að ég gæti sungið. Hafði reyndar sungið í fyrrnefndum öldutúnsskólakór og barnakirkjukór. Fannst ég nú aldrei neitt spes í skólakórnum, söng alltaf millirödd og gat engan veginn náð þessu háa séi sem var talið afskaplega eftirsóknarvert. Í kirkjukórnum aftur á móti skipti nú ekki svo miklu máli hvort maður gat sungið. Minnist helst þaðan að hafa lært vel og vandlega ó þá náð að eiga Jesú og aðalkeppikeflið var að syngja hærra en Magga Pálma svo Leibbi heyrði vel í mér, en við vorum víst báðar eitthvað skotnar í honum. Og eftir þessa kóra ber hæst að hafa yfirgnæft 30 stelpur í rútu í einhverju keðjuskátalagi...En við reisum tjöld...þegar kemur kvöld..inn í fögrum dal..inn í fjallasal..og svo videre.
En að ég gæti sungið í almennilegum kvennakór var eiginlega fjarlægur draumur. Ekki les ég nótur og eftir fyrstu æfingu með Léttsveitinni var ég nú svoldið á báðum áttum hvort ég gæti þetta. Hafði ábyggilega mikla tendensa til að vaða beint í laglínuna áttund undir því enn á ég í erfiðleikum með háa séið. Hef reyndar meiri löngun í dag að komast niður á djúpa déið sem er víst ekki á færi margra kvenna. Veit reyndar ekki enn hvernig sjá tónn hljómar en það er aldrei að vita nema hún Alla okkar útsetji einhvern tímann fyrir okkur aðra altana, svona einhvers staðar á mörkum hins ógerlega.
En svo ég haldi áfram að spá í af hverju konur fara í kór og endast endalaust í því að syngja á hverjum þriðjudegi allan veturinn út þá eiginlega kemst ég ekki að neinni niðurstöðu. Í Léttsveitinni er allskonar konur, reyndar að meirihluta til leikskólakennarar og hjúkkur, en inn á milli slæðast konur úr öðrum stéttum og allar erum við haldnar einhverri óskiljanlegri löngun til að syngja. Og ekki bara til að syngja heldur líka til að spjalla og bara hittast og vera saman. Óskiljanleg blanda af dásamlegum konum af öllum stærðum og gerðum. Og ég er bara alls ekki sammála því að konur séu konum verstar (trúlega komið úr Njálu). Það er nefnilega nokkuð ljóst að Léttsveitin léttir lífið og gerir það algjörlega ógeðslega krúttlega skemmtlegt...

mánudagur, mars 14, 2005

Heljarinnar helgi að baki. Fermingarjakkinn kominn í hús og eitthvað af borðskrauti. Rúskan algjörlega með það á hreinu að þetta á að vera frábær veisla og engu til sparað. Vona að mamma fari að skella sér í að sauma kjólinn. Lonni ætlar að farða dömuna og Spessi að taka af henni myndir. Svo nú er bara að bíða eftir að upp renni þessi aðaldagur ársins. Fermingarkortin komin til viðtakenda. Í dag áttum við hjónin reyndar að mæta með stúlkunni í messu og einhvern fund á eftir en eftir að hafa drukkið allt of mikið rauðvín hjá Gunnsunni og hennar spúsa var ég ekki alveg í messuformi. Svo það var bara óskírður og ófermdur pabbinn sem mætti. Og nú er farið að hafa tvær prufur fyrir ferminguna. Þetta er bara að verða eins og brúðkaup. Margar æfingar fyrir athöfnina. Ekki minnist ég þess úr mínu ungdæmi að hafa þurft að fara í gegnum margar æfingar áður en ég náði því að fermast. Mér er reyndar í ferskustu minni hversu mér fannst oblátan og vínið vont í munni. Hljóp heim að lokinni altarisgöngu sem var nú reyndar tveimur dögum eftir fermingu. Hét því þá að láta aldrei vín inn fyrir mínar varir en einu sinni smakkað þú getur ekki hætt. Segi nú bara svona.
Gríðarlega skemmtilegur og langur laugardagur með Léttum hjá læknum. Voða skemmtilegt að syngja aftur mörg af þessum lögum þó sum þeirra séu nú ekki alveg algjört uppáhald þá svona í gengum það heila bara ferlega næs allt saman.
Og svo bauð Gunnsan okkur í rauðvín og osta um kvöldið og spilaður kani út í eitt. Var með yfirhöndina allan tímann þar til Gunnsan stóð kana og hún flaug yfir mig. Hafði verði neðst fram að því. Skemmtilegt kvöld.
Og á morgun ætla ég að hitta Helgu í hádeginu og við reynum að finna einhverja góða afmælisgjöf handa Mörtu sem verður fimmtug næsta laugardag. Skrítið hvað allir eru að verða gamlir.
Svo nú er mál að linni að sinni svo ég vakni einhvern tímann fyrir hádegið...

miðvikudagur, mars 09, 2005

Ég er búin að mála arininn. Og þvílíkur munur. Hefði átt að gera þetta fyrir löngu síðan og ekki átt að hlusta á mótbárur eiginmannsins. Held ég láti þetta duga fyrir fermingu og mála svo hurðirnar í betra tómi. En ég mæli ekki með því að ráðast í svona málningarvinnu. Hélt í gærkvöldi að ég mundi sálast þegar ég var að mála undir arninum. Jís hvað það var erfitt og axlirnar á mér voru ekki alveg að þola þetta en sem sagt búin.
Ekkert hefur enn heyrst í bændum og á ég ekki von á því að heyra frá þeim ever. Finnst svona framkoma algjörlega út í hött en hvað getur maður gert. Hef unnið hjá þeim sem verktaki í 6 ár og maður fær ekki einu sinni eitt símtal og skíttu á þig. Þetta þættu ekki góðir mannasiðir á mínum bæ.
Hef reyndar nóg að gera framundan í vefsíðumálum og öðru. Þarf að fara að drífa mig í að starta heimasíðu fyrir Joco og koma Jónu á meiri rekspöl.
Þarf að druslast með Rúskunni og finna á hana jakka. Mamma að skríða saman eftir heiftarlegt kvef og hún fer að byrja á kjólnum.
Annars ekkert að plaga mig...

mánudagur, mars 07, 2005

Herbergið hjá Katrínu loksins orðið eins og það á að vera án þess að búið sé að mála. Keypt ljóst í öll barnaherbergin og nýtt ljós í holið og John búin að skutla þessu öllu saman upp. Kláraði svo líka boðskortin fyrir fermingu Petru og þau eru tilbúin í póst. Vel af sér vikið að vera búin að því. Og Youncinn minn grillaði í fyrsta skipti á þessu ári, lærissneiðar og tómata og ég borðaði yfir mig. Ef svo heldur horfið verð ég búin að fá leið á grillmat í apríl. Sé loksins til botns í óhreinatauskörfunni en sú á baðinu orðin full aftur svo ég var ekki lengi í þeirri paradís. Annars ekkert merkilegt að gerast í mínu lífi frekar en fyrri daginn og ég er nokkuð viss um að Einar Kárason mun aldrei skrifa bók um mig. Ég er ein af þessum gráu hversdagsmanneskjum sem er eins og allur hinn gráskalinn. Fell vel inn í gráu veggina hér. Ætla samt á morgun að drífa mig í að mála arininn allavega er það á planinu. Og bókin um mig verður: Og mánudaginn þann málaði hún arininn en gerði ekkert annað af viti þann daginn. Næsta dag málaði hún barnaherbergið o.s.frv. Boring!!!
Ætlaði að kíkja í morgunkaffi hjá Gunnhildi Olgu en vaknaði nánast of seint þar sem ég fór óheyrilega seint að sofa. Límdist yfir einhverri væminni mynd á Hallmark og hún var ekki nægilega leiðinleg til að ég sofnaði yfir henni.
Litla ömmustúlkan mín komin með kvef. Hún er algjörlega krúttlegust af öllum...
Og á morgun eftir arinmálningu kannski í jakkafrakkaleiðangur með Petruna og hringja í mömmu og sjá hvort hún er eitthvað komin af stað með kjólinn á skvísuna. Pabbinn á heimilinu skilur ekki allt þetta fuss, jaml og fuður út af einni fermingu og Tristan er nokkuð viss um að Jesú sé sögupersóna og hafi aldrei verið til. Segist trúa á Herkúles og er alveg sama þó hann fermist ekki.
Búin að tala við Spessa um að mynda fermingarstúlkuna og þá er þetta allt að smella...

föstudagur, mars 04, 2005

Dagurinn í dag og gær hafa farið í að redda ýmsu fyrir fermingu Petru. Pantaði servíettur með fjólubláum baldursbrám sem ég fann í Blómavali. Bara snilld að finna þær. Og mamma farin að fullt að undirbúa kjólinn, keypti efni í hann í dag og náði í kertið og gestabókina og sálmabókina til nunnanna í Hafnarfirði. Og Rúskan yfir sig hamingjusöm með útkomuna og mammsan líka. Einstaklega smekklegt og fallegt. Og ótrúlegt en satt þá fundum við hvít stígvél við kjólinn nánast eins og stúlkan hafði séð fyrir sér. Fór reyndar með hana til að skoða blágræn rúskinnsstígvél og hún var sátt við þau en þegar ég ætlaði að fara að borga skóna rak ég augun í hvít stígvél svoldið svona í indíánastíl og þau voru akkúrat það sem við vorum að leita að. Hefði nú samt gjarnan viljað kaupa þau bæði en þau hvítu voru keypt og þá er það frá líka. Nú er bara jakkinn eftir og held að hann sé nánast í höfn. Það fer bara að verða spennandi að halda þessa fermingu þegar undirbúningurinn gengur svona vel. Verð svo að leggjast í að gera boðskortin um helgina svo hægt sé að senda þú út eftir helgi. Má ekki seinna vera. Og svo að hringja í Spessa og athuga hvort hann getur tekið myndir af skvísunni. Búið að panta prufugreiðslu og greiðslu á fermingardaginn og Ragnhildur bókuð til landins í matinn.
Og svo fór ég og kíkti á litlu frænku mína í dag sem fékk loksins að koma heim til sín í gær. Aldrei haldið á svona litlu barni á ævinni en hún er algjörlega sætust. Hún hélt vöku fyrir foreldrum sínum fyrstu nóttina heima og þau voru nokkuð viss um að hún væri bara myrkfælin og ekki vön allri þessari þögn, enda búin að vera í þrjár vikur á Lansanum þar sem aldrei eru slökkt ljósin og alltaf einhver umgangur. Gengur vonandi betur í nótt. Stundum tekur smátíma að koma reglu á þessi litlu ljós...

miðvikudagur, mars 02, 2005

Ég er ekki alveg að meika fólk í kringum um mig akkúrat núna. Einhver pirringur í gangi í mínum haus og það verður bara að hafa það. Dóttirin úti með litluna langt fram á nótt og ég er ekki alveg að fíla það. Stundum ætti hún nú að líta í eigin barm þegar hún er að skammast yfir því hvernig yngri systkini hennar eru, ganga aldrei frá eftir sig eða laga til í herbergjunum sínum. Hún er nú sjálf orðin 25 ára og orðin mamma sjálf og ég hef nú ekki oltið um myndarskapinn í henni í gegnum árin. Tók aldrei til sjálf og gerir ekki enn nema henni sé vinsamlega bent á að það sé kominn tími til að moka út. Ég setti henni fyrir það verkefni að taka úr og setja í uppþvottavélina. Það gerðist heila tvo daga í streit en nú er þetta bara gert svona með höppum og glöppum og yfirleitt sé ég um það eins og annað á þessu heimili. Ef ég geri það ekki er það ekki gert. Ekki coool...
Leitaði enn um allan bæ af kjólgopa á fermingarstelpuna en ekkert kom út úr því svo nú er orðið nokkuð ljóst að amman verður að setjast við sauma og reyna að skapa kjólinn sem býr í höfðinu á Rúskunni. Sá reyndar mjög fallegt efni í Virku svo það er kannski frá en ekkert finnst sniðið sem hægt er að styðjast við. Lumar einhver þarna úti á sniði á kjól sem nánast eins og hlýrabolur að ofan með pýfum að neðan og svo einhverju sveipað um miðjuna og sett inn í hring sem heldur því saman. Kannski ekki góð lýsing en svona á kjólinn samt að vera.
Fínar kóræfingar í kvöld og gaman að læra ný lög og rifja upp önnur gömul, reyndar misskemmtileg. Hef aldrei fengið mikið út úr því að syngja guantanamera en það er lítið fyrir því haft so....
Og nú ætla ég að hafa vit á því að fara að sofa fyrir fimm...sofa úr mér pirringinn og gera eitthvað af viti á morgun...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter