<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 17, 2008

Sit hér við tölvuna kl. rúmlega sex að morgni, sofnaði í sófanum yfir einhverjum sjónvarpsþætti og vaknaði nokkrum sinnum í nótt án þess að ég hefði nennu til að draslast í rúmið, hélt bara áfram að sofa hálfkrumpuð í sófanum. Og nú er spurning hvort það borgar sig að sofa meira fyrir vinnu.
Átti frábæran stelpulaugardag með Gunnsunni. Áttum bókaðan tíma í tatto kl. 12 en tattúgaurinn byrjar ekki að vinna fyrr en eitt svo við högsuðum eitthvað þar til hann mætti. Gunnsan ekki alveg búin að ákveða sig hvað hún ætlaði að setja á sig og ekkert nógu spennandi í möppunum. Ég ætlaði að láta gera rósirnar mínar rauðar en það gengur víst ekki því tattúlitir eru eins og vatnslitir svo ef rautt er sett ofan í blátt verður allt fjólublátt. Í staðinn fór hann algjörlega yfir alla rósina og nú er hún sko flott. Ætla að fara aftur og láta skerpa sporðdrekann minn og þá verður Gunnsan búin að ákveða sig. Og ég mundi rétt að það er sárt að láta tattúvera sig. Sagði hér um árið, nánar tiltekið 2001 að ég vildi frekar eiga öll börnin mín fjögur í strikk en láta tattúa mig og ég stend við það. Fæðingum fylgir ekki sársauki heldur bara ákveðin óþægindi sem eru liðin hjá um leið og barnið er komið í heiminn en tattúvering er eins og verið sé að skera mann með hníf og hnífnum rennt eftir húðinni. But bjútí is pein!!
Eftir tattoo fórum við svo á Mokka þar sem Gunnsan hafði aldrei fengið sér súkkulaði þar. Það er náttúrlega ekki hægt að hafa aldrei gert slíkt. Svo til Lonníar að ná í matinn og svo borðað og kjaftað út í eitt heima hjá Gunnsunni ásamt Rannveigu. Jánsins og Snallinn minn komu svo að sækja mig eftir bíó og mín fór að sofa í kringum fimm. Vaknaði á hádegi og skellti í mig nokkrum kaffibollum og las blöðin og svo setti ég gróðurhúsið í smástand eftir veturinn. Ætlaði reyndar í Kringluna að kaupa fermingargjafir en ekkert varð úr því. Dagurinn endaði svo með fyrrgreindum svefni í sófanum...þrír vinnudagar og svo páskafrí. Kannski ætti maður að skella sér til Köben í stað þess að fara í tvær fermingar...

miðvikudagur, mars 12, 2008

Sit hér við tölvuna á nýhöfnum vinnudegi heima hjá mér. Er með einhverja bólu í augnkróknum sem er mig lifandi að drepa, sé hálfa sjón og það er ekki gott. Og svo er ég að humma það fram af mér að taka draslið upp úr gólfum krakkanna áður en þrifakonan mín kemur - bróðir minn kallar þetta hreindýr. Kannski ekki svo slæmt orð og þó.
Viðtalið við okkur mæðgurnar á að koma á morgun í fermingarblaði Fréttablaðsins, spennandi.
Mætti ekki á kóræfingu út af auganu. Og loksins einhverjar góðar fréttir af henni Maríu minni, sem vonandi halda áfram að vera góðar svo hún fari að komast heim til sín. Sendi henni góða strauma.
Var að passa Rakelítuna mína um helgina. Mömmsurnar hennar í rómantískri ferð á Stokkseyri. Hún er bara skemmtileg þessi litli fallegi orkubolti. Talar endalaust upp úr svefni og vekur ömmuna eldsnemma. Um miðja nótt tilkynnti hún mér að kettir ætu mýs og seinna að sængin væri farin af fótunum og ég ætti að breiða yfir þá. Sagði mér svo að það væri alveg ábyggilega kominn dagur svona rétt upp úr sex á sunnudagsmorgni. Amman ekki alveg á því, fékk þá stuttu til að sofa aðeins lengur þar til hún tók af skarið og sagði að nú þyrftum við að fara á fætur því hún væri svo svöng. Elska þetta rauðhærða krakkakríli.
Og Ragnhildur var amma í annað sinn þann 10. mars. Stærðarinnar strákhnokki, 4,7kg og 56 sm. Og svarthærður...gæti nú alveg orðið rautt með tímanum. Reyndar fæddist Rakel rauðhærð og hefur alltaf verið það.
Annars bara verkir í auga...

fimmtudagur, mars 06, 2008

Miðar á Clapton komnir í hús. Komst næstum því á fría tónleika með honum á sunnudagseftirmiðdag í Vestmannaeyjum í stormi og stórhríð en vaknaði um það leyti sem goðið ætlaði að stíga á svið.
Var á skemmtilegu námskeiði í morgun í litaprófílum og örlitlu photoshoppi. Og svo í blaðaviðtali um kvöldmatarleytið, kemur í fermingarblaði með Fréttablaðinu nk. fimmtudag líklega. Bara fylgast með því.
Er enn með belg en skárri í skapinu. Fékk ekki launahækkun skv. núgerðum kjarasamningu, þarf að ræða það og segja nei við þessum samningum sem gefur vinnuveitendum ótrúlega opna leið til að hundsa allar hækkanir á laun í skjóli einhverra fyrri launahækkana á síðustu 12 mánuðum. Rugl og vitleysa allt saman, allt af flókið fyrir hinn almenna launþega sem veit ekkert hver réttur hans er og þarf að fara að reikna út einhverjar % af einhverjum launahækkunum einhvern tímann...sem væri nú kannski allt í lagi ef farið væri eftir öðru í kjarasamningum sem sumir vinnuveitendur eru sko ekkert að gera, nefni enginn nöfn hér...svefn...

mánudagur, mars 03, 2008

Það er ekki hægt að segja að þessar gleðipillur séu að virka, ég tútna bara út og er allt í einu komin með belg, augun sokkin og skapið verulega slæmt. Ef ekkert breytist næstu þrjá mánuði er ég hætt á þessum gleðitöflum því þær veita mér ekki mikla gleði í augnablikinu. Kannski er bara úr mér öll gleði.
Gunnsan orðin amma í þriðja sinn, til hamingju með það. Hef ekki heyrt ennþá frá Ragnhildi en hún er að bíða eftir sínu öðru barnabarni sem átti að koma í heiminn um miðjan febrúar.
Ég þarf að sinna vinkonum mínum betur. Hef ekki sinnt sumum þeirra í mörg ár og ég er ekki alveg að þola það. Kannski er þetta bara gangur lífsins en ef ég vil halda í þessar góðu vinkonur mínar sem ég hef eignast í gegnum árin verð ég sjálf að gera eitthvað í því, er það ekki. Svo skrítið að fyrir hálfum mánuði fékk ég upphringingu frá Hildi sem ég hef ekki heyrt í allt of lengi og svo um síðustu helgi hitti ég Möggu á Nasa og ég hef heldur ekki hitt hana lengi. Sakna þessar stelpna, þær eru báðar frábærar. Og Önnu hafði ég aðeins samband við á facebook um daginn og ég vildi svo sannarlega að við héldum betra sambandi þó það sé kannski þrautin þyngri að hitta hana oft þar sem hún býr í London. Og svo hún María mín. Ég hugsa fallega til hennar og vona svo sannarlega að henni fari að batna og verða aftur elsku, fallega María. Það er óþolandi að svona mikið sé lagt á eina manneskju í alvörunni....

laugardagur, mars 01, 2008

Eftirfarandi skilaboð voru í talhólfinu á símanum mínum í gær:
"Silla, ég verð að tala við þig. Ég er að drepast. Viltu hringja í mig í þetta símanúmer, ha".
Ég get hvergi séð neitt símanúmer og núll takkinn hefur heldur engar upplýsingar að geyma. Mér finnst þetta verulega óþægilegt og finnst þetta ekki fyndið ef þetta hefur átt að vera eitthvað jók. Það er aldrei talað inn á talhólfið mitt vegna þess að gemsinn áframsendist á heimasímann. Er hægt að hringja í Vodafone og fá uppgefið úr hvaða símanúmeri var hringt, spyr sú sem ekki veit.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter