þriðjudagur, apríl 19, 2005
Ég er fangi eigin tanna og get ekkert borðað nema búst. Get ekki bitið í neitt og ekki tuggið neitt. Munnsinn er sem sagt fullur af plastpúðum og víraflækjum sem eru mig lifandi að drepa. Og fyrir þetta borga ég fullt af peningum. Það er ekki eitthvað alveg í lagi með mig að fara út í tannréttingar á þessum aldri. Þetta er náttúrlega bara bilun. Langar mest að hringja í neyðarnúmer tannsans og biðja hann að taka þetta hið snarasta úr mér. Bara svo ég geti bitið í brauðsneið eins og venjulegt fólk. Og mér er hugsað til allra þessara veslings krakka sem þurfa að hafa þennan fjanda upp í sér. Það sem á þessi grey er lagt. Minn sársaukastuðull er orðin ótrúlega hár, hækkar algjörlega í samræmi við aldur og fyrri störf. Reyndar er nokkuð ljóst að minn stuðull hefur trúlega alltaf verið nokkuð hár. Hef t.d. aldrei getað litið á það að fæða barn sem sársauka. Ákveðin óþægindi en heldur ekki neitt meira en það, alls ekki vont og alls ekki sárt bara svoldið óþægilegt að ráða ekki alveg við kringumstæðurnar. Reyndar var asskoti vont að láta tattóvera sporðdrekann á ökklann á mér en það stóð yfir frekar stutt. En nú er ég með munninn fullan af óþægindum og mig langar mest af öllu til að öskra. Og til að bæta gráu ofan á svart er ég sígarettulaus og verð að drusla mér í select eftir þeim þó liðið sé á nóttina. Og það væri nú svo sem í lagi ef ég gæti fengið mér t.d. eina með öllu en því er nú aldeilis ekki að skipta. Þó ég ætti að vinna mér það til lífs að bíta í eina slíka gæti ég það ekki. En nóg um nöldur og jag. Ég kom mér víst í þetta sjálf og get engum kennt um nema sjálfri mér og tannsanum mínum nema vera skyldi tengdamömmu sem kom þessu öllu af stað með tanngjöfinni...
Comments:
Skrifa ummæli