<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Eitthvað er tölvan min að stríða mér, netið dettur inn og út og Jánsinn búinn að skanna allt og enginn vírus eða ormur finnst og nú er það eina sem honum dettur í hug er að hreinsa allt út og setja windows inn aftur. Er ekki bara hreinlegra að kaupa handa mér nýja tölvu, ha...
Fór í afmæli Margrétar xfomma og Mr. P í gær á Hótel Borg. Skemmtilegt og ótrúlega mannmargt afmæli og Léttsveitin jók hróður sinn enn og aftur eftir söng í tveimur fimmtugsafmælum.. Drakk of mikið af léttvíni og er nú komin í vínbindindi fyrir utan það að ég ætla að halda áfram að fá mér eitt rauðvínsglas fyrir svefninn. Sef svo asskoti vært af því.
Föstudagurinn var ekki minn dagur, vaknaði 10 mínútum áður en ég átti að vera mætt í vinnu og var varla vöknuð þegar þangað kom. Kom ekki of seint en var ekki alveg í essinu mínu. Dagurinn byrjaði á því ég var sett í það verkefni að skjóta út bæklingum. Hef aldrei gert það í tölvu en hefði farið létt með það að líma þetta upp. Og allur dagurinn fór í þetta og ég var komin með tvo hjálparkokka sem ekki vissu meira en ég. Og dagurinn leið án þess að við næðum réttri niðurstöðu og ég bara er ekki að meika það að geta ekki gert það sem fyrir mig er lagt. Og draumfarir helgarinnar hafa verið meira og minna um þetta. Er reyndar komin á þá skoðun að ég hafi gert þetta rétt strax í upphafi en farið síðan út í það að flækja málið óþarflega mikið og allt fór í vitleysu. Vonandi leysist þetta á morgun.
Er á leið út að borða í kvöld með Maríu og Arne og það verður gott og afslappandi að eiga kvöldstund með þeim. Luv ðem tú písis.
Og lúsin neitar að yfirgefa þetta heimili og hefur ákveðið að halda til endalaust í hári Katrínar. Í mínu hári hefur hún engan áhuga á að vera enda er það uppfullt af allskyns kemískum efnum sem lúsin fúlsar við.
Og í gær lagðist ég í sultugerð, bjó til bæði sólberjasultu og rifsberjahlaup og nú ætla ég að gera pestó úr basilinu sem hefur lifað góðu lífi í eldhúsglugganum í sumar. Og svei mér ef berin eru ekki nánast búin að trjánum. Pabbi hefur fengið það hlutverk ár eftir ár að tína fyrir mig og þó karlanginn eigi orðið erfitt með að standa mikið lætur hann sig hafa það, enda veit hann að hann fær nokkrar krukkur af sultu fyrir viðvikið.
Og það er komið haust held ég. Ótrúlegt hvað sumarið einhvern veginn flaug frá án þess að ég yrði þess var.
Og nú er ég komin með flottast þakið hér á Kársnesinu. Algjör snilld og ég gæti held ég eytt löngum tíma upp á þaki að horfa á herlegheitin. Og næsta verkefni er að ráðast í að mála og parketleggja herbergið niðri og flytja Rúskuna þangað og eftir það koma herbergjunum þremur uppi í tvö og deila Trínunni og Trillanum í þau. En nú er mál að linni að sinni og beint í þvottahúsið í óhreinataushrúguna...

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Var að passa Rakel Silju í gær og var meira að segja með hana í nótt. Svo ekkert varð úr menningarnæturrápi þetta árið. En það gerði ekkert til. Rakelin einstaklega skemmtileg og ég fann þriðju tönnsluna hennar og skulda henni því orðið stórfé í tannfé. Fann líka tönnslu nr. 2. Held svei mér þá að mammsan hennar leiki sér að því að finna ekki í barninu tennurnar og lætur ömmurnar algjörlega um það. Og sú stutta svaf eins og ljós í alla nótt, rumskaði kannski tvisvar sinnum en það er nú bara eðlilegt og gott að halda ömmunni við efnið.
Einhverra hluta vegna næ ég ekki að gera neitt á meðan ég er að passa blessað ömmubarnið. Skil ekki alveg hvernig ég fór að með þrjú smábörn hér í den, nema allt hafi bara verið í skít og drullu á þessum árum. En ég tók á honum stóra mínum og skúraði og ryksugaði og nú er hér allt spik og span, nema ég þarf að ganga frá þvotti en það er nú ekkert stórmál.
Og svo byrjar skólinn hjá krökkunum á morgun og við tekur heimalærdómur og snemma í rúmið og snemma á fætur. Undarlegt hvað sumarið flýgur frá manni og er liðið áður en maður veit af. Þarf að drífa í að dobbla pabba að tína eitthvað af rifsinu og Léttur þið eruð velkomnar í tínslu ef ykkur langar. Bara hafa samband. Af nógu er að taka.
Og elsku Jóhanna, til hamingju með litlu sætu ömmustelpuna og velkomin í hóp okkar amma...

mánudagur, ágúst 15, 2005

Komin á litla sæta nýja bílinn minn og hann er ótrúlega þægilegur í keyrslu, eyðir engu og bara ferlega krúttlegur. Og á laugardaginn fór hele famelien út í Viðey með Samskiptafólki. Gott veður og bara voða skemmtilegt, grillað, spilað kuppaspil og blak og badminton, endaði svo í partýi heima hjá Ragnhildi eitthvað fram á nótt. Skemmtilegt fólk og skemmtilegur vinnustaður.
Fórum svo í gær á Stokkseyri á draugasetrið þar sem stelpurnar skæktu svoldið, borðað á Selfossi og svo í bæinn. Kíktum svo í smárauðvín til Maríu og Arne og spjölluðum um heima og geima. Þau eru líka skemmtilegt fólk.
Og hálft þakið á húsinu orðið tvöfalt og vel einangrað svo nú er bara að bíða eftir tveimur þurrum dögum svo hægt sé að klára herlegheitin. Svo það ætti ekki að leka ofan á hausana á okkur í vetur. Og svo er bara að safna peningum og gera meira og meira og meira við húsið þar til þetta verður algjört draumhús eða þannig. Næst á dagskránni að parketleggja niðri svo Petra geti flutt þangað og parketleggja meira og meira og meira þar til öll herbergi verða parketlögð. Og svo að mála og mála og mála og síðan ekki söguna meir...

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Eitthvað misreiknaði ég mig um nokkra þúsundakalla sem ég hélt að kosnaðurinn við þakið á kotinu myndi hækka um. Hefi frekar átta að reikna með einhverjum hundrað þúsund köllum því áætlaður kostnaður við að einangra þakið almennilega eru 700 þús. Úff og púff, eins gott að mín er komin með vinnu þó það taki mig einhverja mánuði að vinna fyrir þessum þúsundum öllum. En við verðum að gera þetta og bara bíta í það súra eða þá að flytja í gróðurhúsið þegar rignir.
Og forvitnar léttur vilja vita meira um moggamenn. Jú, fékk bréf frá blaðakonu á mogganum, sem er reyndar skólasystir Hrundar, og hún var að safna lasagna uppskriftum úr ýmsum áttum og vildi fá leyfi til að nota mína sem er á heimilisvefnum sem ég gaf henni góðfúslega leyfi til. En nú vill hún fá að taka við mig viðtal, taka myndir af mér að elda þetta fína lasagna í mínu eldhúsi og fá aðeins sögu uppskriftarinnar og ég eiginlega veit ekki hvort ég er tilbúin í slíkt. Svo þetta er sagan af moggamönnum.
Annars allt glimrandi skemmtilegt þessa dagana og gaman að fíla nýja vinnu og alles...

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Þá er ég orðin útivinnandi kona og bara kann vel við það. Lítur allt út fyrir að vera hin skemmtilegasta vinna, hentar mér ágætlega að fara úr einu í annað og samstarfsfólkið mestmegnist ungir og sætir drengir sem er svo sem ekkert verra.
Og bílamálin mín komin á hreint, hætti við að fá mér Subaru Impreza og ætla að vera skynsöm og fá mér minni og sparneytnari bíl og fæ nýjan Toyota Yaris afhentan klukkan níu á föstudagsmorgun. Aljgör konubíll og kemur til með að passa mér vel. Svo er að bara að sjá hvort ég kemst leiðar minnar í vetur ef snjóar.
Og nú eru hér karlar á þakinu og undir bárujárninu kemur enn annað fúskið á þessu húsi, lítil sem engin einangrun í þakinu og trúlega verður að bæta úr því og milljónin hækkar um einhverja þúsundkalla við það. Ótrúlegt hvað karlanginn sem byggði þetta hús hefur verið að spara og það í sínu eigin húsi. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Og öllu reddað eftir einhverjum undarlegum leiðum. T.d. þegar sjónvarpssnúran af þakinu inn í húsið var ónýt var bara múrað yfir gatið og eins er með nokkur stykki lampatengi sem eiga að vera hér í veggjum. Bara múrað yfir þau enda fyrri eigandi hússins múrari.
En nú ætla ég að reyna aðeins og pínulítið að laga til og velta því fyrir mér hvort ég eigi að elda lasagna fyrir moggamenn...

föstudagur, ágúst 05, 2005

Ég og sonurinn alein í kotinu ásamt Nikka og Doppu. Minn ektamaki gekk á fjöll í dag ásamt bróður sínum, syni hans og frænda nánar tiltekið yfir Esjuna og mér skilst að það hafi verið hvasst á fjöllum. Stelpurnar nenntu ekki að ganga en fóru með Halla á Sand og þar átti að snæða kétsúpu og gista svo í nótt. Ég hef einu sinni afrekað þessa fimm tíma göngu yfir Esjuna og hét því eftir þá ferð að ég færi ekki í fleiri fjallgöngu og hef staðið við það án nokkurra erfiðleika. Hef verið að passa barnabarnið þessa viku því nú er mammsan hennar byrjuð að vinna. Og svo byrja ég að vinna á mánudaginn...obbobbobbb...Og ég pantaði mér nýjan bíl í dag en er strax komin með bakþanka yfir því. Veit ekki hvort ég meika það að keyra um á splunkunýjum bíl sem kostar allt of mikið af peningum. Gæti alveg gert eitthvað annað fyrir mismuninn ef ég keypti eldri og ódýrari bíl..hmm...En við ræðum þetta betur hjónin yfir rauðvínsglasi í nýja gróðurhúsinu...þegar hann kemur af fjöllum...

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Það rignir í stofunni hjá mér og drippar ofan á allar uglurnar mínar. Þakkarlinn ætlar að reyna að koma í vikunni og vonandi gengur það eftir. Annars erum við í slæmum málum ef heldur áfram að rigna. Og Nikkin þarf að komast aftur undir læknishendur út af augunum á sér. Blessaður karlinn, óttalega aumkunarverður svona og vonandi kemst hann í aðgerð hið fyrsta. Klipping og strípur á morgun og Rúskan verður að passa Rakelina á meðan. Dundý byrjar að vinna á morgun og amman passar þessa vikuna og svo fer amman að vinna!!
Gróðurhúsið ótrúlega krúttlegt í garðinum og við hjónakornin stefnum á að gefa okkur tíma á hverju kvöldi, sitja úti í gróðurhúsinu og dreypa á rauðvíni við kertaljós. Okkur veitir ekki af örlítilli rómantík í amstri dagsins.
Og í þessari viku á að gera tilraun til að kaupa nýjan bíl svo Dundý geti fengið þann bláa. Málið er bara að minn heittelskaði gefi sér tíma frá vinnu til að leita að nýjum bíl. Og ég sé í botninn á óhreinatauskörfunni. Spurning hvað það stendur lengi...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter