<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 27, 2005

Ég fer allt of seint að sofa þessa dagana og dreymi svo einhverja dæmalausa vitleysu. Fór tvisvar til tannsa í dag, fyrst í spottaúrdrátt og síðan í keðjustrekkingu. Er sem sagt orðin tannlaus með munninn fullan af allskonar víraflækjum og drasli. Og nú er það spurningin hvort tönnslan sem hefur verið föst upp í gómnum á mér í áratugi lætur sig hafa það að láta draga sig niður svo hún verði ögn sýnilegri...svefn...

mánudagur, október 24, 2005

Til hamingju með daginn allar stelpur!!!

Og svo er enn eitt klukkuð frá Gunnsunni.

1. hvað ertu með í vösunum? Ekkert, ég nota kvenveski fyrir allt mitt drasl

2. hvað gerðirðu í gærkvöldi klukkan 1? Var steinsofandi
3. á hvaða skemmtistað djammaðirðu síðast? Fer ekki lengur á skemmtistaði.
4. hvaða celeb myndirðu sofa hjá? Þeim allra sætasta - Jeff Bridges - fá algjörlega í hnén yfir honum.
5. hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðin/n stór? Man það ekki...langaði bara að verða stór en stóð lengi vel ekki út úr hnefa. Er frekar seinþroska og vissi ekki hvað ég vildi verða fyrr en ég var 35 ára fór í prentsmíðina.


laugardagur, október 22, 2005

Halló, halló er ekki alveg í lagi með mig. Löngu komin á fætur og það er laugardagsmorgunn. Búin að lesa Moggann spjaldanna á milli og Fréttablaðið á netinu. Það kemur aldrei hér inn um lúguna fyrr en um hádegisbil um helgar ef það kemur yfirleitt. Og búin að taka úr þvottavél og setja í aðra, brjóta saman þvott og stabbla í fimm bunka og er á leiðinni með þetta allt saman í skápa. Og svo er ég að hafa mig í að mála loftið hjá Rúskunni svo Jánsinn geti byrjað að parketleggja. Vaknaði í sófanum í morgunn um hálf átta eftir að hafa sofnað út frá sjónvarpinu. Já það er ekki mikið hjónalífið hér á bæ tveimur dögum fyrir tveggja ára brúðkaupsafmæli sem er nk. mánudag á kvennafrídaginn.
Fór í gær með goddaslegtinu á rússneskan baritón ásamt dúndrandi rússneskri hljómsveit í Salnum hér í Kópavogi. Rúskan fór fyrr um daginn með skólanum en Trínan og Snallinn ásamt Beggó komu með og voru einu börnin í salnum. Skemmtu sér svona og svona en höfðu gott af. Allir aðrir í skýjunum yfir þessum líka fína söngvara og hljóðfæraleikararnir ótrúlega flottir og skemmtilegir. Það tók mig nú reyndar svoldinn tíma að venjast andlitinu á baritóninum, virkaði eins og hann væri tannlaus og gat geiflað á sér andlitið líkt og Þröstur Leó, en söng alveg hreint ljómandi vel.
Og goddverjar komu í kaffi og með því (koníak) á eftir. Skemmtilegt kvöld. Litlar undirtektir hjá tengdó um að kaupa af Léttum þriggja laga prinsessupappír en ég verð bara að ræða klóaramálin betur. Tengdamamma vill bara mjúkt á sinn botn.
Síðustu tveir dagar í vinnunni bara mátulega hektic og ég hef komist heim til mín á mannsæmandi tíma og ekki þurft að reita hár mitt yfir brjáluðum Pöllum.
Er að hugsa um að skella mér í bíó í dag og bjóða Dundý með og kannski Diönu líka ef hún vill fara og þær fá pössun fyrir ömmusnúlluna.
Og svo langar mig í búðir á Laugaveginum. Var ekki búið að segja að það væri langur laugardagur????...allavega fyrsti vetrardagur...

þriðjudagur, október 18, 2005

Ég á ekki að ná að klára þetta blessaða loft í herbergi Rúskunnar fyrir jól. Ætlaði sko aldeilis að gera það í kvöld en eitthvað breyttust þau plön. Var í fyrsta lagi að vinna til sjö, held ég verði að koma mér á róandi til að halda sæmilegum sönsum í þessari vinnu minni. Það var aldrei að ég fór aftur út á vinnumarkaðinn að lenda í svona stressi. Reyndar vinn ég ágætlega undir álagi en fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Komst í mat um hálf þrjú í dag...sussussusss....
Og svo stóð okkur til boða að fara á námskeið hjá endumenntun HÍ í popptónlist og ákvað bara að skella mér þar sem þetta var nú í Salnum í Kópavogi, bara rétt við bæjardyrnar. Og þetta var bara ferlega skemmtilegt námskeið hjá Jóni (Ólafssyni) og svo var Valgeir Guðjóns gestur eftir hlé. Og þess vegna varð ekkert úr máleríi hér á bæ. En það kemur dagur eftir þennan dag.
Og nú verður maður að leggjast í það að selja klóara og húsbréf til vina og ættingja svo maður komist frítt í heimsóknina til Kastró. Verra að koma út jólatrjám, allir með gervidruslur í sínum stofum á jólum, en það mun verða seint eða aldrei að ég fái mér plasttré made in usa eða china. Ég ólst upp við gervitré og vil bara fá ilminn af normannsþin hér um jólin. En ég mun gera mitt besta að koma léttum klóara inn á sem flest heimili þó megnið af því endi nú trúlega hér í klósettinu. Hér er nóg af rössum að skeina og einn pakki með 24 rúllum rennur hér niður á stuttum tíma.
En nú ætla ég að koma mér í rúmið svo ég verði fersk í fyrramálið og haldi út vinnudaginn og svo kóræfingu annað kvöld...

sunnudagur, október 16, 2005

Hef ekki tjáð mig lengi. Frumsýning á mynd aldarinnar að baki og dóma í Mogganum eins og við Léttur hefðum sjálfar skrifað þá. Dásamlegt og er algjörlega á leiðina á myndina aftur með mitt slekti.
Og æfingarhelgi líka að baki. Þó eitthvað hafi sótt á mig syfja á laugardagsæfingunni voru þetta hinar skemmtilegustu æfingabúðir eins og alltaf með þessum skemmtilegum kerlum. Ætlaði að vera voða dugleg í dag eftir að ég kom heim og mála loftið hjá Rúskunni en kláraði þess í stað að prjóna lopapeysuna og hreinlega lognaðist svo út af yfir sjónvarpinu. Er hálf andlaus og þreytt og ætla snemma í háttinn. Beta kom með myndir úr æfingabúðum og ég reyni að druslast til að setja þær inn á morgun. Hef ekki orku í það akkúrat núna. Sé það samt þegar ég fletti í gegnum myndirnar að mín er að verða svoldið gömul og krumpin og talandi um það sagði ég í síðasta "klukki" að ég væri töluvert eldri en ég liti út fyrir að vera. Það er hér með dregið til baka og hér koma fleiri tilgangslausar staðreyndir um mig þar sem Jóhanna klukkaði mig.

1. Ég hef átt fjöldann allan af köttum um ævina og eina þrjá hunda. Flestir mínir kettir hafa borið nafnið Skotta, en ég hef líka átt Grámann og Sambó og núna á ég Doppu og hundinn Nikulás. Hin hundspottin mín hétu Bjössi og Lubbi.

2. Mér finnst matur góður en versti matur sem ég hef á ævi minni fengið át ég hjá henni Stellu frænku þegar hún bjó á Patró. Gellur sem ég hreinlega kúgaðist af og nánast grét yfir því þær voru svo slepjulegar og ógeðslegar, eins og að éta hor. Í þá daga var alltaf grautur á eftir en í þetta sinn var súrmjólk sem var álíka ógeðsleg og gellurnar. Mun aldrei gleyma þessari máltíð sló algjörlega út bútunginn sem ég fékk hjá henni Laugu nöfnu minni á Norðfirði og var hann nú slæmur.

3. Leiðinlegasti skóli sem ég hef verið í ever er Kvennó. Öldutúnsskóli var ótrúlega skemmtilegur og því mikið viðbrigði að koma í skóla þar sem maður gat afsakað sig af persónulegum ástæðum fyrir að læra ekki heima. Hafði aldrei kynnst því að maður gæti sleppt því að læra heima. Ég notfærði mér þessar persónulegu ástæður út í hörgul og hætti hreinlega að læra enda voru einkunnir mínar í Kvennó eftir því. Og þegar ég hafði eytt heilum fjórum árum í þessum skrattans skóla með eintómum stelpum tók það mig langan tíma að venjast því að karlmenn væru ekki frá öðrum hnöttum. Það ætti að banna svona kynjaskipta skóla þegar börn eru á unglingsaldri.

4. Þegar ég kom út úr Kvennó var ég óheyrilega feimin og á fyrsta vinnustaðnum mínum sagði ég ekki orð í heilt ár nema á mig væri yrt af fyrra bragði. Þegar ég svo var á leiðinni til útlanda í fyrsta sinn, til Grænlands að heimsækja vinkonu mín varð ég bara að segja einhverjum frá því og talaði sagði einni af stelpunum sem ég vann með frá því. Þegar ég byrjaði að tala lá við að hún dytti niður dauð. Síðan hef ég varla samkjaftað og það bara einstaka sinnum sem ég finn fyrir þessari feimni.

