<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, nóvember 22, 2008

Pistill Gerðar Kristnýjar í Fréttablaðinu í dag er eins og talað frá mínu hjarta...fyrir utan það að ég verð ekki fertug á næstu tveimur árum. En ég verð að segja að mér fannst það góð tilfinning að eiga þann möguleika opinn að skreppa til útlanda nokkrum sinnum á ári, hitta vini og vandamenn og versla fjandann ráðalausan. En nú er öldin önnur, er nú þegar búin að fresta þremur utanlandsferðum sem ég hafði fyrirhugað að fara í fyrir áramót í viðbót við þessar þrjár sem ég hafði þegar farið í. Og mér finnst það drulluskítt. Ég safnaði ekki hlutabréfum og krónubréfum og jöklabréfum og skuldum, hvað sem þetta heitir nú allt og ég byggði ekki 600 fermetra hús með auper íbúð og 5 milljóna eldhúseyju á þessum góðærisárum. Skipti hvorki út eldhúsinu né baðinu í húsinu mínu sem ég er nú búin að búa í í 12 ár þó ég hefði alveg getað myndkörfulán fyrir því. Og mér finnst það skítt að ég og aðrir "ekki" útrásarvíkingar eigi að súpa seiðið af þessu sukki öllu saman. Og ég bara get ekki vorkennt þessu nýríka liði sem ók um á reingróverum og byggði sér hallir og tók endalaus erlend lán þó það fari á hausinn og þurfi að byrja upp á nýtt. Mín samúð er hjá fólkinu sem lagði sparnaðinn sinn inn á "örugga" reikninga og tapaði aleigunni sem það ætlaði að nota til elliáranna. Því fólk sem er komið eða er að fara á eftirlaun hefur svo sannarlega unnið fyrir því að geta haft það skítsæmilegt eftir að það fer af vinnumarkaði.
Ég hef ekki farið niðrí bæ á laugardagseftirmiðdögum til að mótmæla þó ég hafi kannski hugsað um það, en ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi. Og nú eru þessi mótmæli að breytast í einhverjar 17. júní skemmtanir, fólk vill friðsamleg mótmæli svo það geti tekið með sér krakkana og haft það notarlegt í miðbænum. Að það sé skemmtilegra að kíkja aðeins í miðbæinn í stað þess að rápa um í Ikea eða Kringlunni eða Smáralind. Það er nefnilega svo merkilegt með íslendinginn að hann lætur smala sér í réttir eins og rollum á einhverja staði þar sem hugsanlega er hægt að fá pulsu og kók án þess að borga fyrir það. Átt svona huggulega fjölskyldustund á laugardagseftirmiðdegi á einhverjum stað sem einhver stingur upp á. Íslendingurinn flykkist nefndilega á þá staði þar sem hugsanlegt er að verði örþröð og þrengsli og því skemmtilegra sem biðröðin og mannþröngin er meiri. Ótrúlega skrítið. Landbúnaðarsýningar og húsgagnasýningar og alls kyns sýningar eru alltaf vel sóttar af hinum almenna íslendingi af því það er svo gott að láta aðra hugsa fyrir sig og segja sér hvar flesta fólkið verður. Láta mata sig á neyslunni.
Einhvern veginn komst það inn í þjóðarsálina að það væri algjört must að eiga jepppa og risastór hús, flatskjái, heimabíó, fótanuddtæki, safapressu og hönnun, hvað svo sem það kostaði og hvort sem hinn almenni íslendingur hafði efni á því eða ekki, bara taka myndkörfulán fyrir öllu draslinu.
Og aldrei heyrðist hósti né stuna frá þessu fólki í garð Seðlabankans að halda genginu svona háu, því þá var svo gott að skreppa til útlanda og krónan svo dúndrandi sterk og þá var hægt að versla í H&M fyrir lítinn pening. Og fólk öfundaði útrásarvíkingana sem toppuðu hvern annan í afmælisveisluhaldi með innfluttum skemmtikröfum. Já nú er víst öldin önnur og kannski bara til hins betra...
Comments: Skrifa ummæli
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter