<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 30, 2005

Ég var á leið í bælið þegar hundkvikindið lét sig hverfa út í myrkrið og fannst ekki þó við góluðum og flautuðum og rúntuðum um allt kársnesið. Það var ekki fyrr en ég hafði hringt á lögguna og tilkynnt hvarf hans að hann vissi upp á sig skömmina og druslaði sér heim. Og nú er ég glaðvakandi og klukkan að verða þrjú.
Jólin liðin og það snöggt. Ég hef eins og Vésan úðað í mig nóakonfekti og öðru góðgæti, bæði hér heima og að heiman. Veit ekkert betra en nóa og gott ef buxnastrengurinn er ekki aðeins farinn að þrengjast á öllu þessu súkkulaðiáti. Algjört letilíf yfir jólin og nánast ekkert að gerast í vinnunni og bara dagur og hálfur til áramóta. Mér leiðast áramótin, veit ekki af hverju en það er bara eitthvað ekkert skemmtilegt við þau, alltaf eins einhvern veginn. Ætli ég verði ekki bara hér heima hjá mér með geltandi hundinn því hann þolir ekki sprengjurnar og kannski að ég passi ömmubarnið mitt í leiðinni svo mæðurnar geti brugðið sér af bæ.
Síðasti vinnudagur á árinu á morgun...hmm....

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ég held sé dáldið mikið ekki lagi að vera ekki farin í rúmið, brjálað að gera í vinnunni og bráðum koma blessuð jólin. Reyndar sá ég til botns í óhreinatauskörfunni um helgina og léttujólatréð var skreytt hér á sunnudaginn. Alveg dásamlega bústið og búsældarlegt tré sem út úr netinu kom og langt frá því að vera létt. Bara hreinlega með fegurri trjám. Á enn eftir að kaupa jólagjafir handa börnunum. Veit einhver hvar fást grjónapúðar. Það er efst á óskalistanum hjá þeim öllum. Og svo á ég eftir að versla í jólamatinn og alles. Reyni held ég að fá frí í vinnunni á Þorlák svo hægt sé að ljúka þessu öllu saman korter fyrir jól. Annars er ég ekkert stressuð svo sem yfir þessu jólastandi öllu saman og ótrúlega róleg í tíðinni. Læt Jóa Fel og félaga sjá um baksturinn þessi jólin eins og reyndar mörg undanfarin. Alveg hætt að nenna smákökubakstri.
Og nú yfir og út og að sofa á mitt græna...og þó gott að diskurinn er að slá í gegn. Hann lendir í nokkrum pökkum þessi jólin...

fimmtudagur, desember 15, 2005

Og aftur lét hann sjá sig í gær, brosti kankvíslega til mín, eins og hálfafsakandi yfir því að hafa yfirgefið mig á ballinu forðum. Þurfti að láta prenta fyrir sig fleiri skýrslur. Man líka að við vinkonurnar djókuðum með það að ég mundi að eignast með honum tvö börn með kakóbrúnu augun hans. Dreng og stúlku sem skyldu bera nöfnin Bjólfur Þrasi og Röskva Rán. Og þó ég hafi kysst hann í Saltvík forðum daga urðu ekki til við það nein börn og nú er það löngu orðið of seint að gera nokkuð róttækt í því...
En að öðru leyti eru dagarnir of stuttir og mig vantar í sólarhringinn fleiri klukkutíma svo ég nái nægum svefni. Var að koma af guðdómlegum tónleikum Gospelsins, Voxins og Stúlknakórsins í Hallgrími og úr heimsókn til Gunnsunar hlaðin snyrtivörum frá Mirandas sem eiga að gera mig aftur unga og sæta, allavega sæta vil ég trúa og nú dríf ég í að setja dauðahafssalt með lavanderilmi inn í koddaverið og þá á ég að sofa eins og engill en til að ég geri það þarf ég víst að drusla mér í rúmið fyrst sem virðist ansi erfitt...

þriðjudagur, desember 13, 2005

Í Kvennó var það til siðs að bjóða einhverjum strák með sér á árshátíðina. Þetta var algjört pain þar sem ég þekkti nákvæmlega enga stráka. Í fyrsta bekk var þetta reyndar ekkert rosalegt mál, bauð skólabróður mínum sem var reyndar ekki í sama bekk og ég en var tilbúin til að koma með mér. Í öðrum bekk bauð bekkjarsystir mín vini stráksins sem hún bauð. Sá er í dag frægur lögfræðingur. Í þriðja bekk var einhverjum boðið fyrir mig og sá hefur slegið í gegn í auglýsingageiranum. Snilldardansari og árshátíðin bara alveg ágæt. Í fjórða bekk bauð svo vinkona mín og bekkjarsystir vini stráksins sem hún bauð til að koma með mér.
Ég var afspyrnu feimin á þessum tíma og sagði yfirleitt ekki neitt af fyrra bragði og svaraði yfirleitt bara já og nei ef yrt var á mig. Trúlega hefur sjálfsmyndin ekki verið sterk, ég var óhemju seinþroska, pínulítil og mjó og hafði þar að auki ekki umgengist drengi í fjögur ár. Mannskemmandi að kynjaskipta skólum...hmmm.
Nema hvað þessi drengur sem sagt kom með mér, voðalega sætur og ekki bætti það úr skák. Varð bara enn feimnari. Við settumst niður, sögðum ekki neitt, bara sátum þarna eitthvað fram eftir kvöldi, horfðum á skemmtiatriðin og borðuðum og svona án þess að mæla orð frá munni. Svo byrjaði ballið og ekki hafði drengurinn rænu á að dansa við mig hvað þá meir. Um hálfellefuleytið sagðist hann þurfa að skeppa á klósettið og ég sá hann ekki meir það kvöldið!!!
Í dag kom þessi drengur inn í Samskipti, vissi nákvæmlega hver ég var og var eiginlega hálfvandræðalegur. Vona að hann hafi ekki samviskubit yfir því að hafa yfirgefið mig þarna á árshátíðinni forðum því síðan eru liðin mörg ár...:)

mánudagur, desember 12, 2005

Ég er nú meiri boggletinginn þessa dagana. Hef bara allt of mikið að gera og kemur alls ekki öllu í verk sem ég þarf að gera. Ætlaði t.d. að skúbba af nokkrum jólagjöfum á fimmtudaginn sem þurfa að fara til útlanda en gekk um Kringluna og sá akkúrat ekki neitt sem mig langar til að gefa öðrum hvað þá nokkuð sem mig langar sjálfa í. Á einhvern veginn allt en endaði nú samt í OgVodafone og keypti mér nýjan síma. Er orðin algjörlega útúrtæknivædd, með nýjan iPod og nýjan síma og nýja myndavel (eða svo gott sem) og kann svo ekkert á þessi tæki öll sömul.
Og Amma Jó, skatan gekk svona glimrandi vel í gærkvöldi, aldrei verið betri segja þeir sem hana átu, en ég held mig bara við minn saltfisk í öllu skötufárinu. Skötupartýið á síðasta ári var víst ekki alveg nógu gott, skatan of soðin, kartöflurnar hálfhráar og feitin viðbrennd. Það var líka Hlégerðishúsmóðirin að sinna öðru og gat því ekki séð um eldamennskuna. Þá var nefnilega skatan þann 18. og þá kom litla ömmustúlkan mín hún Rakel Silja í heiminn. Í dag var hér afmæli fyrir skottuna. Hún fékk aðra veislu í gær heima hjá mömmu Díönu og svo fær hún þá þriðju á ömmu Lilju um næstu helgi.
Hún er sú allra sætasta, mætti í design kápu og heklað sjal og pínkuponsulitla tígaspena í fallega rauða hárinu sínu. Ekki fékk hún nú samt að gæða sér á öllum kökunum sem amman galdraði fram úr erminni í morgunsárið heldur fékk sér rúgbrauð með smjöri og mandarínur. Og litla frænkan Helena Mist var líka sætust með sitt fallega bros.
Og á morgun verð ég að ljúka af jólagjafainnkaupum fyrir þá sem í útlöndum búa og kannski setja upp Léttujólatréð annað kvöld. Sé á öðrum Léttubloggum og króniku að dívulétturnar stóðu sig með stakri prýði eins og auðvitað alltaf. Annars bara venjulegur mánudagur á morgun...

föstudagur, desember 02, 2005

Einir tónleikar að baki og aðrir á morgun. Var nú ekki alveg að kunna textana og mér skilst að ég hafi ekki verið ein um það. Var voða fegin í hvert sinn sem því lagi lauk sem ég kunni ekki neitt nema snær og blær og kær. Sé ekki fram á að ég verði nokkuð betri á morgun. Er á leið á kynningu hjá Gunnsunni og vinna í fyrramálið frá 10-14 og svo beint á kóræfingu sem byrjar reyndar skv. síðustu fréttum kl. 13.30.
Búin að spila Léttsveitardiskinn út í eitt í bílnum. Fékk kökk í hálsinn þegar Valgerður, Sigrún og Jóna syngja guðslagið okkar og líka þegar ég hlustaði á lagið hennar Eyglóar, dásamlega fagurt og vel sungið. Diskurinn rennur ljúft þó mér finnist nú sum lögin skemmtilegri en önnur en það verður náttúrlega að hugsa um pöbulinn sem á að kaupa diskinn. Þetta verður jólagjöf frá mér inn á hvert heimili og ég verð stolt af því að segja að þetta er sko kórinn minn.
Rúskunni gegnur vel að taka til eftir nýju plani sem stendur nú víst ekki lengur en til jóla en er á meðan er.
Og Bimba algjörlega að pluma sig í svíaveldi og það er enn eitt sem er dásamlegt í þessum heimi þessa dagana...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter