<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 29, 2005

Svo er víst eitthvað annað klukk í gangi...koma með fimm tilgangslaustar staðreyndir um sjálfa sig sem ég tel að enginn viti um. Well, well, vita ekki allir allt um mig...

1. Ég er alveg sæmilega vel gefin, er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því.
2. Ég syng betur í huganum en í raunveruleikanum og mig dreymir um að slá í gegn á því sviði.
3. Ég er hætt í Gospelsystrum, því miður.
4. Ég er þrígift og hef tvisvar sinnum fyrir utan það verið í lengri sambúð en tvö ár. Ég hef farið í gegnum allar merkingar í þjóðskrá nema að vera gift varnarliðsmanni...ógift, gift, ekkja, skilin, í sambúð...geri aðrir betur.
5. Ég er töluvert eldri en ég lít út fyrir að vera.

Þetta var ekki svo erfitt...klukk á alla á blogglistanum mínum.

Nú veit ég sem sagt hvað klukkið er

1. Hvað er klukkan? 20.13

2. Hvaða nafn er á fæðingarvottorðinu þínu ? Sigurlaug Helga

3. Hvað ertu kölluð/kallaður? Silla

4. Hvað voru mörg kerti á síðustu afmæliskökunni þinni? var ekki með afmælisköku

5. Gæludýr? Kötturinn Doppa, hundurinn Nikulás og maðurinn minn

6. Hár? Ljóshærð með strípur

7. Göt? fullt af þeim

8. Fæðingarstaður? Sólvangur í Hafnarfirði

9. Hvar býrðu? Vestur á Kársnesi

10. Uppáhaldsmatur? Kjúlli af öllum gerðum, lambalæri og pasta

11. Einhvern tíma elskað einhvern svo mikið að það fékk þig til að gráta? Ætli það ekki

12. Gulrót eða beikonbitar? beikonbitar

13. Uppáhalds vikudagur? föstudagar

14. Uppáhalds veitingastaður? Það síðast sem ég fór á - Argentína steikhús

15. Uppáhalds blóm? hvítar og rauðar rósir

16. Hvaða íþrótt finnst þér skemmtilegast að horfa á? Geri lítið af því...fólk á skautum og handbolti

17. Uppáhalds drykkur? kók og kaffi

18. Disney eða Warner brothers? Warner bræður

19. Ford eða Chevy? Chevy

20. Uppáhalds skyndibitastaðurinn? eik and teik

21. Hvernig er teppið í svefnherberginu á litinn? Öllum teppum hefur verið hent út

22. Hver var síðastur til að senda þér tölvupóst? Trúlega Beta létta

23. Í hvaða búð mundir þú vilja botna heimildina á kreditkortinu? Hjá Toyota

24. Hvað gerir þú oftast þegar þér leiðist? leggst í sófann og glápi á sjónvarpið

25. Hvaða spurning sem þú færð fer mest í taugarnar á þér? Dónt nó

26. Hvenær ferðu að sofa? Sein og um síðir

27. Hver verður fyrstur til að svara þér þessu? Veit það ekki hef ekki sent þetta nokkrum manni svo trúlega verður fátt um svör

28. Hver af þeim sem þú biður um að svara þessu er líklegastur til að svara ekki? hmm....

29. Uppáhalds sjónvarpsþáttur? Allir kerlingaþættir sem hægt er að grenja yfir

30. Með hverjum fórstu síðast út að borða? Jánsanum, Arne og Mariu

32. Hvað varstu lengi að klára að svara þessu? kl. er 20.20. Reiknaðu það út sjálf

mánudagur, september 26, 2005

Ég er defenetlý ekki súperkona. Kem engan veginn því í verk sem ég þarf að gera. Gengur illa að mála herbergi Rúskunnar og enn verr gengur mér að halda heimilinu hreinu og ekkert gengur að koma þvegnum þvotti í skápa og óhreinum í vélina. Uppvaskið bíður á borðinu og hleypur víst ekkert eins og Jóhanna fullyrðir.
Dásamlega skemmtilegt afmæli fommans í gærkveldi og eins og alltaf eftir dásamlegt kvöld er dagurinn sem á eftir kemur ekkert í líkingu við það. Svaf reyndar megnið af deginum þó ég hafi druslast á fætur löngu fyrir hádegi. Skiptir greinilega engu hvort það er rauðvín eða hvítvín sem ég set í belginn. Ætti eiginlega bara að hætta að láta svona guðaveigar inn fyrir mínar varir.
Og ráðgátan um kúbudansarann leystist í gær...eða það er hver ætlaði líka að fá að dansa við hann þegar Védís vildi ekki meðganga það að hafa verið á staðnum...
Í svefn núna...þarf að keyra Díönu í vinnuna eftir að hún fer með bílinná verkstæði og prenta svo út plakat fyrir Haukana svo þeir geti haldið sína uppskeruhátíð og svona...

miðvikudagur, september 21, 2005

Létt æfing og síðan afmælissýning á 10 ára afmæli Léttsveitar. Ákveðið spennufall eftir að koma þessu upp og bara nokkuð vel heppnuð og sæt sýning hjá okkur stelpunum í minjanefndinni. Alveg hægt að týna sér næstu þriðjudaga í myndaalbúmafletti og upprifjun á yndislegum 10 árum. Og svo á sveitin annað afmæli á fimmtudaginn en þá eigum við 5 ára sjálfstæðisafmæli. Alltaf gaman að eiga afmæli. Og nýjar konur teknar inn í kvöld og bæði Gunnsan og GunnaAx orðnar léttur. Gunna byrjaði reyndar í upphafi en fluttu svo af landi brott. Gaman að fá hana í kórinn og Gunnsan mín komin á réttan stað til frambúðar.
En nú er bara að koma sér í svefn, ekkert meira að plasta eða prenta út eða muna eftir að taka með sér eldsnemma á morgnana. Svo ég segi bara góða nótt með gleði í hjarta yfir því að vera hluti af því dásemdarfyrirbæri sem Léttsveitin er...

laugardagur, september 17, 2005

Þegar ég var algjörlega að gefast upp á að finna myndir af stjórnum Léttsveitarinnar í upprunaformi og ég var um það bil að þurfa að sætta mig við að minn ástkæri eiginmaður hefði þurrkað út hluta úr lífi mínu þegar hann strauaði diskinn á tölvunni ákvað ég að athuga hvort ég kæmist ekki inn á sleðadrifið í tölvunni hjá krökkunum og húrra þar hafði ég komið fyrir hinu ýmsasta bakköppi og þar á meðal minni kæru Léttsveit. Og þar var allavega eitthvað frá árinu 2004 sem ég hélt að væri týnt og tröllum gefið. Það er alltaf gott þegar svona vel hleypur á snærið hjá manni, ég segi nú ekki meira.
Rúskan ætlar að halda upp á afmælið sitt í kvöld með slípóver og veseni og helst vill hún að gamla settið yfirgefi svæðið. Já, lífið er stundum flókið þegar maður er orðinn fjórtán ára. Allt verður að vera pottþétt og meyjusindrómið í algleymingi.
Fór með Gunnsunni og hennar spúsa og mínum líka að sjá Alveg brilljant skilnaður. Hló mig máttlausa og skemmti mér konunglega. Ég segi það enn og aftur verð að fara að drífa mig oftar í leikhús. Annars allt við það sama og dagarnar fljúga hjá og eru liðnir áður ég get snúið mér við...

miðvikudagur, september 14, 2005

Hverjum hefði dottið í hug að ég mynd blogga svona snemma morguns en svona er nú komið fyrir mér eftir að ég varð vinnandi manneskja. Upp fyrir allar aldir, og svei og svei. Dásamlegt að byrja kórstarfið, hitta allar þessar ljúfu og skemmtilegu konur sem í Léttsveitinni eru og spennandi kórastarf framundan og Kúba í vor. Algjört æði, skæði.
Kaffivélin á verkstæði en kemur vonandi heim til sín í kvöld. Slæmt líf án hennar verð ég að segja. Og nú verður minjanefndin að taka á honum stóra sínum og setja upp afmælissýninguna sem opnast skal næsta þriðjudag. Allt á fullu í þeim undirbúningi. Frumsýningu frestað en vonandi verður hún fyrir tannuppskurðinn minn sem er 19. okt. Þá á að taka barnatönnina mína góðu og setja einhverjar festingar svo hægt verði að tosa fullorðinstönnina niður. Úff, verð að segja að þetta er ekki spennandi kostur í stöðunni en trúlega sá skársti. Upp og gó í vinnuna...

sunnudagur, september 11, 2005

Mér verður eitthvað afskaplega lítið úr verki þessa dagana. Reyndar eru dagarnir afskaplega stuttir síðan ég fór að vinna, allavega sá hluti dagsins sem ég get sinnt þessu blessaða heimili mínu. Börnin mín ganga svoldið um eins og svín, taka aldrei til eftir sig svo eftir viku án þess að taka til er svoldið mikið drasl. Byrjaði aðeins að mála niðri herbergið sem Petra er að flytja í en er ekkert voðalega mikið í stuði til þess að mála. Milljón aðrir hlutir sem ég vildi vera að gera eins og það að dúlla mér í minni nýju tölvu og svona. Og auðvitað ætti ég að vera löngu sofnuð en ég svaf svoldið frameftir í morgun og byrjaði daginn seint. Stelpurnar í Laugarnesinu kíktu aðeins við og sú minnsta svoldið kvefuð en dúlla samt. Þær fóru svo á Selfoss að heimsækja afann og langarafann. Og María kíkti hér við í dag brún og sællæg nýkomin frá Spáni í annað sinn í sumar. Alltaf gott að hitta hana. Gaf henni aðeins að smakka mitt sérheimalagaða pestó sem er bara algjörlega að slá í gegn hér á heimilinu. Verst að basilikkutíminn er nánast á enda. En best að drífa sig í ból og reyna að vakna á skikkanlegum tíma og halda áfram að mála og þrífa og þvo þvott og elda mat og leika í stelpunum og svona...

miðvikudagur, september 07, 2005

Komin með nýja tölvu...jej...kom í hús í dag og nú er bara að hlaða inn á hana gamla dótinu..nema spúsinn eyddi Léttsveitinni út af diskinum og ég á ekki backup nema frá júlí 2003...ansans ári..kannski finn ég eitthvað á öðrum diskum...vonandi.
Annars allt í þessu fína...ætti að vera löngu komin í rúmið...en ákvað að setja í uppþvottavélina og skoða póstinn minn áður en ég legðist í fleti. Sá aðeins ömmubarninu mínu bregða fyrir í dag. Hún er svo mikil rúsína, komin með fimm tennur og heilsar ömmunni með því að bíta hana í hökuna. Algjörlega ómótstæðileg og svo getur hún núna sýnt hvað hún er stór, vinkar og segir bæ bæ, klappar saman lófunum, skríður um allt og stendur upp við hvað sem er og náði meira að segja að skríða upp stigann úr kjallaranum. Dugleg stúlka og algjör knúsbolti...Og nú í bólið og vinna á morgun með öllu stressi sem því fylgir. Gott að vera aftur orðin gjaldgeng á vinnumarkaði...

sunnudagur, september 04, 2005

Maðurinn minn er svoldið utan við sig þessa dagana og viðurkennir loksins að hann geti bara gert einn hlut í einu. Tölvan mín ekki að virka og hann lætur mig færa allt af öðru drifinu yfir á hitt svo hann geti strauað diskinn en fyrst ætlaði hann að þjappa minni diskinn svo ég gæti fært öll gögn af stærra drifinu yfir á það minna. Og ég auðvitað geri eins og mér er sagt og svo strauar hann stóra drifið, halló...og nú veit ég ekki hversu mikið af gögnum ég var ekki búin að taka backup yfir á diska en aðalástæðan fyrir því að ég var að færa gögnin yfir var til að koma öllu iTunes dótinu yfir á þann disk sem hann ætlaði "EKKI" að straua. Allar plöturnar mínar voru á iTunes og nú eru þær allar komnar í ruslið og ég þarf að setja þær allar inn aftur þegar ég fæ nýja tölvu. Það eina góða sem hefur fengist út úr öllu þessu veseni með tölvuna mína er að Jánsinn viðurkenndi loksins að hann það virkar aðeins ein rás í heilanum á honum í einu sem sýnir og sannar að hann hlýtur að vera sannur karlmaður.
Er loksins á leiðinni að mála herbergið niðri fyrir Petru og það væri ansi gott ef hún gæti ákveðið hvaða lit hún ætlar að hafa á því, en þegar Rúskan hefur of mikið val getur ansi langur tími farið í að komast að hinni einu sönnu réttu niðurstöðu því eins og allar meyjur verður allt að vera fullkomið. Það hefði verið ágætt ef fullkomnunargenið hefði komið fram í því að halda hreinu í kringum sig en að því leyti eru þau meyjarfeðgin nákvæmlega eins, er nokk sama hvort allt er í skít og drullu þó þau hafi alltaf á því skoðanir hvernig á að líta út undir skítnum og drullunni.
Og það er greinilega komið haust, laufin farin aðeins að breyta um lit og veðrið dásamlegt gluggaveður, reyndar ekkert kalt að mínu mati en það skal haft í huga að termóstadið í líkamanum breytist með aldrinum, hmmm....
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter