<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Ég vissi það þegar Rúskan mín var á fyrsta ári að ég þyrfti einhvern tímann að hafa fyrir henni. Ótrúlega skemmtileg og fjörug alveg frá fyrstu tíð, hafði fullkomna stjórn á líkamanum, snör í hreyfingum og söngelsk með afbrigðum, hélt lagi löngu áður en hún var talandi. Það er til af henni myndband þar sem hún syngur Dansi, dansi dúkkan mín þar sem maður skilur ekki stakt orð sem hún segir en lagið alveg á hreinu, hún ræskir sig í miðri laglínu og heldur svo bara áfram þar sem frá var horfið. Alltaf með sínar föstu skoðanir á hlutunum og alltaf vitað hvað hún vill. Og ég vissi að þegar hún yrði unglingur þyrfti að róa undir hennar litla rassi og dansa eftir hennar höfði.
Fyrir um mánuði var daman á leið á árshátíð Kvennó sem haldin var á Selfossi. Hún ætlaði að taka rútu frá Kvennó kl. 21.00. Rétt um sjö vorum við Jánsinn á leið í matarboð hjá tengdó og erum rétt að renna þar í hlað þegar Rúskan hringir. "Ég þarf að komast í Smáralind til að kaupa gerfiaugnahár og svo vantar mig pening. "Bíddu, ertu að fatta það fyrst núna að þú þurftir þessi gerviaugnahár". Já, sko ég var búin svo seint í klippingu". "Nei, heyrðu nú mig þú varst komin heim kl. fimm". "Já, ég fattaði bara ekki hvað klukkan var orðin".
Jánsinn er afskaplega duglegur að skutla henni bæjarhlutanna á milli svo nú fannst mér vera komið að mér að keyra hana (langaði reyndar voðalega lítið í þetta matarboð og var eiginlega fegin að fá þarna góða afsökun). Svo ég keyrði úr Breiðholtinu í Hlégerðið sótti stelpuna og skutlaði henni í Smáralindina. Það var byrjað að snjóa og færð ekkert sérlega góð. Hún ætlaði að hitta vinkonu sína í Smáralindinni. Ég sagði henni að hún gæti ekki verið nema í mesta lagi hálftíma í þessari verslunarferð, klukkan að verða hálf átta og svona. Jú, hún var svo sem ekkert lengi en þá segir hún mér að ég þurfi að skutla henni til annarrar vinkonu sinnar sem ætli að mála sig og hvort ég nenni nokkuð að skutla smáralindarvinkonunni heim til sín af því hún hafi "gleymt" kjólnum sínum heima. Og vinkonan býr í Grafarvoginum langleiðina upp á Korpúlfstaði. Ok, ég skutla Rúskunni fyrst í austurbæ Kópavogs í makeupið og svo vinkonunni í Grafarvoginn í þæfingsfærð og það tekur góðar 20 mín og klukkan að vera átta, klukkutími í rútuna í miðbænum. Á leiðinni úr Grafarvoginum hringi ég í dótturina og spyr hana hvort ég eigi ekki að sækja hana um hálfníu og skutla henni í rútuna en nei, ég þarf þess ekki því vinkonan úr Grafarvoginum ætli að sækja sig. Ok, múmmsan bara nokkuð sátt við að þurfa ekki að keyra meira, stoppa í sjoppu til að fá sér eitthvað í svanginn (matarboðið löngu fyrir bí). Varla búin að taka fyrsta bitann af hamborgaranum þegar Rúskan hringir og segir að trúlega sé betra að ég keyri hana "ef ég nenni" því vinkonan úr Grafarvoginum sé enn að mála sig og klukkan að verða hálfníu. Og mammsan segir já, en Rúskan segist ekki verða tilbúin fyrr en eftir 10 mínútur. Ok, er eftir 10 mínútur hjá makeupvinkonunni í austurbænum, en Rúskan ekki alveg tilbúin en alveg á leiðinni. Loksins þegar hún kemur vantar klukkuna 10 mín. í níu og það er nokkuð ljóst að það tekur um 10 mín. að keyra niðrí Kvennó. Á leiðinni þangað er reglulega hringt í vinkonuna úr Grafarvoginu því hún er nefnilega með miðana á ballið. Rennum fyrir framan Kvennó kl. 9 og þá er svona verið að fylla rútuna. Um 10 síðar kemur vinkonan með miðana og rútan ekki enn farin.
Ég keyri út Lækjargötuna, sný við við gamla iðnskólann og þá hringir síminn. Rúskan í símanum og þar sem hún fyndi ekki debetkortið sitt þyrfti hún eiginlega að fá vegabréfið sitt því hún komist ekki inn á ballið án skilríkja. Nú var mér allri lokið: "Halló, Petra Kristín er ekki alveg í lagi með þig". Jú sko það var verið að bíða eftir annarri rútu og hvort ég væri ekki til í að reyna að ná því að keyra í Kópavoginn ná í vegabréfið og koma með það til hennar. Annars gæti hún ekkert farið. Og múmmsan brunar sem leið liggur heim, hringi í Trínuna á leiðinni og bið hana að vinna helv...passann...en Trínan mín er jafnfundvís og pabbi hennar finnur auðvitað ekki vegabréfið þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar um hvar og í hvaða skúffu passinn væri. Múmmsan orðin verulega pirruð út í afkvæmin, renni í hlað og finn passann og bruna af stað og þegar Rúskan hringir og segir mér að rúta sé eiginlega alveg að fara hvar ég sé stödd er ég akkúrat að renna að Kvennó. Svo eftir tvo og hálfan klukkutíma á endalausri keyrslu nær stelpuruslan að fara á árshátíð Kvennaskólans!!!
Og í síðustu viku tilkynnti mér sama Rúskan að hún væri á leið á Akureyri á einhverja söngkeppni framhaldsskólanna um helgina. Og móðurhjartað vill hugsa vel um ungann sinn, kaupir flugmiða norður á Akureyri fram og til baka, ásamt miða fyrir vinkonu hennar, sem ætlar að redda gistinu. Flugmiði til Akureyrar kostar jafnmikið og flugmiði til Köben, sem ég hefði ekkert á móti að skreppa svona yfir helgi. Þegar ég kem svo með miðana heim í dag kemur í ljós að hún er ekki að fara norður fyrr en um aðra helgi. Halló, hvernig er hægt að lifa það af að eiga þrjú börn á unglingsaldri. Eins gott að hin tvö eru ekki með sama vesenið og Rúskan.
En þrátt fyrir allt þykir mér þykir mér nú ósköp vænt um hana...reyndar frétti ég af því að hún hefði keypt mig á facebook...er ekki enn búin að tékka á því hvað hún borgaði fyrir mig. En Gunnsan á mig víst núna skilst mér, yfirbauð Rúskuna. Skyldi ég þurfa að skutlast með Gunnsuna líka í tvo og hálfan tíma....
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter