<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 30, 2008

Gat nú verið að ég missti af þessum risajarðskjálfta í gær eins og 17. júní skjálftanum 2000. Ég hlýt bara að vera í varanlegum skjálfta alla daga.
Það styttist í ameríkuför og ég er ekki alveg tilbúin að vera á leiðinni í sumarfrí með hele familíen til tengdafjölskyldunnar í USA en allt kemur þetta í ljós.

Ungdómurinn í dag:
Tvær stúlkur koma inn í verslun og eru að skoða krossa. Önnur þeirra segir: Ætlar þú að fá þér svona venjulegan kross eða kross með karli???

Kona er við kassann í Hagkaup. Er með tvær mismunandi tegundir af sömu vörunni og er að velta því fyrir sér hvora hún eigi að kaupa, en segir svo: "Ég ætla bara að fá hvoru tveggja". Strákurinn á kassanum lítur spyrjandi á strákinn á næsta kassa sem segir: Ég lenti einmitt í þessu í gær. Það þýðir að hún ætlar að fá bæði".

Börnin mín sátu við matarborðið í gær og voru að velta fyrir sér hinum ýmsu máltækjum sem þau eru ekki alveg að skilja.
Rúskan: Það er alltaf verið að segja við mig: "Grunaði MIG ekki Gvend".
Ég: "Þig grunaði ekki Gvend um nokkurn hlut, heldur grunaði Gvend eitthvað"
Trína: "Alveg fáránlegt, getur maður ekki alveg eins sagt: "Grunaði MIG ekki Harald eða eitthvað.

Rúskan var að skjóta á bróður sinn um það að hann væri lítill hnakki.
Ég: "Þú segir þetta nú ekki þegar hann er vaxinn þér yfir höfuð eftir nokkur ár, fyrir utan það, að þú stóðst nú ekki út úr hnefa á hans aldri".
Rúskan: "Hvað þýðir það"?
Ég: "Að þú hafir verið lítil".
Trínan: "Geturu þá ekki bara sagt það, að hún hafi verið lítil, ekki eitthvað hnefa, ha".

Rúskan hringdi í mig um daginn og spurði: "Hvað segir þú stundum, eitthvað rota"?
Ég: "Fyrr má nú rota en dauðrota".
Rúskan: "Jís, skil þetta ekki alveg".

Fyrir einhverjum milljón árum síðan svaraði ég þáverandi eiginmanni mínum sem var að biðja mig um að gera eitthvað: "Skipað gæti ég væri mér hlítt".
Hann: "Mér er nú bara sæmilega hlýtt, þakka þér fyrir".

Og í gær eftir jarðskjálftann kom þessi sami fyrrverandi eiginmaður minn heim, hann býr á Selfossi og sá að sjálfur Hugsuðurinn hafði dottið í gólfið og brotnað í tvennt, sagði við dóttur sína (mína): "Nú er hann ekki langur hugsuður, heldur hálfvíti".

Og svo ég endi nú þessa vitleysu alla saman, nokkrir frasar úr vinnunni:
"Ég ætla að fá eitt af hvoru"....og skjalið er 20 bls.
"Og það á að prenta þetta sitt hvoru megin á blaðið".

Svo mörg voru þau orð......

föstudagur, maí 16, 2008

Vaknaði óvenju tímanlega í vinnu í gærmorgun og algjörlega tilbúin að mæta á réttum tíma en ekki 5 mín. of seint eins og ég gerði iðulega, losna reyndar við mestu umferðina ef ég legg nógu nálægt 9 af stað. En þar sem ég er að drífa mig í vinnuna finn ég alls ekki lyklana af bílnum. Var nokkuð viss um að ég hefði hengt þá í ganginn þegar ég kom úr Hagkaup deginum áður en, nei...engir lyklar þar. Svo ég gróf mig niður í töskuna mína með hendinni í leit minni að lyklunum. Þá finn ég að allt er rennandi blautt í henni, seðlaveskið mitt nánast gegnblautt og allt er þetta fljótandi í heiðgulum vökva. Ég skil ekki alveg hvað er í gangið þangað til undarleg lyktin berst að vitum mér....shit...hundapiss. Mér finnst það nú vera að æra óstöðugan þegar Nikulás er farinn að merkja sér töskuna mína. Alveg nóg að hann spræni utan í rúm krakkanna og svona annað sitt af hverju, en ekki veskan mín. Svo það má eiginlega segja að töskurnar mínar hafi farið í hundana utanfarið því Yoko Gunnsunnar nagaði í sundur handfangið á töskunni minni um daginn og hún fór í ruslið og nú mígur Lásinn ofan í mína. Þetta er nú meira hundalífið...
Er í vinnunni annað kvöldið í röð og er á heimleið...blogga síðar...

mánudagur, maí 12, 2008

Skelfing næs að fá svona langa helgi. Kem þó nánast engu í verk nema vera skyldi að drullast til að setja í eina og eina þvottavél til að grinka aðeins á þvottahrúgunni í óhreinatauskörfunni.
Fór reyndar í smá verslunarrúnt með Jánsanum í gær og keypti eitthvað af plöntum í gróðurhúsið og fleiri antikbleik handklæði í Ikea. Var örþreytt :) eftir þá ferð og sofnaði í sófanum og svaf og svaf og svaf og svaf eins og mér virðist einni vera lagið þessa dagana.
Tók smá frekjukast á Hrundsunni á fimmtudaginn, röflaði eitthvað um óréttlæti þess að þær gætu ekki passað Nikulás á meðan við færum til Bandaríkjanna og eitthvað fleira lét ég víst flakka. Hefði sjálfsagt átt að sleppa því en samt...Hún hefur nú samt komið hérna daglega að smíða minihúsgögn sem eru ótrúlega flott hjá henni. Hún er búin með öll próf og hefur staðið sig með sóma í þeim öllum. Vonandi að hún fari loks að fatta það að hún er hvorki heimsk né vitlaus og að hún geti lært ef hún bara vill. Hún virðist algjörlega vera að finna sig í húsgagnasmíðinni og það er frábært. Og svo á hún afmæli á morgun þessi elska, verður 29 ára á morgun. Og þær koma hér á morgun í mat.
Verð að fara að reyna að fá botn í það hvernig við reddum pössun fyrir hundangann á meðan við förum út þar sem ég reikna ekki með því að stelpurnar sjái um hann. Get ekki sent hann á hótel. Þegar hann fór í pössun til Hunda-Karenar grét hann svo mikið að þau þurftu að taka hann upp í til sín til að geta sofið. Get rétt ímyndað mér hversu mikið hann mundi gráta á hóteli.
Nenni ekki að skrifa meira...

laugardagur, maí 03, 2008

Er ekki löngu kominn tími á örlítið blogg.
Eins og alþjóð veit hélt Léttsveitin til Berlínar sl. föstudag og makar fengu að koma með í annað skiptið, fengu líka að koma með okkur til Kúbu. Berlín bara beautiful og ég sem ætlaði sko ekki til Berlínar. Tónleikarnir í Admirals Palads gengu vel miðað við hvað Jóhanna og áhorfendur (áhangendur) sögðu. Svoldið eins og að syngja í Borgarleikhúsinu, maður heyrir bara í sjálfri sér og búið. En auðvitað vorum við æðislegar hvað svo sem okkur sjálfum fannst. Borðað á Sachs um kvöldið, very nice. Og svo dásamleg skoðunarferð um borgina með Óttari. Mikil saga og nálæg í tíma. Árshátíð um kvöldið, líka very nice. Og svo skottast í búðir á mánudeginum og haldið á flugvöllinn um hálf sjö. Lentum svo í 12 tíma bið þar og fórum í loftið kl. 06.00 í stað 21.30. En vil lifðum það af og sváfum alla leiðina heim. Mun framvegis hafa mikla samúð með þeim sem lenda í töf á flugvöllum heimsins.
Var með flensu allan tímann í Berlín, dópaði mig á tylanoli og panódili. Er ennþá með þessa helv...pest og verkjar í annan eggjastokkinn í hóstaköstunum, orkulaus og ömurleg og er engan veginn að ná mér. Þoli ekki flensu, fæ flensu á margra ára fresti og þá yfirleitt andsk...slæma flensu, 7, 9 13....fuck...
Annars kemur skonsan mín til mín á morgun og við ætlum eitthvað að myndast með Birnu systur sem kemur frá Köben í kvöld. Vona að ég hafi orku í það. Og Gunnsan fékk sér tattoo í dag og ég reyndi að vera henni til halds og trausts en hafði nákvæmlega ekkert úthald í það, fór heim, setti í vél og sofnaði í sófanum svefni hinna réttlátu og vaknaði löngu eftir fréttir. Og nú er um að gera að sofa meira og reyna að vera hress á morgun þegar Rakelítan kemur til ömmunnar...
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter