<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, desember 30, 2008

Já, eitt af mínum áramótaheitum verður að vera duglegri að blogga. Mér finnst verst að geta ekki tengt saman bloggið mitt og facebook en það er víst ekki á allt kosið í þessum heimi.
Er búin að eiga ótrúlega róleg og skemmtileg jól í faðmi fjölskyldunnar, ekkert stress eða læti. Síðan svokölluð kreppa skall á hefur einhvern veginn allt róast og allir velja íslenskt og allir velja fjölskylduna fram yfir allt annað. Allavega finnst mér það og það er eitthvað svo næs við það.
Og svo í dag upplifði ég annað sem er notarlegt í þessum hallandi heimi og það er að við bekkjarsystkinin úr k-bekknum í Öldutúnsskóla árg. 1954 hittumst á Fjörukránni. Ótrúlega margir af þessum 32 mættu. Við höfum sum okkar ekki sést síðan við vorum saman í tólf ára bekk og svei mér ef við höfum nokkuð breyst síðan þá. Og öll höfum við átt farsælt og skemmtilegt líf, eigum börn og barnabörn. Og Kristín kennarinn okkar var með okkur sem var líka svo frábært. Hún kenndi okkur allan barnaskólann. Og öll eigum við svo góðar minningar frá þessum tíma. Kristín var mikill frumkvöðull í skólastarfi, við lærðum að vinna sjálfstætt og í hópum, flytja fyrirlestur úr námsefninu með einungis nokkrum hjálparorðum, skrifa leikrit um námsefnið og búa til allskyns líkön, skrifa bekkjarblað og svo mætti lengi telja. Og það að hittast eftir allan þennan tíma var bara svo ótrúlega frábært og einhvern veginn yljar manni um hjartaræturnar. Og innan hópsins er læknir, tannlæknir, verkfræðingur, rafvirki, skólastjóri, kennari, arkitekt og guð má vita hvað við höfum lagt fyrir okkur í lífinu. Magnaður hópur og það á svo sannarleg um okkur, lengi býr að fyrstu gerð...

Sannarlega flottur hópur ásamt kennaranum okkar henni Kristínu.
Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com This page is powered by Blogger. Isn't yours? Free interactive commenting by www.SquawkBox.tv - click to sign-up! Site Meter