<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 23, 2007

Fór á tónleika í gær í Þjóðmenningarhúsinu með Vox Feminae. Tær snilld og ótrúlega krúttlegir og skemmtilegir tónleikar. Það er bara eitthvað svo gott að næra aðeins sálina eftir hreint út sagt hrikalegan dag í vinnunni. Flestir komnir á fremsta hlunn með að labba bara út í rigninguna og rokið. Og megnið af deginum í dag litlu skárra en sá þó næstum til botns í mailum og möppum og ekki verra það því á morgun er föstudagur og það föstudagur fyrir árshátíð ársins og svo frí fram yfir páska sem fer í fermingarundirbúning og læti. Þarf reyndar að muna eftir því að skutla út textum fyrir árshátíð því auðvitað verðum við léttur að geta sungið eitthvað skemmtilegt.
Náði því að kaupa fermingarskó á Trínuna og setja filmur í tvo glugga, en eyðilagði eina filmuna og þarf að láta gera hana aftur. Og eitthvað mismældi ég aðra tvo glugga en það er víst betra að taka af því sem er of stórt en bæta við það sem er of lítið eða þannig.
Og það er af þrifakonunni minni að frétta að þetta er bara allt að færast til betri vegar, hér er orðið ótrúlega spikk og span og von á henni á morgun í helgarhreingerningu. Held að ég hafi gert rétt með því að gefa henni góðan sjens þó flestir hafi nú verið á annarri skoðun, en ég hef ótrúlegt langlundargeð stundum og vil bara þó nokkuð lengi trúa á það góða í fólki og yfirleitt reynist það nú rétt....vonandi líka í þetta sinnið.
Sofnaði yfir sjónvarpinu í kvöld eins og oft áður og er nú verulega spræk þó langt sé liðið á nóttu. Snallinn á leið í æfingabúðir með kórnum sínum á morgun í Kaldársel og sefur eina nótt. Hann vaknaði eldsnemma í morgun til að fara í húsdýragarðinn að moka skít eins og hann sagði. Held nú samt að hann hafi haft gaman af mokstrinum. Hann meiddi sig reyndar greyið í gær á snjóbrettinu, soldið mikið bólginn á fætinum. Sagðist ekkert hafa grátið, eiginlega bara hlegið þegar hann horfði á fótinn bólgna en þetta hafi nú samt verið ferlega vont. Bar á drenginn vöðvagelið góða frá Mirandas og innan 10 mínútna gat hann stigið í fótinn og var tilbúinn í slaginn fyrir húsdýragarðinn. Já þetta er sannkallað töfragel...og svo ekki orð um það meir. Hundrað hlutir sem ég þarf að gera á morgun og því mál að linni að sinni og ég dóli með í háttinn...

þriðjudagur, mars 06, 2007

Mín kæra þrifakona hefur ekki sést hér í heila viku og því hlýtur bíllinn hennar að vera ennþá bilaður. Og er er náttúrlega algjörlega biluð að halda áfram að hafa trú á því að blessuð konan komist nokkurn tímann hringinn í þessu húsi mínu að vinna sig niður eins og hún orðar það.
Annars bara góð helgi liðin og alltaf jafn erfitt að koma sér í vinnuna á mánudögum. Við erum fáliðuð en góðliðuð þessa dagana, veikindi og útlandsferðir á toppunum gera það að verkum. Verð að koma fermingarboðskortum í póst á morgun eða hinn en nenni ekki að blogga eða gera excel lista yfir boðsgesti...svefn....
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter