<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Er algjörlega endurnærð á sál og líkama eftir dásamlega skemmtilegar kóræfingar í dag. Hef eiginlega ekkert annað um málið að segja...

mánudagur, apríl 25, 2005

Letin er mig lifandi að drepa þessa dagana. Kem mér ekki í að gera þau verkefni sem liggja fyrir. Og svo er ég einhvern veginn ekki þurfandi fyrir fólk þessa dagana. Er reyndar að þrífa baðherbergið í augnablikinu, komin með tannburstann á loft í kringum klósettið. Var að horfa á Allt í drasli í gærkveldi og hugsaði mér til skelfingar að ég hreinsa sjaldan eða aldrei upp úr niðurföllum með heklunál og geng ekki frá þvotti jafnóðum þó ég druslist nú yfirleitt til að brjóta hann saman en balarnir fyllast af hreinum þvotti sem þarf að ganga frá. Samt ekkert allt í drasli eða þannig. En stofan er yfirleitt yfirfull af einhverjum óþarfa, sérstaklega úlpum og dótaríi frá krökkunum sem ég nenni ekki að ganga frá jafnóðum. Börnin mín ganga aldrei frá eftir sig og upp hleðst stundum sunddót eða leikfimisdót í plastpokum út um alla íbúð. Skipulag kaos hér sem sagt dag eftir dag.
Myndataka léttana tókst örugglega vel í gær og við rétt sluppum fyrir horn með rigningu. En algjörlega dæmalaust að brotist hafi verið inn í tvo bíla á meðan á myndatökunni stóð. Maður einhvern veginn býst ekki við svona löguðu um hábjartan dag í alfaraleið.
Og Anna orðin amma. Það hellist yfir okkur kerlingarnar á besta aldri að verða ömmur og það er dásamlegt...

föstudagur, apríl 22, 2005

Nú er sumar, gleðist gumar og auðvitað við stelpurnar líka. Er ekki alveg að fatta þetta röfl í moggamönnum með að ekki hafi frosið saman sumar og vetur. Held að það sé sumarið sem á að frjósa fast við veturinn en ekki veturinn við sumarið. Kannski er ég bara ekki alveg með á nótum í þessum efnum. En var ekki einhver dagur sem átti að eiga sér einhvern fjölda af bræðrum. Veit einhver hvaða dagur það er.
Annars er nú bara nokkuð létt yfir minni þessa dagana enda algjörlega dásamlega skemmtilegar léttsveitaræfingar þessa vikuna. Kom endurnærð á sálinni heim af kóræfingum þriðjudagsins og svo sungum við líka saman í dag sem er sannarlega góð byrjun á sumrinu. Og búið að ákveða að fara í dagsferð á Stokkseyrarbakka í maí sem er alveg brilljant skemmtilegt. Vona svo sannarlega að ég verði farin að geta borðað þ.e. tuggið matinn minn þá. Mér er ennþá algjörlega ómögulegt að bíta í nokkurn hlut og verð því bara að láta mér nægja að borða það sem mjúkt er undir tönn og ekki þarf að tyggja. En þetta er algjörlega ótrúlega óþægilegt að vera með allt þetta drasl upp í sér.
Krakkarnir hoppa enn út í eitt á trampólíninu. Mest hrædd um að þau slasi sig á öllum þessum heljarstökkum og flikflökkum. Sagði þeim að nú væri komið að mér að hoppa og ég veit ekki hvert sonur minn ætlaði. Hann er afskaplega trúgjarn og trúði því alveg að móðir hans væri nú fyrst að verða verulega skrítin. Hann sannfærði mig um að það borgaði sig ekki fyrir mig að fara út og hoppa og skoppa þar sem trampólínið væri blautt. Ég samþykkti það að reyna síðar.
Annars ekkert að gerast í mínu lífi í augnablikinu sem er frásagnarvert...ekki að það hafi stoppað mig hingað til...

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Það er nýtt æði í gangi hér á Íslandi í dag. Og nú er það ekki fullorðna fólkið sem sankar að sér fótanuddtækjum, sódastrími eða ljósálfum. Ó, nei nú hefur æðið gripið ungdóminn og það verða að vera trampólín í öllum görðum. Sonur minn tók alla síðustu viku með trompi...þ.e.a.s. umræðum um mikilvægi þess að eiga trampólín. Hringdi í okkur mörgum sinnum á dag og eina sem hann sagði var "trampólín" og við matarborðið var það eina umræðuefnið hvernig hægt væri að eignast trampólín án þess að leggja út fyrir því sjálfur. Lendingin var að þetta væri tilvalin sumargjöf fyrir fjölskylduna þ.e. yngri meðlimina. En þá kom babb í bátinn, Rúskan vildi ekki trampólín svo pabbinn hætti við að kaupa það þann daginn. Um kvöldin komst svo Rúskan á trampólín hjá vinkonu sinni og þá var ekki aftur snúið. Og þegar meyjan sjálf fær eitthvað á heilann fer það ekkert þaðan. Svo pabbinn lét til leiðast og ætlaði að versla tramplínið en þá voru þau uppseld. Og nú voru góð ráð dýr. Engin trampólín væntanleg á næstunni í nokkra búð svo mammsan var búin að fá móðurbróðinn til að kaupa 70 kg trampólín í henni Ameríku þar sem allt fæst. Reyndar var hann nú ekkert yfir sig hrifinn að þurfa að burðast með þetta á milli landa en hvað gerir skyldfólkið ekki þegar krísan ríkir á heimilinu. Svo fékk pabbinn þær fréttir að verið væri að opna Europris í skeiðarvogi á sunnudaginn eftir breytingar og þar var veik von um að þar leyndust nokkur stykki. Og pabbinn af stað um leið og opnað var og til allrar guðslukku fyrir frændann fengust ein fimm stykki svo pabbinn rogaðist með þetta heim, setti upp í garðinum og síðan hafa ormarnir fengið sína útrás á trampólíninu. Þar er hoppað daginn út og inn í öllum veðrum. Eini gallinn er sá að hverfið kemst ekki allt á trampólínið í einu...einungis 100 kg leyfð til hoppunar í einu...og það getur verið svoldið erfitt að takmarka sig við það þar sem þjóðin er öll að verða svoldið þung...en aldrei að vita nema nokkur kíló fjúki við allt þetta hopp...allavega var þetta notað í þættinum You are what you eat fyrir eina svoldið þykka sem þurfti aðeins að hreyfa sig...svo næst á dagskrá hlýtur að vera að pabbinn og mamman hoppi hæð sína hér í garðinum...af einskærri gleði yfir því að vera algörlega inn með risastórt trampólín í garðinum...
Ég er fangi eigin tanna og get ekkert borðað nema búst. Get ekki bitið í neitt og ekki tuggið neitt. Munnsinn er sem sagt fullur af plastpúðum og víraflækjum sem eru mig lifandi að drepa. Og fyrir þetta borga ég fullt af peningum. Það er ekki eitthvað alveg í lagi með mig að fara út í tannréttingar á þessum aldri. Þetta er náttúrlega bara bilun. Langar mest að hringja í neyðarnúmer tannsans og biðja hann að taka þetta hið snarasta úr mér. Bara svo ég geti bitið í brauðsneið eins og venjulegt fólk. Og mér er hugsað til allra þessara veslings krakka sem þurfa að hafa þennan fjanda upp í sér. Það sem á þessi grey er lagt. Minn sársaukastuðull er orðin ótrúlega hár, hækkar algjörlega í samræmi við aldur og fyrri störf. Reyndar er nokkuð ljóst að minn stuðull hefur trúlega alltaf verið nokkuð hár. Hef t.d. aldrei getað litið á það að fæða barn sem sársauka. Ákveðin óþægindi en heldur ekki neitt meira en það, alls ekki vont og alls ekki sárt bara svoldið óþægilegt að ráða ekki alveg við kringumstæðurnar. Reyndar var asskoti vont að láta tattóvera sporðdrekann á ökklann á mér en það stóð yfir frekar stutt. En nú er ég með munninn fullan af óþægindum og mig langar mest af öllu til að öskra. Og til að bæta gráu ofan á svart er ég sígarettulaus og verð að drusla mér í select eftir þeim þó liðið sé á nóttina. Og það væri nú svo sem í lagi ef ég gæti fengið mér t.d. eina með öllu en því er nú aldeilis ekki að skipta. Þó ég ætti að vinna mér það til lífs að bíta í eina slíka gæti ég það ekki. En nóg um nöldur og jag. Ég kom mér víst í þetta sjálf og get engum kennt um nema sjálfri mér og tannsanum mínum nema vera skyldi tengdamömmu sem kom þessu öllu af stað með tanngjöfinni...

mánudagur, apríl 18, 2005

Síðasti dagur án spanga. Er búin að vera með fjórar teygjur í munnsanum í viku og á morgun verður hann fullur af víradrasli. Fyrstu dagarnir með teygjurnar voru nú ekki skemmtilegir, langaði mest að stanga þetta bölvaða drasl úr tönnunum en það var ekki í boði. Ef eitthvað er eru spangirnar verri og trúlega verður barnatönnin mín sem enst hefur mér í fimmtíu ár dregin úr mér. Segi nú samt ekki að ég eigi eftir að sakna hennar. Hún er búin að pirra mig óumræðilega síðan tengdamamma ákvað að gefa mér tönn í afmælisgjöf. Og þess eina tönn hefur sannarlega hrint af stað undarlegri atburðarás sem nær sem sagt hámarki um hádegisbil á morgun. Úbbs...geri mér ekki alveg grein fyrir hvernig þetta verður, en tannsinn minn líkti því að fá spangir við að máta of þrönga skó og vilja fyrir hvern mun komast úr þeim en þeir sitja fastir á fætinum. En allavega veit ég það núna að það er "guðsgjöf" að vera með svona þykkar og fínar varir. Það er víst ekki öllum gefið...hummm....
En þarf að redda miðunum fyrir léttur á morgun eftir tannviðgerðir, held ég reyni nú samt að kaupa pappírinn áður en ég opna munninn á morgun...

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Jæja, þá er fermingin yfirstaðin. Heppnaðist algjörlega frábærlega í alla staði. Maturinn hjá Ragnhildi algjör snilld og allir afslappaðir og skemmtilegir í veislunni. Ég tel það góðan mælikvarða á vel heppnaða veislu þegar spúsinn nefndir það að þetta hafi bara verið hin skemmtilegasta veisla. Rúskan alsæl með allar gjafirnar enda getur hún ekki annað. Nokkuð ljóst að Ragnhildur verður pöntuð hér til landsins eftir tvö ár og svo aftur eftir fjögur. Heimilið að færast í fyrra horft eftir að hafa verið umturnað fyrir veisluna miklu.
Svo nú tekur hversdagurinn við í öllu sínu veldi. Uppfærði vef goddamanna í gær og svo þarf ég að fara að snúa mér að haukablaðinu, léttsveitarsöngskrá með Stínu, vefjum fyrir joco og jafnvægi og að gera boðskort fyrir fermingu Sigrúnar hennar Sollu. Sem sagt nóg í farvatninu á næstunni.
Ætlað að skottast eitthvað með Rönkunni í dag og skila restinni af veisluáhöldum til Rutar.
Fyrsta skref tannréttingaferlisins hafið. Er með fjórar teygjur á milli jaxla og þeir eru mig lifandi að drepa. Og svo fæ ég spangirnar næsta mánudag. Haldiði að það verði munur að vera eins og fjórtán ára unglingur með spangir komin á sextugsaldurinn...

föstudagur, apríl 08, 2005

Fermingarundirbúningur í algleymingi, kransatertunni rúllað upp í gær og bara sæmilega glæsileg. Og eins og sést er ég komin á fætur töluvert fyrir hádegi og framundan mikil tiltekt og ryksugun og skúrun og allt sem því fylgir. Og á morgun verður svo steikt og soðið út í eitt, borðið skreytt og farið yfir hvað vantar og hvað ekki. Þarf sem sagt núna að koma mér í tiltektargírinnn sem er ansi stirður og erfiður en hefst nú yfirleitt að lokum.
Hef ekki mætt á kóræfingar þessa vikuna og mér finnst heil eilífð síðan ég söng með systrum og léttum en það stendur til bóta í næstu viku þegar ferming Rúskunnar er yfirstaðin.
Reyndar eru hálfgerð vandræði hér í gangi þar sem við foreldrarnir erum ekki sammála um hvað gefa eigi barninu í fermingargjöf. Fartölva hefur aldrei verið inn í myndinni og ég vil gefa henni sjónvarp en pabbinn ekki alveg að falla fyrir því. Segir börnin öll komin með kassalaga augu af tölvu- og sjónvarpshangsi. Er einhvern þarna úti með hugmyndir að skynsamlegri fermingargjöf handa stelpurófunni???

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Vaknaði upp í gærmorgun með kvef og þegar líða tók á daginn fékk ég í magann. Því fylgdi alls ekki neitt bara verkur í mallanum sem hvarf nokkurn veginn eftir nokkur camparíglös hjá tengdó og Rut. Og núna hnerra ég út í eitt og vildi gjarnan liggja í mínu rúmi og ná úr mér pestinni en það er bara ekki á dagskránni. Fór með Ragnhildi í verslunarleiðangur í gær fyrir ferminguna og í dag höfum við hrist fram úr erminni appelsínu- og sítrónuís og reiðinnar býsn af rauðkáli. Á morgun leggst Ranka í bakstur á kransakökunni á meðan ég skrepp til tannsa og með alla barnahrúguna mína í Kringluna að versla. Rúskuna vantar hversdagsskó í staðinn fyrir þá sem stolið var af henni í gær, Trínan þarf spariskó og topp við pilsið sitt, Snúllinn spariskó og Dundý þarf hreinlega að dressa sig upp, hefur ekki keypt sér spariföt í mörg herrans ár og það þýðir ekkert að vera eins og drusla í fermingu systur sinnar. Barnabarnið verður hjá pabba sínum á meðan á allri þessari verslun stendur.
Föstudagurinn fer í tiltekt og uppstokkun á heimilinu og í að endasendast út um allan bæ að redda borðum og diskum og hnífapörum og glösum fyrir veisluna miklu...

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Er aðeins að skríða saman og losna við einmanaleikann sem helltist yfir mig eftir árshátíð Léttanna. Er aftur á móti ógislega spæld yfir því að fá ekki vinnuna sem ég sótti um hjá Ikea á dögunum. Skrattans ári fúl yfir því. En kannski kemur eitthvað meira spennandi á borðið síðar, þó akkúrat núna efist ég um það. Verð að fara að drífa mig úr húsi að vesla fyrir ferminguna. Bölvað vesen þegar bíllinn minn fíni tekur upp á því að bila og greyið kemst ekki á verkstæði fyrr en á föstdag. Þurftum að draga hann í gær þar sem hann stoppaði endanlega þegar spúsinn var á leið heim úr vinnunni. Drógum hann að verkstæðinu og ég þarf að koma þar við og beita töfrum mínum til að reyna að koma honum inn fyrir verkstæðisdyrnar aðeins fyrr.
En þegar svona bilanir bera að er gott að eiga góða að sem eiga aukabíla sem þeir geta misst í nokkra daga. Jánsinn nú á gamla kagganum frá systur sem bróðir á núna. Svo ég losna við að keyra hann í vinnu og ná svo í hann að vinnudegi loknum.
En núna, akkúrat núna, yfir og út...beint í bónus og nóatún að vesla....

mánudagur, apríl 04, 2005

Það er svo skrítið af eftir jafnfrábæra skemmtun og í gærkvöldi á árshátíð Léttanna er ég einhvern veginn svo tóm að innan. Vakna alltaf eftir svona skrall eins og eftir fyrstu nótt í útlöndum, með heimþrá. Langar bara til að kúra í rúminu mínu og hafa hávaðann af heimilisfólkinu í kringum mig. Langar ekki til að hitta nokkurn mann í marga daga á eftir.
En árshátíðin var algjörlega æðislega skemmtileg, ræðumenn kvöldsins frábærir, nýr söngur Létta hreint yndislegur, annállinn fínn og brotið úr kvikmyndinni líka þó ég voni svo sannarlega að þessi kvikmynd verði ekki bara Hanna og Stína út í eitt. Við erum jú 110 í þessum kór og allar frábærar.
Gaman að hitta vandamenn í dag í fermingu Helgu Rúnar og svo hittir maður aftur sína vini og vandamenn næsta sunnudag í fermingu Rúskunnar. Planað ættarmót systkinabarna og systkinabarnabarna í maí og svo kannski allsherjar famílygaðering hér í júlí í tilefni af aldarafmæli ömmu.
En framundan er ströng vika í fermingarundirbúningi og matseld og tiltekt og heimilisraski og vonandi tekst þetta allt saman frábærlega en það kemur í ljós í vikulok hversu skipulögð ég er...

laugardagur, apríl 02, 2005

Skemmtilegt afmælið hennar Jónu í gær og svo er það árshátíð aldarinnar í kvöld. Þarf að straua svoldið fyrir kvöldið en nenni því ekki. Greiðsla kl. tvö og svo að skella upp nokkrum plakötum og naglalakka tásurnar og kannski líka naglaörðurnar á puttunum. Hef verið allt of dugleg við að naga þær undanfarið. Búin að stytta hlírana á glamorkjólnum mínum og er búin að æfa mig í að sitja í honum líka. Skil ekki alveg hvað veðurguðirnir eru að pæla með þessu veðri. Vita þeir ekki að í kvöld verða margar konur berfættar í skónum, berar niður á bak og bringu í sínu fínasta pússi. Eigum við að krókna eða hvað. En það er mikið lagt á sig til að vera fínn og sætur enda stendur mikið til. Jíss...hvað ég hlakka til...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter