<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, október 31, 2007

Var að koma af afmælistónleikum Gospelsystra. Langaði mikið til að syngja með þeim og reyndar fengum við að syngja með þeim upp á sviði ave maríu björgvins og það á að syngja það lag yfir mínum moldum ásamt You never walk alone og all my trials. Svo sungu þær Vertu nú yfir og allt um kring sem er önnur bænanna sem Rakelin mín fer með fyrir svefninn. Hef þegar hún fær að gista hjá ömmunni reynt að kenna henni alla vega tvær aðrar bænir en hún er ekkert alveg að samþykkja þær. Amma mín kenndi mér allar mínar bænir og ég fór alltaf með þær í þeirri röð sem hún kenndi mér þær. Vertu nú yfir og allt um kring var ein þeirra og hér eru tvær sem ég vil endilega bæta í safnið hjá mínu fallega ömmubarni.

Svæfillinn minn og sængin mín
sé önnur mjúka höndin þín
aðra breið þú ofan á mig
er mér þá værðin rósamleg.

Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt
hafðu þar sess og sæti
signaði Jesú mæti

Svo kenndi amma mér líka bæn sem ég hef aldrei almennilega skilið, læt hana fylgja hér með.

Hveitikorn, þekktu þitt
þá upp rís holdið mitt
í bindinu barnanna þinna
blessaðan láttu mig finna.

Kom til landsins frá Köben að kvöldi sunnudags. Bara hreint ágæt ferð. Vorum tvö daga hjá Birnu systur í hennar risastóra húsi. Gistum svo á St. Petri í Köben og mun það víst vera á vinsældalista Jóakims danaprins en verðbréfakerfi þeirra initmanna heitir einmitt Jóakim. Snæddum svo kvöldverð á flottasta hóteli Evrópu D´Anglaterre. Rosalega flott allt saman og maturinn á franska vísu sem féll nú ekki alveg í kramið hjá almúgastúlku frá Íslandi. Súpuseiði með tveimur hörpuskeljum og gæsalifur og svínaspekk, aðalréttur dádýr með brimsaltri sósu og svo súkkulaðigúmmúlaði í desert. Langaði mest af öllu að fá mér eina danska með öllu eftir ósköpin en öllum fannst þetta víst frábær maður nema mér. John fékk allavega nóg, borðaði tvöfalt þetta kvöld.
Heimsóttum svo Daníel Haraldsson í bátinn sem hann býr í fyrir framan íslenska sendráðið. Sem sagt bara skemmtileg ferð í Danaveldinu.
Komst því miður ekki í jarðaför Kristjáns í Laufási sem ég hefði viljað. Góðar minningargreinarnar sem Solla vinkona, Rúni og Sigga skrifuðu um pabba sinn. Lýstu honum vel. Kristján afrekaði það allavega á sínum tíma að kenna okkur Sollu að skipta um dekk. Hann var líka ábyggilega einn af fyrstu Íslendingum til að koma til Kúbu.
Svo verður hann Dói jarðsunginn á laugardaginn kemur. Hrundin mín er óttalega sorgmætt, sefur lítið og illa og sér eftir afanum sínum. Dói var einstaklega ljúfur og vænn kall, átti það svo sannarlega til að vera afspyrnu væminn en þannig var hann bara. Mátti ekkert aumt sjá og vildi öllum vel og talaði aldrei illa um nokkurn mann.
Ég ólst upp við það að eiga ömmu og afa sem ég elskaði og dáði, þau báru mig á höndum sér og Hrund fékk að njóta þess sama hjá ömmu sinni og afa á Selfossi.
Ég held að ég sé að fá hálsbólgu og ætla að drusla mér í svefn...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter