<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 28, 2007

Það hlýtur að vera merki þess að ég blogga allt of sjaldan að tölvan mín gleymir lykilorðinu hér inn. Fór í klippingu í morgun hjá Bentu hinni færeysku þar sem Jóan er í barneignarfríi. Bara nokkuð vel klippt og sátt.
Systir góð mætt til landsins og henni fylgir alltaf slagveður. Spurning hvort það breytist eitthvað.
Hún ætlar að vera með opið hús á laugardaginn heima hjá Vigni bróður og allir sem lesa þetta blogg eru bara velkomnir...suðursalir 18. Verður með sín einstöku kerti og svo skartgripi og fleira góss frá Danaveldi. Bara upp úr tvö á laugardaginn.
Nennti ekki að mæta á raddæfingu eftir vinnu í dag...er einhvern veginn ekki að koma mér í sönggírinn þetta haustið og hef ekki hugmynd um af hverju. Kannski ætti ég að taka mér pásu fram yfir jól og sjá svo til.
Hef samviskubit yfir því að hringja ekki í vini mína og fjölskyldu, núna sérstaklega hana móður mína sem er að fara í gegnum erfitt tímabil í lífinu. Ég bara er ekki nógu dugleg við að lyfta símtólinu og hef víst aldrei verið. Þannig er það bara.
Jánsinn enn að pirra mig en það tekur trúlega enda...

föstudagur, september 21, 2007

Það er nokkuð ljóst að dagurinn í dag með allri sinni sól og blíðu sé lognið á undan storminum...spáð brjáluðu roki um helgina...but hú kers...
Og það var líka algjör lognmolla í vinnunni ólíkt undanförnum föstudögum. Segiði svo að veðrið hafi ekki áhrif.
Litla sæta rauðhærða skottið mitt kemur á morgun og ætlar að sofa hjá ömmunni sinni. Hlakka bara til að fá hana. Mömmsurnar hennar ætla á tónleika á Nasa annað kvöld.
Er algjörlega að drepast í öðrum fætinum, finn til í beinunum svo ekki eru það harðsperrur, eða hassbörur eins ein sem ég vann með í þinginu hélt að svona strengir væru nefndir.
Var í því í gær að hneykslast á íslensku máli. Td. fyrirsögnin á Mogganum í gær um að feðgar hefðu lent út í Soginu og faðirinn týndur...og er að ég held í dag talinn af...fyrirsögnin var sem sagt: "Það mátti engu muna"....er ekki alveg að skilja svona fyrirsögn. Það hlýtur að hafa munað einhverju þegar annar mannanna lendir í ánni og finnst ekki.
Svo var í sjónvarpsfréttunum um þetta skútusmyglamá. ..."farið var með mennina akandi LANDLEIÐINA til Reykjavíkur...bíddu er hægt að aka einhverja aðra leið en landleiðina???
Annars bara allt í sómanum...

þriðjudagur, september 18, 2007

Furðulegt hvað mánudagar og föstudagar geta verið hektic í þessari vinnu minni. Gaman að hitta alla eftir skemmtilegt partý um helgina en dagurinn byrjaði strax á því að klára verkefni sem átti að vera tilbúið í gær eða eitthvað. Ansi oft þannig. Það reddaðist fyrir horn, var reyndar trúlega einum hálftíma of seint á áfangastað en engin læti út af því. Og svo er það einhvern veginn þannig að á hverjum degi kemur Palli sem er einn í heiminum og vill fá allt gert fyrir sig, enda einn í þessum heimi og við erum bara þarna til að þjóna honum. Da....
Það er alveg ótrúlega skemmtilegt og eiginlega gott að lesa bloggið hennar Díönu. Hún skrifar svo fallega um stelpurnar mínar (hennar) og svo er hún bara svo góður penni. Og líka svo dæmalaust góð stelpa. Ég er svo sannarlega heppin með tengdadóttur.
Hálftómt hér í kotinu þegar 2/3 heimabúandi barna eru að heiman. Ekki það að Rúskan láti nú ekki heyra í sér. Keypti sér síma í afmælisgjöf í dag.. og by the way...gleymdi að hringja í mömmu og óska henni til hamingju með daginn...geri það á morgun eins og sá lati segir alltaf.
Sjónvarpið komið í lag...snöggur að redda þessu hann Símon sjónvarpsgæi...
Og svona í lokin nokkrar myndir...

Við mæðginin í Danmörku á góðri stundu.

Sætur koss frá eiginmanninum.

Við Gunnsan í KR afmælinu. Ég algjörlega flottust í KR búningnum.

sunnudagur, september 16, 2007

Verð víst seint talin með duglegustu bloggurum landsins en svona eru nú þessir bloggheimar. Stundum nennir maður og stundum ekki. Léttur byrjaðar og nú á að taka meistara Megas. Spurning hvort hægt er að beita klíkuskap til að fá Magnús til að syngja með okkur. Má eiginlega segja að við séum allavega málkunnug eftir að hafa dvalið á sama tíma hjá Ragnhildi í Danaveldi.
Og fimmtugs KR afmælið var bara skemmtilegt. Þar var svo mikið af megaspilurum að það var ekki kveikt á ipodi Gunnsunnar.
Og svo var hér heljarinnar samskiptapartý í gær. Allir "passlega" drukknir og mikið borðað af kínamat þó hér verði trúlega kínamatur út vikuna, slíkir eru afgangarnir. Og heilsufarið bara ótrúlega gott miðað við innbyrt áfengismagn. Það gerir læmið sem er allra meina bót, vítamínríkt og dásamlega hollt.
Og svo eru Trínan og Trillinn á leið í skólabúðir, Trínan fer að Laugum og Trillinn á Reyki. Fimm daga ferð hjá þeim báðum. Svo næstu viku verður það bara my sweet sixtín dóttir sem verður heima. Og auðvitað Nikkinn og Doppan og Jánsinn. Fæ svo að passa Rakelítuna mína um næstu helgi sem er alltaf bara skemmtilegt. Elska þetta litla sæta skott. Það er nefnilega svo gott að vera amma...

mánudagur, september 03, 2007

Allt hér enn á öðrum endanum en málarinn "minn" mun trúlega klára á morgun og þvílíkt æði skæði. Hurðarnar eins og sprautulakkaðar enda annálaður málarasnillingur á ferðinni. Ég nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn er Arne.
Rakelítan ásamt mömmsunum sínum kom hér í heimsókn á laugardaginn og fórum við "æmgurnar" í pottinn. Þeirri stuttu finnst það mikið gaman og við reyndum með vatnsbyssum að hrekja feita og pattaralega kónguló heim til sín með engum árangri.
Og í gærkvöldi var það svo Norah Jones sem gladdi hjarta mitt. Bara snilldartónleikar. Fór seint að sofa og vaknaði seint í morgun og er búin að vera syfjuð í allan dag og ætla snemma í háttinn. Verð þó eitthvað að druslast til að gera í gunnsumálum sem þurfa að klárast fyrir laugardag. Annars bara næs að geta kannski komið draslinu úr stofunni annað kvöld og farið að plana fleiri breytingar á heimilinu...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter