þriðjudagur, apríl 19, 2005
Það er nýtt æði í gangi hér á Íslandi í dag. Og nú er það ekki fullorðna fólkið sem sankar að sér fótanuddtækjum, sódastrími eða ljósálfum. Ó, nei nú hefur æðið gripið ungdóminn og það verða að vera trampólín í öllum görðum. Sonur minn tók alla síðustu viku með trompi...þ.e.a.s. umræðum um mikilvægi þess að eiga trampólín. Hringdi í okkur mörgum sinnum á dag og eina sem hann sagði var "trampólín" og við matarborðið var það eina umræðuefnið hvernig hægt væri að eignast trampólín án þess að leggja út fyrir því sjálfur. Lendingin var að þetta væri tilvalin sumargjöf fyrir fjölskylduna þ.e. yngri meðlimina. En þá kom babb í bátinn, Rúskan vildi ekki trampólín svo pabbinn hætti við að kaupa það þann daginn. Um kvöldin komst svo Rúskan á trampólín hjá vinkonu sinni og þá var ekki aftur snúið. Og þegar meyjan sjálf fær eitthvað á heilann fer það ekkert þaðan. Svo pabbinn lét til leiðast og ætlaði að versla tramplínið en þá voru þau uppseld. Og nú voru góð ráð dýr. Engin trampólín væntanleg á næstunni í nokkra búð svo mammsan var búin að fá móðurbróðinn til að kaupa 70 kg trampólín í henni Ameríku þar sem allt fæst. Reyndar var hann nú ekkert yfir sig hrifinn að þurfa að burðast með þetta á milli landa en hvað gerir skyldfólkið ekki þegar krísan ríkir á heimilinu. Svo fékk pabbinn þær fréttir að verið væri að opna Europris í skeiðarvogi á sunnudaginn eftir breytingar og þar var veik von um að þar leyndust nokkur stykki. Og pabbinn af stað um leið og opnað var og til allrar guðslukku fyrir frændann fengust ein fimm stykki svo pabbinn rogaðist með þetta heim, setti upp í garðinum og síðan hafa ormarnir fengið sína útrás á trampólíninu. Þar er hoppað daginn út og inn í öllum veðrum. Eini gallinn er sá að hverfið kemst ekki allt á trampólínið í einu...einungis 100 kg leyfð til hoppunar í einu...og það getur verið svoldið erfitt að takmarka sig við það þar sem þjóðin er öll að verða svoldið þung...en aldrei að vita nema nokkur kíló fjúki við allt þetta hopp...allavega var þetta notað í þættinum You are what you eat fyrir eina svoldið þykka sem þurfti aðeins að hreyfa sig...svo næst á dagskrá hlýtur að vera að pabbinn og mamman hoppi hæð sína hér í garðinum...af einskærri gleði yfir því að vera algörlega inn með risastórt trampólín í garðinum...
Comments:
Skrifa ummæli