5. Ég vil ekki meina að ég sé frek en get verið svoldið þrasgjörn og haft hátt en hef mýkst ótrúlega með árunum og ef heldur frá sem horfir verð ég orðin að hálfgerði gufu innan tíðar...

5.

mánudagur, október 10, 2005

Það er með ólíkindum hvernig fólk sem kemur inn í Samskipti heldur sig Palla einan í heiminum og fyrirtækið og allir þess starfsmenn séu þarna einungis til að þjóna þessum eina Palla. Allt þarf að gerast helst í gær og fólk horfir á mann í forundran þegar maður segir að því miður geti þetta ekki verið tilbúið fyrr en eftir ca. tvo tíma. Ha...ég má ekki vera að því að bíða eftir því...
Þessi dagur var akkúrat svona, tómir Pallar sem litu við og ég komst ekki einu sinni í mat og var ekki komin heim til mín fyrr en um sjö. Eins gott að morgundagurinn verði ekki svona því þá ætla ég að hætta kl. 4 svo ég verði fín og sæt á frumsýningu Kórsins því ég ætla sko ekki að mæta í lopapeysunni.
Og talandi um lopapeysur. Mín bara farin að prjóna aftur eftir margra ára hlé og svei mér ef þetta er ekki bara ennþá ljómandi skemmtilegt. Og í huganum prjóna ég lopapeysur á allar kerlingar í stórfjölskyldu minni og John. Tilvalin jólagjöf og ekki langt til jóla svo eins gott að halda sig við efnið. Læt mér nú samt nægja að klára þá fyrstu kannski fyrir æfingabúðir um næstu helgi.
Reyndar ætla ég snemma í rúmið í kvöld eða það er allavega planið en þau plön geta svo sem fokkast upp eins og öll mín plön undanfarið.
Var eiginlega druslulasin um helgina og ætlaði jafnvel að slaufa því að fá Rakelina í heimsókn en skipti svo um skoðun og hún var algjörlega eins og ljós á ömmunni sinni, svaf alla nóttina, sofnað um átta og vakti svo ömmuna fyrir allar aldar rétt rúmlega sjö. Og ég er ansi hrædd um að ég þurfi að fara að færa eitthvað til hér á bæ því sú stutta er út um allt, skríður upp stígann og ætlar svo niður aftur með hausinn fyrst.
Og í morgun var ég á báðum áttum með að fara í vinnuna en lét mig svo hafa það og kannski eins gott því Robbi komin með konuna á fæðingadeildina svo enginn til að taka smáprentið á meðan hann er í burtu nema ég.
En núna, akkúrat núna ætla ég að tékka á því hvort ég get glápt á eitthvað í sjónvarpinu og slappað af ef börnin mín láta í friði í smástund...

föstudagur, október 07, 2005

Síðustu tveir dagar í vinnunni hafa verið algjörlega hektik allan daginn og ég fer að sofa skipuleggjandi á hverju ég ætla að byrja þegar ég mæti í vinnuna daginn eftir. En í dag tókst mér að tæma pósthólfið mitt og klára næstum allt sem fyrir lág..je, je, je. Svo nú get ég farið í háttinn og hugsað um eitthvað annað en vinnuna. Það er nefnilega þannig að hugur minn er frjóastur þegar ég er lögst á koddann og á að vera að svífa inn í draumalandið. Ég fæ ótrúlegustu hugdettur þarna á koddanum og skipulegg húsið frá a til ö og einhvern veginn eru öll herbergi miklu stærri þegar ég ligg með lokuð augun upp í rúmi en í raunveruleikanum. Herbergi krakkana breytast í svítur þar sem pláss er fyrir allt þeirra drasl og rúmlega það og fermetrafjöldinn margfaldast. Ég sem heilu ræðurnar í huganum sem ég ætla að halda í næsta afmæli eða þá ég hefði átt að halda í liðnu afmæli eða öðrum uppákomum, skipulegg heilu ættarmótin og veislurnar fyrir milljón manns og ég veit ekki hvað og hvað. Og svo vakna ég daginn eftir og kollurinn algjörlega tómur og hugmyndalaus. Er komin á þá skoðun að það þyrfti að vera hægt að delíta einhverjum slatta af úr sér genginni visku til að koma fleiri gögnum fyrir í svona gömlum kolli eins og mínum.
Annars átti ég dásamlega kvöldstund á tónleikum Bjargræðiskvartettsins í nýjum húsakynnum Hraunbúa í Hafnarfirði. Takk elsku María mín að stingja (er þetta með ypsiloni eður ei) upp á því að fara. Og takk Alla mín fyrir ógislega krúttaralega tónleika. Þarna var fullt af kunnugulegum andlitum úr æsku, kennurum úr Öldutúnsskóla og gömlum skátum og alles. Ég var nú einu sinni skáti og verð því víst ávallt skáti, kann ennþá réttan hnút þó einfalda og tvöfalda pelastikkið sé löngu týnd kunnátta.
Og enn og aftur föstudagur á morgun og á laugardaginn kemur litla ömmustelpuskottið mitt og ætlar að vera hjá ömmunni sinni yfir nótt. Amma komin með fráhvarf og verður bara að fá að hafa hana svoldið. Mömmsurnar geta þá farið eitthvað út á lífið á laugardaginn og verið góðar við hvora aðra.
En nú er kominn tími á ból því áður en litið er við verða komin jól og frumsýning á þriðjudag og æfingabúðir aðra helgi, gaman...svo ljómandi gaman...

þriðjudagur, október 04, 2005

Algjörlega er það ferlegt hvað ég get hangið í þessari tölvu. Er að gera heimasíðu hljómsveitar eins vinnufélaga míns og ég þoli ekki þegar hlutirnir ganga ekki upp. Og nú er klukkan löngu orðin miðnætti og hér sit ég enn. Það ætti nú að nægja mér að sitja við tölvuna allan daginn í vinnunni en nei ó nei. Kem heim, elda eitthvað afar fljótlegt og svo beint í tölvuna. Ætlaði nú reyndar að skella mér í peysuframleiðslu, keypti lopa og ætla að vera voða dugleg að prjóna eina svona lopapeysu eins og allir verða að eiga í dag og aðra á Rúskuna. Katrín ekki eins innvikkluð í tískuna og veit ekki hvað stutt, rennd lopapeysa er hvað þá meir. Svo á það bara eftir að koma í ljós hversu prjónóð ég verð.
Annars bara allt í jolli fíling þó ekki hafi ég druslast til að mála loftið, hvorki í gær né kvöld. Ferðalagið austur í Vík svona la la. Leiðsögumaðurinn í njáluferðinni hvorki fugl né fiskur og eiginlega af slakur þegar maður hefur Túra klúra sem viðmið. Og maturinn á Hótel Höfðabakka skárri en af sjálfdauðu rollunni sem við Léttur fengum í Munaðarnesi forðum en heldur ekki meira en það. Og það rignir greinilega á fleiri stöðum á landinu en í henni Reykjavík. En Vík má eiga það að þetta er með fegurri bæjum jafnvel í rigningu. Og Sigrún...ættartalið er á kommentinu á eftir þér. Ég er algjörlega ótrúlega fróð í þessum ættum mínum og eftir að hafa flett Íslendingabók hef ég allavega komist að því að við erum skyldar Maríu og Bimbu í fimmta lið frá Helluættinni. Og ég er fegin að ég er ekki lögst í þetta súdokú eða hvað það nú heitir...ég mundi þá ekki gera neitt annað...og svo þarf ég að fara að skrifa á krónikkuna og hvetja konur að mæta í gala og alles á frumsýninguna...

laugardagur, október 01, 2005

Enn ein vikan í lífi mínu liðin og mér finnst hafa verið föstudagur bara í gær. Kom því þó í verk í gær eftir vinnu að klára að mála veggina í herbergi Rúskunnar og nú er loftið eftir. Geri það kannski á sunnudaginn eða bara mánudaginn.
Er á leið í örlitla helgarferð með vinnunni hjá Jánsinum. Stefnt á Hvolsvöll og á mínar ættarslóðir, þ.e. Keldur á Rangárvöllum. Gist á hóteli rétt hjá Vík í Mýrdal og borðað og djammað og svo heim á sunnudaginn þegar efni og aðstæður leyfa. Foreldrar mínir ætla að passa grísina og grísirnir passa Nikulás því ekki getur hann verið einn heima anginn sá.
Dundý og Di á Snæfellsnesi og litla skjóðan hjá pabba sínum. Og svo ætla ég að fá hana lánaða eina nótt um næstu helgi. Sakna hennar að sjá hana ekki alla vikuna stundum.
Brjálað að gera í vinnunni og ótrúlegt stress sem fylgir því að vera í þessu smáprenti. Ótrúlegt hvað sumir kúnnar er egósentrískir og einir í heiminum. Getur verið að við Íslendingar séum að verða ókurteisasta þjóð í heimi. Allavega veltur maður ekki um hamingju hjá sumum og eigum við þó heimsmet í hamingju hvernig svo sem hún er mæld.
Er algjörlega búin að þrífa hér hátt og lágt. Ekki hægt að bjóða nokkrum manni að vera hér í þeim skít og drasli sem er hér oft og tíðum.
Og svo læt ég fylga hér ógisslega krúttleg ljóð sem ég fékk í korti einhvern mæðradaginn frá börnunum mínum.

...Ef dropi væri fegurð
þá værir þú við hafið.

Ef ljósgeisli væri ást
þá værir þú sólin okkar.

Ef snjókorn væri söknuður
þá liði okkur eins og jöklum
í hvert sinn sem þú ert í burtu...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter