<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Var heima hjá mér í dag, annan daginn í röð. Þetta gerist nú ekki oft að ég sé heima með pest. Er nákvæmlega enginn pestagemlingur og kannski er ég bara ekkert með þessa eða hina pestina sem er að ganga. Er allavega ekki með niðurganginn sem Rakelítan fékk í gær, bara smákvef og þreytt í sálinni eða eitthvað. Finnst bara gott að sofa og taka ekki þátt í lífinu.
Húsið mitt er að breytast í höll, þökk sé mínum frábæra málara sem gerir svo sannarlega ekkert með hangandi hendi. Það versta við svona upplyftingu er að ég tími ekki að negla nagla í nýmálaða veggina til að hengja upp myndir.
Annars er ég bara þreytt og meira þreytt og leið og engan veginn...

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Langar enn að vera Palli. Finnst allir leiðinlegir í kringum mig og langar til að vera alein. Er heima með kvef og kverkaskít. Enn verið að mála og nú er herbergi yfirprinsessunnar á dagskránni. Blóðrautt skal það vera og ekki veit ég hvernig það fer með skapið í Rúskunni, sem getur verið ansi hreint ör þegar því er að skipta. Hún hefur skapið frá móður sinni sem átti það svo sannarlega til að taka köst hér áður fyrr þó það sé liðin tíð eða þannig.
En allavega mér leiðist í vinnunni og mér leiðist heima hjá mér og hvar eiga þá vondir að vera, mér er spurn.
Þoli ekki þennan árstíma, nenni ekki jólunum og enn síður að ég nenni að kaupa jólagjafir. Fólk í dag á allt til alls, vantar ekkert og ótrúlega lítil ástæða til að bæta við draslið sem það á fyrir. Hvernig væri að láta karlpeninginn á heimilinu sjá um jólainnkaupin í ár og athuga hvað honum þykir það skemmtilegt.
Annars á erfðaprinsinn afmæli í dag, orðinn 12 ára. Orðin heil tólf ár síðan þessi litli kall skaust í heiminn eins og fallbyssukúla. Já, tíminn líður fljótt á gervihnattaöld...

föstudagur, nóvember 23, 2007

Er pirruð þessa dagana og langar til að vera Palli sem var einn í heiminum...

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

Trúlega og vonandi klára hann Arne minn að mála stofuna, eldhúsið og baðofninn á föstudaginn. Er orðin voðalega þreytt á því að búa í svefnherberginu. Hef ekki orku til að taka til því það sést ekki og hún Inga þrifakonan mín kemur á þriðjudaginn eða miðvikudaginn og tekur allt til. Arne byrjar svo á herbergi Rúskunnar á mánudaginn og Trillans líka. Rúðurnar komnar í þvottahúsinu og ég þarf að láta gera filmur í þær svo heimilisfólk geti farið í sturtu án þess að standa nakið fyrir alheiminum. Steinsofnaði eins og oft áður yfir sjónvarpinu enda í rúminu mínu svo nú er ég glaðvakandi eða þannig. Allir aðrir farnir að hrjóta hér, Nikkinn þó mest af öllum.
Fór með ryksuguna mína nýju í viðgerð í dag, það lokaðist ekki hólfið sem geymir aukatólin. Þeir voru ekki hrifnir af fínrykinu sem ég hafði notað hana í, þ.e. allt rykið sem ég pússaði af eldhúsinnréttingunni um helgina. Lofaði að nota ekki djásnið í slíkt aftur, enda ekki á dagskránni hjá mér að pússa aftur eldhúsinnréttinguna. Næst þegar eitthvað verður gert í eldhúsinu verður skipt um innréttingu. Þá verður Hrundin mín búin með húsgagnasmíðina og vonandi verður eldhúsið mitt sveinstykkið hennar. Hún er algjörlega að standa sig í náminu og það er frábært.
Húsið er hálfkalt, allavega þrír ofnar sem ekki hitna og ég hringdi í Halla pípara í dag og hann lofaði að kíkja fljótlega að tékka á málinu. Og Jánsinn búinn að setja upp hengi í nýútbúnu fataherbergi í kjallaranum. Ætlar svo að bíða með að skipta út skápum í svefnherberginu. Það þarf að setja á það parket og taka það alveg í gegn. Geymi það fram á næsta ár.
Þarf trúlega að fara að huga að jólagjöfum þó ég vildi svo gjarnan sleppa við það. Nenni ekki svona jólagjafastússi og vildi helst bara gefa mínum allra nánustu jólagjafir...hætta þessu systkinadæmi og þó....

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Það hvíla á mér álög. Í hvert skipti sem ég kveiki á útvarpinu í bílnum er verið að spila Sting eða Police. Ég gæti allt eins dáið en að hlusta einu sinni enn á Sting. Er ekki neitt annað til á Bylgjunni, mér er spurn?????

föstudagur, nóvember 16, 2007

Já ég er vakandi þó klukkan sé fimm að morgni. Steinsofnaði yfir sjónvarpinu og vaknaði upp úr þrjú. Vesen en svona er þetta bara stundum. Málarinn minn er hér á fullu og allt í ryki og hvorki stofan né eldhúsið í fúnksjón. Mikið sparsl og undirvinna sem tók að ég held enda í dag svo hann byrjar trúlega að mála á morgun. Á nú samt ekkert von á því að ég fái sófann í notkun fyrr en eftir helgina svo á meðan verður bara að nota svefnherbergið til allra hluta þó ég eldi nú kannski ekki þar, enda elda ég svo sem ekki mikið þessa dagana. Á það þó til og eldaði um daginn kjúklingarétt úr 2.þætti Jóa Fel og allir vilja fá hann aftur. Það er eiginlega kraftaverk þegar öllum börnunum mínum sem eru enn heimabúandi finnst sami maturinn góður. Jánsanum finnst ALLT gott sem ég geri svo það er ekki að marka hann.
Svo virðist sem allir séu hættir að blogga en það er bót í máli að tengdadóttlan sem er algjörlega frábær penni sé nýbyrjuð og hættir vonandi ekki í bráð. Og Rakelítan ætlar að gista hér í draslinu hjá ömmunni á morgun. Ætli við kíkjum ekki í heimsókn til Helenu frænku á laugardagsmorguninn. Þær frænkur hittast allt of sjaldan.
Og á morgun er dagur íslenskrar tungu, ekki veitir af og hann er víst tileinkaður Jónasi. Vita ekki allir hver hann er....jú hann orti einmitt....

Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla
léku í ljósi sólar
lærði hörpu að stilla

Hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu þýðu
skáld í muna munni
mögur sveitablíðu...

eða eitthvað þannig.

Reyndar finn ég bara þetta á vefnum...

Í ÖXNADAL (Brot)

Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla,
þar sem hamrahilla
hlær við skini sólar

árla, fyrir óttu,
ennþá meðan nóttu
grundin góða ber
græn í faðmi sér.

...hef aldrei lært þetta...er mér eitthvað farið að förlast???

Og þetta er bara snilldin ein...

Háa skilur hnetti
heimingeimur
blað skilur bakka og egg.
En anda sem unnast
fær aldregi
eilífð að skilið...

Set þetta á filmu í svefnherberginu....

föstudagur, nóvember 09, 2007

Sit hér við tölvuna og bíð eftir því að kökurnar í ofninum bakist. Ég á nefnilega afmæli á morgun, reyndar er nú víst kominn sá níundi en það er ekki að marka ennþá.
Stelpurnar mínar í Skipasundinu komu í heimsókn í gær og færðu mér afmælisgjöf, fjórar myndir málaðar af Hrund með ljóðum eftir Díönu. Fékk bara kökk í hálsinn og nærri því tár í augun, þetta var bara eitthvað svo sætt. Og litla fallega Rakelitan mín færði mér pakkann: "Ég er með gjöf handa þér Amma" hjálpaði mér svo við að opna pakkann og þegar ég sagði takk fyrir mig svaraði sú stutta "Það var ekkert að þakka". Hún er svo mikil dúlla. Um síðustu helgi kom hún hér í heimsókn og á meðan mömmsurnar hennar voru að vinna skólaverkefni Hrundar sátum við svefnherbergisgluggann og horfðum á Tristan hoppa á trampólíninu. Fyrst kom: "Hann er svo klár". Svo eftir smástund kom: "Hann er mjög snjall". Notar fullorðinsleg orð þessi litla hnáta enda alveg að verða þriggja ára, enda talar hún Mammí hennar fallegt mál og það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Annars leiðist mér eitthvað þessa dagana. Leiddist alveg rosalega á afmælistónleikum Vox Feminae sl. sunnudag, allavega seinni part tónleikanna, var bara hreint alveg að sofna yfir þessu dæmalaust leiðinlega frumflutta verki. Sorry, get ekki sagt að mér hafi fundist þetta frábært. Sorry...vel sungið og allt það en...
Og svo leiðist mér í vinnunni. Andrúmsloftið er bara eitthvað svo þungt og leiðinlegt. Ekki það að þeir sem ég vinn mér séu svona drepleiðinlegir...nema kannski sumir, heldur bara virðist sem "sumir" starfsmenn séu yfir það hafnir að lyfta rassgatinu upp af stólnum og afgreiða þá sem koma inn. Er bara alls ekkert að botna í þessu skipulagi eða skipulagsleysi. Alltaf verið að boða einhverjar breytingar en ekkert gerist, allar vélar og tæki í einhverju helv... lamasessi o.s.frv. Fuck.....
Ætti eiginlega bara að hætta að vinna, fara að stunda kaffihús og drekka sherry...en það er nú trúlega ekkert skemmtilegt aleins svona á miðjum degi.
Annars er dekur og djamm Létta framundan um helgina og það verður ábyggilega skemmtilegt...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter