<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 29, 2005

Við hjónakornin erum í sameiningu búin að setja saman eitt stykki gróðurhús hér í garðinum. Ótrúlega krúttlegt og ég sé alveg fyrir mér þegar ég sit þar inni innan um vínviðinn sem ég var að festa kaup á og alls kyns rósir sem eiga að blómstra jafnfallega og mikið og rósirnar hjá nöfnu minni Sillu Arnórs en hún var með heljarinnar gróðurhús þegar ég var krakki og þar inni var heill ævintýraheimur og allt sumarið voru afskornar rósir í risastóra húsinu hennar. Það var nefnilega svo stórt að Sigrún frænka villtist þar þegar hún þurfti að fara á klósettið og var týnd óralengi eða þar til við Gunna fórum að grennslast fyrir um hvar í veröldinni hún héldi sig allan þennan tíma. Þar voru líka allavega þrír símar sem hægt var að tala í alla í einu og við stunduðum það að hringja í fólk út í bæ og biðja um soninn á heimilinu, sögðum svo: "Ég er miður mín" og aumingja drengurinn þurfti að geta í eyðurnar. Skemmtilegir tímar þessi barnæska.
Fór í dag í smákynningu í nýju vinnuna mína og ætla aftur á morgun. Byrja svo að vinna 8. ágúst og jís...það verða viðbrigði að geta ekki skottast út og suður þegar manni hentar hvenær sem er dags. Ekkert varð því úr útilegu með Gunnsunni en stefnt á næstu helgi ef vel viðrar. Fer aldrei í útilegu um verslunarmannahelgi. Þoli ekki kraðak af ókunnugu fólki í kringum mig. Börnin mín kvarta enn yfir því að hafa ekki farið í léttuútileguna og þá aðallega að hafa ekki komist með Sindra og Sölva í útilegu.
Og tárakirtillinn á hinu auganu á Nikka poppaður út og framundan greinilega önnur 15 þús. kr. aðgerð. Ætla að reyna að fá dýralækninn til að taka þessa tárakirtla í burtu í stað þess að sauma þá aftur. Og hann er svo aumkunarverður greyið svona rauðeygður og þrútinn. Ekki búin að jafna sig á aðgerðinni á hinu auganu sem hann fór í á mánudaginn. Það sem lagt er á þetta litla dýr og hann er að verða svoldið dýr í rekstri þessi garmur. En hann er líka sætasti hvuttinn hér á kársnesinu og þó lengra væri leitað...

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Er búin að vera að passa ömmubarnið mitt undanfarna tvo daga á meðan pabbinn er í vinnunni og mamman í Danmörku. Hún er yndisleg þessi litla snúlla en ég er algjörlega búin eftir daginn. Skil ekki hvernig ég fór að því að vera með þrjú lítil börn, sérstaklega stelpurnar báðar sofandi úti í vagni enda fæddar með 17 mánaða millibili. Skelfing gott að vita að ég er komin úr barneign og fæ bara ömmubörn hér eftir sem hægt er að skila þegar degi lýkur.
Er búin að fjárfesta í fleiri svefnpokum og dýnum og stefnir allt í að við Gunnsan stormum í útilegu á morgun og klárum hana fyrir verslunarmannahelgina. Hef ekki farið í útilegu um þá helgi síðan ég var unglingur á útihátíðum sem urðu nú víst aldrei fleiri en þrjár. Er ekki alveg svona verslunarmannahelgarútihátíðarfrík só...
Og þeir í væntanlegri vinnu minni vilja að ég byrji helst í gær og ég sem ætlaði að passa Rakel þegar Hrund byrjar að vinna. Þarf að tala við þá á morgun og reyna að byrja 8. ágúst en ég hefði helst ekki viljað byrja fyrr en 1. sept. en það er ekki á allt kosið í þessu lífi. Það verður skrítið að vera útivinnandi eftir 13 ára sjálfstæði. Hvenær á ég t.d. að fara í klippingu og svo þarf ég að fara oft og mörgum sinni til tannsa út af spöngunum...en það hlýtur að púslast einhvern veginn. Hlakka til og kvíði fyrr í senn...
Og svo er þetta með cyper elskhugana. Mágkona mín á einn slíkan og segist vera í platónsku, rómantísku samband við mann einhvers staðar og finnst það skrítið að manninum sínum finnist það ekki alveg í lagi...döööö....

laugardagur, júlí 23, 2005

Það er komið sumar...sól í heiði skín...dásamlegt veður og frúin búin að fjárfesta í eðaltjaldi, borði og stólum og tveimur svefnpokum. Er að breytast í útilegufrík eða eitthvað. Ekki að ég hafi farið í útilegu með mitt fína tjald en því hefur verið tjaldað hér í garðinum og krakkarnir sofa þar eina og eina nótt. Og svo má ekki gleyma rauðu gúmmítúttunum sem ég festi kaup á í fyrrum KÁ á Selfossi á leiðinni í gospelútileguna. Og Gunnsan er ekkert skárri en ég, líka búin að kaupa tjald og fleira og ætlar nú að leggjast í útilegur með syninum.
Og svo er annað í farvatninu hjá þeirri gömlu, þ.e. mér því ég er á leiðinni út á vinnumarkaðinn eftir að vera nánast heimavinnandi í 13 ár. Fer á mánudaginn að ræða við væntanlega vinnuveitendur...gaman, gaman...annars ekkert að gerast nema blessuð blíðan...

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Sumarið er tíminn sem maður eyðir EKKI í að blogga. Dreif mig í gospelútilegu um helgina þar sem ég lét mig ekki hafa það að mæta í léttuútileguna helgina á undan sökum anna við að undirbúa ættarmót. Fórum saman þrjár, ég, Gunnsan og Lonni og mættum á svæðið í rigningu og þar voru fyrir tvær systur en önnur þeirra lét sig hverfa af svæðinu síðar um daginn. Svo mætti önnur í viðbót svo samtals vorum við heilar fimm gospelsystur. Grilluðum og sungum og kjöftuðum og um síðir hætti að rigna eins og alltaf í Galtalæk og við áttum bara saman alveg ágætis útilegu.
Og á sunnudaginn tók svo minn kærri hvutti upp á því að láta sig hverfa, fannst svo víst ofar í götunni en hafði í millitíðinni lent hjá hundaeftirlitinu og við máttum gjöra svo vel að leysa hann út fyrir formúu en allir voru glaðir með að fá Nikkann litla heim aftur. Annars ekkert merkilegt að gerast. Kristín mágkona mín á landinu og því mikið um rauðvínsdrykkju og fjölskylduboð og í dag stefna þau á að ganga á Esjuna, en ég læt ekki hafa mig í slíkt...

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Það er víst kominn 12. júlí en á sunnudaginn þann 10. júlí voru liðin 100 ár frá fæðingu ömmu minnar og af því tilefni var blásið hér til veislu til að minnast hennar. Hér mætti meirihluti ættarinnar og áttu skemmtilegan dag. Afkomendur ömmu og afa eru orðnir 56 og enn að bætast í þennan fríða og föngulega hóp. Við systkinabörnin þekkjumst nú ágætlega en okkar börn heldur minna og það er alltaf gott að efla fjölskylduböndin. Amma mín var einmitt sú manneskja sem hélt fjölskyldunni saman og til hennar komu allir. Ég var mikið hjá ömmu og afa þegar ég var krakki og enga hefur mér þótt vænna um en þau nema ef vera skyldi börnin mín. Ég man að ég vorkenndi öðrum krökkum af því þau áttu ekki mína ömmu og minn afa. Þau voru algjörlega einstök, hjartahlý og góð með afbrigðum. Minningin um þau mun lifa í hjarta mínu svo lengi sem ég lifi...

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Er búin að vera á fullu að stússast með brottfluttu stúlkunum mínum, kaupa þvottavél handa þeim og eldhúsgardínur og ýmislegt annað. Rakel Silja eitthvað lasin, með útbrot og verulega pirruð þó hitalaus sé. Fórum með hana á læknavaktina í gærkvöldi til að vera viss um að þetta væri ekki skarlatssótt og trúlega er þetta einhver vírus sem á að ganga yfir á nokkrum dögum. Hún er lystarlaus og hristir bara hausinn við pelanum sínum. Og greinilega höfum við tekið eitthvað af góða veðrinu frá Damörku með okkur því nú er byrjað að rigna þar en sól skín hér í heiði. Ættarmótið að skella á og verð að ganga frá því á morgun að panta grillarana fyrir eldra liðið. Ætlunin að grilla ofan í grislingana því það væri ansi dýrt fyrir þá sem eiga mörg börn eins og ég t.d. að borga fyrir matinn ofan í þau, sem þau borða eiginlega ekki. En allt lítur út fyrir góða þátttöku og svo er bara að vona að ekki rigni mikið þann 10. júlí, þó samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar rigni yfirleitt alltaf um þrjúleytið þennan dag og þetta sé því alslæmur dagur fyrir brúðkaup. En enginn er verri þó hann vökni og er ekki gæfumerki að það rigni á brúðhjón. Allavega segir María það og ég trú henni. Talandi um Maríu, verð að bjalla í hana á morgun og heyra aðeins í henni. Hef ekki lyft símtóli síðan ég kom heim. Gunnsan kíkti í kaffi í kvöld og engin mjólk til í kaffið og við kláruðum síðustu baunirnar í vélinni. Undarlegt að alltaf skuli verða kaffilaust þegar hún rekur inn nefið.
Þreyf kjallarann hátt og lágt og á morgun ræðst ég í restina af húsinu. Tiltekt, tiltekt og meiri tiltekt. Mitt líf í hnotskurn...

sunnudagur, júlí 03, 2005

Komin heim í heiðardalinn í rigninguna, tiltektina og þvottinn sem engan enda tekur. Vika í útilegu léttanna og ættarmótið þann 10. Það verður gaman að hitta slegtið og vonandi hangir hann þurr þennan dag því þó garðurinn rúmi slegtið er ekki víst að húsið geri það nema ef vera skyldi elstu kynslóðina.
Dundý og litla Rakel Silja fluttar að heiman þó þær hafi nú verið hér síðustu tvær nætur. Það verða svoldil viðbrigði að hafa þær alla vega þá stuttu. Hún hristir hausinn þegar maður segir nei, nei, nei og er algjörlega á leiðinni að skríða og standa upp. Dugleg þessi litla sæta ömmustelpa.
En áfram með smjörið og tiltekt. Verð að koma húsinu í samt lagt eftir danmerkurdvöl svo ég geti slappað af fram að næstu helgi...

föstudagur, júlí 01, 2005

Jæja, síðasti dagurinn í danaveldi runninn upp. Höfum þrætt nánast alla skemmtigarða sem til eru hér og Rúskan er algjörlega búin að prófa öll hættulegustu tæki sem þar fyrirfinnast. Gamla settið lét hafa sig í að fara tvisvar sinnum í elsta rússubana í Evrópu á Bakken. Sú eina sem ekki lætur hafa sig í einhverjar hættur er Trínan sem stendur bara og horfir á þegar restin af fjölskyldunni argar úr sér lungun. Komum hingað til Köben á mánudagskvöldið eftir að hafa dvalið í algjörlega eins og blóm í eggi hjá Ragnhildi og Peter. Það er eins og að vera á fimm stjörnu hóteli að dvelja hjá þeim. Róið undir okkur og dekrað við okkur, maturinn í hæsta gæðaflokki og ekki spillti veðrið. Hér hefur ekki komið dropi úr lofti síðan við komum og hitinn milli 25 og 30 stig upp á hvern einasta dag. Við komum með 17. júní veðrið að heiman og vonandi komum við með danska veðrið með okkur heim.
Það verða svoldið viðbrigði að koma heim og litla ömmusnúllan flutt að heiman. Það verður svoldið erfitt fyrir ömmuna að hafa ekki þennan gleðimola í eldhúsdyrunum alltaf. En ég fæ vonandi að passa þetta skott öðru hvoru.
En nú er best að koma sér í að pakka og svo er stefnan tekin á Fields, sem er stærsta moll í skandinavíu og eyða þar deginum og meiri peningum áður en haldið er heim á klakann...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter