miðvikudagur, júlí 06, 2005
Er búin að vera á fullu að stússast með brottfluttu stúlkunum mínum, kaupa þvottavél handa þeim og eldhúsgardínur og ýmislegt annað. Rakel Silja eitthvað lasin, með útbrot og verulega pirruð þó hitalaus sé. Fórum með hana á læknavaktina í gærkvöldi til að vera viss um að þetta væri ekki skarlatssótt og trúlega er þetta einhver vírus sem á að ganga yfir á nokkrum dögum. Hún er lystarlaus og hristir bara hausinn við pelanum sínum. Og greinilega höfum við tekið eitthvað af góða veðrinu frá Damörku með okkur því nú er byrjað að rigna þar en sól skín hér í heiði. Ættarmótið að skella á og verð að ganga frá því á morgun að panta grillarana fyrir eldra liðið. Ætlunin að grilla ofan í grislingana því það væri ansi dýrt fyrir þá sem eiga mörg börn eins og ég t.d. að borga fyrir matinn ofan í þau, sem þau borða eiginlega ekki. En allt lítur út fyrir góða þátttöku og svo er bara að vona að ekki rigni mikið þann 10. júlí, þó samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar rigni yfirleitt alltaf um þrjúleytið þennan dag og þetta sé því alslæmur dagur fyrir brúðkaup. En enginn er verri þó hann vökni og er ekki gæfumerki að það rigni á brúðhjón. Allavega segir María það og ég trú henni. Talandi um Maríu, verð að bjalla í hana á morgun og heyra aðeins í henni. Hef ekki lyft símtóli síðan ég kom heim. Gunnsan kíkti í kaffi í kvöld og engin mjólk til í kaffið og við kláruðum síðustu baunirnar í vélinni. Undarlegt að alltaf skuli verða kaffilaust þegar hún rekur inn nefið.
Þreyf kjallarann hátt og lágt og á morgun ræðst ég í restina af húsinu. Tiltekt, tiltekt og meiri tiltekt. Mitt líf í hnotskurn...
Þreyf kjallarann hátt og lágt og á morgun ræðst ég í restina af húsinu. Tiltekt, tiltekt og meiri tiltekt. Mitt líf í hnotskurn...
Comments:
Skrifa ummæli