<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Og Clapton á leið til landsins. Man ég þá tíð að við vinkonurnar vorum tilbúnar að eyða árshýrunni fyrir eina nótt með Clapton...

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Er nýbyrjuð að lesa bók Vigdísar Gríms um Bíbí Ólafsdóttur. Hef nú ekki lesið mikið eftir Vigdísi, held að ég hafi lesið Grandaveg 7 og svo ekki meir. Sagan um Bíbí er eiginlega svona ævisaga þó orðafar Vigdísar sé svoldið á bókinni. Bíbí ólst upp í svokölluðum Múlakampi sem var að ég held braggabyggð. Einhverra hluta vegna var litið niður á þá sem bjuggu í þessum bröggum sem kaninn og bretinn skyldu eftir þegar seinna stríði lauk. Og ég skil það ekki alveg. Amma Rósa, sem var mamma pabba bjó í einum svona bragga sem var í minni minningu vestur í bæ. Man ekki hvað það braggahverfi var kallað, kannski Melakampur, veit það ekki. Við fórum oft í heimsókn til Ömmu Rósu á sunnudögum. Tókum strætó úr Hafnarfirði af því að við áttum ekki bíl og fórum út trúlega hjá Landspítalanum, af því að ég man að við fórum framhjá Þóroddstöðum þar sem tónlistarhúsið Ýmir er og framhjá Miklatorgi, en þar var hringtorg og leikskóli á horninu við Snorrabraut og Miklubraut. Þar gaspraði mín elskulega systir alltaf yfir allan vagninn: "Þarna var pabbi þegar hann var lítil, er það ekki Mamma", mömmu til mikillar armæðu. Held að hann hafi aldrei verið á leikskóla eða dagheimili eins og það hét þegar ég var lítil. Mamma jánkaði því yfirleitt því annars hefði sú stutta bara þrætt við hana. Við löbbuðum svo vestur eftir til Ömmu Rósu. Mundi halda að þetta hafi verið á móts við þar sem Melabúðin er núna. Held að Djöflaeyjan gerist að einhverju leyti í þessu braggahverfi. En aldrei fékk ég það á tilfinninguna að það væri neitt slæmt að búa þarna. Í bragganum hennar Ömmu Rósu var alltaf ótrúlega fínt og við fengum pönnsur eða eitthvað annað bakkelsi og hún átti margt rosalega sniðugt. Man t.d. vel eftir kertum sem hún átti sem voru Mjallhvít og dvergarnir sjö. Það var aldrei kveikt á þessum kertum en þau voru til skrauts upp á útskorinni viðarhillu í stofunni svo við gátum horft á þau og dáðst að þeim þegar við komum í heimsókn. Svo átti hún rosalega flottan skáp sem hún geymdi í undirkjóla og fína kjóla sem mér fannst hún eiga fullt af. Það var svo sannarlega enginn kotbúskapur hjá henni Ömmu Rósu og mér fannst ótrúlega flott að hún byggi í svona sniðugu hús þar sem loftið var í boga og einhvern veginn allt öðru vísi en venjuleg hús. Veit reyndar í dag ævi Ömmu Rósu var enginn dans á rósum, missti manninn sinn ung frá 5 börnum sem hún ól upp ein. Já, stundum er tilveran svoldið öðruvísi séð með barnsaugum...

mánudagur, febrúar 11, 2008

Ég held að þessar gleðipillur mínar séu ekki alveg að virka sem skyldi. Er ótrúlega innantóm og löt, mér er illt í augunum og held að ég þurfti eitthvað að láta athuga þau greyin. Reyni að horfa á sjónvarpið en sofna yfir því. Sef óreglulega og nenni engu.
Ótrúlega uppörvandi pistill í þetta sinn eða hitt þó heldur. Bendi á grein eftir Hallgrím Helgason í Fréttablaðinu á laugardaginn...öllu betri aflestrar en þetta rugl...

laugardagur, febrúar 02, 2008

Ég þjáist af því sem er víst kallað sjónmígreni þessa daga. Lýsir sér í því að ég sé eldglæringar út úr augunum á mér og það myndast einskonar blindur blettur svo ég sé ekki almennilega hvað ég er að gera. Tek yfirleitt voltaren eða íbúfen við þessu og þetta hverfur á 10-15 mínútum. En þetta er afskaplega hvimleitt og ég er óvinnufær rétt á meðan þetta er. Held að þetta stafi af of mikilli birtu og vöðvabólgu sem ég virðist ekki geta losnað við. Svo fæ ég náladofa í hendurnar þegar ég er að sofna á kvöldin, líka pirrandi. Ég held að ég þurfi að fara að hreyfa mig meira.
Kláraði kjólinn í fyrradag og hann er bara ógislega flottur. Ætla núna að skella mér í að prjóna vettlinga á Rakelítuna mína og svo kannski lopapeysu á Rúskuna. Skil ekkert í mér að hafa ekki prjónað í mörg ár, þetta er nefnilega mjög gaman og enn meira skemmtilegt þegar flíkin er tilbúin.
Horfði í gær á þessa nýju sjónvarpsstöð INN og síendurtekinn þátt Kolfinnu Baldvins. Þar sitja um sex konur og tala hver ofan í aðra og allt og ekki neitt. Meira ruglið. Engin stjórn á neinu og kellingarnar arga hver á aðra, tala ofan í allar hinar og maður heyrir ekki neitt hvað hver er að segja. Kolfinna telur endalaust á fingrum sér þetta og hitt og ekkert af því sem sagt er kemst til skila. Var aðallega um hversu ömurlegir karlmenn væru þó þær gætu ekki án þeirra verið, hvernig ætti að taka karlmenn á löpp á barnum og hvort ekki væri hægt að spara pening með því að þiggja glas hjá næsta manni. Kvenréttindi á villigötum.
Og úti er hrikaleg kalt og mín bíða óhrein föt á krökkunum í tonnavís...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter